Hoppa yfir valmynd
23. maí 2002 Innviðaráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru Reykjavíkurhafnar, Hafnarfjarðarhafnar og Akraneshafnar um mönnun á dráttarbátum.


Þann 4. apríl 2002 var í samgönguráðuneytinu tekið til afgreiðslu erindi Jóns A. Ingólfssonar, f.h. Reykjavíkurhafnar, Hafnarfjarðarhafnar og Akraneshafnar, dags. 18. október 2001, þar sem kærður er úrskurður mönnunarnefndar fiskiskipa, mál nr. MV11/200 frá 6. september 2001 þar sem hafnað er umsókn kærenda um mönnun réttindamanna á dráttarbátum þessara hafna. Af því tilefni er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:


I. Aðild kærumáls og kröfur.

Með stjórnsýslukæru, dagsettri 18. október 2001, kærir Jón A. Ingólfsson, f.h. Reykjavíkurhafnar, Hafnarfjarðarhafnar og Akraneshafnar, sem gera út dráttarbátana Jötunn RE, Hamar HF og Leyni AK, ákvörðun mönnunarnefndar fiskiskipa frá 6. september 2001 um að hafna umsókn kærenda um að manna dráttarbátana með einum réttindamanni, þ.e. skipstjóra með réttindi vélstjóra eða vélavarðar ásamt einum aðstoðarmanni í ferðum bátanna og smærri verkefnum hvers báts fyrir sig innan ofangreindra heimahafna.
Kærendur fara þess á leit að ráðuneytið hnekki úrskurðum mönnunarnefndar og heimili frávik skv. 6. gr. l. nr. 113/1984 um mönnun nefndra báta.

II. Málsatvik.
Seinni hluta árs 2000 og fyrri hluta árs 2001 endurnýjuðu Reykjavíkurhöfn, Hafnarfjarðarhöfn og Akraneshöfn dráttarbáta sína. Í kjölfarið fór Reykjavíkurhöfn þess á leit við Mönnunarnefnd með bréfi dags. 20.03. 2001 að heimilað yrði að manna nýja hafnarbátinn Jötunn með einum manni með skipstjórnarréttindi í smærri verkefnum innan Reykjavíkurhafnar. Mönnunarnefnd kvað upp úrskurð dags. 11.04. 2001 þar sem hafnað var erindi Reykjavíkurhafnar og jafnframt kveðið upp úr með það að á bátinn skuli skrá að lágmarki tvo menn, þ.e. skipstjóra og vélstjóra. Reykjavíkurhöfn óskaði eftir endurskoðun úrskurðarins, með bréfi til Mönnunarnefndar dags. 30.04. 2001. Er þar m.a. vísað til úrskurðar nr. 43-49 frá 1987 um mönnun dráttarbátanna Haka og Magna, en Jötunn kom í stað þeirra.
Með bréfi dags. 29.05. 2001 fóru útgerðir Reykjavíkurhafnar, Hafnarfjarðarhafnar og Akraneshafnar þess á leit við nefndina að mál þeirra væru sameinuð og breyttu kröfugerð sinni í þá veru, að í stað þess að fá að sigla bátunum með einum manni sem hefur skipstjórnarréttindi, þá verði heimilað að manna bátana með einum manni sem hefur bæði skipstjórnar- og vélstjóraréttindi ásamt einum aðstoðarmanni. Með bréfi dags. 15.06. 2001 leitaði Mönnunarnefnd umsagna og frekari upplýsinga hjá Siglingastofnun Íslands, Reykjavíkurhöfn, Hafnarfjarðarhöfn og Akraneshöfn. Í bréfi Reykjavíkurhafnar dags. 20.06. 2001 og Akraneshafnar dags. 19.06. 2001 eru ítrekuð þau rök að farsvið bátanna sé lítið, þ.e. ávallt innan hafna, vísað er til fyrrnefnds úrskurðar frá 1987 og tiltekin þau réttindi sem áhafnameðlimir munu hafa, þ.e. skipstjórnarréttindi ásamt vélstjóra- eða vélavarðaréttindum.
Í umsögn Siglingastofnunar dags. 20.07. 2001, kemur fram að hún geti fyrir sitt leyti fallist á umbeðna mönnun. Auk þessa leitaði Mönnunarnefnd upplýsinga um mönnun sambærilegra hafnarbáta í Danmörku. Í tölvupósti dags. 22.08.2001 frá hafnaryfirvöldum í Danmörku kemur fram að þar sé gerð krafa til að sambærilegir dráttarbátar þar skuli mannaðir skipstjóra, vélstjóra og aðstoðarmanni. Útgerðir hafnanna leituðu álits Einars Hermannssonar skipaverkfræðings á álitaefninu. Í svari hans dags. 22.08. 2001 kemur fram að í Hollandi, Þýskalandi, Englandi og Norður-Írlandi væri umbeðin mönnun hafnanna, sambærilegra dráttarbáta á umræddu farsviði alls staðar talin nægileg.
Mönnunarnefnd kvað upp úrskurð 06.09. 2001, mál nr. Mv 11/2001, þar sem hún hafnaði erindi útgerða hafnanna á umbeðinni mönnun á hinum nýju dráttarbátum.
Með bréfi dags. 18.10. 2001 kærðu Reykjavíkurhöfn, Hafnarfjarðarhöfn og Akraneshöfn nefndan úrskurð til samgönguráðuneytisins. Með bréfi dags. 05.12. 2001 leitaði ráðuneytið umsagnar Siglingastofnunar og Mönnunarnefndar. Í svari Siglingastofnunar dags. 07.12. 2001 er vísað til fyrri umsagnar stofnunarinnar til Mönnunarnefndar. Mönnunarnefnd sendi umsögn dags. 18.12. 2001 þar sem færð eru frekari rök fyrir niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

. Fram kemur að nýju bátarnir séu örlítið stærri en þeir eldri og með nýjustu gerð af stjórn- og vélareftirlitsbúnaði í brú. Tekið er sem dæmi að Jötunn RE sé 3,07 bt. stærri en gamli Jötunn og vélarnar stærri sem nemi 2 x 83 kw., en annar búnaður allur fullkomnari.

III. Málsástæður og rök kærenda.
Eins og fyrr segir fara kærendur þess á leit að fá að manna nýju dráttarbátana með einum manni með skipstjórnarréttindi, sem jafnframt hafi vélstjórnarréttindi eða réttindi vélavarðar ásamt einum aðstoðarmanni. Tekið er fram að þessi mönnun eigi einungis við innan hafnarsvæðanna og til smærri verkefna.
Í máli útgerðanna kemur fram að í hverjum báti séu tvær sjálfstæðar vélar og allur búnaður til eftirlits og stjórnunar þeirra sé í stýrishúsi og lúti stjórn skipstjóra þar. Hverfandi líkur séu á að báðar vélarnar bili í einu en vilji svo ólíklega til er hægur vandi að fá hjálp úr landi sökum þess hve farsviðið er lítið. Jafnframt er tekið fram að allt viðhald og eftirlit með búnaði bátanna sé eins og best verði á kosið. Kærendur benda á að allt frá árinu 1987 hafi mönnun dráttarbáta verið með þeim hætti sem farið er fram á í kæru þessari sbr. úrskurð nr. 43-49 og af því sé bæði víðtæk og farsæl reynsla. Að lokum lögðu kærendur fram niðurstöður Einars Hermannssonar, skipaverkfræðings, þar sem hann kannaði mönnun sambærilegra dráttarbáta í 4 löndum; Hollandi, Englandi, Þýskalandi og Norður-Írlandi. Í álitsgerðinni segir: "..þá er ljóst að fyrri mönnun umræddra báta hérlendis, þ.e. skipstjóri með vélavarðaréttindi og ófaglærður háseti, myndi í öllum umræddum löndum vera umtalsvert meira en næg forsenda siglingasvæðis fyrir umrædda báta sem nemur t.d. öllum Faxaflóanum."
Að lokum er ítrekað að einungis sé beðið um undanþágu á mönnun til minni verkefna og innan skilgreindra hafnarsvæða.


IV. Málsástæður og rök mönnunarnefndar:
Ráðuneytið gaf mönnunarnefnd kost á að tjá sig um efni kærunnar. Í umsögn mönnunarnefndar, sem dagsett er 18. desember 2001, kemur fram að hún hafnar sameiginlegu erindi hafnanna um mönnun dráttarbátanna með einum skipstjórnarmanni sem jafnframt hafi réttindi vélstjóra eða vélavarðar ásamt einum aðstoðarmanni þegar bátarnir eru í stuttum ferðum innan hafnanna.
Mönnunarnefnd bendir á í umsögn sinni að skv. núgildandi lögum á að manna umrædd skip með tveimur skipstjórnarlærðum yfirmönnum og tveimur vélstjórnarlærðum. Áður hafði mönnunarnefnd samþykkt beiðnir kærenda um undanþágur í þá veru, að í styttri ferðum innan hafna nægði að hafa einn mann með skipstjórnarréttindi auk eins manns með vélstjórnarréttindi eða vélavarðarréttindi.
Í áliti mönnunarnefndar er vitnað til reglna sem gilda í Danmörku. Þar segir að bátur sem er 42 brt. með vélarstærð 2 x 348 kW sé aldrei mannaður þannig að sami maður hafi skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi. Ávallt þurfi að vera einn skipstjóri auk vélstjóra, og er það rökstutt með því að komi upp vélarbilun verði skipstjóri að vera í brúnni á meðan vélstjóri sé undir þiljum að gera við vél.
Þá er vitnað til úrskurðar frá 1987 þar sem heimilað var að manna svipuð skip með einum réttindamanni. Vísar formaður mönnunarnefndar til samtala er hann áttti við starfsmenn hafnarinnar þar sem fram hafi komið, að sú tilhögun hafi verið starfsmönnunum þyrnir í augum og þeir óttast um öryggi sitt.
Að lokum leggur formaðurinn til að fastsett verði sú regla að aldrei séu færri en tveir menn um borð í dráttarskipum, hvort heldur er innan hafnar eða utan, og að vélstjórnar- og skipstjórnarréttindi séu ekki á sömu hendi.


V. Álit og niðurstaða ráðuneytis.
Í c-lið 2. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum segir að lágmarksfjöldi vélstjóra á skipi með 221-750 kw. vél skuli vera tveir, einn yfirvélstjóri og einn vélavörður. Í b-lið 4. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 segir að 2 stýrimenn skuli vera á skipum sem eru 301 rúmlest og stærri.
Í 19. gr. l. nr. 112/1984 og 6. gr. l. nr. 113/1984 eru samhljóða ákvæði þar sem segir að samgönguráðherra skipi mönnunarnefnd sem hefur heimild til þess:
1) Að ákveða frávik frá ákvæðum laganna um fjölda skipstjórnarmanna eftir því sem tilefni gefst til, svo sem vegna tæknibúnaðar, gerðar og/eða verkefnis skips, hvort sem er til fjölgunar eða fækkunar þar sem m.a. skal taka tillit til vinnuálags sem breytingin kann að hafa í för með sér.
2) Að heimila tímabundna breytingu á mönnun skips til reynslu með skilyrðum sem nefndin setur. Reynslutími sé þó ekki lengri en 6 mánuðir í senn.
Nefndin skal leita umsagnar Siglingastofnunar varðandi öryggi og búnað.

Í umsögn Siglingastofnunar Íslands, dags. 20. júlí 2001 segir: "Beiðni útgerðanna er að skipstjóri gegni einnig stöðu vélstjóra eða vélavarðar og muni hann hafa vélstjóraréttindi ásamt skipstjórnarréttindum. Einnig mun aðstoðarmaður vera í áhöfn hafnsögubátanna. Siglingastofnun getur fyrir sitt leyti fallist á þessa mönnun með þeim takmörkunum sem fram koma í hjálögðum gögnum"
Með vísan til þess hve farsvið bátanna er lítið, að í þeim eru tvær sjálfstæðar vélar og í ljósi reynslu af mönnun eldri báta telur ráðuneytið að rök leiði til þess að heimila tímabundna undanþágu til reynslu á mönnun dráttarbátanna þriggja, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Undanþágan felst í því að heimilað er að manna bátana þrjá, Jötunn í Reykjavík, Leyni á Akranesi og Hamar í Hafnarfirði þannig að ávallt sé einn skipstjóri um borð sem einnig hefur vélstjóraréttindi ásamt einum aðstoðarmanni. Undanþágan er bundin þeim skilyrðum að bátarnir séu innan skilgreindra hafnarsvæða hafnanna þriggja sbr. 1.gr. reglugerðar nr. 130/1986 um Reykjavíkurhöfn, 1.gr. reglugerðar nr. 375/1985 um Hafnarfjarðarhöfn og 1.gr. reglugerðar nr. 438/1988 um Akraneshöfn. Undanþága þessi gildir í sex mánuði til 4. september 2002.

Úrskurðarorð:

Úrskurður mönnunarnefndar frá 6. september 2001 um mönnun dráttarbátanna Jötuns í Reykjavíkurhöfn, Leynis í Akraneshöfn og Hamars í Hafnarfjarðarhöfn er felldur úr gildi.

Heimil er tímabundin breyting á mönnun fyrrgreindra báta til reynslu næstu 6 mánuði, þ.e. til 6. október 2002, enda séu þeir á siglingu innan skilgreindra hafnarsvæða Reykjavíkurhafnar, Akraneshafnar og Hafnafjarðarhafnar og þeim sé stýrt af skipstjóra sem hefur einnig full vélstjóraréttindi auk þess sem hann njóti ávallt aðstoðarmanns.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum