Hoppa yfir valmynd
25. maí 2001 Innviðaráðuneytið

Samgönguáætlun lögð fram í fyrsta sinn á haustþingi 2001

Þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tók við embætti í maí 1999 ákvað hann að unnið skyldi að gerð samgönguáætlunar sem tekur yfir núverandi flugmálaáætlun, hafnaáætlun, vegáætlun og langtímaáætlun í vegagerð.

Kom þessi áhersla m.a. fram í stefnuræðu forsætisráðherra 4. október 1999. Var undirbúningur þegar hafinn í ráðuneytinu og á miðju ári 2000 var stýrihópur undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar stofnaður, sem hefur haft yfirumsjón með verkinu. Í stýrihópnum eru auk Vilhjálms þeir Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri, Hermann Guðjónsson forstjóri Siglingastofnunar og Þorgeir Pálsson flugmálastjóri. Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri og Sigurbergur Björnsson verkefnastjóri starfa með hópnum. Stefnt er að því að hafa fyrstu drög að samgönguáætlun tilbúin í júlí 2001.

Grunnhugmynd að frumvarpi til laga um samgönguáætlun hefur verið útfærð og miðast vinnan við hana. Hugmyndin gerir ráð fyrir að samgönguáætlunin verði lögð fram á Alþingi sem þingsályktunartillaga um áætlun í samgöngumálum þjóðarinnar til 12 ára. Samgönguáætlunin verði annars vegar stefnumarkandi yfirlýsing og hins vegar útfærsla stefnunar með ráðstöfun fjármuna í framkvæmdir og aðgerðir. Áætlunin verður til 12 ára eins og áður sagði og tekur til alls kostnaðar ríkissjóðs við samgöngur þ.m.t. reksturs stofnananna, reksturs, þjónustu og stofnkostnað við samgöngukerfið auk annarra aðgerða sem stofnað verður til eða stefnt er að. Miðað er við að áætlunin verði mun víðtækari en eldri áætlanir og kemur til með að setja markmið og stefnu er taki mið af umhverfismálum, öryggismálum, almenningssamgöngum ofl.

Miðað er við að þingsályktunartillaga í formi sérstaks yfirlits eða séryfirlits verði lagt sérstaklega fyrir Alþingi í kjölfar þingsályktunartillögu um samgönguáætlun. Það nær til fyrsta fjögurra ára tímabils áætlunarinnar og verður innan ramma hennar. Í séryfirlitinu verður ítarleg sundurliðun á ár sem er hliðstæð núverandi flugmála-, hafna-, og vegaáætlunum. Þó verður sá munur á að það nær einnig til reksturs stofnananna.

Ábendingar, hugmyndir og athugasemdir er varða gerð samgönguáætlunar sendist til: [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum