Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2001 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Verðlagning gagnaflutninga

Samgönguráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir kostnað við gagnaflutninga og eflingu fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónstu á Íslandi.

Starfshópurinn er skipaður í ljósi þess að á undanförnum misserum hafa augu manna beinst í vaxandi mæli að þeim möguleikum sem fjarskiptatækni getur fært einstaklingum og fyrirtækjum. Til að þeir verði fullnýttir er mikilvægt að íslenskur fjarskiptamarkaður bjóði upp á nýjustu tækni og þjónustu á tímum hraðra breytinga fyrir sanngjarnt verð. Legið hefur fyrir að hér á landi er kostnaður vegna almennrar talsímaþjónustu með því lægsta sem þekkist. Hins vegar hafa notendur gagnaflutningsþjónustu gagnrýnt verðlagningu fyrir gagnaflutning og leigulínur. Stjórnvöld og Alþingi hafa ítrekað lýst yfir því markmiði sínu að tryggja beri ódýran aðgang að nægjanlegri flutningsgetu um allt land.

Í framsöguræðu samgönguráðherra með frumvarpi til laga um sölu Landssíma Íslands hf. lagði ráðherrann mikla áherslu á aðgerðir til að tryggja að fjarskiptin og upplýsingatæknin geti nýst um allt land og þannig orðið mikilvægur þáttur í eflingu byggðar um land allt. Þá beindi meirihluti samgöngunefndar Alþingis því til samgönguráðherra í nefndaráliti sínu með frumvarpinu að hann vinni, í samstarfi við samgöngunefnd Alþingis, tillögur um að jafna kostnað við gagnaflutninga og þar með samkeppnisstöðu fyrirtækja um allt land. Einnig var í skýrslu einkavæðingarnefndar um einkavæðingu og sölu hlutabréfa ríkisins í Landssíma Íslands hf. lögð sérstök áhersla á jafnan aðgang landsmanna að fjarskiptaþjónstu.

Starfshópurinn skal vinna framkvæmdaáætlun um hvernig markmiðunum verður náð, þar sem fram komi meðal annars:
* hverjar eru núverandi gagnaflutningsleiðir og hvernig skiptist kostnaður innanlands vegna fjarskipta eftir staðsetningu starfsemi.
* hver er þörf fyrir bandvídd mismunandi notenda, svo sem heimila, fyrirtækja, menntastofnana og heilbrigðisstofnana.
* hvernig er unnt að jafna kostnað við gagnaflutninga og samkeppnisstöðu fyrirtækja um allt land. Við gerð tillagna hér að lútandi skulu hafðar til hliðsjónar leiðir sem raska ekki samkeppni á markaði eða brjóta gegn reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um ríkisaðstoð eða verðlagningu á fjarskiptaþjónustu.
* hvernig er best að byggja upp bandbreiða þjónustu um allt land þannig að tæknileg geta fjarskiptanetsins fylgi hraðri þróun fjarskipta.

Starfshópurinn skal skila áfangaskýrslu í byrjun október 2001 og lokaskýrslu í árslok 2001. Formaður starfshópsins er Jakob Falur Garðarsson, aðstoðarmaður samgönguráðherra. Aðrir í hópnum eru Óskar B. Hauksson, verkfræðingur, og Sævar Sigurgeirsson, endurskoðandi. Gunnar Jóhannesson, rekstrarverkfræðingur, er ráðgjafi starfshópsins en Einar Hannesson, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, er starfsmaður hans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum