Hoppa yfir valmynd
3. maí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þjónusta við fatlaða

Nýjar fréttir
um stöðu mála í þjónustu við fólk sem býr við fötlun.


Í gær 2. maí opnaði Páll Pétursson félagsmálaráðherra nýtt sambýli fyrir fólk sem býr við miklar þjónustuþarfir að Blikaási 1 í Hafnarfirði.


Félagsmálaráðherra undirritaði einnig í gær þjónustusamning við handverkstæðið Ásgarð sem tryggir rekstur þess til næstu fjögurra ára.

Í ræðum sínum í gær nefndi ráðherra önnur verkefni sem ráðuneytið vinnur að um þessar mundir:

1. Undirritaður hefur verið samningur um þjónustu svæðisskrifstofu Reykjaness við 20 fyrrum íbúa Kópavogshælis. Er nú unnið að því í samstarfi við ÖBÍ að finna húsnæði fyrir þennan hóp í sambýlum á höfuðborgarsvæðinu. Mun því verkefni ljúka í síðasta lagi í maí á næsta ári.

2. Í ráðuneytinu er nú lögð mikil áhersla á fjölgun sambýla á höfuðborgarsvæðinu. Auk sambýlisins við Blikaás 1 munu tvö ný sambýli fyrir mikið fatlaða einstaklinga hefja starfsemi síðar á þessu ári. Verða þannig til 16 ný búsetuúrræði.

3. Síðar á þessu ári tekur til starfa ný skammtímavistun í Reykjavík sem verður betur í stakk búin til að þjóna mikið fötluðum einstaklingum en verið hefur. Gert er ráð fyrir að 15-20 einstaklingar muni nýta sér hana.

4. Unnið er að endurskipulagningu Tjaldaness heimilisins í Mosfellsbæ með það að markmiði að auka lífsgæði þeirra sem þar búa og gera þeim kleift sem þess óska að flytjast á sambýli.

5. Hafin er fagleg og fjárhagsleg úttekt á starfsemi Greiningarstöðvarinnar í þeim tilgangi að styrkja rekstrargrundvöll starfseminnar og skapa stöðinni verðugan sess í þjónustu við fatlaða til framtíðar. Gert er ráð fyrir að stefnumörkun sem byggir á grundvelli þessarar úttektar liggi fyrir um næstu áramót.

6. Félagsmálaráðuneytið mun væntanlega taka í notkun nýjan íbúðakjarna í Mosfellsbæ í byrjun næsta árs. Gert ráð fyrir því að þar muni fimm einstaklingar fá þjónustu. Íbúðirnar eru byggðar í samstarfi við húsbyggingasjóð Þroskahjálpar.

7. Félagsmálaráðuneytið hefur haft málefni Múlalundar til skoðunar undanfarna mánuði. Ráðuneytið mun beita sér fyrir því að lausn verði fundin á rekstrarvanda staðarins til frambúðar.

7. Á næstunni mun fara fram skoðun í ráðuneytinu á því hvernig helst verði staðið að stefnumótun í málaflokki fatlaðra til framtíðar. Þess er vænst að grunnhugmyndir liggi fyrir um næstu áramót.

Það er von félagsmálaráðherra að ráðuneytið geti átt gott samstarf við alla þá aðila sem að málaflokki fatlaðra koma.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum