Hoppa yfir valmynd
19. september 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluafkoma ríkissjóðs fyrstu átta mánuði ársins 2001. Greinargerð 19. september 2001

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-ágúst 2001 (PDF 166K)

Nú liggja fyrir tölur um afkomu ríkissjóðs fyrstu átta mánuði ársins. Uppgjörið hér á eftir sýnir sjóðhreyfingar og er sambærilegt við almenn sjóðstreymisyfirlit. Tölurnar eru því ekki sambærilegar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.

Heildaryfirlit
Fyrstu átta mánuði ársins var handbært fé frá rekstri neikvætt um 6,9 milljarða króna, samanborið við 7,1 milljarðs jákvæða stöðu í fyrra. Þessi niðurstaða er rúmlega 4,7 milljörðum króna lakari en gert var ráð fyrir í áætlunum. Tekjur eru heldur yfir áætlun, eða sem nemur 800 m.kr. Gjöldin eru hins vegar 5,5 milljörðum umfram áætlun, sem að miklu leyti má rekja til sérstakra tilefna svo sem vaxtagreiðslna vegna forinnlausnar spariskírteina, nýrra kjarasamninga, hæstaréttardóms vegna málefna öryrkja o.fl.

Heildartekjur ríkissjóðs hækka um 8,7 milljarða króna frá sama tíma í fyrra, einkum vegna aukinnar innheimtu tekjuskatta. Útgjöld hækka hins vegar mun meira, eða um 22S milljarð króna. Tæplega helming útgjaldaukningarinnar má þó rekja til sérstakra tilefna. Þannig nemur hækkun vaxtagreiðslna um 1,8 milljörðum; sérstakar greiðslur til öryrkja nema 1,3 milljörðum króna; 2,5 milljarðar stafa af auknum greiðslum til Tryggingastofnunar ríkisins vegna sjúkra-trygginga og bóta vegna félagslegrar aðstoðar. Greiðslur til fæðingarorlofssjóðs voru 1,4 milljarðar og hækkun framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga nam 1,8 milljörðum króna. Þá voru 0,8 milljarðar nýttir til uppkaupa á fullvirðisrétti bænda. Rétt er að vekja athygli á að hluti af þessari hækkun kemur ekki til gjalda á rekstrargrunni á þessu ári. Aðrar hækkanir milli ára skýrast að miklu leyti af áhrifum kjarasamninga, gengislækkunar krónunnar og almennum verðlagshækkunum.


Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 8,2 milljarða króna sem er 5,3 milljörðum lakari útkoma en áætlað var og 17,2 milljörðum lakara en í fyrra. Skýringin á lakari útkomu en í fyrra er, auk þess sem áður er nefnt, að á árinu 2000 komu til greiðslu 5,5 milljarðar króna vegna sölu á hlutabréfum í ríkisbönkunum á árinu 1999.

Á fyrstu átta mánuðum þessa árs voru auk þess greiddir 10 milljarðar króna í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að grynnka á framtíðarskuldbindingum ríkissjóðs.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrstu átta mánuðum ársins 2001 reyndist neikvæð um rúma 4 milljarða króna, sem er 5S milljarði lakara en sama tímabili árið áður.

Tekjur
Heildartekjur ríkissjóðs námu tæplega 143 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins, eða 800 m.kr. umfram áætlun. Hækkunin milli ára nemur 8,7 milljörðum, eða um 6S%. Skatttekjur hækka heldur minna, eða um rúmlega 6%. Til samanburðar má nefna að hækkun skatttekna á sama tíma í fyrra nam 11% og 16% árið þar á undan.


Aukin innheimta skatta á launa-, fjármagnstekjur og hagnað, einstaklinga og fyrirtækja, skýrir að langmestu leyti tekjuauka ríkissjóðs frá fyrra ári, eða 7 af 8,7 milljörðum króna. Hækkun þessara liða milli ára nemur tæplega 20%. Eins og áður hefur komið fram gætir hér að nokkru sérstakra, tímabundinna skýringa, svo sem því að á þessu tímabili falla til launahækkanir tveggja tímabila, þ.e. bæði hækkun samkvæmt kjarasamningum vorið 2000 og viðbótarhækkun vorið 2001. Auk þess koma til önnur atriði eins og áhrif álagningar skatta og endurgreiðslur vegna fyrri ára sem skekkja samanburð milli ára. Samanlagt eru skattar á tekjur og hagnað ásamt tryggingagjaldi tæplega 6S milljarði króna umfram áætlun. Eignarskattar eru hins vegar því sem næst á áætlun.

Þróun veltuskatta gefur hins vegar allt aðra niðurstöðu, en þeir reyndust tæplega 1S milljarði króna lægri í krónutölu en á sama tíma í fyrra og 5S milljarði króna undir áætlun fjárlaga. Þessi þróun endurspeglar með óyggjandi hætti umtalsverðan samdrátt að raungildi milli ára sem nemur rúmlega 7%. Sem fyrr má einkum rekja þessa þróun til veru-legs sam-dráttar í neysluútgjöldum milli ára, ekki síst kaupum á bílum og ýmsum varanlegum neysluvörum, svo sem heimilistækjum. Sem dæmi má nefna að vörugjöld af inn-flutningi bifreiða hafa lækkað um meira en 40% milli ára, eða sem nemur 1S milljarði króna. Vörugjöld af bensíni lækka einnig milli ára. Samanlögð áhrif þessara þátta koma fram í virðisaukaskatti, en hann er að skila minni tekjum í krónum talið en á sama tíma í fyrra. Sú niðurstaða jafngildir um það bil 6% samdrætti að raungildi milli ára.

Gjöld
Heildargreiðslur ríkissjóðs námu tæpum 150 milljörðum króna fyrstu átta mánuði ársins og er það 5,5 milljörðum króna umfram áætlun. Frávik koma einkum fram í 1,3 milljarða króna umframgreiðslu lífeyristrygginga í kjölfar hæstaréttardóms um örorkubætur og 2 milljarða króna vaxtagreiðslu vegna forinnlausnar spariskírteina. Auk þess skýrast um 0,5 milljarðar af tilfærslu greiðslna milli mánaða sem réttist af fyrir árslok. Gjöldin hækka um 22S milljarð frá fyrra ári og vega þar sex tilefni þyngst, sbr. umfjöllun í yfirlitskaflanum hér að framan.


Almenn mál. Útgjöld til almennra mála, hækka um tæpar 500 m.kr. eða 3,3% milli ára. Af einstökum hækkunartilefnum munar mestu um kaup á nýjum upplýsingakerfum ríkisins en 450 m.kr. eru komnar til greiðslu vegna kaupanna. Þá hækka greiðslur til utanríkisþjónustunnar um 400 m.kr. mili ára. Á móti vegur að greiðslur vegna æðstu stjórnar ríkisins lækka, m.a. vegna þess að á síðasta ári voru töluverð útgjöld vegna 1000 ára afmælis kristnitökunnar sem ekki koma til í ár. Lækkun gjalda öryggismála nemur rúmum 100 m.kr. þrátt fyrir 380 m.kr. hækkun til reksturs löggæslu og dómstóla þar sem á móti vegur 570 m.kr. lækkun á greiðsluþörf Ofanflóðasjóðs til byggingar snjóflóðavarnargarða.

Félagsmál. Um 60% af útgreiðslum á tímabilinu runnu til ýmissa félagsmála, svo sem fræðslu- menningar-, heilbrigðis- og tryggingamála. Útgjöld til þessa málaflokks hækka í heild um 13,7 milljarða króna milli ára. Hækkun vegna fræðslumála nam 2,2 milljörðum króna, eða 19,7% og af einstökum málum munar mestu um 400 m.kr. hækkun greiðslna til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Fyrirséð er að útlán sjóðsins hækka umfram áætlanir á árinu vegna gengislækkunar íslensku krónunnar. Greiðslur til framhalds- og sérskóla aukast um tæpan milljarð króna, eða 20,9% sem m.a. skýrist af viðbótaryfirvinnu eftir lok verkfalls framhaldsskólakennara, auk launahækkana í kjölfar kjarasamnings. Greiðslur vegna menningarmála hækka um 500 m.kr. milli ára.

Framlög til heilbrigðismála nema 35,7 milljörðum króna og hækka um 5,1 milljarð króna. Hluti af þeirri hækkun, um 1,7 milljarðar, skýrist af auknum greiðslum til Tryggingastofnunar ríkisins á þessu ári. Á sl. ári jukust útgjöld stofnunarinnar til sjúkratrygginga hraðar en sem nam greiðslum úr ríkissjóði. Þetta hefur nú verið rétt af til að bæta greiðslustöðu stofnunarinnar. Þá hækka rekstrarframlög til sjúkrastofnana um rúma 3 milljarða króna, eða 14% milli ára. Þar af eru 1,3 milljarðar hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og á Akureyri. Hlutfallslega er þó mesta hækkunin hjá öldrunar- og endurhæfingarstofnunum, 1,2 milljarðar króna, eða 26%. Er það að mestu í samræmi við áætlanir fjárlaga, ný hjúkrunarheimili bættust við á tímabilinu, auk þess sem daggjöld hækka og greiðslur færast meira yfir á fyrri hluta ársins.

Greiðslur almannatrygginga hækka um 5,7 milljarða, eða 20,6%. Greiðslur vegna lífeyristrygginga og bóta skv. lögum um félagslega aðstoð hækka um 2,6 milljarða milli ára. Þar munar mestu um áður greinda 1.300 m.kr. greiðslu vegna dóms Hæstaréttar í málefnum öryrkja. Þá hafa ný lög um fæðingarorlof leitt til 1.380 m.kr. greiðslu það sem af er árinu. Þá hækka greiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 200 m.kr. milli ára.

Atvinnumál. Útgjöld til atvinnumála hækka samtals um 4,2 milljarða króna, sem er 22% hækkun frá því í fyrra. Greiðslur til samgöngumála hækka um 1,8 milljarða króna. Þar af eru rúmlega 1,1 milljarðs króna. hækkun til Vegagerðarinnar og 500 m.kr. til Siglingastofnunar. Hækkanirnar eru í samræmi við vega- og hafnaáætlanir. Af einstökum tilefnum munar mestu um uppkaup ríkisins á fullvirðisrétti bænda, en 800 m.kr. eingreiðsla fór til þess verkefnis í ársbyrjun.

Vaxtagreiðslur hækka um 1,8 milljarða króna, eða 14,1%. Mestu munar um áhrif gengislækkunar krónunnar, en vaxtagjöld vegna erlendrar lántöku hækka um 1S milljarð króna. Greiðslur vaxta vegna fjármögnununar ríkisvíxla og spariskírteina stenda því sem næst í stað milli ára.

Önnur útgjöld hækka um 2S milljarð króna milli ára, eða 54% vegna þrigga tilefna. Greiðslur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækka um 1,6 milljarða og greiðslur uppbóta á lífeyri sem renna til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hækka um tæpar 600 m.kr. Loks nemur fjármagnstekjuskattur ríkisaðila um 350 m.kr.

Lánahreyfingar
Fjármunahreyfingar voru neikvæðar um 1,3 milljarða króna fyrstu átta mánuði ársins, en á sama tíma í fyrra námu innborganir 2 milljörðum króna. Skýring á þessum mun kemur einkum fram í því að í janúar á síðasta ári voru innborganir vegna sölu á hlutabréfum í ríkisbönkunum 5,5 milljarðar króna.

Afborganir lána ríkissjóðs námu 22,2 milljörðum króna og eru að stærstum hluta vegna erlendra lána. Í febrúar var á innlausn flokkur spariskírteina frá árinu 1990 og hafa bréf í þeim flokki verið innleyst fyrir um 8,8 milljarða króna að innlausnarvirði, en þar af voru afborganir 4,8 milljarðar. Auk þess hafa spariskírteini verið forinnleyst úr þremur spariskírteinaflokkum fyrir 3,8 milljarða króna að innlausnarvirði. Þar af nema afborganir 2,3 milljörðum. Uppkaup með þessum hætti beinast að þeim flokkum spariskírteina sem ekki eru nægilega seljanlegir á eftirmarkaði eða stutt eftir að gjalddaga þeirra.

Ákveðið hefur verið að ráðstafa hluta lánsfjárafgangs ríkissjóðs til greiðslu lífeyrisskuldbindinga hans hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Greiðslur til sjóðsins námu 10 milljörðum króna samanborið við 4 milljarða í fyrra.

Lántökur ríkisins námu um 36,2 milljörðum króna. Þar af voru erlendar lántökur til langs tíma 20,7 milljarðar sem að stærstum hluta runnu til niðurgreiðslu annarra erlendra skulda. Það sem af er árinu hefur stofn ríkisvíxla stækkað um 6 milljarða króna, auk þess sem seld hafa verið ríkisbréf í nýjum 6 ára flokki fyrir um 5,2 milljarða króna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum