Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2002 Matvælaráðuneytið

Tillögur um aðgerðir í byggðamálum 2002-2005 -

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 2/2002


Sjá einnig: Tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005

Ríkisstjórnin samþykkti í dag tillögu Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um að leggja fyrir þingflokka stjórnarflokkanna tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun til fjögurra ára. Í tillögunni er m.a. fjallað um markmið og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu.

Með tillögunni fylgir framkvæmdaáætlun um beinar aðgerðir í byggðamálum á árunum 2002-2005. Þar eru skilgreind 22 verkefni til að ná settum markmiðum og verður einum milljarði króna varið til verkefna á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar á gildistíma byggðaáætlunarinnar. Meginmarkið byggðaáætlunarinnar eru:

· Að draga úr mismun sem er á lífskjörum fólks milli byggðarlaga.
· Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun.
· Að byggja upp sterka byggðakjarna utan höfuðborgarsvæðisins.
· Að efla menningu og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar í búsetu og lífsstíl.
· Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og jöfnun starfsskilyrða.

Sérstök áhersla verður lögð á að þróa viðskiptahugmyndir og verkefni í samvinnu við einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög, háskóla og aðra. Kveðið er á um hvaða ráðuneyti eða stofnanir beri ábyrgð á framkvæmd hverrar tillögu, lagt mat á kostnað eftir því sem hægt er og gert ráð fyrir að sérstök verkefnisstjórn verði skipuð til að hafa yfirumsjón með framkvæmd byggðaáætlunarinnar. Af einstökum tillögum má nefna:

Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri. Komið verður á fót nýsköpunarmiðstöð í fyrirhuguðu rannsóknar- og nýsköpunarhúsi við Háskólann á Akureyri. Áherslur í starfsemi nýsköpunarmiðstöðvarinnar munu taka mið af byggðaáætlun og áherslum Vísinda- og tækniráðs Íslands. Með þessu fyrirkomulagi verði atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni aðlagað nýskipan vísinda- og tæknimála í landinu í samræmi við frumvarp iðnaðarráðherra um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Akureyri mótvægi við suðvesturhornið. Unnin verður sérstök byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Markmið hennar er að efla Akureyri sem byggðakjarna fyrir Norður- og Austurland svo bærinn verði öflugt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Akureyri verður efld sem skólabær og miðstöð menningar og ferðaþjónustu. Unnið verður að flutningi opinberra starfa og verkefna til Akureyrar.

Úttekt á búsetu- og starfsskilyrðum. Fram fari heildarathugun á mismunandi búsetuskilyrðum landsmanna og mat á áhrifum aðgerða hins opinbera til að jafna þau. Jafnframt fari fram athugun á starfskilyrðum atvinnuveganna eftir landshlutum og mat á aðgerðum hins opinbera til að jafna starfsskilyrði þeirra. Á grundvelli rannsókna verði lagðar fram tillögur um aðgerðir.

Öll lögheimili í ljósleiðarasamband? Sérstök áhersla verður lögð á fjarskiptamál. Lagt er til að allir notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga óháð búsetu. Þá verði samgönguráðherra falið að kanna möguleika á að leggja ljósleiðara til allra lögheimila í dreifbýli, áætla kostnað og gera framkvæmdaráætlun.

Fjarnám á háskólastigi og símenntun. Á sviði menntamála er lagt til að nám með fjarskipta- og upplýsingatækni verði eflt þannig að fólki, hvar sem er á landinu, verði gert kleift að stunda háskólanám í fjarnámi. Jafnframt verði möguleikar auknir á Vestfjörðum og Austurlandi til að afla sér háskólamenntunar með því að efla símenntunarmiðstöðvarnar á Ísafirði og Egilsstöðum.

Landsbyggðarafsláttur námslána. Ungu fólki sem sest að á svæðum þar sem skortur er á fólki með háskólamenntun verði boðin tímabundin afsláttur af endurgreiðslu námslána. Við útfærslu á reglum verði höfð hliðsjón af góðri reynslu Norðmanna af samskonar aðgerð.

Byggðaáætlun 2002-2005 og tillögur ráðherra um aðgerðir, eru byggðar á niðurstöðu sex manna verkefnisstjórnar sem ráðherra skipaði vorið 2001 með Pál Skúlason, rektor Háskóla Íslands, sem formann. Einnig voru skipaðir þrír starfshópar til að vinna að undirbúningi byggðaáætlunar og tillagna um aðgerðir. Verkefnisstjórnin skilaði ráðherra tillögum sínum í upphafi árs 2002.
Reykjavík, 8. febrúar 2002.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum