Hoppa yfir valmynd
13. júní 2001 Innviðaráðuneytið

Dómsmálaráðuneyti - rettarheimild.is opnað

Frétt frá Dómsmálaráðuneyti

Réttarheimild.is

Ræða dómsmálaráðherra við kynningu á nýrri heimasíðu 13. júní 2001.



Góðir gestir

Ég vil byrja á því að bjóða ykkur öll velkomin. Hér í dag verður opnaður vefurinn rettarheimild.is. Honum er ætlað að vera heildstæð yfirlitssíða, þar sem aðgengilegar verða upplýsingar fyrir leika sem lærða um lög og rétt.

Á honum er að finna tengingar við aðrar síður sem birta slíkar upplýsingar, svo sem heimasíðu Alþingis og Hæstaréttar. En einnig verða þar upplýsingar sem hvergi er að finna annars staðar á Veraldarvefnum. Ber þar hæst heildarsafn gildandi reglurgerða.Vefurinn er auðvitað ekki tæmandi heimild um lög og rétt á Íslandi en hann verður án vafa gagnlegur fyrir þá sem leita upplýsinga um réttarstöðu sína.

Ein af mikilvægustu stoðum réttarríkisins er aðgangur almennings um upplýsingar um lög og rétt. Í aldanna rás hefur verið reynt að tryggja þennan aðgang með birtingu laga.

Til forna var það gert með upplestri laga á þingum þar sem fjöldi manna koma saman, þannig voru þau sögð upp af lögsögumanni á Alþingi að Lögbergi og í héraði á leiðarþingum sem goðar héldu. Í þá daga þurftu menn að treysta á munnlega geymd réttarins öðru fremur. Þegar prenttæknin nær fótfestu verða lög smám saman tiltæk almenningi í rituðu máli og ákvæði um birtingu laga var síðan tekið inn í nýja stjórnarskrá árið 1874 og hefur síðan verið skilyrði fyrir gildistöku laga.

Ég tel hins vegar að með nokkrum sanni megi fullyrða að fyrst með birtingu réttarheimilda á veraldarvefnum hafi aðgengi almennings orðið mjög gott. Netið hefur gert leit að lagatextum og dómafordæmum miklu einfaldari en áður var. Mörgum hefur sjálfsagt ekki þótt árennilegt að grúska í stjórnartíðindum eða dómasafni Hæstaréttar til þess að finna viðeigandi lagareglur og fordæmi.

Arnar Þór Jónsson, aðstoðarmaður Hæstaréttardómara, mun kynna hér á eftir betur hvað finna má áheimasíðunni. Hann var formaður nefndar sem ég skipaði haustið 1999 til þess að fjalla um miðlun lagagagna á netinu, en heimasíðan er afrakstur þeirrar vinnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum