Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2002 Innviðaráðuneytið

Ávarp heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra á ráðstefnu um stefnumörkun í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins


06. febrúar 2002
Ávarp ráðherra

Ágætu ráðstefnugestir.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til að setja þessa ráðstefnu og vil ég nota þetta tækifæri til þess að gera grein fyrir stefnumörkun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á sviði upplýsingamála heilbrigðiskerfisins. En stór hluti fyrirlesara dagsins eru þátttakendur í verkefnum á vegum ráðuneytisins eða tengjast þeim með einum eða öðrum hætti.

Heilbrigðis- og tryggingamálráðuneytið mótaði á árunum 1996 - 1998 stefnu sína í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins. Sú stefnumörkun byggist svo aftur á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um Íslenska upplýsingasamfélagið. Það má skipta forgangsverkefnum á þessu sviði í þrennt:

· Heilbrigðisnetið
· Rafrænu sjúkraskrána, og
· Fjarlækningar

Við byrjum á heilbrigðisnetinu sem er efst á forgangslistanum. Heilbrigðisnetinu er ætlað að verða farvegur rafrænna samskipta milli aðila innan heilbrigðisþjónustunnar. Tæknilega samanstendur heilbrigðisnetið af tölvum, fjarskipta- og hugbúnaði ásamt ákveðnum samskipta- og öryggisreglum.

Hér erum við að tala um lokað kerfi í þeim skilningi að flutningsleiðir verða að vera öruggar og um sendingar milli aðila munu gilda strangar öryggis- og starfsreglur.

Almenningur og aðilar utan heilbrigðisþjónustunnar munu jafnframt geta átt rafræn samskipti við starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar eftir ákveðnum reglum. Ennfremur er gengið út frá að allar heilbrigðisstofnanir muni byggja upp eigið innra upplýsingakerfi í samræmi við stefnumörkun ráðuneytisins.

Í verkáætlun fyrsta áfanga heilbrigðisnetins, sem nær til tímabilsins 2000 – 2002, er lýst umfangi heilbrigðisnetsins, hverjir eiga aðild að því, notkunarsviðum netsins og fleiri þáttum. Gerð er grein fyrir þeim stöðlum sem notaðir verða, upplýsingakerfum og gagnagrunnum, öryggismálum, stjórnun og rekstri, helstu verkefnum og fjármálum.

Meginverkefnaflokkar heilbrigðisnetsins eru:

1. Upphafsverkefni.
2. Þróunarverkefni.
3. Verkefni er varða uppbyggingu til lengri tíma.

Alls eru í verkefnaáætluninni skilgreind yfir 20 verkefni og viðfangsefni sem þegar er unnið að eða eru á undirbúningsstigi.

Númer tvö á forgangslistanum er rafræna sjúkraskráin, en á vegum ráðuneytisins hefur verið unnið að gerð kröfulýsingar fyrir sjúkraskrárkerfi og rafræna sjúkraskrá. Þessu verkefni er skipt í þrjá meginþætti:

· Gerð almennrar kröfulýsingar
· Gerð sértækra kröfulýsinga
· Lýsing á sérkröfum aðila

Almenna kröfulýsingin lýsir almennum kröfum um gagnauppbyggingu í rafrænum sjúkraskrám, gagnaöryggi, upplýsingaflæði og öðru því sem öll sjúkraskrárkerfi verða að uppfylla.

Sértækar kröfulýsingar verða gerðar fyrir stofnanir, stofnanahópa og sérsvið innan heilbrigðisþjónustunnar. Nú þegar sendur yfir umfangsmikil vinna við gerð sértækra kröfulýsinga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, innan heilsugæslunnar og víðar.

Tekið skal fram að stofnanir og sérsvið innan heilbrigðisþjónustunnar munu engu að síður njóta allmikils frelsis varðandi eigin kröfur til viðkomandi sjúkraskrárkerfis.

Í heild mynda almenna kröfulýsingin, sértækar kröfulýsingar og sérstakar óskir einstakra stofnana eða sérsviða þær kröfur sem sjúkraskrárkerfi deilda, sérsviða, eða stofnana þurfa að standast.

Fyrirhugað er að almenna kröfulýsingin verði útgáfustýrð og komi út í formlegum auðkenndum útgáfum á vegum ráðuneytisins. Sérstök nefnd á vegum ráðuneytisins mun fylgjast með því að almenna kröfulýsingin endurspegli jafnan þær kröfur sem gerðar eru til sjúkraskrárkerfa. Jafnframt því sem hún fær það hlutverk að skera úr um hvort sjúkraskrárkerfi uppfylli sett skilyrði og kröfur.

Góðir ráðstefnugestir!

Þá er komið að máli sem víðar en hér er ofarlega á baugi en það eru fjarlækningar.

Í ráðuneytinu hafa verið tekin saman drög að áætlun um uppbyggingu fjarlækninga og þegar er unnið að fjölda verkefna á þessu sviði og má þar nefna:

· Fjargreiningu röntgenmynda
· Geðlækningaþjónustu
· Sendingu sónarmynda
· Bráðalækningar
· Háls-, nef- og eyrnaskoðanir
· Fjarmeinaskoðanir
· Speglanir
· Sendingu gagna eins og hjartalínurits og heilalínurits.

Auk þessara verkefna er fræðslustarfsemi einnig vaxandi þáttur á sviði fjarlækninga. Notaður er fjarfundabúnaður til þess að veita heilbrigðisstarfsmönnum aðgang að fræðslufundum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og víðar. Íslensk sjúkrahús hafa jafnframt fengið aðgang að fræðslufundum við erlenda háskóla.

Á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra eru í undirbúningi víðtæk verkefni á sviði fjarlækninga sem annars vegar miða að því að tengja saman stofnanir á þessum landsvæðum, og hins vegar að því að koma þeim í tengsl við sérhæfðar miðstöðvar á hinum ýmsu sviðum læknisfræðinnar.

Eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til þess að bæta heilsufar þjóðarinnar á næstu árum er að nýta okkur upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustunni. Gagnaöflun, bætt skráning, aukið öryggi gagnanna og greiður aðgangur að þeim ræður mestu um árangurinn á þessu sviði. Greiðari aðgangur að heilsufarsgögnum mun til að mynda leiða til skjótari ákvarðana, og meðferð sjúklinga yrði markvissari og áreiðanlegri.

Þar fyrir utan megum við ekki gleyma því, að með upplýsingavæðingunni ættu allar upplýsingar um rekstur að vera til staðar fyrr og auðvelda stjórnendum markvissari stjórnun heilbrigðisþjónustunnar. Þannig geta e.t.v. skapast möguleikar til að nýta þá fjármuni betur sem varið er til heilbrigðismála.

Fyrir nokkrum dögum kynntum við framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Ákvörðunin er rökrétt í framhaldi af sameiningu tveggja spítala og staðsetningin afar skynsamleg, meðal annars vegna nálægðarinnar við Háskóla Íslands.

Það er trú mín að á þessu svæði muni rísa ný þungamiðja þekkingar og rannsókna á sviði heilbrigðis- og upplýsingatækninnar. Þarna verða háskólinn og sjúkrahúsið, þekkingarþorpið, Íslensk erfðagreining og fleiri fyrirtæki sem tengjast þessum stofnunum og ég sé fyrir mér til dæmis að á þessu svæði skapist alveg nýir möguleikar í framtíðinni fyrir fyrirtæki á þessu áhugaverða sviði.

Í framtíðinni mun fyrirtækjum á þessu sviði fjölga, velta þeirra fara vaxandi og einmitt á þessu sviði eigum við þess kost að skapa skilyrði til að bjóða ungu vel menntuðu fólki uppá atvinnutækifæri framtíðarinnar. Ég sé í þessu sambandi fyrir mér framtíð þar sem Landspítali - háskólsjúkrahús gæti orðið hvati til landvinninga á sviði upplýsingatækni. Þetta er vissulega framtíðarsýn, en breytingar eiga sér oft stað fyrr en nokkurn grunar. Ykkar starf er staðfesting á því.

Ráðstefnan er sett.

(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum