Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Þverár

YFIRMATSMENN

samkvæmt lögum um

lax- og silungsveiði nr. 76/1970YFIRMATSGERÐ

á arðskrá fyrir Veiðifélag Þverár


I.

Undirmat. Beiðni um yfirmat

Hinn 19. desember 2000 luku þeir Vífill Oddsson verkfræðingur og Jón Höskuldsson héraðsdómslögmaður mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Þverár. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Vesturlands 5. apríl sama árs.

Þessu arðskrármati hafa nokkrir veiðiréttareigendur eða umboðsmenn þeirra skotið til yfirmats með bréfum til yfirmatsmanna. Þau bréf, sem um er að ræða, eru frá eftirgreindum:

 1. Pétri Kjartanssyni vegna Guðnabakka og Selhaga, dags. 2. febrúar 2001.

 2. Þóri G. Sigurðssyni vegna Neðraness, dags. 15. febrúar 2001.

 3. Ástríði Jónsdóttur vegna Kaðalstaða I, dags. 22. febrúar 2001.

 4. Bjarna Þór Óskarssyni vegna Kaðalstaða II, dags. 23. febrúar 2001.

Samkvæmt bréfi stjórnar veiðifélagsins 26. desember 2000 kynnti hún veiðiréttareigendum arðskrána með því að afhenda flestum þeirra eintak af henni dagana 20. og 21. sama mánaðar, en öðrum var hún póstsend 26. desember 2000. Að þessu gættu eru erindi a.m.k. sumra ofangreindra veiðiréttareigenda nægilega snemma fram komin, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970 með áorðnum breytingum. Eru skilyrði samkvæmt því uppfyllt til að undirmat á arðskránni verði tekið til endurskoðunar.

II.

Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.

Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.

Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Þverár eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 28. ágúst 2001 í Samkomuhúsinu við Þverárrétt. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn eigenda þessarra jarða: Bakkakots, Kaðalstaða I og II, Gilsbakka, Norðtungu, Gunnlaugsstaða, Steina, Örnólfsdals, Helgavatns, Hamraenda, Neðraness, Lunda II, Guðnabakka, Kvía II, Hermundarstaða, Síðumúla, Sámsstaða og Arnbjargarlækjar.

Á þessum fundi var starfstilhögun yfirmatsmanna kynnt og óskað eftir athugasemdum um formhlið málsins og hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram. Kynntu yfirmatsmenn sér sjónarmið fundarmanna um skiptingu arðskrár og athugasemdir vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 15. nóvember 2001. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundinum eða í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi: Pétur Kjartansson vegna Guðnabakka og Selhaga, Bjarni Þór Óskarsson vegna Kaðalstaða II, Ástríður Jónsdóttir vegna Kaðalstaða I, Magnús Kristjánsson vegna Norðtungu, Davíð Aðalsteinsson vegna Arnbjargarlækjar, Pétur Diðriksson vegna Helgavatns, Sigbjörn Björnsson vegna Lunda, Magnús Sigurðsson vegna Gilsbakka, Magnús Magnússon vegna Hamraenda, Þórir G. Sigurðsson vegna Neðraness og Kristján Axelsson, sem gerði grein fyrir aðstæðum og hagsmunum veiðiréttareigenda.

Sama dag og fundurinn var haldinn og hinn næsta könnuðu yfirmatsmenn aðstæður á félagssvæðinu eftir því sem tök voru á undir leiðsögn Eggerts Ólafssonar, Kvíum II. Nokkrir veiðiréttareigendur óskuðu eftir að skýra sjálfir við vettvangsgöngu tiltekin atriði, sem varða sérstaklega þeirra jarðir.

Á fundinum og í framhaldi af honum hafa yfirmatsmönnum borist greinargerðir frá talsmönnum eftirgreindra jarða: Gilsbakka, Lunda og Lunda II með fylgiskjölum frá 1972 og 1980 og síðari viðauka, Kaðalstaða I og II með fylgiskjölum, Guðnabakka og Selhaga, Neðraness með fylgiskjölum úr undirmati og Bakkakots. Þá bárust svör nokkurra veiðiréttareigenda í tilefni fyrirspurnar frá yfirmatsmönnum, svo sem rakið er í VI. kafla hér á eftir. Yfirmatsmenn hafa eftir þetta leitað til Veiðimálastofnunar, formanns veiðifélagsins og fleiri manna eftir margs kyns upplýsingum. Þá áttu þeir fund með Sigurði Má Einarssyni sérfræðingi hjá Veiðimálastofnun í maí 2002 og voru þá jafnframt sérstaklega kannaðir að nýju nokkrir staðir við Þverá.
III.

Um Veiðifélag Þverár.

Félagið heitir Veiðifélag Þverár í Borgarfirði og starfar samkvæmt samþykkt nr. 295/2002, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 3. apríl sama árs. Leysti hún af hólmi upphaflega samþykkt fyrir veiðifélagið nr. 202/1942.

Í 2. gr. gildandi samþykktar er því lýst að hlutverk félagsins sé að gera lax- og silungsveiði á félagssvæðinu sem arðbærasta. Þeim tilgangi hyggst félagið ná með því að selja árnar á leigu til stangarveiða, en koma í veg fyrir allar aðrar aðferðir við veiði í þeim nema nauðsynlega netaveiði til að ná í klaklax. Þá hyggist félagið stunda fiskirækt til að auka arðsemi ánna. Samkvæmt 3. gr. eru félagsmenn allir þeir, sem eiga rétt til veiði í Þverá (Stóru-Þverá), Örnólfsdalsá, Kjarará, Litlu-Þverá, Króksvatnsá, Lambá, Langavatns- og Skjaldartjarnarkvíslum. Samkvæmt sömu grein eiga eftirtaldar jarðir veiðirétt í ánum: Neðranes, Efranes, Kaðalstaðir I, Kaðalstaðir II, Lundar, Lundar II, Steinar, Gunnlaugsstaðir, Guðnabakki, Sleggjulækur, Ásbjarnarstaðir, Selhagi, Síðumúli, Sámsstaðir, Gilsbakki, Örnólfsdalur, Helgavatn, Norðtunga, Arnbjargarlækur, Hjarðarholt, Bakkakot, Stafholtsveggir, Hamraendar, Högnastaðir, Kvíar I, Kvíar II, Hermundarstaðir, Lundur, Sigmundarstaðir, Grjót, Höfði og Hamar. Í 4. gr. segir að takmörk félagssvæðisins að neðan séu þar sem straumlína Þverár sameinast straumlínu Hvítár og að ofan við upptök Skjaldartjarnarkvíslar og Langavatnskvíslar, við Lambárfoss, við Króksvatnsárfoss og við Kambsfoss í Litlu-Þverá.

Í 12. gr. samþykktarinnar er svofellt ákvæði: ?Arði af sameiginlegri veiði skal skipt niður á félagsmenn samkvæmt gildandi arðskrá. ... Um gerð arðskrár fer samkvæmt lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Félagsmenn greiða gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taka arð.?

Gildandi arðskrá fyrir félagið er frá 30. desember 1991 og er gerð af yfirmatsmönnum samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.

IV.

Rekstur ánna. Leigusamningur um veiði.

Veiði á vatnasvæði Veiðifélags Þverár hefur um langt skeið verið á hendi leigutaka, en ekki veiðiréttareigenda sjálfra. Hefur einkahlutafélagið Sporður haft á leigu veiðirétt í Þverá síðustu tvo áratugi og í Kjarrá (Kjarará) ári skemur. Hefur umsaminn leigutími oftast verið fimm ár í senn.

Núgildandi samningur milli veiðifélagsins og leigutakans er frá 26. nóvember 1999 og nær til allrar stangarveiði á vatnasvæðinu 2001-2005 að báðum árum meðtöldum. Rennur hann út 10. september 2005. Með í leigunni eru veiðihús félagsins við Helgavatn og Víghól ásamt búnaði, sem þar er. Leyft er að veiða með 7 stöngum í einu á hvoru veiðisvæði (Þverá ? Kjarrá) að því gefnu að samkomulag liggi fyrir um upptöku neta í Hvítá fyrir hvert ár leigutímans. Að öðrum kosti er stangafjöldi 6 á hvoru svæði. Leigutími ár hvert er 1. júní til 10. september. Leyfilegt veiðiagn er fluga, spúnn og maðkur, en í Kjarrá er veiði óheimil innan við Dofinsfjallsenda (neðri Grafskurð) eftir 15. ágúst ár hvert.

Umsamið árlegt leigugjald miðað við 14 stangir er 42.500.000 krónur, sem breytist fyrir hvert ár leigutímans í samræmi við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar frá janúar 2000. Er tekið fram að 20% leigugjaldsins teljist vera fyrir hús og búnað. Þá skal leigutakinn greiða hlut leigusalans í gjaldi fyrir upptöku neta í Hvítá, sem og kostnað við gerð og viðhald veiðivega. Leigusali kostar og annast seiðasleppingar í árnar.

V.

Gögn til afnota við matsstörfin.

Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:

 1. Beiðni um yfirmat (áður getið).

 2. Arðskrármat undirmatsmanna 19. desember 2000, bréf þeirra til veiðifélagsins 9. janúar 2001 með leiðréttingum og ódagsettar athugasemdir talsmanns Gilsbakka.

 3. Bréf veiðifélagsins til veiðiréttareigenda 26. desember 2000, sem arðskrá undirmatsmanna fylgdi.

 4. Samþykkt fyrir Veiðifélag Þverár (áður getið).

 5. Eldri arðskrár fyrir Veiðfélag Þverár frá 1991 og 1942.

 6. Fundargerð aðalfundar Veiðifélags Þverár 20. febrúar 2000.

 7. Dómkvaðning undirmatsmanna 5. apríl 2000.

 8. Bréf varðandi dómkvaðningu dags. 29. febr., 14. mars, 21. mars og 6. apríl 2000

 9. Gögn varðandi fundi undirmatsmanna með eigendum veiðiréttar dags. 17. maí, 27. maí og 2. júní 2000, ódagsett fundargerð matsmanna og ódagsett minnisblað um vettvangsgöngu.

 10. Ódagsett skrá um landlengd jarða að veiðivötnum á félagssvæðinu og eftirgerð hennar, árituð um samþykki veiðiréttareigenda eða umboðsmanna þeirra með nokkrum handskrifuðum fylgiskjölum og bréfi Landmælinga Íslands 20. mars 1979.

 11. Veiðimannakort af Þverá, Litlu-Þverá og Kjarrá með merktum veiðistöðum

 12. Leigusamningur um stangarveiði (áður getið).

 13. Skrá um veiðistaði í Þverá og Litlu-Þverá og hvaða jörðum þeir tilheyra.

 14. Samantekt um veiði (lax ? urriði ? bleikja) á félagssvæðinu 1990-2001 að báðum árum meðtöldum.

 15. Bréf Veiðifélags Þverár til undirmatsmanna 26. júní 2000 með leiðréttingum á skrá um veiðistaði.

 16. Bréf Veiðifélags Þverár til yfirmatsmanna 28. febrúar 2002.

 17. Listi yfir fundarmenn á fundi Veiðifélags Þverár með yfirmatsmönnum 28. ágúst 2001.

 18. Veiðimálastofnun: ?Búsvæðamat í vatnakerfi Þverár í Borgarfirði?, nóvember 2000 (Sigurður Már Einarsson, Friðþjófur Árnason og Þórólfur Antonsson.

 19. Skrá um atkvæðisrétt og veiðiréttarhafa í Veiðifélagi Þverár, febrúar 2002.

 20. Skrá 2001 um veiðistaði í Þverá, Kjarrá og Litlu-Þverá, fjölda veiddra laxa á hverjum stað og hlutfall veiði þar af heild 1990-2000 og 2001.

 21. Ársreikningar Veiðifélags Þverár 1999, 2000 og 2001.

 22. Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna (getið í II. kafla að framan.

 23. Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til undirmatsmanna vegna: Kvía (með fylgiskjali frá 1992 og framhaldsgreinargerð), Guðnabakka og Selhaga, Helgavatns, Gilsbakka, Kaðalstaða II, Bakkakots og Neðraness.

 24. Loftmynd af neðsta hluta Þverár.

 25. Samkomulag Bakkakots, Kaðalstaða og Efraness 20. júní 2000 um jafna skiptingu veiði úr Bakkakotsstrengjum (veiðistaður nr. 6).

 26. Bréf yfirmatsmanna til Veiðifélags Þverár 25. mars 2002 varðandi klakfisk.

 27. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Lunda 2. apríl 2002 vegna netaveiði og skemmda á Lundahyl af malartöku og brúarsmíði.

 28. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Neðraness 8. apríl 2002 vegna netaveiði og landlengdar.

 29. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Bakkakots 15. apríl 2002 varðandi afla úr þrem veiðistöðum.

 30. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Norðtungu 29. apríl 2002 varðandi Berghylsstreng.

 31. Leigusamningur um netalagnir við fjóra eigendur veiðiréttar í Hvítá frá 1999, 1992 og 1991.

 32. Veiðimálastofnun: Rannsóknarskýrslur um vatnasvæði Þverár á tímabilinu 1988-2000.

 33. Bréf Veiðifélags Þverár til yfirmatsmanna 3. maí 2002 varðandi klaklax.

 34. Bréf talsmanns Bakkakots til yfirmatsmanna 3. maí 2002 varðandi þrjá veiðistaði með fylgiskjali.

 35. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Kaðalstaða 10. maí 2002.

 36. S. Rist: Vatns er þörf (1990).

 37. Bréf talsmanns Neðraness til yfirmatsmanna 8. maí 2002 með fylgiskjölum.

 38. Fundargerð frá árinu 1990 af fundi stjórnar veiðifélagsins og landeigenda við Litlu-Þverá ofan Kambsfoss.

 39. Bréf talsmanns Lunda 20. maí 2002 með fylgiskjölum.

 40. Bréf talsmanns Kaðalstaða 27. maí 2002 með fylgiskjölum.

VI.

Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar.

Þess var áður getið að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum. Verða jafnframt tilfærð eftir því sem þarf viðhorf, sem birtast í greinargerðum þeirra til undirmatsmanna.

Guðnabakki og Selhagi:

Talsmaður eigenda þessarra jarða átti fund með yfirmatsmönnum og hefur munnlega og skriflega lýst ítarlega sjónarmiðum sínum um það, til hvaða þátta beri að líta við skiptingu arðskrár. Í meginatriðum eru þau þessi:

Athugasemdir sínar við undirmat kveður hann í fyrsta lagi beinast að matsaðferðinni sjálfri og í annan stað að matsniðurstöðum. Um hið fyrrnefnda vekur hann athygli á því að við dómkvaðningu hafi héraðsdómari falið matsmönnum að skila rökstuddri úrlausn. Enginn rökstuðningur komi þó fram í matsgerð um það hvers vegna vægi bakkalengdar sé ákveðið 28%, stangarveiði 47% og uppeldis- og hrygningarskilyrða 23%. Einungis sé sagt að matsmenn telji ?að hæfilegt sé? að niðurstöður séu þessar. Þá sé í matinu úthlutað 1% ?vegna ósasvæðis árinnar? án rökstuðnings og lagaheimildar. Þá hætti matsmenn sér út í hæpna útreikninga á bakkalengd. Almenn fullyrðing um að bakkalengd hafi mismikið gildi eftir stærð árinnar skipti engu máli og engin tilraun sé gerð til að rökstyðja hana. Aðferð matsmanna til að búa til ?reiknaða bakkalengd? fái ekki stoð í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970, sem mæli fyrir um að taka skuli tillit til landlengdar að veiðivatni. Vegna skorts á rökstuðningi telur talsmaður Guðnabakka og Selhaga að vísa hefði átt málinu aftur til undirmatsmanna, en sú skoðun hafi ekki fengið stuðning á vettvangi veiðifélagsins. Kveðst hann leggja í vald yfirmatsmanna hvort þeir vísi matinu aftur til undirmatsmanna vegna framangreinds annmarka.

Athugasemdir varðandi matsniðurstöður kveður talsmaðurinn snúa að Guðnabakka. Bendir hann á að í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 sé kveðið á um að jafna skuli niður veiði eða arði af henni. Orðalagið sé til fyllri skýringar á fyrirmælum framar í nefndu lagaákvæði um að gera skuli skrá, er sýni þann hluta af veiði eða arð af veiði, sem komi í hlut hverrar jarðar. Sé ljóst að veiði eða arður af henni geti einungis komið í hlut jarðar, sem á veiðiréttinn þar sem veiði er stunduð og þar sem arðurinn verður til. Þetta sé andlag niðurjöfnunar. Lögin geri síðan ráð fyrir að þessari úthlutun séu sett takmörk með því að taka tillit til aðstöðu, landlengdar og hrygningar- og uppeldisskilyrða. Öll áin sé seld á leigu og beri að úthluta arði af henni samkvæmt þessum fyrirmælum laganna. Með skiptingu arðs, þar sem veiðin vegi innan við helming, séu menn komnir á villigötur. Sé það andstætt afdráttarlausu orðalagi laganna að skýra þau þannig að landlengd og uppeldisskilyrði ráði úrslitum um niðurjöfnun veiði eða arðs af henni. Ljóst sé að engum arði yrði úthlutað ef engin væri veiðin og það sé ekki tilviljun að lögin kveði á um að jafna skuli niður veiði eða arði af henni. Loks sé í undirmati í engu metin aðstaða til netaveiði og stangarveiði, svo sem áskilið sé í lögunum.

Í greinargerð til yfirmatsmanna er loks bent á að veiðifélagið sé skyldufélag. Því beri að túlka öll ákvæði laganna mjög þröngt. Beri að forðast að þeir menn, sem áttu veiði eða nutu arðs af henni fyrir stofnun veiðifélags, telji að með aðild að félaginu sé hlutur þeirra verulega skertur. Veiðifélög hafi ekki verið stofnuð til að færa mönnum réttindi, sem ekki höfðu þau fyrir stofnun félagsins. Arðskrá, sem rýri arð eða arðsvon veiðiréttareiganda verulega, vegi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda og leiði til upplausnar veiðifélags. Matsmenn hafi því ekki það svigrúm, sem margir þeirra hafi talið, til að auka hlut bakkalengdar og uppeldisskilyrða á kostnað veiði við skiptingu arðskrár. Krefst talsmaður Guðnabakka þess að við yfirmat verði veiði við skiptingu arðskrár látin vega a.m.k. 70%.

Í greinargerð til undirmatsmanna var bent á að veiðistaðurinn Örnólfur komi ekki fram í skrá yfir veiðistaði. Að því er varðar Guðnabakka er þess getið að heitt vatn renni í Þverá við túnjaðar bæjarins og heitar uppsprettur séu víða í eyrinni á þessu svæði. Hafi þetta augljóslega mjög jákvæð áhrif lífsskilyrði seiða, en fjöldi þeirra sé þarna mjög mikill. Þá séu a.m.k. fjórir hrygningarstaðir fyrir landi jarðarinnar og úr einum þeirra, Klapparfljóti, hafi lax verið tekinn í klak að undanförnu oftar en úr nokkrum öðrum hrygningarstað í ánni. Varðandi veiðistaðinn Berghylsstreng sé þess að gæta að suðurbakki hans tilheyri Guðnabakka en ekki Norðtungu, svo sem ráða megi af skrá um veiðistaði. Nýr veiðistaður, Grænibakki, hafi ekki fengið það nafn fyrr en ári fyrr, en fram að því hafi veiðimenn skráð afla þar undir nafninu ?óþekktur? eða ?ókunnur?. Að því er varðar aðstöðu er bent á að öll umferð og ástundun veiðimanna á svæðinu sé á landi Guðnabakka og sé hún mjög mikil. Beri landið þess óræk merki, en ekki hafi verið tekið tillit til þess í arðskrá. Þegar öll atriði séu virt, þ.e. hrygningastaðir, uppeldisskilyrði, fjöldi veiðistaða, aðstaða, ástundun veiðimanna, bakkalengd og veiðimagn þurfi ekki að koma á óvart að krafist sé endurskoðunar á arðskrá. Segir loks að hlutfall veiddra fiska fyrir landi Guðnabakka af heildarveiði sé það hátt að gildandi arðskrá sé ekki í neinu samræmi við þann arð, sem vænta mætti af leigu árinnar fyrir landi Guðnabakka ?ef útleigunni væri öðru vísi háttað en nú er?.

Við vettvangsgöngu kom fram hjá talsmanni Guðnabakka að í kjölfar malartöku Vegagerðarinnar úr árfarveginum, einkum úr Norðtungueyrum, hafi framburður árinnar eyðilagt fjóra eða fimm veiðistaði fyrir landi Guðnabakka á síðustu árum.

Norðtunga:

Í máli eiganda þessarar jarðar á fundi með yfirmatsmönnum kom meðal annars fram að hann teldi búsvæðamat Veiðimálastofnunar (liður 18 í V. kafla að framan) um margt ekki fá staðist og að ýmsar tölur, sem þar birtast, séu með ólíkindum. Ætti því ekki að taka mið af því við skiptingu arðskrár. Þá lýsti hann þeirri skoðun að ekki ætti að taka svo mikið tillit til veiði, sem gert hafi verið. Verði þá að líta til þess að ástundun veiðimanna skipti miklu máli hvar fiskur sé dreginn á land og hún sé mjög misjöfn á einstökum svæðum. Sums staðar á efri hluta félagssvæðisins sé hún mjög mikil, en hins vegar léleg á suðurhluta þess og veiðimenn fari lítið niður fyrir Bakkakot. Þetta eigi t.d. einnig við um Norðtungueyrar, þar sem lítið sé veitt þótt aðstæður séu ákjósanlegar. Verði þannig að líta til mismikillar ástundunar þegar einingum sé skipt fyrir veiði. Þá lýsti hann þeirri skoðun að hlutur Litlu-Þverár í undirmati væri of rýr. Annmörkum á búsvæðamati mætti líklega um kenna, en einnig væri ástundun veiðimanna í neðri hluta hennar lítil og bókun afla úr ánni ónákvæm. Þá hefði brugðist í undirmati að taka tillit til netaveiði í Þverá. Hann gat þess loks að hann hafi á sínum tíma verið andvígur vegagerð inn með Kjarrá og nefndi til veiðimenn, sem hefðu lýst kostum þess að geta dvalið þar við veiðar fjarri umheiminum.

Lundar:

Talsmaður Lunda lagði fram skriflega greinargerð sína til yfirmatsmanna og viðauka við hana síðar. Hann lýsti jafnframt viðhorfum sínum á fundi með þeim.

Fyrsta athugasemd þessa veiðiréttareiganda lýtur að því að ekki fáist séð að undirmatsmenn hafi tekið tillit til netaveiði og aðstöðu til hennar. Það beri þó að gera samkvæmt 50. gr. laga nr. 76/1970. Þótt eigendur neðri hluta Þverár hafi látið af netaveiði þýði það ekki að hætta eigi að taka tillit til hennar við skiptingu arðskrár. Megi ráða að þetta hafi ekki verið metið inn í arðskrá síðan 1942. Það skapi arðinn í ánni að fiskurinn sé látinn í friði af þeim, sem eigi réttinn til netaveiði. Telur talsmaðurinn að við stofnun veiðifélagsins hafi ekki hvarflað að veiðiréttareigendum að þeir væru að gangast undir að rýra eign sína. Í tilviki Lunda sé svo komið að jörðin hafi lækkað í arðskrá úr 380 einingum í 62 einingar, sem sé tæplega 1/6 hluti af upphaflegri arðskrá.

Fram kemur að á árunum 1950 til 1970 hafi veiði verið góð í Lundahyl eða 30 til 40 fiskar á ári að meðaltali. Eftir það hafi hún dalað og mest eftir 1980 þegar ný brú var byggð yfir hylinn. Hafi veiði að meðaltali verið 16 fiskar á ári 1990 til 2000. Hafi mikil malartekja úr árfarveginum ofan við hylinn 1981 til 1985 og neðan hans 1993 breytt rennsli árinnar þannig að Lundahylur sé nú nánast ónýtur veiðistaður, en við þessar framkvæmdir hafi ekki verið fylgt ákvæði 43. gr. laga nr. 76/1970. Rekur talsmaður Lunda samskipti jarðeigandans við Vegagerð ríkisins og veiðifélagið, en greinargerð hans til yfirmatsmanna fylgdi matsbeiðni lögmanns eiganda Lunda til sýslumanns 1972 og umsögn fulltrúa Veiðimálastofnunar 1989 um áhrif nefndra framkvæmda. Sé ljóst að fiskur fái engan frið í hylnum nú vegna þess hvernig brúnni sé fyrir komið. Lundahylur sé eini veiðistaður jarðarinnar. Telur talsmaðurinn þær aðstæður vera fyrir hendi að hér eigi við sérstakt bótaákvæði 3. mgr. 102. gr. (áður 3. mgr. 95. gr.) laga nr. 76/1970, en samkvæmt því megi ákveða skaðabætur í formi arðs í arðskrá.

Þá eru gerðar athugasemdir við að uppeldisskilyrði vegi svo þungt sem þau gera í undirmati. Minnkandi veiði í ánni sýni að uppeldisskilyrði standi ekki undir því, sem vænst hafi verið. Þá sé neðri hluti árinnar vanmetinn í þessu tilliti og á jörðinni sé stór lækur, sem aldrei frjósi, en þar sé mikið af seiðum. Varðandi seiðasleppingar sé þess að gæta að sá fiskur virðist ekki dreifast um alla ána heldur bara koma einstökum jörðum til góða. Þá beri að taka sérstakt tillit til neðri hluta Þverár vegna fjarlægðar frá veiðihúsi, en ástundun veiðistaða þar sé léleg.

Talsmaður Lunda telur loks hæpið að matsmenn ?rífi upp arðskrá, sem samþykkt er upphaflega af ráðherra?, heldur beri þeim frekar samkvæmt lögum að fjalla um ?einstakan ágreining?. Þá þurfi sérstaklega að huga að hinni lagalegu hlið varðandi Veiðifélag Þverár, því fyrri matsgerðir hafi ekki verið sendar ráðherra til staðfestingar frekar en breytingar á samþykktum félagsins eftir 1942. Verði því ekki annað séð en að stofnsamþykktir og arðskrá frá 1942 séu enn í gildi, sbr. 50. og 52. gr. laga nr. 76/1970. Þá er vísað til og tekið undir umfjöllun í greinargerð talsmanns Gilsbakka um afla úr Lundahyl, sbr. hér á eftir. Krefst talsmaður Lunda þess að í hlut jarðarinnar í arðskrá komi ekki færri en 270 einingar.

Á fundi með yfirmatsmönnum var áréttað að þess væri krafist af eigendum netaveiðiréttar á neðri hluta félagssvæðisins að þeir nýti sér ekki rétt sinn. Ekkert tillit væri þó tekið til þess í arðskrá. Veiðifélagið viðurkenni engu að síður sams konar rétt annarra manna utan félagsins og greiði háar fjárhæðir fyrir uppkaup á þeim rétti. Varðandi tjón, sem unnið hafi verið á Lundahyl, tók hann fram að engar skaðabætur hafi verið greiddar.

Með bréfi til yfirmatsmanna 20. maí 2002, sem var svar við ósk þeirra um frekari skýringar, gerði talsmaðurinn grein fyrir hlut jarðarinnar í arði við gerð leigusamnings árið 1917, sem hafi verið 3,7% af heild. Hafi fyrri netaveiði á Lundum án vafa lagt grunn að þeirri hlutdeild. Samningurinn hafi aftur markað skiptingu arðs í arðskrá 1942. Bent var á að eigendur netasvæðis við neðsta hluta Norðurár fái ríflegan hlut í arðskrá samkvæmt sérstökum samningi. Svarið felur að öðru leyti í sér frekari rökstuðning fyrir áður fram settum sjónarmiðum. Er í fylgiskjali sýnt hvernig arðshlutur einstakra jarða hefur breyst frá 1918 til þessa dags.


Helgavatn og Hermundarstaðir:

Í greinargerð til undirmatsmanna var bent á að laxaseiðum hafi verið sleppt ofan hins laxgenga hluta Litlu-Þverár, en þar séu uppeldisskilyrði talin mjög góð að mati fiskifræðinga. Landlengd sé þar einnig veruleg. Hljóti að koma til álita að meta svæðið inn í arðskrá veiðifélagsins. Á fundi með yfirmatsmönnum lýsti talsmaður jarðarinnar þeirri skoðun að taka bæri réttmætt tillit til uppeldisskilyrða, en án góðra búsvæða fyrir seiði yrði augljóslega engin veiði heldur.

Gilsbakki

Talsmaður jarðarinnar tók fram í greinargerð til undirmatsmanna að arðskrá veiðifélagsins hafi þrívegis verið endurmetin frá upphaflegri arðskrá. Það hafi þó aldrei verið gert að kröfu Gilsbakka, sem hafi engu að síður hækkað í mati í hvert sinn. Hann gat þess einnig að laxgeng landlengd allrar árinnar að meðtalinni Litlu-Þverá, Lambá, Krókvatnsá, Langavatns- og Skjaldartjarnarkvíslum sé talin 168.154 metrar, en af því tilheyri 52.700 metrar Gilsbakkaveiðum eða 31,3%. Sterkasta hrygningarsvæði árinnar sé í Störum, þar sem áin ryðji sig varla nokkurn tíma, enda liggi hún þar yfirleitt undir snjó á veturna. Önnur hrygningarsvæði, þó góð kunni að vera, séu undirorpin hættu af stórflóðum og þar með ruðningi og ísabrotum. Að því er varðar veiði telur talsmaðurinn að auðvelt væri að sýna fram á að í fyrri arðskrármötum hafi veiði fyrir landi Gilsbakka verið til muna meiri en birst hafi í arðskrármati. Þá hafi lengi verið bannað skv. leigusamingi að veiða í Störum og framar á seinni hluta veiðitímans, sem eðililega hafi áhrif á veiðimagnið. Staðsetning veiðihúsa ráði einnig talsverðu um hvert menn fari til veiða og þau áhrif verði að draga frá við arðskrárgerð. Arðskrá eigi ?að tryggja hverjum veiðieiganda rétt hlutfall, miðað við sjálfstæða nýtingu veiðiréttar hverrar jarðar innan þess heildarveiðiálags, sem heimilað er, m.ö.o., það sem hann lætur af hendi við félagið?. Telur talsmaðurinn að næg rök séu fyrir því að hlutur Gilsbakka sé enn vanmetinn í gildandi arðskrá.

Í greinargerð til yfirmatsmanna mótmælti talmaður jarðarinnar umreikningi á bakkalengd, sem viðhafður sé í undirmati, og hann telur að styðjist ekki við lög. Mismikið vatnsmagn birtist í mismikilli veiði og hugsanlega einnig uppeldis- og hrygningarskilyrðum og ætti því að koma fram í arðskrá í gegnum þau atriði. Að auki komi fram ósamræmi í notkun reiknistuðla matsmanna um mismikið vægi bakkalengdar, en dæmi þess sé að vatnsmagn virðist aukast um 60% við það að áin yfirgefi Gilsbakkaland og fari að renna með landi Sámsstaða. Hafi aðferðafræði matsmanna leitt þá í ógöngur.

Þá er jafnframt mótmælt umreikningi á tölu veiddra laxa, sem beitt sé við arðskrármatið, og taki eingöngu til veiði fyrir landi Gilsbakka. Rökstyðji matsmenn það með erfiðri aðkomu að veiðistöðum í landi jarðarinnar og lækki samkvæmt því veiðitölur hennar um 10%. Telur talsmaðurinn þessa aðferð matsmannanna ekki fá staðist, jafnvel þótt fallast megi á að aðgengi sé erfitt fremst á veiðisvæðinu miðað við bílanotkun. Þá sé bæði ósannað og ókannað hvort veiðimönnum fellur lakar að eiga jafnframt aðgang að veiðisvæði, þar sem ekki verður komist á bíl. Sé alveg ljóst að þegar vegur var lagður að Víghól lýstu veiðimenn og sumir félagsmenn í veiðifélaginu þeirri skoðun að vegagerðin eyðilegði allan ?sjarma? við veiðarnar á fjallinu, þar sem menn vildu vera út af fyrir sig. Enn séu til veiðimenn, sem láti þá afstöðu í ljósi. Megi allt eins velta fyrir sér að vegna veiðibanns eftir miðjan ágúst framan Dofinsfjalls sé frekar tilefni til að umreikna veiðitölur á fjallinu með hækkuðum stuðli en ekki lækkuðum. Hann tekur loks fram að telji matsmenn erfitt að hækka hlut þeirra jarða, sem séu hæstar í mati fyrir, eigi að segja það hreint út í stað þess að beita einhverjum hundakúnstum, eins og hér hafi verið gert.

Á fundi með yfirmatsmönnum fylgdi talsmaður Gilsbakka eftir þeim sjónarmiðum, sem að framan er lýst. Að því er varðar uppeldisskilyrði væri nú í fyrsta sinn reynt að leggja hlutlægt mat á þann þátt, en áður hafi aðeins verið beitt um það huglægu mati. Hann kom jafnframt inn á einn þátt, sem snýr þó ekki að Gilsbakka, en það er netaveiði. Góð aðstaða væri til slíkrar veiði á Lundum, sem kunni þó að hafa verið eyðilögð af mannavöldum. Ekki væri tekið tillit til slíkrar aðstöðu í undirmatsgerð, sem bæri þó að gera. Væru Lundar augljósasta dæmið um lækkun á arðskrá vegna vanmats á þeim þætti auk beins tjóns, sem þar hafi verið unnið.

Kvíar:

Talsmaður jarðarinnar skilaði greinargerð og framhaldsgreinargerð til undirmatsmanna. Eru þar í upphafi gerðar athugasemdir við að einungis 800 af 11.000 einingum í arðskrá veiðifélagsins hafi á síðari árum komið í hlut Litlu-Þverár. Áður hafi 1000 einingum verið úthlutað til árinnar og er þess krafist að þær 200 einingar, sem á vanti, verði látnar ganga til hennar að nýju. Verði þeim jafnað á þær jarðir, sem eigi bestu fiskræktarsvæðin. Þá er vísað til skýrslna Veiðimálastofnunar, en samkvæmt þeim sé Litla-Þverá besta áin til fiskræktar á vatnasvæði Þverár. Þáttur bestu uppeldissvæðanna sé afar mikilvægur fyrir laxagengd á vatnasvæðinu og eigi fyrir það að hækka verulega einingafjölda Litlu-Þverár. Að því er varðar veiði verði að líta til þess að veiðimönnum sé í mjög litlum mæli vísað á Litlu-Þverá.

Fram kemur að Kvíar eigi 12-15 km. af ófiskgengum hluta Litlu-Þverár. Hafi 23.100 sumaröldum seiðum verið sleppt þar árið 1999, en seiði hafi verið sett í ána allt frá 1989. Þetta hafi verið gert án leyfis talsmannsins sem eins landeigenda, svo sem sjá megi af meðfylgjandi bréfi hans til veiðifélagsins frá 1992. Ekkert endurgjald hafi komið fyrir þessi afnot til eigenda árinnar á þessu svæði, hvorki við síðasta arðskrármat 1991 né frá veiðifélaginu sjálfu. Er krafist að tekið verið réttmætt tillit til þessa við arskrármat nú.

Arnbjargarlækur:

Á fundi með yfirmatsmönnum vakti talsmaður jarðarinnar athygli á þeirri þróun við arðskrárgerð að hlutur veiði hafi farið lækkandi. Ekki hafi þó verið gerð viðhlítandi grein fyrir þessu og hæpið að standist að lækka veiði svo mjög, sem gert hafi verið. Að hans dómi ætti veiði að vega sem næst 51% í arðskrármati. Þá beri að líta til þess að áhugi landeigenda væri almennt fyrir hendi um að bæta aðstöðu hjá sér og auka þannig hlut sinnar jarðar. Vissa þætti, s.s. landlengd og uppeldisskilyrði, gætu menn engin áhrif haft á, en veiðiaðstöðu gætu menn bætt. Væri ekki ástæða til að amast við því, enda gerðu menn það varlega. Sé þá ekki tilefni til að líta svo á að verið sé að taka frá öðrum.

Kaðalstaðir I og II:

Í skriflegri greinargerð talsmanns Kaðalstaða I og II til yfirmatsmanna var tekið fram að tvær ástæður hafi legið að baki því að undirmati væri skotið til yfirmats. Annars vegar hafi verið ágreiningur um bakkalengd, en nú væri fallið frá því atriði. Hitt tilefni málskotsins lúti að skiptingu arðs vegna veiði úr veiðistað nr. 8, þ.e. Kaðalstaðahyl, en eigandi Kaðalstaða II teldi þá veiði eiga að falla óskipta til Kaðalstaða. Væri því mótmælt að Bakkakot ætti nokkurn rétt til afla úr veiðistað nr. 8, 9 eða 9,5, svo sem haldið sé fram í greinargerð talsmanns þeirrar jarðar til undirmatsmanna. Þá væri því jafnframt mótmælt að samkomulag væri fyrir hendi eða hafi verið gert milli jarðanna um skiptingu veiði úr þessum stöðum eða að nokkurt það rask hafi verið gert ofan þeirra, sem réttlætt geti tilkall Bakkakots til hlutdeildar í veiði þar. Teljist hins vegar sannað að rennsli árinnar hafi verið raskað ofan nefndra veiðistaða hafi það verið gert án athugasemda af hálfu eiganda Bakkakots og án þess að hann hafi bundið framkvæmdina því skilyrði að hlutdeild í afla úr veiðistöðunum kæmi fyrir. Loks sé á því byggt að í lænu, sem áður rann í landi Bakkakots, hafi ekki verið veiðistaður og þar ekki gengið fiskur. Aldrei hafi því verið tilefni til að sú jörð ætti hlutdeild í veiðinni. Sjónarmið sama efnis komu fram í greinargerð eiganda Kaðalstaða II til undirmatsmanna. Var bent á að þeir menn væru nú látnir, sem áttu jarðirnar þegar rennsli árinnar breyttist. Kvaðst eigandinn ekki hafa heyrt um það fyrr en nú að samkomulag hafi verið gert um skiptingu veiðinnar og engar skriflegar heimildir hefðu komið fram um það. Afar ólíklegt teldist að samkomulag hafi verið gert fyrst engin gögn um það fyndust hjá veiðifélaginu. Meðan svo stæðu sakir væri mótmælt að Bakkakoti hefði með samningi verið áskilinn hluti veiðinnar.

Í umsögn talsmanns Kaðalstaða til yfirmatsmanna 27. maí 2002 um fram komin sjónarmið talsmanns Bakkakots er bent á að hinn síðastnefndi skýri nú á annan veg en áður tilganginn með því að breyta farvegi Þverár fyrir u.þ.b. tveimur áratugum. Sé upphafleg kröfugerð hans um hlutdeild í afla úr veiðistöðum, sem lengi hafi verið fyrir landi Kaðalstaða, ekki samrýmanleg því, sem nú sé komið fram. Er því síðan lýst að breytingar á rennsli Þverár neðan brúar hafi orðið á mörgum árum og ekki allar af náttúrulegum ástæðum. Komi malartaka Vegagerðarinnar þar mjög við sögu. Gerir talsmaðurinn athugasemdir við lýsingu á staðsetningu veiðistaða fyrr á árum og er sérstaklega áréttað að í Kaðalstaðahyl hafi ætíð verið veiði og hylurinn alltaf verið fyrir neðan gamla bæinn á Kaðalstöðum I. Bréfið hefur að öðru leyti að geyma frekari rökstuðning fyrir áður fram settum sjónarmiðum.

Neðranes:

Í málskoti til yfirmatsmanna lýsti einn eigandi jarðarinnar fyrir þeirra hönd afstöðu sinni til undirmats. Sá annmarki væri á matinu að ekki sé þar tekið tillit til aðstöðu til netaveiði. Engar skýringar væri að finna á þessu hjá undirmatsmönnum, en hér hafi ekki verið farið eftir lögum nr. 76/1970. Þetta hafi leitt til að margar jarðir við neðri hluta Þverár urðu fyrir verulegri skerðingu frá síðasta arðskrármati. Að því er varðaði Neðranes væri skerðingin 63 einingar. Er áréttað að skilyrði til að stunda laxveiði í net fyrir landi Neðraness séu góð og að gjöfular veiðilagnir og mikil hlunnindi hafi verið af netaveiðum á jörðinni áður en veiðifélag var stofnað um ána.

Tekið er fram að frá síðasta arðskrármati hafi neðri hluti Hvítár verið netalaus yfir stangaveiðitímann. Fyrir þessa friðun hafi eigendur bergvatnsáa þurft að greiða verulegar fjárhæðir. Þannig séu á kaflanum frá ármótum Norðurár og Hvítár að Brennusvæðinu átta netalagnir, sem Veiðifélag Þverár greiði leigu fyrir, og komi um 400.000 krónur í hlut hverrar jarðar, sem eigi tvær lagnir. Sé ekki úr vegi að hafa þetta til hliðsjónar þegar leggja á mat á aðstöðu til netaveiða í Þverá og hvers virði sé fyrir félagið að engin net skuli vera lögð á þessu svæði.

Framangreindum sjónarmiðum fylgdi sami talsmaður jarðarinnar eftir í greinargerð til yfirmatsmanna og á fundi með þeim. Tók hann jafnframt fram að vegna fjarlægðar frá veiðihúsi væri ástundun veiði í landi Neðraness léleg og hefði versnað eftir að hætt var að nota veiðihús í landi Hjarðarholts. Tók hann undir með talsmanni Gilsbakka að áhrif staðsetningar veiðihúsa á ástundun og þar með aflamagn verði að draga frá við skiptingu arðskrár. Þess beri þó að geta að sumarið 2000 hafi orðið mikil umskipti að þessu leyti á síðari hluta veiðitímabilsins, sem hafi endurtekið sig 2001. Mikil ástundun veiðimanna þá hafi skilað sér í sérlega mikilli silungsveiði og er Kastalahylur nefndur sem dæmi og veiðitölur þar raktar. Dræm laxveiði á sama tíma sé efalaust helsta skýring þessarar auknu ástundunar á neðsta svæðið. Lýsti talsmaðurinn jafnframt þeirri afstöðu sinni að undirmatsmenn hafi gefið veiði of hátt vægi (47%) í niðurstöðum sínum. Erfitt sé að leggja sanngjarnt mat á þennan þátt, sem samkvæmt lögunum eigi að vera ?aðstaðan til stangarveiði?, en ekki eingöngu aflamagn eða fjöldi veiddra laxa. Þá skekki það einnig myndina að seiðasleppingar á takmörkuðum svæðum í ánni komi vissum veiðistöðum meira til góða en öðrum vegna staðsetningar. Kostnaður sé hins vegar borinn af öllum veiðiréttareigendum. Auk þess sé nokkuð um að veiðistaðir, s.s. Gellir, Klapparfljót, Kirkjustrengur o.fl. séu lagaðir til með stórvirkum tækjum á kostnað leigutaka þegar veiði hefur dregist saman þar.

Varðandi bakkalengd tekur talsmaðurinn fram að samkvæmt eigin mælingu með mælisnúru hafi landlengd jarðarinnar reynst vera 3.690 metrar í stað 3.570 metrar samkvæmt eldri mælingu, sem lögð var til grundvallar í gildandi mati. Hafi upphaflega verið mælt með tveggja m. mælistiku og könnun undirmatsmanna á þessu atriði hafi falist í því að mæla eftir korti, sem sé ónákvæm aðferð, en notast hafi verið við loftmynd í mælikvarða einn á móti tíu þúsund. Sé jafnframt dregið í efa að matsmenn hafi haft undir höndum gögn um landamerki Neðraness og Stafholtseyjar, sem ákveðin voru með dómi Hæstaréttar fyrir um 45 árum síðan. Tekið er fram varðandi hrygningar- og uppeldisskilyrði að ekkert sé fram komið sem gefi tilefni til að draga í efa niðurstöður búsvæðamats Veiðimálstofnunar. Vakin er athygli á að í matinu komi fram að neðri hluti Þverár nýtist betur til uppeldis silungsseiða en laxaseiða, en óljóst sé þó hvort tekið sé tillit til þessa við útreikning á framleiðslueiningum árkafla nr. 12 í búsvæðamatinu.

Vikið er að öðrum þáttum, sem réðu niðurstöðum í undirmati, en það sé vegna ósasvæðis og silungsveiði. Lýsti talsmaðurinn aðstöðu við ármót Þverár og Hvítár, en samkvæmt lögum sé óheimilt að stunda þar veiði. Neðan ármótanna sé í Hvítá stunduð stangaveiði með undanþágu, svokölluð Brennuveiði, en það eigi ekki við um Þverárhluta svæðisins. Áður hafi þó verið stunduð þar stangaveiði í veiðistaðnum Ármótahyl eða Brennu, sem svo var nefndur í eldri veiðigögnum. Hafi yfirleitt veiðst þar meira en við Ullarklöpp, en þó minna en í Kastalahyl. Að þessu virtu sé eðlilegt að úthluta einingum í arðskrá vegna ósasvæðsins til Hamraenda og Neðraness. Varðandi silungsveiði sé þess að geta að hún fari vaxandi og yfir sumartímann sé um frekar væna fiska að ræða. Skráningu silungsafla í veiðibókum hafi verið ábótavant, en hún hafi batnað á síðari árum. Markmið veiðifélagsins samkvæmt samþykkt þess sé að gera bæði lax- og silungsveiði arðbæra, en árið 2000 hafi silungsafli numið 14% heildaraflans úr ánni í kílóum talið. Sé alveg ljóst að silungsveiðin sé ekki metin sem skyldi í arðskrá. Beri að auka hlut hennar við skiptingu arðskrár nú.

Talsmaðurinn reifaði sjónarmið sín jafnframt á fundi með yfirmatsmönnum. Kom fram að kafli við ármót Þverár og Hvítár, sem veiðibann laga tæki til, væri 250 metrar. Veitt hafi verið þar til ársins 1965. Þá hafi meðalþyngd urriða í Neðranesi verið há árið 2000 eða 1,3 kg. Í greinargerð til undirmatsmanna var framangreindum sjónarmiðum gerð nokkur skil og greint frá einstökum veiðistöðum.

Yfirmatsmönnum barst í maí 2002 ítarlegt svar við fyrirspurn til talsmanns jarðarinnar varðandi landlengdarmælingu og netaveiði. Fylgdu því ljósrit úr ýmsum heimildum, jafnframt því sem vísað var til munnlegra heimilda varðandi netaveiði. Varðandi þann þátt kom meðal annars fram að áður fyrr hafi í Neðranesi einkum verið veitt með ádrætti, en síðar lögð net. Hafi það síðast verið gert árið 1917. Eftir það hafi stangarveiði í allri ánni verið leigð til 25 ára og er greint frá skiptingu leigutekna, þar á meðal hvað kom í hlut Neðraness og Hamraenda, þar sem fyrrnefnda jörðin fékk hærri arð. Er lögð áhersla á að skipting arðs hafi sýnt allt til ársins 1980 að mikið tillit hafi verið tekið til fyrri netaveiði í neðri hluta Þverár. Þá hafi hins vegar mikil breyting orðið að þessu leyti, sem enn hafi aukist eftir það. Í undirmati nú hafi svo alls ekkert tillit verið tekið til þessa þáttar, sem standist ekki lög. Varðandi landlengd eru í bréfinu færð fram frekari rök fyrir réttmæti þeirrar mælingar, sem efnt var til af hálfu talsmanns jarðarinnar. Kom meðal annars fram að mæla beri eftir bakka, sem hann hafi gert, en ekki eftir miðjum árfarvegi, eins og undirmatsmenn hafi gert við könnun sína eftir loftmynd. Þá hafi félagið Loftmyndir ehf. verið fengið til að mæla landlengd jarðarinnar eftir loftmynd og hafi niðurstaða þess fallið saman við mælingar talsmannsins. Því er loks hreyft að hólmi í Þverá ofan Kastalahyls hafi ekki verið mældur, en hólmar hafi hins vegar verið teknir með við mat á arðskrá fyrir Veiðifélag Norðurár. Óskar talsmaðurinn úrskurðar yfirmatsmanna um þetta atriði, en ætla megi að Loftmyndir ehf. yrðu reiðubúnar að mæla út þessa viðbót ef taka eigi hana með.

Hamraendar:

Á fundi með yfirmatsmönnum tók talsmaður jarðarinnar undir þau sjónarmið, sem við sama tækifæri komu fram af hálfu Neðraness og að framan eru rakin. Var því lýst að aðstaða til netaveiði hefði verið góð hjá Hamraendum og um það ættu við sömu rök varðandi báðar jarðirnar. Hið sama gilti einnig um úthlutun eininga fyrir veiðibann á kafla neðst í Þverá.

Bakkakot:

Í greinargerð til undirmatsmanna gat talsmaður jarðarinnar þess að veiðistaður nr. 6 í Þverá, svonefndir Bakkakotsstrengir, hafi nú lagst af við breytingar á rennsli árinnar. Hafi eigendur Efraness, Kaðalstaða og Bakkakots undirritað yfirlýsingu þess efnis að afli úr veiðistaðnum skiptist jafnt milli jarðanna. Að því er varðar afla úr veiðistöðum nr. 8, 9 og 9,5, þ.e. Kaðalstaðahyl, Strengjum ofan Kaðalstaðahyls og Horninu, sé samkomulag um að Bakkakot eigi hlutdeild í veiði úr þessum stöðum þar sem kvíslum var lokað Bakkakotsmegin og þar með aukið vatnsrennsli í farvegi, sem þessir veiðistaðir eru í. Allt aðgengi að þessum stöðum sé auk þess gegnum Bakkakotsland. Mat yfirmatsmanna ráði síðan um hver hlutdeild Bakkakots fyrir þetta eigi að vera. Þessum sjónarmiðum var fylgt eftir í greinargerð til yfirmatsmanna og tekið fram að af hálfu Bakkakots sé unað við skiptingu undirmatsmanna á afla úr veiðistöðum nr, 8, 9 og 9,5. Þá sé rétt að aðstaða til netaveiði sé metin eins og lög áskilja auk þess sem einingum verði úthlutað fyrir silungsveiði. Hann hefur loks vakið athygli á að veiði í Klapparfljóti og Skiptafljóti hafi aukist. Megi ætla að það sé vegna þess að seiðum hafi verið sleppt á ólaxgengum hluta Litlu-Þverár og rétt neðan við Skiptafljót. Sé réttlætanlegt að þessi aukning deilist að einhverju leyti á allar veiðijarðirnar í hlutfalli við gildandi arðskrá, enda hafi allir greitt fyrir þessa fiskrækt í sama hlutfalli og þeir taka arð. Í kjölfar fyrirspurnar frá yfirmatsmönnum skýrði talsmaður Bakkakots bréflega nánar frá vatnsflutningum sem hafi átt sér stað með því að taka kvísl við Bakkakot og beina vatninu yfir í land Kaðalstaða.

Hamar:

Í undirmatsgerð er greint frá því að talsmaður jarðarinnar hafi komið á framfæri sjónarmiðum sínum um hlut Litlu-Þverár í arðskrá og að ekki sé á færi matsmanna að raska þeim grunni, sem lagður var 1942. Þá hafi gjöfular veiðilagnir verið fyrir landi Hamars, sem ekki hafi verið tekið tillit til í arðskrá nema í byrjun.

VII.

Skipting arðs. Almennt

Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: ?Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks.?

Yfirmatsmenn telja engin efni til að vísa málinu aftur til nýrrar meðferðar fyrir undirmatsmönnum vegna ætlaðs skorts á rökstuðningi fyrir niðurstöðum þeirra, svo sem talsmaður Guðnabakka og Selhaga taldi koma til álita. Þá var í greinargerð talsmanns Lunda bent réttilega á að breytingar á samþykkt fyrir Veiðifélag Þverár hafi ekki verið bornar undir ráðherra til staðfestingar og þær birtar í kjölfarið og því hafi upphafleg samþykkt frá 1942 enn verið formlega í gildi. Ný samþykkt fyrir veiðifélagið var hins vegar staðfest 3. apríl 2002 og birt í Stjórnartíðinum þegar í kjölfarið og er matsgerð þessi gerð á grundvelli hennar.

Samkvæmt 12. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Þverár skal arði af sameiginlegri veiði skipt niður á félagsmenn samkvæmt gildandi arðskrá. Kostnað af starfsemi félagsins greiða þeir í sama hlutfalli. Í fyrri arðskrám félagsins var arði skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé samtals 11.000. Í undirmati var miðað við samtals 10.000 einingar. Yfirmatsmenn munu hins vegar nú sem endranær hafa þann hátt á að skipta arði í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 1000. Við skiptingu arðskrár verða notaðar heilar tölur og einn aukastafur. Verður Litla-Þverá ekki tekin út úr sérstaklega, svo sem áður hefur verið gert, heldur metin sem hluti af heild eins og aðrar hliðarár á félagssvæðinu. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig allar einingarnar skulu skiptast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein eru sérstaklega tilgreindir, og hvernig önnur atriði geta einnig haft þar áhrif á.

VIII.

Landlengd

Meðal málsgagna er ódagsett skrá um landlengd jarða að einstökum laxgengum vatnsföllum á svæði veiðifélagsins. Samkvæmt munnlegum upplýsingum formanns félagsins mun skráin að stofni til byggð á mælingu nokkurra veiðiréttareigenda, sem önnuðust verkið fyrir veiðifélagið milli 1960 og 1970. Var mælt eftir stiku neðst, en samkvæmt snúru frá ármótum Þverár og Litlu-Þverár að fjallgirðingu. Ráðunautur mun eftir það hafa staðreynt mælinguna með ?stikkprufum?. Efsti hluti svæðisins mun hafa verið mældur allmörgum árum síðar eftir loftmynd hjá Landmælingum Íslands.

Fulltrúar allra jarða innan veiðifélagsins hafa nú staðfest endurgerð af skránni með undirritun sinni í tengslum við undirmat árið 2000. Af hálfu fjögurra þeirra var það þó gert með fyrirvara. Í undirmatsgerð kemur fram að við meðferð málsins hafi talsmenn Hjarðarholts og Efraness fallið frá sínum fyrirvörum og hið sama hefur gerst við meðferð þess fyrir yfirmatsmönnum að því er varðar Kaðalstaði. Talsmaður Neðraness heldur hins vegar fast við sinn fyrirvara, en 120 metrum munar á hans eigin mælingu og þeirri niðurstöðu um landlengd Neðraness, sem skrá veiðifélagsins hefur að geyma. Rök talsmanns jarðarinnar um þetta atriði eru rakin í V. kafla að framan. Óskuðu yfirmatsmenn frekari skýringa hans með bréfi 8. apríl 2002 og bárust þær 10. maí. Að öllu virtu fallast yfirmatsmenn á að fullnægjandi rök hafi verið færð fram fyrir réttmæti þeirrar mælingar, sem talsmaður Neðraness efndi til. Verður sú mæling lögð til grundvallar um landlengd jarðarinnar, en skrá veiðifélagsins um aðrar jarðir. Er þá jafnframt leiðrétt villa um landlengd Höfða, sem birtist í undirmatsgerð. Ekki er fram komið að ágreiningur sé um merki milli jarða, sem líta þurfi til við úthlutun eininga fyrir landlengd. Þá liggur ekki fyrir að hólmar hafi almennt verið teknir með við landlengdarmælinu. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki sinnt síðbúinni ábendingu talsmanns Neðraness um hólma ofan Kastalahyls.

Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 300 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að vatnsföllum á félagssvæðinu. Við mat á vægi þessa þáttar sem og annarra er í senn litið til allra aðstæðna hér og gætt samræmis við matsgerðir almennt við skiptingu arðskrár fyrir veiðifélög. Verður lagt sjálfstætt mat á gildi mældra lengdareininga bakka, eftir því hvar á vatnasvæðinu þeir eru, sem leiðir til mismunandi niðurstöðu um vægi þeirra við úthlutun þessara eininga, eins og nánar greinir hér á eftir. Áður er getið um sjónarmið talsmanna Gilsbakka og Guðnabakka um að sambærileg aðferð undirmatsmanna að þessu leyti samrýmist ekki lögum nr. 76/1970. Verður ráðið að talsmenn jarðanna telji að vega beri jafnt hverja lengdareiningu bakka veiðivatns hvar sem er á félagssvæðinu. Yfirmatsmenn eru þessu ósammála og telja ekki hald í gagnrýni þeirra. Verða lögin ekki skýrð svo að ekki skuli leggja mat á þennan þátt eins og aðra, sem ráða um úthlutun arðs. Sú aðferð að vega einstaka bakka veiðivatns mishátt styðst auk þess við ríka hefð, bæði í fyrri arðskrárgerð fyrir Veiðifélag Þverár og hjá veiðifélögum almennt í landinu. Að baki því liggur að gjarnan er litið svo á að úthlutun eininga fyrir landlengd sé endurgjald fyrir það vatnasvæði, sem markar lífsrými lax og silungs. Hefur mikið vatnsmagn á neðri hluta vatnasvæðis óhjákvæmilega mikið gildi að þessu leyti, jafnframt því sem gildi lækja og efstu draga veiðiár er að sama skapi einatt lítið í þessu tilliti og stundum nær ekkert. Samkvæmt þessum viðmiðunum er niðurstaða yfirmatsmanna sú að bakkar neðan ármóta Þverár og Litlu-Þverár fá vægið 1,0, en bakkar Litlu-Þverár, 0,3. Ofan ármótanna eykst vatnsmagn Þverár/Kjarrár frá upptökum jafnt og þétt af lækjum, sem til hennar falla, og nærri Víghól og nokkuð framan við hann falla í hana nokkrir slíkir. Aðrir minni falla í hana beggja vegna við veiðimörk Þverár/Kjarrár. Verður landlengd við Þverá/Kjarrá framan við áðurnefnd ármót gefið vægið 0,7 að veiðimörkum, 0,6 frá þeim að Þverlæk, 0,5 þaðan að Silungalæk, en 0,4 þaðan að ármótum Lambár. Frá þeim stað að ármótum Króksvatnsár fær Kjarrá vægið 0,3, en eftir það 0,2 að kvíslamótum í Störum. Lambá færi vægið 0,1, en Skjaldartjarnarkvísl og Langavatnskvísl 0,05.

Ekki verður fallist á að úthluta einingum fyrir bakkalengd til eigenda ólaxgengs svæðis í Litlu-Þverá, en þar eru ekki sjálfbærir stofnar göngufisks, sem geri svæðið að veiðivatni. Hins vegar er seiðum sleppt þar og verður tekið tillit til þess, sbr. XI. kafla hér á eftir.

IX.

Aðstaða til stangarveiði og netaveiði

Í IV. kafla að framan er gerð grein fyrir tilhögun við rekstur árinnar og í V. kafla er getið skýrslna, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði á laxi og silungi 1990-2001 að báðum árum meðtöldum og skiptingu aflans á veiðistaði. Við mat á skiptingu arðskrár nú verður tekið mið af veiði allt þetta tímabil að undanskildu árinu 1990, en veiði það ár var talin með þegar arðskrá var skipt síðast. Hafa samtals veiðst 18.320 laxar þau ár, sem nú er tekið mið af, en auk þess hefur veiðst á sjötta hundrað laxa, sem ekki eru skráðir á veiðistaði. Þá hafa veiðst 2.294 silungar.

Í upphafsgögnum Veiðimálastofnunar, sem yfirmatsmenn fengu í hendur, bar við að laxar væru ekki færðir á réttan veiðistað. Á það einkum við um veiðistaðinn Grænabakka, en einnig Svartabakka, Örnólf, Bás og Villastreng. Þetta hefur nú verið fært í rétt horf. Þá hefur talsmaður Guðnabakka krafist þess að helmingur afla úr Berghylsstreng komi jörðinni til góða þar eð suðurbakki veiðistaðarins tilheyri Guðnabakka. Hafa yfirmatsmenn ítrekað kynnt sér aðstöðuna þar og leitað eftir afstöðu talsmanns Norðtungu, þar sem kom fram að á þessum stað hafi rennsli árinnar breyst. Er niðurstaða yfirmatsmanna sú að eins og rennsli árinnar er nú háttað beri að skipta jafnt afla úr þessum veiðistað milli Guðnabakka og Norðtungu.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 440 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á öllu félagssvæðinu og að nokkru einnig vegna aðstöðu til netaveiði, sbr. hér á eftir. Skiptast þær á jarðir eftir veiðistöðum. Þar sem veiðistaðir eru í merkjum milli jarða er afla skipt jafnt milli þeirra. Óskráður afli getur ekki komið landeigendum til góða við skiptingu arðskrár og kemur ekki til álita fram komin staðhæfing um ófullkomnari veiðiskráningu í Litlu-Þverá en Þverá/Kjarrá.

Því sjónarmiði hefur verið hreyft að skýra beri lög nr. 76/1970 á þann veg að af þeim þáttum, sem tilgreindir eru í 50. gr. laganna og taka skal mið af við skiptingu arðskrár, eigi veiði að vega þyngst. Sé þá jafnframt óheimilt að taka nema takmarkað tillit til annarra þátta, þ.e. landlengdar og hrygningar- og uppeldisskilyrða. Svigrúm við mat á skiptingu arðskrár sé þannig takmarkað. Er þessu til stuðnings einkum vísað til orðalags 1. mgr. 50. gr. laganna um ?niðurjöfnun veiði eða arðs af henni? og dregnar ályktanir af því. Jafnframt hefur verið haldið fram að arðshluti jarðar við stofnun veiðifélagsins hljóti að vera nokkurs konar leiðarljós við skiptingu arðskrár og svigrúm til að víkja frá því jörð í óhag sé þröngt. Um þetta vísast nánar til þess, sem rakið er í VI. kafla að framan um sjónarmið talsmanns Guðnabakka og að nokkru einnig talsmanns Lunda.

Varðandi þetta er til þess að líta að tilvitnuð orð 1. mgr. 50. gr. fela í sér að val er milli tveggja aðferða við skiptingu veiðihlunninda milli rétthafa. Annars vegar er sá kostur fyrir hendi að jafna niður sjálfri veiðinni, sem í reynd er framkvæmt þannig að skipt er veiðidögum milli rétthafanna, sem nýta þá sjálfir eða leigja hver sinn rétt (t.d. Veiðifélag Laxár á Ásum). Er veiðidögum þá gjarnan dreift á veiðitímann. Hinn kosturinn, sem er sá almenni, er að jafna ekki niður veiðinni heldur arðinum, sem af henni fæst. Orðalagið vísar til þess að hvora aðferðina sem er má við hafa. Yfirmatsmenn fallast ekki á að ályktanir um sérstöðu veiði gagnvart landlengd og hrygningar- og uppeldisskilyrðum verði dregnar af hinum tilfærðu orðum laganna, eða að ?veiði eða arður af henni getur einungis komið í hlut jarðar, sem á veiðiréttinn þar sem veiði er stunduð og þar sem arðurinn verður til?. Þvert á móti segir í lagagreininni að við skiptingu arðskrár skuli meðal annars taka mið af aðstöðu til veiði, landlengd og hrygningar- og uppeldisskilyrðum án þess að settar séu neinar frekari reglur eða leiðbeiningar um vægi hvers þáttar um sig. Orðalagið undirstrikar hins vegar að fleiri atriði en þau, sem upp eru talin, geta haft áhrif á skiptingu arðskrár, sem gerist iðulega í reynd ef slíkar aðstæður eru fyrir hendi. Eldri lög um sama efni eða lögskýringargögn renna heldur ekki stoðum undir fram komnar staðhæfingar um að veiði hafi einhverja sérstöðu gagnvart öðrum þáttum. Ákvæðið um skiptingu veiði eða arðs í 1. mgr. 50. gr. gildandi laga, sem tilfært er í upphafi VII. kafla að framan, kom fyrst inn í lög með 70. gr. laga nr. 53/1957 um lax- og silungsveiði. Í athugasemdum um þessa grein, sem fylgdu frumvarpi til laganna, sagði meðal annars að rétt þyki að breyta þeim meginreglum, sem fara skuli eftir, þegar arði af félagsveiði er jafnað niður, því aðstæður hafi breyst frá því lög um lax- og silungsveiði voru sett. Þá hafi lítil veiði verið í höfuðám ofanverðum og þverám því stangarveiði hafi verið fremur fátíð, en mest hafi verið um netaveiði í höfuðám og við ósa þeirra. Hafi því þótt verða að jafna arði niður eftir veiðimagni. Síðan lögin voru sett hafi stangarveiði færst mjög í vöxt og reynslan sýnt að hún sé að jafnaði stunduð mest ofarlega í hverju fiskihverfi. Segir síðan: ?Augljóst er að hrygningarsvæði og uppeldisskilyrði ráði úrslitum um afkomu fiskistofns. Hitt er jafnvíst, að ekki nýtast þessi skilyrði, nema fiskurinn fái gengið leið sína frá sjó til hrygningar- og uppeldissvæða, sem jafnan eru ofanvert í ám. Virðist því rétt að taka tillit til allra þeirra atriða, er í greininni getur, enda hefur sú raun orðið á, að víða hefur það verið gert, þá er arðskrá hefur verið sett með mati?. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, fallast yfirmatsmenn ekki á að svigrúm þeirra til að meta vægi einstakra þátta við skiptingu arðskrár takmarkist með þeim hætti, sem haldið hefur verið fram. Hinu sama gegnir um þá staðhæfingu að máli skipti hvernig arði var skipt í öndverðu þegar veiðifélag var stofnað og að frá því verði ekki vikið nema óverulega. Enga vísbendingu er að finna um það í lögunum sjálfum eða lögskýringargögnum að mönnum sé tryggður réttur til að halda óbreyttum eða lítt breyttum hlut frá upphafilegri arðskrá. Þvert á móti veita lögin hverjum eiganda veiðiréttar heimild til að krefjast endurskoðunar á arðskrá á átta ára fresti. Meginforsendan á bak við það er sú að aðstæður geta breyst og það gera þær iðulega og þá einum til hags en öðrum í óhag. Augljóst dæmi er sú mikla breyting, sem orðið hefur á verðmæti netaveiði í samanburði við stangarveiði.

Auk þeirra sjónarmiða, sem að framan eru reifuð, hefur því verið teflt fram að líta beri til þess við skiptingu arðskrár hver arður mætti ætla að fengist af jörð væri veiðiréttur hennar einnar og sér nýttur eða leigður út til stangarveiði. Vísast um það einkum til þess, sem rakið er í VI. kafla að framan um sjónarmið talsmanns Gilsbakka, en að nokkru einnig Guðnabakka. Þessi sjónarmið fela í sér í raun að arður félli þeim rétthöfum einum í skaut, sem hafa veiðistaði fyrir löndum sínum, og gætu leigt þá út. Má ljóst vera að rétthafi, sem fyrst og fremst leggur til bakkalengd og verðmæt uppeldissvæði en ekki veiðistaði, fengi ekki arð af þessum verðmætum ætti arðurinn að koma fyrir þá nýtingu, sem hver og einn gæti haft út úr veiðiskap á sinni jörð. Lög nr. 76/1970 styðja ekki slík viðhorf, en um það vísast til skýringa á 50. gr. laganna, sem að framan voru raktar.

Fram eru komnar ábendingar um að taka eigi tillit til aðstöðu við netaveiði, en um það vísast til reifunar á viðhorfum talsmanna Lunda, Neðraness, Hamraenda og Bakkakots í VI. kafla að framan og fyrirspurna yfirmatsmanna af því tilefni. Verður tekið tillit til þessa við skiptingu arðskrár nú. Við mat á fjölda eininga, sem koma fyrir aðstöðu til netaveiði, verður ekki framhjá því horft að verðmæti netafisks er sáralítið í samanburði við verðmæti fisks, sem veiddur er á stöng, auk þess sem veiðiréttareigendur yrðu sjálfir að axla kostnað, sem fylgdu netaveiðum þeirra, ef stundaðar væru. Þá nýtist þeim sjálfum að heildarafli á stöng eykst og tekjur veiðifélagsins um leið við það að netaveiði er hætt. Að einhverju leyti mun stangarveiði jafnframt hafa komið til þar sem áður var veitt í net og skaðinn þannig bættur. Tilvísun talsmanns Neðraness til samnings veiðifélagsins við fjóra eigendur veiðiréttar í Hvítá (milli ósa Norðurár og Þverár) getur hér engu máli skipt. Um er að ræða frjálsan samning, sem upphaflega var gerður við þær aðstæður að netaveiði var ólíkt verðmætari en nú er og báðir aðilar töldu sér í hag að gera. Var forsenda hans sú að með upptöku netanna yrði unnt að fjölga stöngum í Þverá og áætluðum tekjuauka af því skipt milli aðilanna. Samningur um þetta er enn forsenda fyrir fjórtán stöngum á félagssvæðinu, sbr. umfjöllun í IV. kafla að framan. Samningurinn á þannig rætur að rekja til aðstæðna, sem eru ósambærilegar þeim, sem nú eru varðandi verðmæti afla, sem fæst af netaveiðum. Nefndur samningur um upptöku neta utan félagssvæðisins getur samkvæmt því ekki orðið nein viðmiðun við ákvörðun arðs nú til hluta félagsmanna veiðifélagsins fyrir það að veiða ekki með netum. Að öllu gættu er niðurstaða yfirmatsmanna sú að hæfilegt sé að 12 af þeim einingum, sem í heild er úthlutað fyrir veiði, komi fyrir aðstöðu til netaveiði. Slík veiði mun áður hafa verið stunduð á jörðunum fjórum, sem áður voru taldar upp, en ráðið verður af fram komnum gögnum að það eigi þó einkum við um Neðranes, Lunda og Hamraenda, auk þess sem stangarveiði hafi í ríkari mæli komið til á öðrum jörðum, þar sem einnig var veitt í net. Verður þessum einingum að stærstum hluta úthlutað jörðunum þrem, en að litlu leyti einnig til Hamars.

Fallast má á réttmæti þess sjónarmiðs að staðsetning veiðihúsa geti haft áhrif á ástundun veiðistaða ef fjarlægð er veruleg. Mikil ásókn veiðimanna í Kastalahyl síðsumars hin seinni ár bendir þó til að fjarlægðin ein þurfi ekki að hafa úrslitaáhrif á sóknarþunga veiðimanna ef góð veiðivon er yfirhöfuð til staðar, sem sýnist einmitt hafa verið raunin varðandi silungsveiði þar. Þetta atriði er að öðru leyti þess eðlis að ókleift er að meta áhrif þess á aflabrögð á einstökum veiðistöðum nema með hreinum ágiskunum. Er þess ekki kostur að taka tillit til staðsetningar veiðihúsa við skiptingu arðskrár, svo sem nokkrir talsmenn veiðiréttareigenda hafa mælst til.

Þeirri skoðun hefur verið haldið fram að seiðasleppingar nýtist bara einstökum jörðum og hafi staðsetning sleppitjarna áhrif á hvar fiskur veiðist. Eru einstakir veiðistaðir nefndir í því sambandi. Um þetta atriði gildir hið sama og það, sem fjallað var um næst á undan, að taka má að hluta undir réttmæti ábendinganna, en ókleift er að meta áhrifin. Kemur þá jafnframt til að þau eru án vafa misjöfn, þannig að í sumum tilvikum dreifist veiði vegna seiðasleppinga meira en í öðrum. Má þannig ganga út frá að seiðasleppingar í ófiskgengum hluta Litlu-Þverár auki veiði í allri ánni og jafnvel neðan ármótanna líka. Verður samkvæmt framansögðu ekki tekið tillit til þessara ábendinga við skiptingu arðskár nú.

Áður er lýst aðgengi veiðimanna að efsta hluta veiðisvæðisins, þar sem ekki er bílfært, og umsögnum nokkurra veiðiréttareigenda um aðstöðuna þar. Engin efni eru til að skerða vægi afla, sem þar fæst, vegna erfiðrar aðkomu. Svæðið frá Dofinsfjallsenda og fram úr hefur hins vegar verið friðað í allmörg ár tvær síðustu vikur veiðitímans eða sem næst sjötta hluta hans. Sú aðgerð er á kostnað Gilsbakka en öðrum til hags. Verður jörðinni bætt veiðitap með einni einingu í arðskrá. Er þá í senn litið til afla á svæðinu á öðrum hluta veiðitímans og að yfirleitt hefur dregið úr veiði við lok hans, auk þess sem ætla má að jörðin fái skerðinguna að minnsta kosti að hluta bætta með öflugri hrygningu og uppeldi seiða, sem nýtist henni við skiptingu arðskrár, sbr. X. kafla hér á eftir. Þá er fram komið að fluga hafi verið eina leyfða veiðiagnið í Kjarrá sumarið 2001. Þess háttar veiðiskapur gefur mun betra færi á að seiði, sem ánetjast hjá veiðimönnum, lifi það af, og er þannig til þess fallinn að fara betur með fiskstofna en ef annað agn er einnig leyft. Á sumum veiðistöðum takmarkar það jafnframt veiði. Slík veiði hefur í öðrum tilvikum, þegar arðskrá var skipt, gefið tilefni til að meta hana með álagi þegar saman fór að einungis fluguveiði var leyfð í einum hluta veiðivatns en sérhvert löglegt agn í öðrum. Þess ber á hinn bóginn að gæta að þessi skipan hefur einungis staðið hér í eitt ár af þeim ellefu, sem litið er til að því er varðar veiði. Marktæk reynsla hefur því ekki fengist, en allnokkrar sveiflur sjást milli ára við samanburð á veiði milli Þverár og Kjarrár. Þykir að svo vöxnu ekki unnt að taka sérstakt tillit til þessa nú þar eð um svo lítinn hluta heildartímans er að ræða.

Kostnaður vegna lagfæringa á einstökum veiðistöðum kemur ekki til neinna álita við skiptingu arðskrár. Þá hefur talsmaður Guðnabakka hreyft því að öll umferð veiðimanna sé þar öðrum megin ár og land beri þess jafnvel óræk merki. Sú aðstaða er víða fyrir hendi að veiðimenn eigi aðkomu að veiðstað aðeins öðrum megin frá, þótt umferð þeirra liggi annars ekki jafn nærri bæ og við Guðnabakka. Sambærileg sjónarmið hafa komið fram í öðrum tilvikum við skiptingu arðskrár og því þá jafnan verið hafnað að taka sérstakt tillit til þeirra, sbr. t.d. mat á arðskrá fyrir Veiðifélag Langár. Getur þetta atriði og um leið ónæði af umferð veiðimanna ekki komið til sérstakra álita við skiptingu arðskrár nú frekar en endranær.

Silungsveiði hefur aukist síðustu ár og á það einkum við um neðsta hluta veiðisvæðisins. Gildi silungsveiðinnar þar er ótvírætt fyrir hendi meðal annars þegar laxveiði er treg. Má ætla að sú aðstaða, sem hér er til staðar, sé til þess fallin að auka lítið eitt verðmæti árinnar við útleigu hennar. Verður silungsaflinn metinn þannig við skipingu arðskrárinnar að sem næst 7 silungar séu lagðir að jöfnu við einn lax og verður 8 einingum af þeim, sem koma fyrir veiði, úthlutað fyrir silungsafla. Þá er komið fram að eftir lok laxveiðitímans nýta nokkrir veiðiréttareigendur sjálfir silungsveiði fyrir löndum sínum. Sú veiði gefur veiðifélaginu ekki tekjur og telja yfirmatsmenn ekki forsendur fyrir því að hún komi viðkomandi veiðiréttareigendum til góða við skiptingu arðskrár. Hefur verið reynt að taka mið af því, eftir því sem bókun aflans gefur færi á.

Veiðibann er á stuttum kafla við ós Þverár, svo sem fram er komið af hálfu talsmanna Neðraness og Hamraenda í VI. kafla að framan. Hafa yfirmatsmenn skoðað aðstöðuna á þessum stað. Verður tekið tillit til þessa við skiptingu arðskrárinnar með úthlutun einnar einingar af þeim, sem koma fyrir veiði, til hvorrar jarðar.

Ágreiningur er um veiði úr þremur veiðistöðum milli Kaðalstaða og Bakkakots, svo sem áður er komið fram. Telja yfirmatsmenn hafið yfir vafa að vatni hafi verið veitt frá landi síðarnefndu jarðarinnar yfir til Kaðalstaða. Af hálfu Bakkakots hefur þannig verið látin í té aðstaða, sem með öðru hefur stuðlað að því að góðir veiðistaðir yrðu til eða efldust fyrir landi Kaðalstaða. Á Bakkakot rétt á að fá framlag sitt metið við skiptingu arðskrárinnar með hluta þess afla, sem fæst úr veiðistöðum nr. 8, 9 og 9,5. Verður fjórðungur aflans þar talinn Bakkakoti til tekna við skiptingu arðskrár, sem er sama hlutfall og féll í hlut jarðarinnar úr Kaðalstaðahyl við undirmat.

Bent hefur verið á að malartaka hafi spillt veiðistöðum í Þverá. Verður ráðið að þetta kunni að hafa gerst á nokkrum stöðum, en þó með áþreifanlegustum hætti við Lundahyl. Þótt ekki verði vefengt að framkvæmdir af þessum toga hafi skaðað hagsmuni nokkurra veiðiréttareigenda er hér um að ræða atriði, sem ekki er unnt að taka tillit til við skiptingu arðskrár. Á það eins við vegna tilvísunar talsmanns Lunda til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 76/1970 þegar af þeirri ástæðu að sérregla lagagreinarinnar nær til tjóns ?vegna ákvæða og framkvæmdar laga þessarra?, en umsvif Vegagerðarinnar eru ekki í tengslum við framkvæmd þeirra laga. Fær þá heldur engu breytt þótt skaðabætur hafi ekki komið fyrir frá þeim, sem kunna að bera skaðabótaábyrgð vegna tjóns, sem af framkvæmdum hefur hlotist.

Þess hefur verið krafist að tillit yrði tekið til klakfisks, sem meðal annars hafi verið tekinn úr tilteknum veiðistað. Af því tilefni óskuðu yfirmatsmenn eftir upplýsingum frá veiðifélaginu um fjölda þeirra fiska, sem teknir hafa verið í klak og veiðistaði. Samkvæmt svari stjórnar veiðifélagsins eru heimildir ekki tiltækar um fjölda fiska, en nefndir þrír veiðistaðir í Þverá, þrír í Kjarrá og tveir í Litlu-Þverá, sem þetta eigi við um. Klaklax hafi hins vegar ekki verið tekinn í Klapparfljóti á árunum 1991-2001. Er samkvæmt þessu ekki unnt að taka tillit til klakfisks við skiptingu arðskrár nú.

X

Uppeldis og hrygningarskilyrði

Í 18. lið í upptalningu gagna í V. kafla að framan er getið um skýrslu Veiðimálastofnunar frá nóvember 2000. Er þar gerð grein fyrir sérstakri rannsókn eða búsvæðamati á uppeldis- og hrygningarskilyrðum í vatnakerfi Þverár. Hafa yfirmatsmenn jafnframt fengið nánari upplýsingar og skýringar í viðtölum við einn höfunda skýrslunnar, Sigurð Má Einarsson, sérfræðing hjá Veiðimálastofnun.

Fram kemur í skýrslunni að hún sé gerð á grundvelli rannsóknar sumarið 2000 að beiðni Veiðifélags Þverár. Hafi rannsóknin haft að markmiði að meta einstaka hluta vatnasvæðisins með tilliti til skilyrða fyrir hrygningu laxa og gæði einstakra árhluta eða búsvæða til framleiðslu á seiðum. Sambærileg athugun hafi ekki verið gerð áður á vatnasvæði Þverár þótt veruleg þekking liggi fyrir á grundvelli rannsókna Veiðimálastofnunar allt frá 1989. Er tekið fram að skilyrði til fiskframleiðslu á svæðinu séu mjög hagstæð og er það laxauðugasta vatnakerfi Íslands. Lax sé ríkjandi tegund, en nokkuð sé um urriða (sjóbirting) neðst og staðbundna stofna bleikju og urriða fremst. Er síðan í skýrslunni almenn umfjöllun um hrygningarskilyrði og búsvæði fyrir laxaseiði í straumvatni og að helstu þættir, sem þar hafi áhrif á séu botnlag, straumlag, dýpi og frjósemisskilyrði innan hvers svæðis. Er vatnasvæðinu síðan skipt í kafla, þar sem áin er svipuð með tilliti til botngerðar og rennslishátta. Á hverjum kafla var tekinn breytilegur fjöldi þversniða, þar sem breidd og dýpt var mæld og grófleiki botnefna metinn til hundraðshluta. Við útreikning á gæði búsvæða var hver gerð botnefna síðan margfölduð með stuðli, svokölluðu botngildi, sem er mjög mishár eftir grófleika botnefna. Er hann lægstur þar sem er leir/sandur eða 0,02, en hæstur fyrir smágrýti eða 0,55. Kjörskilyrði fyrir laxaseiði er botn, sem er sambland af möl, smágrýti og stórgrýti, en lygn svæði í ám þar sem sandur eða leir er í botni eru hinsvegar rýr til uppeldis. Svipað gildir um klapparbotn. Með þessu móti fundu sérfræðingar Veiðimálastofnunar út framleiðslugildi hvers svæðis og loks fjölda framleiðslueininga þar. Samkvæmt þessu var Kjarrá/Þverá skipt í tólf mislanga kafla frá upptökum að ósi í Hvítá og Litlu-Þverá í þrjá kafla. Mörk svæðanna eru tilgreind, en þau eru ekki dregin með tilliti til landamerkja milli jarða. Er ljóst að uppeldis- og hrygningarskilyrði eru afar misjöfn, en hæst framleiðslugildi fá kaflar nr. III (Langavatnskvísl) og XIV (Litlahamarshylur-Urðarhylur í Litlu-Þverá), en lægst fá kaflar nr. XII (neðsti hluti Þverár) og XV (neðsti hluti Litlu-Þverár).

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 257 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Falla þær til veiðiréttareigenda í Þverá, Kjarrá og Litlu-Þverá að fossi neðan við Kambsfoss. Skipting þessara eininga tekur mið af því á grundvelli áðurnefndrar skýrslu að skilyrði eru mjög misjöfn eftir því til hvaða kafla í ánum er litið. Tekið er tillit til þess að einstakar jarðir geta átt land að misgóðum svæðum. Hafa yfirmatsmenn stuðst við útreikninga undirmatsmanna við að heimfæra landlengd hvers og eins veiðiréttareiganda að einstökum búsvæðum í skýrslu Veiðimálastofnunar frá nóvember 2000.

XI.

Aðrir þættir, sem þýðingu hafa við skiptingu arðs

Enn er ógetið eins atriðis, sem tilefni er að taka tillit til við úthlutun arðs af veiði.

Í mörgum rannsóknarskýrslum Veiðimálastofnunar er greint frá sleppingu sumaralinna seiða á ólaxgengu svæði ofan Kambsfoss í Litlu-Þverá. Fjöldi seiða, sem sleppt hefur verið, er nokkuð breytilegur en sýnist hafa verið mikill allt frá því þessi nýting svæðisins hófst 1989. Er hafið yfir vafa að umræddur hluti árinnar hentar vel til þessarar fiskræktar og er veiðfélaginu mikils virði. Eignarhaldi að landinu er svo háttað að Kvíar eiga suðurbakkann, en Hermundarstaðir, Helgavatn og Upprekstrarfélag Þverárréttar norðurbakkann.

Fyrir yfirmatsmönnum liggur fundargerð stjórnar veiðifélagsins og landeigenda að Litlu-Þverá ofan Kambsfoss. Mun hún vera frá árinu 1990, þ.e. skömmu eftir að farið var að sleppa seiðum í þennan hluta árinnar. Sýnist tilefni fundarins hafa verið að ræða þessar sleppingar og leita eftir samþykki landeigenda. Er eftirfarandi síðan skráð: ?Landeigendur kváðust fúsir að leyfa þessar sleppingar í Litlu-Þverá fyrir ofan Kambsfoss án endurgjalds, svo lengi sem þær eru taldar æskilegar af fiskifræðingum?. Fulltrúar allra eignaraðilanna undirrituðu fundargerðina.

Þegar þetta samþykki var veitt stóð endurskoðun arðskrár fyrir dyrum, sem var lokið 1991. Ekkert liggur fyrir um að þessir eigendur svæðisins hafi krafist þess að tillit yrði tekið til áðurnefndrar nýtingar Litlu-Þverár við arðskrárgerð fyrr en með greinargerðum talsmanna Kvía og Helgavatns (og Hermundarstaða) til undirmatsmanna árið 2000, sbr. VI. kafla að framan. Má líta svo á að þær feli í sér afturköllun fyrra samþykkis um endurgjaldslaus afnot. Einn eigenda Kvía ritaði stjórn veiðifélagsins hins vegar bréf þegar á árinu 1992 og krafðist fyrir sitt leyti greiðslu fyrir afnotin af Litlu-Þverá ofan Kambsfoss. Lýsti hann sig eiganda að 1/3 hluta jarðarinnar og sjöttungs þess svæðis í Litlu-Þverá, sem hér um ræðir. Krafa hans um peningagreiðslu á hendur veiðifélaginu var ekki sett fram í tengslum við skiptingu arðskrár og getur hún ekki haft þýðingu nú í því tilliti þvert ofan í samþykkt landeigenda 1990. Svar veiðifélagsins til nefnds landeiganda liggur ekki fyrir yfirmatsmönnum, en afgreiðsla þess máls fellur utan við viðfangsefni þeirra.

Samkvæmt framanröktu verður litið svo á að við skiptingu arðskrár nú megi taka tillit til þessarar nýtingar veiðifélagsins af Litlu-Þverá tvö síðustu ár þess tímabils, sem lagt er til grundvallar við endurskoðun arðskrárinnar. Þykir hæfilegt að þrjár einingar komi til veiðiréttareigenda fyrir afnotin, en við þá ákvörðun hefur ekki verið litið neitt til þess hags, sem þeir hafa af seiðasleppingunum með því að veiði fyrir löndum Kvía og Hermundarstaða hefur stóraukist þeirra vegna. Upprekstrarfélag Þverárréttar er utan veiðifélagsins og hefur auk þess ekki gefið sig fram með kröfugerð vegna þessa svæðis. Falla nefndar einingar til Kvía, Helgavatns og Hermundarstaða

XII.

Niðurstöður

Ekki er fram komið tilefni til að aðrir þættir en þeir, sem að framan greinir, hafi áhrif á skiptingu arðskrárinnar. Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Þar sem hlunnindi eru óskipt milli tveggja jarða, verður ekki hróflað við þeirri innbyrðis hlutfallsskiptingu sem gilt hefur í reynd, enda hafa engar kröfur komið fram í þá veru. Sameiginlegur arðshlutur Lunda og Lunda II var í arðskrá 1991 settur fram í einu lagi og hið sama gilti um arðshlut Kvía I og II og Kaðalstaða I og II. Að höfðu samráði við talsmenn þessara veiðiréttareigenda verður sami háttur hafður á nú þrátt fyrir sjálfstæða félagsaðild hverrar þessara sex jarða. Í eldri arðskrá kemur fyrir svonefnd ?Reykholtsveiði?, þótt Reykholtskirkja, sem þessi réttur mun áður hafa tengst, sé ekki meðal félagsmanna í veiðifélaginu. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við það og verður þeirri framsetningu haldið óbreyttri.

Veiðifélag Þverár greiðir kostnað af mati þessu.

Mat þetta gildir frá 1. janúar 2002. Arðskrá fyrir Veiðifélag Þverár skal vera svo sem greinir í XIII. kafla hér á eftir.


XIII.

Arðskrá fyrir Veiðifélag Þverár

Jarðir. einingar
1. Neðranes 24,0
2. Efranes 20,8
3.Kaðalstaðir I og Kaðalstaðir II 30,0
4.Lundar og Lundar II 9,3
5.Steinar 41,6
6.Gunnlaugsstaðir 29,9
7.Guðnabakki 38,9
8.Sleggjulækur 13,3
9.Ásbjarnarstaðir 19,8
10. Selhagi 17,5
11. Síðumúli 58,4
12. Sámsstaðir 110,4
13. Gilsbakki 202,3
14. Reykholtsveiði 37,5
15. Örnólfsdalur 45,3
16. Helgavatn 11,5
17. Norðtunga 62,8
18. Arnbjargarlækur 64,0
19. Hjarðarholt 28,5
20. Bakkakot 25,8
21. Stafholtsveggir 4,5
22. Hamraendar 28,7
23. Högnastaðir 7,7
24. Kvíar I og Kvíar II 24,0
25. Hermundarstaðir 10,6
26. Lundur 1,6
27. Sigmundarstaðir 6,9
28. Grjót 10,3
29. Höfði (með Karlsbrekku) 9,2
30. Hamar 4,9
Samtals: 1000,00
Reykjavík 31. maí 2002_______________________

Gunnlaugur Claessen


________________________ __________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Sveinbjörn Dagfinnsson

Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn