Velferðarráðuneytið

Mál nr. 21/2001: Dómur frá 24. janúar 2002.

Ár 2002, fimmtudaginn 24. janúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 21/2001.

Jón Einarsson o.fl.

(Hörður Felix Harðarson hdl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins vegna

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

Flugleiða hf. og

Flugfélags Íslands hf. og meðalgöngusök

Arngrímur Arngrímsson o.fl.

gegn

aðilum málsins.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu meðalgöngustefnenda hinn 15. janúar sl.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Aðalstefnendur eru Jón Einarsson, kt. 130266-4879, Pétur Lentz, kt. 130469-5239, Arnar Þór Guðmundsson, kt. 291273-4249, Björn Óttar Jónsson, kt. 161274-5349, Jóhannes Magnússon, kt. 240267-4119, Ásgeir Gunnar Stefánsson, kt. 111169-4709, Vignir Guðmundsson, kt. 150870-3809, Tryggvi Þór Hafstein, kt. 061175-5209, Fjölnir Björn Pálsson, kt. 151175-4819, Benedikt Jónsson, kt. 2005703539, Fjölnir Freyr Sverrisson, kt. 130975-4029, Konrad Aðalmundsson, kt. 2107714689, og Ingvar Tryggvason, kt. 120772-5119.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins vegna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf.

Meðalgöngustefnendur eru Arngrímur Arngrímsson, kt. 210771-3529, Axel Ingi Eiríksson, kt. 150163-5799, Baldur Þorsteinsson, kt. 190546-3309, Bjarki Viðar Hjaltason, kt. 200845-3159, Ellef Ellefssen, kt. 010268-5089, Elmar Gíslason, kt. 081268-3559, Frímann Svavarsson, kt. 260164-5469, Georg Hansen, kt. 260968-2979, Guðjón H. Gunnarsson, kt. 040969-5439, Guðni Páll Nielsen, kt. 300675-3609, Gunnar Björn Bjarnason, kt. 140174-4169, Gústaf Guðmundsson, kt. 241146-3679, Hafliði Páll Maggason, kt. 100764-3509, Hákon Helgason, kt. 061049-4449, Heimir Helgason, kt. 210870-3429, Hlynur Bjarkason, kt. 180668-4939, Ingimar Örn Erlingsson, kt. 170474-3849, Jóhann Skírnisson, kt. 290659-7449, Jónas Jónasson, kt. 110564-7249, Karl Jónsson, kt. 050570-3129, Kolbeinn Ingi Arason, kt. 110651-3689, Kristján Jakobsson, kt. 230664-4719, Ólafur Georgsson, kt. 050767-4269, Ólafur Pétursson, kt. 220168-5149, Ragnar Arnarson, kt. 050264-5139, Ragnar Árni Ragnarsson, kt. 060772-3989, Ragnar Magnússon, kt. 090864-5699, Ragnar Smári Ólafsson, kt. 271058-5869, Rúnar Rúnarsson, kt. 070463-4319, Rögnvaldur S. Hilmarsson, kt. 081163-4569, Sigurður Aðalsteinsson, kt. 011247-2459, Sveinbjörn M. Bjarnason, kt. 191068-2979, Torfi Gunnlaugsson, kt. 240541-3510, Tryggvi Jónsson, kt. 181255-4129, Vilhjálmur Þ. Arnarsson, kt. 060976-3259, Þorleifur E. Pétursson, kt. 171172-5359 og Þórhallur Magnússon, kt. 110941-3669.

 

Dómkröfur aðalstefnanda

Að viðurkennt verði með dómi að þeir flugmenn sem eru á starfsaldurslista Flugleiða hf. eigi forgang til 19 staða á Fokker 50 flugvélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Lögmanna Mörkinni 1 sf. og að stefndi verði dæmdur til að bæta aðalstefnendum þann kostnað sem þeir hafa af greiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri lögmannsþjónustu.

 

Dómkröfur stefnda

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnenda og að þeir verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

 

Dómkröfur meðalgöngustefnenda

Að þeim verði leyfð meðalganga í máli nr. 21/2001 sem nú er rekið fyrir Félagsdómi á milli stefndu og að kröfum aðalstefnenda í því máli verði vísað frá dómi en til vara að stefndu, Samtök atvinnulífsins f.h., Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands, verði sýknuð af kröfum aðalstefnenda. Þá krefjast meðalgöngustefnendur þess að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi aðalstefnenda að mati dómsins auk álags sem nemur virðisaukaskatti.

 

Málavextir

Flugfélag Íslands hf. tók til starfa þann 1. júní 1997 með sameiningu innanlandsdeildar Flugleiða hf. og Flugfélags Norðurlands hf. Á Fokker 50 flugvélum Flugleiða hf. sem notaðar voru í innanlandsflugi félagsins voru þá starfandi rúmlega 30 flugmenn sem nutu sömu launakjara og þotuflugmenn félagsins. Flugfélag Norðurlands hf. var með minni flugvélar í rekstri og um 24 flugmenn. Eftir sameininguna hefur mikið verið um það rætt innan Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hvort taka ætti upp sameiginlegan starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. Slíkur starfsaldurslisti mun meðal annars hafa verið til umræðu í kjarasamningaviðræðum FÍA og Flugleiða hf. vorið 1997 án þess að gengið væri frá samkomulagi um sameiginlegan lista. Drög að slíku samkomulagi lágu fyrir við samningsgerðina 1997, eða hið svokallaða bláa blað.

Við gerð kjarasamninga FÍA og Flugleiða hf. um vorið 1997 var gengið frá sérstakri bókun þar sem því var lýst yfir af samningsaðilum að gengið væri út frá því að Flugleiðir hf. hefðu áfram í rekstri Fokker 50 flugvélar í innanlandsflugi og flugi til næstu grannlanda, líkt og verið hafði fram til þess tíma.

Flugfélag Íslands hf. tók við rekstri innanlandsflugs Flugleiða hf. l. júní 1997 og tók á sama tíma á leigu Fokker 50 flugvélar af Flugleiðum hf. með fullri áhöfn. Flugmenn Flugleiða hf. sinntu þannig áfram innanlandsflugi á Fokker 50 flugvélum Flugleiða hf. Flugmenn Flugfélags Íslands hf., bæði þeir flugmenn sem áður höfðu starfað hjá Flugfélagi Norðurlands hf. og þeir sem ráðnir höfðu verið til hins nýja félags, flugu flugvélum Flugfélags Íslands hf.

Ekki náðist samkomulag um sameiginlegan starfsaldurslista en 29. desember 1999 var undirritað samkomulag milli FÍA annars vegar og Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. hins vegar um framkvæmd á flutningi Fokker 50 reksturs frá Flugleiðum hf. til Flugfélags Íslands hf. þar sem m.a. var tekið á álitaefnum í tengslum við mönnun Fokker 50 vélanna. Í því samkomulagi er gert ráð fyrir að tveir aðskildir starfsaldurslistar muni gilda, annar fyrir flugmenn Flugleiða hf. og hinn fyrir flugmenn Flugfélags Íslands hf. Í 4. gr. er mælt fyrir um að allar nýjar stöður flugmanna og flugstjóra á Fokker 50 vélum muni verða mannaðar af flugmönnum Flugfélags Íslands hf. frá gildistíma samkomulagsins. Samkvæmt 5. gr. eiga þeir flugmenn Flugleiða hf. sem fljúga Fokker 50 vélum að flytjast yfir á þotur Flugleiða hf. eftir því sem stöður losna á þeim.

Vegna samdráttar í flugrekstri neyddust Flugleiðir á síðastliðnu hausti til að segja upp 45 flugmönnum. Flugmenn Flugleiða á Fokker 50 flugvélum í rekstri Flugfélags Íslands voru þá 19 talsins. Við uppsagnirnar var tekið mið af starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf. og var þeim flugmönnum sem stystan starfsaldur höfðu sagt upp störfum. Meðal þeirra voru 7 flugmenn Flugleiða hf. sem störfuðu á Fokker 50 vélum hjá Flugfélagi Íslands hf. Á sama tíma var 6 flugstjórum Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum sagt upp flugstjórastarfinu og munu þeir flytjast yfir í aðstoðarflugmannsstörf á þotum Flugleiða í byrjun árs 2002. Rann uppsagnarfrestur flestra þeirra út þann 1. janúar en annarra 1. febrúar. Við það verða 13 stöður lausar á Fokker 50 flugvélum Flugfélags Íslands.

Ágreiningurinn í máli þessu snýst um það hvernig skipa beri í þær stöður.

Í kjölfar uppsagnanna kom upp ágreiningur um það hvernig skilja bæri framangreindan samning frá 29. desember 1999. Það mun vera skilningur stefnda og flugmanna Flugfélags Íslands hf. að það sé á valdi Flugfélags Íslands hf. að ráða í þær 13 stöður á Fokker 50 vélunum sem fylla þarf eftir framangreindar uppsagnir og að við slíkar ráðningar gildi forgangsréttarákvæði aðalkjarasamnings FÍA við Flugfélag Íslands hf.

Aðalstefnendur máls þessa voru meðal þeirra flugmanna Flugleiða hf. sem sagt var upp störfum, en þeir störfuðu ekki á Fokker 50 flugvélum þegar til uppsagnanna kom. Mótmæltu þeir uppsögnum sínum með bréfi dagsettu 12. október 2001 og fóru fram á það að þær yrðu dregnar til baka með vísan til samkomulagsins frá 29. desember 1999. Töldu þeir flugmenn Flugleiða hf. eiga rétt á þeim stöðum sem þeir sinntu þá hjá Flugfélagi Íslands hf. Með bréfi dagsettu 13. nóvember 2001 höfnuðu Flugleiðir hf. þeirri beiðni stefnenda með vísan til þess að uppsagnirnar væru að mati forráðamanna félagsins í samræmi við samkomulagið frá 1999.

Í framhaldi af því höfðuðu aðalstefnendur mál þetta fyrir Félagsdómi þegar fyrir lá sú ákvörðun Félags íslenskra atvinuflugmanna að höfða ekki mál fyrir þá af þessu tilefni.

 

Málsástæður og lagarök aðalstefnenda

Kröfur aðalstefnenda séu einkum reistar á kjarasamningi FÍA við Flugfélag Íslands hf. og Flugleiðir hf. frá 29. desember 1999. Með samningnum hafi því verið slegið föstu að tveir aðskildir starfsaldurslistar skyldu gilda, annar fyrir flugmenn Flugfélags Íslands hf. og hinn fyrir flugmenn Flugleiða hf. Fokker 50 vélarnar, sem notaðar séu í innanlandsfluginu, höfðu verið leigðar frá Flugleiðum hf. með fullri áhöfn en með samningnum hafi flugmenn Flugleiða hf. samþykkt að gefa þau störf eftir með þeim hætti að allar nýjar stöður yrðu mannaðar af flugmönnum Flugfélags Íslands hf., sbr. 4. gr. samningsins. Í 5. gr. samningsins sé mælt fyrir um við hvaða skilyrði flugmenn Flugleiða hf. sem fljúga Fokker 50 vélum gefi þær stöður eftir. Þar segir nánar tiltekið:

"Þeir flugmenn Flugleiða sem fljúga Fokker 50 vélum munu flytjast yfir á þotur Flugleiða eftir því sem stöður þar losna. Þó er gert ráð fyrir að þeir flugstjórar Flugleiða á Fokker 50 sem ekki hafa reynslu til flugstjórastarfa á þotum geti starfað sem flugstjórar á Fokker 50 uns nauðsynlegri reynslu er náð. Á meðan að þessir flugmenn bíða eftir lausri stöðu á þotum Flugleiða og fljúga Fokker 50 flugvélum munu þeir áfram verða starfsmenn Flugleiða og þiggja laun frá Flugleiðum skv. gildandi samningum... "

Að mati aðalstefnenda verði framangreint ákvæði 5. gr. samningsins ekki skilið öðruvísi en svo að flugmenn Flugleiða hf. eigi að manna stöður á Fokker 50 vélum hjá Flugfélagi Íslands hf. þar til stöður losni á þotum Flugleiða hf. Eftir því sem stöður losni á þotum Flugleiða hf. fækki þannig að sama skapi þeim stöðum sem mannaðar séu af flugmönnum Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum. Samningurinn sé ekki tímabundinn og renni því sitt skeið þegar síðustu stöðum flugmanna Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum hafi verið ráðstafað með framangreindum hætti.

Við ákvarðanir um fækkun flugmanna beri Flugleiðum hf. að fara eftir starfsaldursreglum sem sé að finna í aðalkjarasamningi félagsins við FÍA, sbr. grein 03-1 í núgildandi samningi frá 2. júní 2000. Í gildi sé starfsaldurslisti sem sé útbúinn af starfsráði FÍA og Flugleiða á grundvelli áðurnefndra starfsaldursreglna. Við uppsagnir flugmanna Flugleiða hf. í júlí, september og október sl. hafi þeim flugmönnum Flugleiða hf. sem séu aftast á starfsaldurslistanum verið sagt upp störfum. Meðal þeirra voru 7 af 19 flugmönnum Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum. Jafnframt var 6 flugstjórum á Fokker 50 vélunum sagt upp flugstjórastarfinu og muni þeir flytjast yfir í aðstoðarflugmannsstarf á þotum Flugleiða í byrjun árs 2002.

Við undirritun samningsins frá 29. desember 1999 hafi tæplega 40 flugmenn verið á starfsaldurslista Flugleiða hf. við störf á Fokker 50 vélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf. Þegar til uppsagnanna kom síðastliðið haust hafi 19 flugmenn verið enn við störf á Fokker 50 vélunum en aðrir höfðu flust yfir á þotur Flugleiða hf. vegna aukinna umsvifa í millilandaflugi. Flugfélag Íslands hf. hafi mannað þær stöður sem losnað hafi með þessum hætti á Fokker 50 vélunum.

Samningurinn frá 29. desember 1999 sé ekki bundinn við nafngreinda flugmenn Flugleiða hf. heldur taki hann til allra flugmanna félagsins. Brotthvarf þeirra flugmanna sem gegndu störfum á Fokker 50 vélunum leiðir að mati aðalstefnenda til þess að Flugleiðum hf. sé rétt og skylt að manna þær stöður að nýju með öðrum flugmönnum félagsins, enda bendi ekkert til þess að til standi að hætta rekstri Fokker 50 vélanna. Samkvæmt samningnum eigi flugmenn Flugleiða hf. rétt til þessara staða þar til stöður losni á þotum Flugleiða hf. Það skilyrði hafi enn ekki verið uppfyllt varðandi þær 19 stöður sem flugmenn Flugleiða hf. gegndu á Fokker 50 vélunum þegar til uppsagnanna kom. Uppsagnir flugmanna sem starfa á þotum Flugleiða hf., vegna samdráttar í rekstri, leiði augljóslega ekki til þess að stöður losni.

Ákvæði greinar 01-3 í kjarasamningi Flugfélags Íslands hf. og FÍA frá 8. júní 2000 um forgangsrétt flugmanna Flugfélags Íslands hf. til flugverkefna á vegum Flugfélags Íslands hf. geti ekki leitt til þess að flugmenn Flugfélags Íslands hf. eigi rétt til þeirra starfa sem senn séu laus á Fokker 50 vélunum. Með kjarasamningnum frá 29. desember 1999, sem samþykktur hafi verið við allsherjaratkvæðagreiðslu meðal flugmanna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. innan FÍA, hafi verið settar sérstakar reglur um samskipti flugfélaganna vegna reksturs Fokker 50 vélanna og réttindi og skyldur flugmanna félaganna beggja í tengslum við þann rekstur. Þær reglur gangi framar almennum reglum í aðalkjarasamningi félagsins. Þá beri að hafa í huga að við undirritun kjarasamningsins frá 29. desember 1999 hafi verið í gildi kjarasamningur Flugfélags Íslands hf. og FÍA frá 19. apríl 1997. Ákvæði greinar 01-3 í þeim samningi um forgangsrétt flugmanna Flugfélags Íslands hafi verið samhljóða ákvæði kjarasamningsins frá 8. júní 2000. Þrátt fyrir tilvist þess ákvæðis í þágildandi kjarasamningi hafi verið ákveðið að semja á þann veg sem gert var í samningnum frá 29. desember 1999. Það sé að mati aðalstefnenda ljóst að ef hverfa hefði átt frá því fyrirkomulagi sem komið var á með samningnum frá 29. desember 1999 hefði þurft að gera það með skýrum og afgerandi hætti og jafnframt þannig að skuldbindandi væri bæði fyrir flugmenn Flugleiða hf. og flugmenn Flugfélags Íslands hf.

Aðalstefnendur máls þessa séu meðal þeirra flugmanna Flugleiða hf. sem sagt hafi verið upp störfum. Af þeim flugmönnum sem sagt hafi verið upp störfum séu aðalstefnendur með lengstan starfsaldur. Verði fallist á túlkun aðalstefnenda á kjarasamningnum frá 29. desember 1999 leiði það til þess að Flugleiðum hf. sé skylt að manna þær stöður á Fokker 50 vélunum sem losni þegar uppsagnirnar taki gildi. Flugleiðir hf. geti ekki sagt flugmönnum Fokker 50 vélanna upp störfum með þeim afleiðingum að Flugfélagi Íslands hf. beri að manna þær stöður að nýju. Aðalstefnendur eigi samkvæmt d-lið 5. gr. starfsaldursreglna flugmanna Flugleiða hf. rétt á endurráðningu í störf hjá Flugleiðum hf. í tvö ár frá því þeir láti af störfum. Þar sem aðalstefnendur séu með lengstan starfsaldur þeirra sem sagt var upp störfum eigi þeir að öllu jöfnu að ganga fyrir í þau störf sem laus séu eða kunni að losna hjá Flugleiðum hf.

Ef túlkun aðalstefnenda á kjarasamningnum frá 29. desember 1999 verði staðfest með dómi leiði það í reynd til þess að forsendur Flugleiða hf. fyrir uppsögnum aðalstefnenda séu brostnar. Hagsmunir aðalstefnenda af að fá dómkröfur þessa máls viðurkenndar séu því augljóslega miklir. Flugfélag Íslands hf. og Flugleiðir hf. séu aðilar að samningnum frá 29. desember 1999 og niðurstaða þessa máls muni auk þess ráða því hjá hvoru félaginu réttur og skylda er til að manna þær 13 stöður á Fokker 50 vélunum sem manna þurfi að nýju eftir að uppsagnirnar hafi tekið gildi.

Aðalstefnendur kveða mál þetta falla undir lögsögu Félagsdóms á grundvelli 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Aðalstefnendur höfði mál þetta sjálfir fyrir Félagsdómi á grundvelli 2. mgr. 45. gr. sömu laga. Fyrir liggi staðfesting Félags íslenskra atvinnuflugmanna á því að félagið muni ekki höfða mál fyrir aðalstefnendur þessa máls til að fá skorið úr því ágreiningsefni sem hér sé lagt fyrir Félagsdóm.

Kröfur aðalstefnenda eru reistar á kjarasamningi FÍA frá 29. desember 1999, kjarasamningi Flugleiða hf. og FÍA frá 2. júní 2000, meginreglum vinnu- og samningaréttar og lögum nr. 80/1938, einkum 2. mgr. 45. gr. þeirra laga. Um rétt aðalstefnenda til að sækja rétt sinn sameiginlega í einu máli er vísað til 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa um kostnað vegna virðisaukaskatts á aðkeypta lögmannsþjónustu er skaðleysiskrafa, reist á lögum nr. 50/1988, en nauðsynlegt sé að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar þar sem stefnandi njóti ekki frádráttarréttar vegna kostnaðar af virðisaukaskatti.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa stefnda byggir á eftirfarandi málsástæðum.

Um skipun flugmanna í lausar stöður sé fjallað í starfsaldursreglum flugmanna. Samkvæmt þeim reglum sé það grundvallaratriði að í hvert skipti sem þjálfa þurfi flugmann á nýja flugvél teljist það ný staða óháð því hvaða ástæður það raunverulega séu sem kalli á nýja þjálfun. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar verði því til nýjar stöður í þeim skilningi þó að þær séu til komnar vegna samdráttar í rekstri.

Samkvæmt skýru orðalagi 4. gr. samkomulagsins frá 1999 skuli allar nýjar stöður flugmanna og flugstjóra á Fokker 50 flugvélum vera mannaðar með flugmönnum Flugfélags Íslands. Með nýjum stöðum sé því átt við þær stöður sem losni þegar flugmenn Flugleiða hf. hætta hvort heldur sé vegna flutnings yfir á þotur Flugleiða hf. eða vegna uppsagna. Við það verði þær samkvæmt samkomulaginu að nýjum stöðum hjá Flugfélagi Íslands sem manna skuli með flugmönnum þess félags enda sé um að ræða störf á þess vegum.

Skilningur allra þriggja aðila samkomulagsins hvað þetta varðar sé sá sami. Vísast þar til þess að stjórn FÍA hafi lýst þeirri skoðun sinni að það sé Flugfélags Íslands að manna stöðurnar á Fokker 50 flugvélunum þegar Flugleiðamönnum hafi verið sagt upp.

Ljóst sé að vakað hafi fyrir samningsaðilum að starfsaldurslistar félaganna yrðu að fullu aðskildir. Fyrir það hafi allir flugmenn Flugleiða hf. fengið 12% hækkun grunnlauna og hafi sú hækkun þegar komið að fullu til framkvæmda. Ef fallist yrði á kröfur aðalstefnenda hefði það því í för með sér að forsendur þeirrar greiðslu væru brostnar.

Jafnframt vísast til þess eins og gert sé ráð fyrir í samkomulaginu frá 1999, að Fokker 50 flugvélarnar hafi verið færðar yfir á flugrekendaleyfi Flugfélags Íslands og séu því ekki lengur í leigu hjá félaginu með áhöfn.

Samkomulagið frá 1999 miði að því að þeir flugmenn Flugleiða hf. sem fljúga Fokker 50 flugvélum flytjist af þeim flugvélum. Sé því tekið fram að meðan þessir flugmenn bíði eftir lausri stöðu á þotum Flugleiða hf. og fljúgi Fokker 50 flugvélum muni þeir áfram verða starfsmenn Flugleiða hf. Af orðalagi 5. gr. og anda samkomulagsins í heild sé ljóst að það veiti ekki öðrum flugmönnum Flugleiða hf. en þeim sem flugu á Fokker 50 flugvélunum, við gerð þess, rétt til starfa á þeim vélum. Engin ákvæði séu í samkomulaginu sem gefi flugmönnum Flugleiða hf. forgangsrétt til þeirra starfa né verði slíkur réttur leiddur af öðrum ákvæðum kjarasamnings FÍA og Flugleiða hf.

Meginreglan sé að starfsmenn séu í þjónustu þess vinnuveitanda sem þeir starfi fyrir. Ákvæði 5. gr. samkomulagsins frá 1999 feli í sér frávik frá þeirri meginreglu og sætir því þröngri túlkun.

Við skýringu samkomulagsins verði einnig að taka tillit til áhrifa starfsaldursreglna kjarasamninga FÍA. Samningsaðilum hafi verið fulljóst að við samdrátt í rekstri væru Flugleiðir hf. skuldbundnir til að segja fyrst upp þeim flugmönnum sem hefðu stystan starfsaldur. Meðal þeirra væru að jafnaði þeir flugmenn félagsins sem flygju Fokker 50 flugvélunum. Ef tryggja hefði átt öðrum flugmönnum félagsins forgang til starfa þeirra við þær aðstæður hefði það því þurft að koma fram í samkomulaginu sjálfu.

Eins og kröfugerð stefnenda sé sett fram varði mál þetta ekki nema að litlu og óskilgreindu leyti hagsmuni þeirra sjálfra heldur almenna hagsmunagæslu fyrir alla flugmenn Flugleiða hf. Ekkert liggi fyrir um að aðalstefnendur hafi sem einstaklingar umboð til slíkrar málshöfðunar. Auk þess sem viðurkenningarkrafan lúti að 19 stöðum þótt aðalstefnendur séu 13 og einungis um að ræða 7 flugmenn sem ekki flytjist yfir á þotur Flugleiða hf. Þá sé ekkert vinnuréttarsamband milli Flugfélags Íslands hf. og aðalstefnenda. Beri því að sýkna stefnda af kröfum aðalstefnenda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. tl. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá sé því við að bæta að kröfugerð aðalstefnenda sé illa afmörkuð og virðist fela í sér kröfu um almenna viðurkenningu á því að allir þeir flugmenn sem séu á starfsaldurslista flugmanna Flugleiða á hverjum tíma eigi forgang til 19 staða á Fokker 50 flugvélum á meðan slíkar vélar séu í rekstri hjá Flugfélagi Íslands. Verði fallist á kröfu aðalstefnenda leiddi það því til niðurstöðu sem sé beinlínis andstæð beinum ákvæðum 4., sbr. 5. gr. samkomulagsins frá 1999.

Stefndi byggir fyrst og fremst á samkomulagi Flugleiða hf., FÍA og Flugfélags Íslands frá 29. desember 1999, kjarasamningum þessara aðila og ákvæðum eml. einkum 2. mgr. 16. gr. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.

 

Aðild meðalgöngustefnenda

Aðild meðalgöngustefnenda byggir á 20. gr. laga nr. 91/1991 og hefur ekki sætt andmælum. Meðalgöngustefnendur starfa allir hjá stefnda, Flugfélagi Íslands hf., sem flugmenn. Þeir hafi þannig hagsmuni af því að umsaminn forgangsréttur stefnda, Flugfélags Íslands hf. og FÍA teljist ekki takmarkaður af réttindum annarra manna. Ef kröfur aðalstefnenda næðu fram að ganga myndi réttur meðalgöngustefnenda í raun rýrna að sama skapi.

 

Um frávísunarkröfu

Frávísunarkrafa meðalgöngustefnenda er byggð á því að kröfugerð aðalstefnenda í máli þessu sé andstæð ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um sakarefni, sbr. 24.-27. gr. og 80. gr. laganna.

Aðalstefnendur máls þessa séu starfsmenn Flugleiða hf. sem hafi fengið uppsagnarbréf vegna samdráttar í verkefnum hjá félaginu. Ekkert vinnuréttarsamband eða annað samningssamband sé á milli aðalstefnenda og Flugfélags Íslands hf. og sérstaklega er áréttað að enginn aðalstefnenda sé að fljúga Fokker 50. Hins vegar séu þeir 13 efstu menn á lista þeirra sem séu að missa vinnuna og telja að ef Flugleiðum hf. beri að manna þessar stöður þá haldi þeir vinnunni.

Kröfugerð aðalstefnenda í málinu sé viðurkenningarkrafa sem engin grein sé gerð fyrir hvernig aðalstefnendur geti farið með. Til dæmis lúti viðurkenningarkrafan að 19 stöðum en aðalstefnendur séu 13. Óljóst sé hvernig aðalstefnendur geti ráðstafað kröfu um forgangsrétt sem í eðli sínu sé kollektívur réttur. Þessi skortur á upplýsingum sé vanreifun í skilningi d og e liða 80. gr. eml. og sjálfstæð frávísunarástæða. Meðalgöngustefnendur telja og að tengsl aðalstefnenda við efnisatriði dómkrafna séu ekki fyrir hendi og ekki unnt að ráða slík tengsl af gögnum sem aðalstefnendur hafi lagt fram í málinu.

Ljóst sé af áskilnaði l. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um að dómstólar dæmi sakarefni, að þess sé krafist að um sé að ræða tiltekinn afmarkaðan ágreining sem dómstólar eigi lögsögu um. Í l. mgr. 25. gr. eml. segir að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðilegt efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt sé til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Af hálfu aðalstefnenda hafi ekki verið sýnt fram á að neinu raunverulegu sakarefni í framangreindum skilningi sé til að dreifa, er tengist dómkröfu þeirra né verði lesin út úr viðurkenningarkröfu þeirra nein ákveðin krafa í skilningi 2. mgr. 25. gr. eml. er leitt geti til lykta tiltekið ágreiningsefni, sem þeir hafi lögvarða hagsmuni af að fá skorið úr um sbr. 2. mgr. 25. gr. eml. Í kröfugerð aðalstefnenda felist því í reynd ekki annað en beiðni um lögfræðilega álitsgerð andstætt skýrum fyrirmælum 1. mgr. 25. gr. eml.

Kröfur aðalstefnenda séu ekki svo skýrar og glöggar sem áskilja verði til að þær geti talist dómhæfar, sbr. 25. og 80. gr. eml. Kröfur aðalstefnenda séu ekki nægilega ljósar til að þær geti orðið grundvöllur að dómsorði er geti ráðið til lykta tilteknu sakarefni. Í máli þessu sé þess krafist "að viðurkennt verði að þeir flugmenn sem eru á starfsaldurslista Flugleiða hf eigi forgang til 19 staða á Fokker 50 flugvélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands." Kröfugerð þessi sé í besta falli afar óljós og óafmörkuð. Þannig megi spyrja; Hvað þýðir forgangur? Er það tímabundinn forgangur eða ótímabundinn? Hvers vegna 19 stöður en ekki til dæmis 38 eins og upphafleg tala Flugleiðamanna í þjónustu Flugfélags Íslands hf. var? Felur dómur byggður á þessari kröfu í sér skyldu Flugfélags Íslands til að hafa áfram í rekstri Fokker 50 flugvélar um ókomna tíð? Að mati meðalgöngustefnenda sé málatilbúnaður aðalstefnenda að þessu leyti afar óljós og illa afmarkaður og því ekki dómhæfur samkvæmt 80. gr. eml., sbr. 25. gr. sömu laga.

Með vísan til framanritaðs telja meðalgöngustefnendur að málsókn aðalstefnenda fari í bága við 24.-27. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991 og því beri að vísa málinu frá sbr. 100. gr. laganna.

Meðalgöngustefnendur byggja málatilbúnað sinn á kjarasamningi aðila og meginreglum vinnu- og samningaréttar. Þá byggja meðalgöngustefnendur mála- tilbúnað sinn á lögum nr. 80/1938, sbr. sérstaklega 2. mgr. 45. gr. laganna sbr. og 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en meðalgöngustefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldir og ber því nauðsyn að fá dæmt álag á málskostnað er nemur virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Aðalstefnendur krefjast þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og þeim dæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi meðalgöngustefnenda. Varðandi málshöfðun aðalstefnenda er vísað til 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafi neitað að höfða málið fyrir þeirra hönd og sé málshöfðunarréttur þeirra ekki takmarkaður þegar svo standi á og niðurstaða málsins bindandi fyrir alla flugmenn Flugleiða hf. Málsástæðum meðalgöngu- stefnenda varðandi frávísun málsins er andmælt.

Af hálfu stefnda var því lýst yfir að hann hefði ákveðið að láta frávísunarkröfuna ekki til sín taka.

 

Niðurstaða

Svo sem fram er komið var 45 flugmönnum hjá Flugleiðum hf. sagt upp störfum á síðastliðnu hausti vegna samdráttar í flugrekstri. Flugmenn Flugleiða hf. sem störfuðu á Fokker 50 flugvélum í rekstri Flugfélags Íslands hf. voru þá 19 talsins. Meðal þeirra sem sagt var upp störfum voru 7 flugmenn sem flugu á Fokker 50 vélum hjá Flugfélagi Íslands hf. Jafnframt var 6 flugstjórum Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum sagt upp flugstjórastarfinu og munu þeir flytjast yfir í aðstoðarflugmannsstörf á þotum Flugleiða hf. Við uppsagnir þessar verða 13 stöður lausar á Fokker 50 flugvélum Flugfélags Íslands hf.

Ágreiningurinn í máli þessu snýst fyrst og fremst um það hvernig skipa beri í þær stöður. Varðar hann túlkun á samkomulagi milli Flugleiða hf., Flugfélags Íslands hf. og FÍA um framkvæmd á flutningi Fokker 50 reksturs frá Flugleiðum hf. til Flugfélags Íslands hf. frá 29. desember 1999. Málið á því undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Aðalstefnendur máls þessa eru meðal þeirra flugmanna Flugleiða hf. sem sagt hefur verið upp störfum vegna samdráttar í verkefnum hjá félaginu. Enginn þeirra var meðal flugmanna á Fokker 50 flugvélum. Samkvæmt d-lið 5. gr. starfsaldursreglna flugmanna Flugleiða hf. eiga þeir rétt á endurráðningu í störf hjá félaginu í tvö ár frá því að þeir láta af störfum. Þar sem aðalstefnendur eru með lengstan starfsaldur þeirra sem sagt var upp störfum eiga þeir að öllu jöfnu að ganga fyrir í þau störf sem laus eru eða kunna að losna hjá Flugleiðum hf.

Kröfur aðalstefnenda í málinu eru reistar á framangreindu samkomulagi frá 29. desember 1999. Að mati aðalstefnenda ber að túlka ákvæði 5. gr. þess samnings svo að flugmenn Flugleiða hf. hafi forgangsrétt til að manna stöður á Fokker 50 vélum hjá Flugfélagi Íslands hf. þar til stöður hafa losnað fyrir þá alla á þotum Flugleiða hf. Brotthvarf þeirra flugmanna sem gegndu störfum á Fokker 50 vélunum leiðir að mati aðalstefnenda til þess að Flugleiðum hf. sé rétt og skylt að manna þær stöður að nýju með öðrum flugmönnum félagsins. Uppsagnir flugmanna sem starfa á þotum Flugleiða hf., vegna samdráttar í rekstri, leiði augljóslega ekki til þess að stöður losni.

Aðalstefnendur máls þessa eru 13 efstu menn á lista þeirra flugmanna Flugleiða hf. sem sagt hefur verið upp störfum og telja að þeir haldi vinnunni ef Flugleiðum hf. beri að manna þessar stöður.

Aðalstefnendur sem eru félagar í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna höfða mál þetta sjálfir fyrir Félagsdómi á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður hér að skýra réttarstöðu aðalstefnenda á sama hátt og ræki stéttarfélagið málið í sínu nafni. Þeir hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um réttindi sín á grundvelli samkomulagsins frá 29. desember 1999 og leita viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga 91/1991.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki talið að viðurkenningarkrafa aðalstefnenda feli í sér beiðni um lögfræðilegt álit í skilningi 1. mgr. 25. gr. laga 91/1991.

Viðurkenningarkrafan, eins og hún er framsett, felur það hins vegar í sér að allir þeir flugmenn sem eru á starfsaldurslista Flugleiða hf. eigi forgang til 19 staða á Fokker 50 flugvélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf. án nokkurra takmarkana eða skilyrða. Krafa aðalstefnenda þykir því óljós og ekki nægilega afmörkuð, auk þess sem hún vísar ekki til samkomulagsins frá 29. desember 1999 sem hún er byggð á. Ber því með vísan til d- og e- liða 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga 80/1938, að vísa málinu frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að aðalstefnendur greiði meðalgöngustefnendum 100.000 krónur í málskostnað. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Aðalstefnendur, Jón Einarsson o.fl., greiði meðalgöngustefnendum, Arngrími Arngrímssyni o.fl., 100.000 krónur í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn