Forsætisráðuneytið

Formlegri tilboðssölu lokið

Fréttatilkynning

Formlegri tilboðssölu lokið á hlutabréfum ríkisins í Símanum

Ákveðið hefur verið að binda endi á það ferli sem staðið hefur yfir að undanförnu og miðað hefur að því að selja umtalsverðan hlut í Landssíma Íslands hf. til kjölfestufjárfestis.
Óvissa, ekki síst á alþjóðlegum fjármálamarkaði og í fjarskiptamálum, er helsta ástæða þess að ekki hefur orðið af sölu í þessu ferli. Stefna stjórnvalda er eftir sem áður að koma hlutabréfum Landssímans í hendur einkaaðila að fullu. Sölu hlutabréfa ríkisins verður því haldið áfram um leið og aðstæður á fjármálamarkaði leyfa og áhugi fjárfesta á að kaupa hlutabréfin á viðunandi verði glæðist.
Undir forystu ríkisins sem stærsta hluthafa í Símanum verður á næstunni lögð áhersla á að efla rekstur fyrirtækisins. Fyrir liggur, m.a. vegna vinnu sem tengist söluferlinu, að ýmis tækifæri í rekstri Símans hafa ekki verið nýtt sem skyldi. Á þeim grundvelli verður áfram unnið að því að auka arðsemi í rekstri fyrirtækisins og bæta þjónustu þess.
Í ljósi þess að ekki hefur orðið af fyrirhugaðri sölu til kjölfestufjárfestis er ríkinu rétt og skylt að bjóða öðrum hluthöfum að innleysa hlutabréf sín í Landssímanum og verður það gert á genginu 5,75. Þrátt fyrir innlausnarskyldu ríkisins eru einstakir hluthafar ekki skyldugir til að þola innlausn hlutabréfa sinna og geta þeir því áfram átt hlutabréf í félaginu óski þeir þess. Hlutabréfin verða áfram skráð á tilboðsmarkaði VÞÍ.
Ítarlega er farið yfir sölu hlutabréfa í Landssímanum og allt söluferlið í hjálagðri greinargerð. Þá fylgir með álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors og Ásgeirs Thoroddsen, hrl. um innlausn hlutabréfa.

Reykjavík, 28. febrúar 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn