Hoppa yfir valmynd
31. desember 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs árið 2000. Greinargerð 26. janúar 2001

Nú liggja fyrir tölur um afkomu ríkissjóðs árið 2000. Þær eru á greiðslugrunni og því ekki sambærilegar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni. Engu að síður gefa þessar tölur góða vísbendingu um þróun ríkisfjármála á árinu í samanburði við næstu ár á undan.

Heildaryfirlit
Tekjuafgangur ríkissjóðs nam 12,2 milljörðum króna árið 2000, samanborið við 17 milljarða árið 1999. Skýringin á minni afgangi nú felst annars vegar í 5 milljarða króna hækkun vaxtaútgjalda ríkisins, á greiðslugrunni, milli ára, fyrst og fremst vegna sérstakrar forinnlausnar spariskírteina árið 2000. Hins vegar eru tekjur af eignasölu 6 milljörðum króna minni árið 2000 heldur en árið áður. Þessi tvö atriði skýra einnig að verulegu leyti minni lánsfjárafgang. Rétt er að ítreka að hér er um greiðsluuppgjör að ræða, en samkvæmt síðustu áætlunum er gert ráð fyrir mun meiri afgangi á rekstrargrunni, eða um 23 milljörðum króna, sem er svipað og varð á árinu 1999, og 6 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Nýjar lántökur námu 25,3 milljörðum króna á árinu og afborganir 34,5 milljörðum, auk þess sem 7 milljarðar króna voru sérstaklega greiddir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til að grynnka á framtíðarskuldbindingum ríkissjóðs við lífeyrissjóðinn. Greiðsluafkoma ríkissjóðs var því sem næst í jafnvægi og sýnir 0,3 milljarða afgang, samanborið við 0,3 milljarða neikvæða stöðu árið áður.


Tekjur
Heildartekjur ríkissjóðs námu um 207S milljarði króna, samanborið við 195 milljarða árið 1999 og tæplega 167 milljarða árið 1998. Hækkunin frá fyrra ári nemur aðeins 6S%, samanborið við 17% árið áður. Að sama skapi dregur úr aukningu skatttekna milli ára, en þær hækka um 10S% samanborið við tæplega 15% hækkun milli áranna 1998 og 1999.

Þessarar þróunar gætti raunar allt síðasta ár sem endurspeglar minnkandi umsvif í efnahagslífinu. Gleggstu merkin um að verulega sé farið að hægja á innlendri eftirspurn koma fram í því að innflutningur almennrar neysluvöru hélst nær óbreyttur milli áranna 1999 og 2000 og innflutningur fólksbíla dróst beinlínis saman. Fyrir árið í heild er talið að alls hafi verið fluttir inn liðlega 15.000 fólksbílar, samanborið við 17.400 árið 1999, en það er um 13% samdráttur. Þá hefur verulega dregið úr veltuaukningu í smásölu, en hún nam rétt um 4% fyrstu tíu mánuði ársins 2000, samanborið við 7S% á sama tíma árið 1999. Til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hækkaði á sama tímabili í fyrra um 5,2% og 3,1% árið 1999 sem sýnir að veltan hefur dregist saman að raungildi um liðlega 1% í fyrra, en hún jókst um 4% 1999.


Breytingar á einstökum tekjuliðum er mismunandi. Þannig hækka tekjuskattar meira en skattar á vöru og þjónustu, eða um rúm 17%, samanborið við rúmlega 6S% hækkun almennra veltuskatta. Í þessum tölum gætir ekki síst áhrifa mikillar tekjuaukningar vegna fjármagnstekjuskatts, sem nemur um 78% milli ára. Tekju-skattur einstaklinga hækkar um rúmlega 16%, samanborið við 17% hækkun 1999. Til samanburðar má nefna að hækkun launavísitölu nam 6,6% á árinu 2000, 6,8% 1999 og 9,4% árið 1998. Tekjur af tryggingagjaldi hækka minna, eða um 12% milli ára. Hér vekur athygli að gjaldið hækkar meira á árinu 2000 en 1999. Það er á skjön við tölur á rekstrargrunni sem gera ráð fyrir minni hækkun 2000 en árið áður. Skýringin felst væntanlega í sveiflum í innheimtu sem geta skekkt heildarmyndina. Sama skýring á við um tekjuskatt lögaðila sem lækkar reyndar lítillega milli ára, en þessar tölur eru jafnan mikilli óvissu háðar vegna fjölda áætlana. Hækkun eignarskatta nemur um 18% milli ára sem endurspeglar fyrst og fremst hækkun fasteignamats – og þar með fasteignaverðs - og almenna eignamyndun í landinu.

Hækkun skatta á vöru og þjónustu svarar til um 1S% raunaukningar milli ára, samanborið við 11% aukningu árið 1999. Tekjur af virðisaukaskatti hækka um tæplega 9% árið 2000, eða nær helmingi minna en árið áður.

Vörugjaldstekjur af bifreiðum lækka hins vegar um 12%, samanborið við 20% hækkun árið 1999. Þetta endurspeglar meðal annars minni bifreiðainnflutning á árinu 2000 eins og áður var getið auk lækkunar tiltekinna vörugjaldsflokka.

Vörugjaldstekjur af bensíni hækka einungis um 5S% milli ára á sama tíma og innflutningsverð á bensíni hefur nær tvöfaldast, enda er gjaldið ekki lengur hlutfallslegt heldur föst krónutala. Tekjur af þungaskatti aukast um 15S% milli ára, eða svipað og árið áður. Þessar tölur endurspegla meðal annars áhrif ýmissa breytinga á fyrirkomulagi þungaskatts síðastliðið vor sem skiluðu meiri tekjum en gert var ráð fyrir, auk mikillar fjölgunar díselbifreiða og aukins aksturs. Skömmu fyrir áramót var hins vegar ákveðið að lækka þungaskatt um 10% og kemur sú breyting til framkvæmda á þessu ári.

Aðrar tekjur, svo sem arðgreiðslur, vaxtatekjur og hagnaður af sölu eigna, lækka verulega milli ára, en það má nær alfarið rekja til þess að ákveðið var að fresta frekari eignasölu fram á árið 2001, en á fjárlögum var gert ráð fyrir að hún yrði á árinu 2000.

Gjöld
Heildargreiðslur ríkissjóðs námu um 195,4 milljörðum króna á árinu og hækka um 17,4 milljarða, eða tæp 10% frá fyrra ári. Rúman fjórðung þessarar hækkunar, eða 5 milljarða, má rekja til aukinna vaxtagreiðslna, fyrst og fremst vegna sérstakrar forinnlausnar spariskírteina á síðasta ári. Útgjaldahækkunin, án vaxta, nemur um 7S% milli ára. Til samanburðar er gert ráð fyrir í þjóðhagsspá frá því í desember að hækkun þjóðarútgjalda nemi rúmum 10% milli ára, en magnaukning skýrir helming þeirrar hækkunar.

Útgjöld til almennra mála, en þar falla undir æðsta stjórn ríkisins, dómgæsla, löggæsla o.fl., hækka samtals um 12% milli ára, en töluverðar sveiflur koma fram innan málaflokka. Til skýringar á hækkun vegna æðstu stjórnar ríkisins vega þyngst tímabundin verkefni s.s. landafundanefnd og undirbúningur kristnihátíðar. Þá hækka greiðslur rekstrar Alþingis nokkuð milli ára. Greiðslur til löggæslu og dómsmála hækka um rúmar 400 m.kr., eða 5,6% og vegur launakostnaður þar þyngst. Greiðslur til utanríkisþjónustunnar hækka hlutfallslega mest, eða um 25%. Þar munar mestu um stofnkostnað vegna fjölgunar sendiráða, en í desember var keypt húsnæði vegna sendiráðs í Tokyo. Þá hækkar rekstrarkostnaður utanríkisþjónustunnar, einkum vegna heimssýningarinnar í Hannover.


Nálægt tveir þriðju hlutar af útgreiðslum ríkisins á árinu, eða tæplega 121 milljarður króna, runnu til ýmissa félagsmála, svo sem mennta-, menningar-, heilbrigðis- og tryggingamála. Útgjöld til þessa málaflokks hækka í heild um 7% milli ára. Greiðslur til sjúkrahúsa og öldrunarþjónustu hækka um 8%. Á móti vegur að greiðslur sjúkratrygginga hækka um 11,4% sem er töluvert umfram almenna verðlagshækkun og munar þar mestu um aukningu lækniskostnaðar og greiðslur vegna brýnnar læknismeðferðar erlendis. Að meðaltali nam atvinnuleysi 1,3% á árinu, en var 1,9% árið áður. Minna atvinnuleysi skýrir lága hækkun málaefnaflokksins húsnæðis,- félags,- og vinnumála, eða innan við 5%.

Útgjöld til atvinnumála hækka samtals um 4,2%, þrátt fyrir 8% hækkun framlaga til vegamála, þar sem á móti vegur að framlög til hafnarmála lækka milli ára. Greiðslur til samgöngumála fylgja forsendum sem fram koma í vega-, flugvalla- og hafnaráætlunum. Greiðslur til landbúnaðarmála hækka óverulega milli ára, en þær fylgja að mestu forsendum í búvörusamningi. Mestu munar um beingreiðslur til bænda sem hækka um 5,2 % milli ára en aðrar landbúnaðargreiðslur hækka minna, nema hvað greiðslur til Jarðeigna ríkisins lækka um 100 m.kr. milli ára.

Vaxtagreiðslur hækka sem fyrr segir um 5 milljarða króna milli ára og verulega umfram forsendur fjárlaga sem skýrist af forinnlausn spariskírteina á síðasta ári. Innlausnin kemur fram sem hækkun á greiðslugrunni, en fyrirframgreiðsla vaxta með þessum hætti skilar sér í minni vaxtagreiðslum síðar. Einnig hækka vaxtagreiðslur erlendra skammtímalána um 0,6 milljarða miðað við fyrra ár.

Önnur útgjöld hækka um 1,1 milljarð króna, sem skýrist að mestu af hækkun nokkurra umhverfisverkefna, t.d. í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi og til Ofanflóðasjóðs, eða um 0,8 milljarðar króna.

Lánahreyfingar
Fjármunahreyfingar taka til greiðslna vegna veittra lána, sölu hlutabréfa og hreyfinga á viðskiptareikningum. Innheimtar afborganir umfram ný veitt lán námu tveimur milljörðum króna árið 2000 í samanburði við 3,3 milljarða á sama tíma árið 1999. Verulega hefur dregið úr lánveitingum ríkissjóðs á undanförnum árum. Greiðslur af almennum viðskiptareikningum námu 2,9 milljörðum, en á móti því vega 5S milljarða innborganir í upphafi síðasta árs vegna sölu viðskiptabanka í lok árs 1999.

Þá ráðstafaði ríkissjóður hluta lánsfjárafgangs til greiðslu lífeyrisskuldbindinga hans hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Greiðslur til sjóðsins námu 7 milljörðum króna árið 2000, samanborið við 6 milljarða árið 1999.

Afborganir lána ríkissjóðs námu 34,5 milljarði króna, sem er nær sama fjárhæð og á sama tíma árið 1999. Þar ber hæst forinnlausn spariskírteina, sem nam 10,5 milljörðum króna. Var uppkaupum beint að fjórum flokkum spariskírteina sem voru ekki nægilega seljanlegir á eftirmarkaði, auk þess sem stutt var eftir af líftíma þeirra. Afborganir erlendra lána námu 13,5 milljörðum króna sem er 3,3 milljörðum lægri fjárhæð en árið áður.

Lántökur ríkisins námu um 25,3 milljörðum króna, 11,1 milljarði meira en á sama tíma árið 1999. Þar af námu erlendar lántökur 21,7 milljörðum króna og innlendar 3,6 milljörðum. Í febrúar 2000 gaf ríkissjóður út skuldabréf til sjö ára að fjárhæð 200 milljónir evra og nam andvirði þeirra 14S milljarði króna sem var notað til endurgreiðslu erlendra lána. Þessu til viðbótar eru erlendar skammtímalántökur að fjárhæð 7,2 milljarðar sem að varið var til að mæta vaxtagreiðslum af erlendum lánum. Útgáfa ríkisvíxla innanlands var tæpum 4 milljörðum lægri en innlausn árið 2000, samanborið við 5,3 milljarða króna lækkun á sama tíma árið 1999. Þá nam sala spariskírteina og ríkisbréfa 7,4 milljörðum króna árið 2000, samanborið við 3,9 milljarða 1999.

Nýlega var gengið til samninga við þrjár lánastofnanir um aðalmiðlarakerfi fyrir ríkisvíxla sem jafnframt felur í sér viðskiptavakt á eftirmarkaði. Samningsaðilar hafa einir heimild til þátttöku í útboðum Lánasýslunnar. Tilgangur samningsins er að tryggja útgáfu ríkisvíxla og efla verðmyndun þeirra á eftirmarkaði. Ríkissjóður skuldbindur sig með samningnum til að selja í hvert skipti 3 - 4 milljarða króna í þremur útboðum. Gert er ráð fyrir að útistandandi stofn ríkisvíxla muni hækka á yfirstandandi ári um 4 - 6 milljarða króna frá því sem var um síðustu áramót.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum