Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-júní 2001. Greinargerð 25. júlí 2001

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar - júní 2001 (PDF 105K)


Nú liggja fyrir tölur um afkomu ríkissjóðs á fyrri árshelmingi. Uppgjörið hér á eftir sýnir sjóðshreyfingar og er sambærilegt við almenn sjóðsstreymisyfirlit. Tölurnar eru því ekki sambærilegar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.

Heildaryfirlit
Fyrstu sex mánuði ársins var handbært fé frá rekstri neikvætt um tæpa 1,7 milljarða króna samanborið við 10,6 milljarða jákvæða stöðu í fyrra. Þessi niðurstaða er tæplega 5,8 milljörðum króna lakari en gert var ráð fyrir í áætlunum. Tekjur eru rúmlega 1 milljarði yfir áætlun. Gjöldin eru 6,8 milljörðum umfram það sem áætlað var, sem að mestu má rekja til sérstakra tilefna svo sem vaxtagreiðslna vegna forinnlausnar spariskírteina, hæstaréttardóms vegna málefna öryrkja, o.fl.

Í samanburði við fyrra ár hækka tekjurnar um 7,2 milljarða, einkum vegna aukinnar innheimtu tekjuskatta. Útgjöld hækka mun meira, eða um 19,5 milljarða króna. Tæplega helming útgjaldaukningarinnar má rekja til sérstakra tilefna. Þannig nemur hækkun vaxtagreiðslna um 3,4 milljörðum; sérstakar greiðslur til öryrkja nema 1,3 milljörðum króna; 1,7 milljarðar stafa af auknum útgjöldum til Tryggingastofnunar ríkisins vegna sjúkra-trygginga og bóta vegna félagslegrar aðstoðar; uppkaup á fullvirðisrétti bænda nema 0,8 milljörðum og sérstök hækkun framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 1,3 milljörðum. Að þessum hækkunartilefnum frátöldum hækka útgjöld um 11 milljarða króna milli ára. Rétt er að vekja athygli á að hluti af þessari hækkun kemur ekki til gjalda á rekstrargrunni á þessu ári.


Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 3,7 milljarða króna sem er 6,4 milljörðum lakari útkoma en áætlað var og 17,3 milljörðum lakara en í fyrra. Skýringin á lakari útkomu en í fyrra er, auk þess sem áður er nefnt, að á árinu 2000 komu til greiðslu 5,5 milljarðar króna vegna sölu á hlutabréfum í ríkisbönkunum á árinu 1999.
Á fyrri helmingi þessa árs voru auk þess greiddir 7,5 milljarðar króna í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að grynnka á framtíðarskuldbindingum ríkissjóðs, en samkvæmt fjárlögum 2001 er áformað að greiða 15 milljarða í LSR.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrstu sex mánuðum ársins 2001 reyndist neikvæð um tæplega 1,8 milljarða króna, sem er um 1,4 milljörðum lakara en sama tímabili árið áður.

Tekjur
Heildartekjur ríkissjóðs námu 107,9 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og voru um milljarði umfram áætlun. Hækkunin milli ára nemur 7,2 milljörðum, eða rúmlega 7%. Skatttekjur hækka heldur minna, eða um 6S%. Til samanburðar má nefna að hækkun skatttekna á sama tíma í fyrra nam um 12% og 16S% árið þar á undan. Þessar tölur gefa góða mynd af því hve mjög hefur dregið úr vexti innlendrar eftirspurnar, einkum á þessu ári.


Aukin innheimta skatta á launa- og fjármagnstekjur og hagnað, einstaklinga sem fyrirtækja, skýrir að langmestu leyti tekjuauka ríkissjóðs frá fyrra ári. Hér gætir hins vegar að nokkru sérstakra, tímabundinna skýringa sem mun draga úr á næstu mánuðum, svo sem því að á þessu tímabili falla til launahækkanir tveggja tímabila, þ.e. bæði hækkun samkvæmt kjarasamningum vorið 2000 og viðbótarhækkun vorið 2001 auk þess sem ósamið er við nokkurn hluta ríkis- og bæjarstarfsmanna. Samanlagt eru skattar á tekjur og hagnað ásamt tryggingagjaldi 5 milljörðum króna umfram áætlun á fyrri helmingi ársins. Eignarskattar eru hins vegar nánast á áætlun.
Önnur mynd blasir við þegar horft er á þróun veltuskatta, en þeir eru rúmlega milljarði lægri í krónutölu á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra og 4 milljörðum króna undir áætlun. Þessi þróun endurspeglar umtalsverðan samdrátt að raungildi, eða sem nemur 8%. Þetta má einkum rekja til veru-legs sam-dráttar í neysluvöruútgjöldum milli ára, ekki síst bifreiðakaupum, en vörugjöld af inn-flutningi bifreiða hafa dregist saman um hartnær 40% milli ára, eða sem nemur 1 milljarði króna. Þessi áhrif koma einnig fram í minni tekjum af virðisaukaskatti, en hann er nánast óbreyttur í krónum talið frá því í fyrra.

Gjöld
Heildargreiðslur ríkissjóðs námu um 109,6 milljörðum króna á fyrri árshelmingi og er það 6,8 milljörðum króna umfram áætlun. Frávik koma einkum fram í 1,3 milljarða króna umframgreiðslu lífeyristrygginga í kjölfar hæstaréttardóms um örorkubætur og 1,3 milljarða króna vaxtagreiðslu vegna forinnlausnar spariskírteina. Auk þess skýrist um 1 milljarður af tilfærslu milli mánaða, þar sem mánaðardreifing áætlunar tekur mið af áföllnum rekstrargjöldum innan ársins, en greiðslur Ríkisféhirðis falla til fyrr innan ársins og veldur tilfærslu sem réttist af í árslok. Gjöldin hækka um 19,5 milljarða frá fyrra ári og vega þar fimm tilefni þyngst, sbr. umfjöllun í yfirlitskaflanum hér að framan.


Almenn mál. Útgjöld til almennra mála, en þar undir fellur æðsta stjórn ríkisins, lækka lítilega milli ára. Á síðasta ári voru töluverð útgjöld vegna 1000 ára afmæli kristnitökunnar sem ekki koma til í ár, auk þess sem sérstakar viðhaldsframkvæmdir eru lægri en í fyrra. Hækkun gjalda löggæslu og öryggismála nemur aðeins 250 m.kr. þar sem lægri útgjöld vegna framkvæmda við snjóflóðavarnir vega upp á móti almennri launa- og verðlagsþróun.

Félagsmál. Tæp 60% af útgreiðslum á tímabilinu runnu til ýmissa félagsmála, svo sem fræðslu- menningar-, heilbrigðis- og tryggingamála. Útgjöld til þessa málaflokks hækka í heild um 10,9 milljarða króna milli ára. Hækkun vegna fræðslumála nam 2 milljörðum króna og munar mestu um flýtingu greiðslna til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, eða 550 m.kr. En nú er fyrirséð að útlán sjóðsins hækka umfram áætlun vegna gengislækkunar íslensku krónunnar. Greiðslur til framhalds- og sérskóla aukast um 720 m.kr. sem m.a. skýrist af viðbótaryfirvinnu eftir lok verkfalls framhaldsskólakennara, auk launahækkana í kjölfar kjarasamnings. Greiðslur vegna menningarmála hækka um 360 m.kr., eða 8,5% milli ára.

Framlög til heilbrigðismála hækka um 4,3 milljarða króna. Hluti af þeirri hækkun, um 1,3 milljarðar, skýrist af auknum greiðslum til Tryggingastofnunar ríkisins á þessu ári. Á sl. ári jukust útgjöld stofnunarinnar til sjúkratrygginga hraðar en greiðslur ríkissjóðs til hennar námu. Þetta hefur nú verið rétt af til að bæta greiðslustöðu stofnunarinnar. Þá hækka rekstrarframlög til sjúkrastofnana um rúmlega 1,6 milljarða króna, eða 13% milli ára. Þar af eru 1,4 milljarðar hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og á Akureyri, en greiðslur til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hækka um 250 m.kr. Hlutfallslega er þó mesta hækkunin hjá öldrunar- og endurhæfingarstofnunum, rúmlega 1 milljarður króna, eða 30%. Er það að mestu í samræmi við áætlanir fjárlaga, fjögur ný hjúkrunarheimili bættust við á tímabilinu, auk þess sem daggjöld hækka og greiðslur færast meira yfir á fyrri hluta ársins.

Greiðslur almannatrygginga hækka um 4,1 milljarð, eða 27,4%. Greiðslur vegna lífeyristrygginga og bóta skv. lögum um félagslega aðstoð hækka um 2,6 milljarða milli ára. Þar munar mestu um áður greinda 1.300 m.kr. greiðslu vegna dóms Hæstaréttar í málefnum öryrkja, en auk þess skýrast tæpar 500 m.kr. af tilfærslu milli mánaða til að bæta greiðslustöðu Tryggingastofnunar ríkisins. Ný lög um fæðingarorlof hafa leitt til 820 m.kr. greiðslu það sem af er árinu. Hins vegar hækka greiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs mun minna, eða um 200 m.kr., enda mælist atvinnuleysi um 1,5% það sem af er árinu á móti 1,9% á sama tíma í fyrra.

Atvinnumál. Útgjöld til atvinnumála hækka samtals um tæplega 3,2 milljarða króna, sem er 23,5% hækkun frá því í fyrra. Greiðslur til samgöngumála hækka um 1,3 milljarða króna. Þar af eru 800 m.kr. hækkun til Vegagerðarinnar og 300 m.kr. til Siglingastofnunar. Af einstökum tilefnum munar mestu um uppkaup ríkisins á fullvirðisrétti bænda, en 780 m.kr. eingreiðsla fór til þess verkefnis í janúar. Framlög til Byggðastofnunar hækka um tæpar 100 m.kr. milli ára.

Vaxtagreiðslur hækka um 3,4 milljarða króna, eða 37,7. Þar af hækka greiðslur vegna spariskírteina um 1,8 milljarða króna sem skýrist af því að stór flokkur spariskírteina kom til innlausnar í febrúar. Þá hækka vaxtagreiðslur vegna erlendra lána um 1,5 milljarða króna milli ára.

Önnur útgjöld hækka um tæpa 1,9 milljarða króna milli ára, eða 53% vegna tveggja tilefna. Greiðslur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækka um ,3 milljarða og greiðslur uppbóta á lífeyri sem renna til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hækka um 0,5 milljarða króna.

Lánahreyfingar
Fjármunahreyfingar voru neikvæðar um 2 milljarða króna á fyrri helmingi þessa árs, en á sama tíma í fyrra námu innborganir 3 milljörðum króna. Skýring á þessum mun kemur einkum fram í því að í janúar á síðasta ári voru innborganir vegna sölu á hlutabréfum í ríkisbönkunum 5,5 milljarðar króna.

Afborganir lána ríkissjóðs námu 22 milljörðum króna og eru að stærstum hluta vegna erlendra lána. Í febrúar var á innlausn flokkur spariskírteina frá árinu 1990 og hafa bréf í þeim flokki verið innleyst fyrir um 8,8 milljarða króna að innlausnarvirði, en þar af voru afborganir 4,8 milljarðar. Auk þess hafa spariskírteini verið forinnleyst í uppkaupa-útboðum úr þremur spariskírteinaflokkum fyrir 3,6 milljarða króna að innlausnarvirði. Þar af nema afborganir 2,2 milljörðum. Uppkaup með þessum hætti beinast að þeim flokkum spariskírteina sem ekki eru nægilega seljanlegir á eftirmarkaði eða stutt eftir að gjalddaga þeirra.

Ákveðið hefur verið að ráðstafa hluta lánsfjárafgangs ríkissjóðs til greiðslu lífeyrisskuldbindinga hans hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Greiðslur til sjóðsins voru 7,5 milljarðar króna samanborið við 3 milljarða í fyrra.

Lántökur ríkisins námu um 31,4 milljörðum króna. Þar af voru erlendar lántökur til langs tíma 20,7 milljarðar sem að stærstum hluta runnu til niðurgreiðslu annarra erlendra skulda. Það sem af er árinu hefur stofn ríkisvíxla stækkað um 6 milljarða króna, auk þess sem seld hafa verið ríkisbréf í nýjum 6 ára flokki fyrir um 4,4 milljarða króna.

    Efnisorð

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum