Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 8/2002. Úrskurður kærunefndar

Úrskurður kærunefndar útboðsmála þriðjudaginn 4. júní 2002


í máli nr. 8/2002:


A.B. Pípulagnir ehf.


gegn


Reykjavíkurborg.


Með bréfi 26. mars 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kæra A.B. Pípulagnir ehf., útboð Reykjavíkurborgar auðkennt Fóðrun holræsa 2002, 2003 og 2004". Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða um að taka tilboði Fóðrunar ehf. verði felld úr gildi og breytt á þá leið að tekið verði tilboði kæranda, en ella verði lagt fyrir kærða að bjóða innkaupin út á nýjan leik. Til vara krefst kærandi þess að látið verði uppi álit á skaðabótaskyldu kærða. Kærandi krefst einnig kostnaðar við að halda kærunni uppi.


Af hálfu kærða er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.


Af hálfu kæranda var þess krafist að samningsgerð kærða yrði stöðvuð um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði frá innkaupastofnun kærða 27. mars 2002 var skrifað undir samninga í framhaldi af útboðinu að morgni þess dags. Að þessu virtu og með vísan til 1. mgr. 83. gr. laga nr. 94/2001 voru ekki talin efni til að fjalla um kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir í sérstakri ákvörðun.


I.


Mál þetta varðar útboð kærða á fóðrun í fráveitulagnir í holræsakerfi hans. Kostnaðaráætlun verksins hljóðaði uppá 142.563.000 kr. Alls buðu þrír aðilar í verkið og átti kærandi lægsta tilboð. Í útboðsgögnum var ekki greint frá forsendum fyrir vali á tilboði, en af málatilbúnaði kærða verður ráðið að taka hafi átt lægsta tilboði sem fullnægði skilmálum útboðsins. Þrátt fyrir þetta var af hálfu kærða ákveðið að hafna tilboði kæranda og taka næstlægsta tilboði. Var sú ákvörðun studd við bréf gatnamálastjóra kærða 15. febrúar 2002, þar sem lagt var til að tilboði kæranda yrði hafnað með vísan til þess að tæknileg geta hans væri ófullnægjandi. Nánar tiltekið segir í bréfi gatnamálastjóra að komið hafi í ljós að kærandi sé nýtt fyrirtæki og eigendur þess hafi enga reynslu af sambærilega verkum; kærandi hafi ekki yfir að ráða tækjabúnaði til verksins, en hyggist útvega hann erlendis frá komi til samningsgerðar; að upplýsingar um eiginleika og gerð fóðrunar sem lagðar voru fram með tilboði hafi ekki verið fullnægjandi og sama gildi um viðbótarupplýsingar sem kærandi hafi lagt fram eftir opnun tilboða; og loks að ráðgjafi kærða við útboðið hafi metið það svo eftir viðræður við kæranda að veigamikill hluti einingaverða hans væri óraunhæfur. Í útboðsgögnum kærða er ekki að finna sérstök ákvæði um hvaða kröfur séu gerðar til tæknilegrar getu bjóðenda. Þá er þar ekki að finna sérstaka lýsingu á því hvaða gögn krafist er að bjóðandi leggi fram eða kunni að verða krafinn um að leggja fram til sönnunar á tæknilegri getu sinni, sbr. til hliðsjónar 31. gr. laga nr. 94/2001.


II.


Samkvæmt 10. gr. laga nr. 94/2001 taka ákvæði 2. þáttar laganna ekki til innkaupa sveitarfélaga, en í þeim þætti koma fram efnisreglur laganna um skyldu opinberra aðila til útboðs og nánari framkvæmd útboða. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 94/2001 kemur einnig skýrt fram að sveitarfélög þurfi einungis að haga innkaupum sínum til samræmis við lögin, ef þau ná viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt 56. gr. laganna. Eru þannig ekki lagðar ríkari skyldur á herðar íslenskum sveitarfélögum og stofnunum þeirra en leiðir af skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í athugasemdunum er þó minnt á að jafnvel þegar innkaup sveitarfélaga falli ekki undir efnisreglur laganna, beri þeim að virða grunnreglur meginmáls EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Við þetta má því bæta að um slík innkaup sveitarfélaga gilda jafnframt almennar reglur stjórnsýsluréttar, sbr. einkum stjórnsýslulög nr. 37/1993, og almennar reglur um útboð, ef innkaup eru boðin út.


Í samræmi við framansagt falla innkaup sveitarfélaga því aðeins undir efnisreglur laga nr. 94/2001 að þau séu yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Ef svo á við gilda efnisreglur 2. þáttar laganna um innkaup sveitarfélag að því marki sem ekki er kveðið á um annað í ákvæðum 3. þáttar þeirra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laganna, enda er að því stefnt með lögunum að sem einsleitastar reglur gildi um útboð yfir og undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Þó ber að hafa í huga að sveitarfélag getur ákveðið að bjóða út innkaup, sem ekki ná viðmiðunarfjárhæðum, á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 66. gr. laganna og gilda þá um slík innkaup reglur 3. þáttar laga nr. 94/2001.


Að virtum gögnum málsins þykir ljóst að umrætt útboð varðaði verksamning í skilningi 4. mgr. 4. gr. laga nr. 94/2001. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 513/2001 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup er viðmiðunarfjárhæðin fyrir verkframkvæmdir þegar sveitarfélög eiga í hlut 396.680.000 kr. Samkvæmt þessu varðaði hið kærða útboð innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki liggur fyrir að útboðið hafi þrátt fyrir þetta verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu þannig að 66. gr. laganna eigi við um það. Í samræmi við það sem áður segir giltu reglur laga nr. 94/2001 því ekki um útboðið.


Kærunefnd útboðsmála er aðeins til þess bær að fjalla um ætluð brot á lögum nr. 94/2001 og reglum settum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 75. gr. laganna. Með hliðsjón af því að lög nr. 94/2001 giltu ekki um umrætt útboð getur nefndin ekki tekið efnislega afstöðu til kærunnar. Verður því ekki hjá því komist að hafna öllum kröfum kæranda.


Úrskurðarorð :


Hafnað er kröfum kæranda, A.B. Pípulagna ehf., í tilefni af útboði kærða Reykjavíkurborgar auðkennt Fóðrun holræsa 2002, 2003 og 2004".Reykjavík, 4. júní 2001.


Páll Sigurðsson


Anna Soffía Hauksdóttir


Auður FinnbogadóttirRétt endurrit staðfestir.


04.06.02
Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn