Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 10/2002. Úrskurður kærunefndar

Article

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 6. júní 2002

í máli nr. 10/2002:

Lúkas D. Karlsson ehf.

gegn

Ríkiskaupum.

Með bréfum 9. apríl 2002 og 22. apríl 2002 kærir Lúkas D. Karlsson ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 12974 auðkennt „Tæki og innréttingar í skolherbergi, Barnaspítali Hringsins". Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða um að taka tilboði A. Karlssonar hf. verði felld úr gildi og lagt fyrir kærða að taka tilboði kæranda.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

I.

Með hinu kærða útboði leitaði kærði, fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins, eftir tilboðum í tæki og innréttingar ásamt uppsetningu þeirra í skolherbergi í nýbyggingu Barnaspítala Hringsins. Helstu tæki sem óskað var kaupa á voru uppþvottavél með sótthreinsun, skoltæki, hitaskápur fyrir bekjur, sýnageymsluskápur, stálskápur með lás og stálvinnuborð. Samkvæmt 2. lið útboðslýsingar skyldi bjóðandi afhenda ítarlegar upplýsingar um tækin, staðsetningu stúta og tengingu fyrir allan aukabúnað. Öll framleiðsla sem boðin væri skyldi vera vottuð samkvæmt viðurkenndu gæðakerfi (DIN EN 46001 eða sambærilegu). Bjóðandi skyldi leggja fram allar vottanir og prófanir um að búnaður uppfyllti kröfur, sem gera mætti til hans með tilliti til mikillar notkunar á sjúkrahúsi, ef þess væri óskað af eftirlitsmanni kaupanda. Vélar og innréttingar skyldu þannig gerð að auðvelt væri að þrífa í kringum þær. Allar stálinnréttingar skyldu vera úr sýruheldu ryðfríu stáli, ANSI 316. Þá skyldi bjóðandi sýna fram á nægjanlega styrk og fjölda festinga með tilliti til festingar í gifsvegg.

Í lið 2.1.2. í útboðslýsingu er skoltæki nánar lýst. Þar kemur meðal annars fram að tækið skuli hafa sjálfvirkan opnunarbúnað tengdan fótstigi og með sjálfvirkum viðsnúningi á bekju og þvagflöskum til tæmingar. Vinnuhæð vélarinnar skyldi vera 90 sm yfir gólfi. Þá segir eftirfarandi : „Tæki er vegghengt á gifsvegg og skal allur nauðsynlegur búnaður þar að lútandi, styrkingar í vegg, festingar o.þ.h. til að ganga frá uppsettu tæki, vera innifalinn [sic] í verði. Skoltækið á að vera byggt fyrir 400V 50Hz, 3ja fasa og vera úr ryðfríu stáli. Skoltækið skal hafa CE merkingu og uppfylla alla nauðsynlega staðla."

Áður en tilboðsfrestur rann út bárust nokkrar fyrirspurnir til kærða um nánari skýringu á útboðsgögnum. Í símbréfi kærða, sem samkvæmt upplýsingum kærða var sent bjóðendum 26. febrúar 2002, kom meðal annars fram að veggir væru ófrágengnir og yrðu þeir styrktir til samræmis við kröfur framleiðanda. Spurningu um hvort gert væri ráð fyrir að skoltæki stæði á gólfi eða væri alfarið vegghengt var svarað með eftirfarandi hætti: „Skoltæki, bekjuskoltæki, skal hengt á vegg. Sjálfvirkur opnunarbúnaður á tækinu sbr. verklýsing skal tengdur fótstigi, þetta er gert vegna kröfu um smitvarnir og hreinlæti á sjúkrahúsum."

Samkvæmt lið 1.2.5. í útboðslýsingu skyldi meta hagkvæmni tilboða með hliðsjón af eftirfarandi atriðum: verð (60%); tæknileg útfærsla og notkunarmöguleikar (30%); þjónusta (10%).

Tilboð voru opnuð 7. mars 2002. Alls buðu 6 aðilar í innkaupin og átti kærandi lægsta tilboð. Samkvæmt því sem fram kemur í athugasemdum kærða kom í ljós að tilboð kæranda uppfyllti ekki kröfur útboðsgagna. Fylgdu þannig ekki aðrar upplýsingar en verð um önnur tæki en uppþvottavél og skoltæki. Með bréfi kærða 14. sama mánaðar var óskað eftir nánari upplýsingum (þ.á m. tæknilegum upplýsingum) um eftirfarandi liði samkvæmt útboðslýsingu: 2.1.3. Hitaskáp fyrir bekjur; 2.1.4. Sýnageymslukæliskáp; 2.1.5. 9. Innréttingar. Óskað var eftir þessum upplýsingum fyrir 15. sama mánaðar eða daginn eftir, en ella yrði tilboðið talið ógilt. Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi m.a. fram yfirlýsingu frá fyrirtækinu Frostverk, sem annast átti smíði framangreindra tækja og stálinnréttinga. Í yfirlýsingu Frostverks kom m.a. fram að tæki fyrirtækisins væru framleidd í samræmi við þá staðla sem í gildi væru (CE-merkt).

Þær viðbótarupplýsingar sem bárust í framhaldi af bréfi kærða 14. mars 2002 voru ekki taldar fullnægjandi af hálfu kærða. Þann 8. apríl 2002 var bjóðendum tilkynnt um að ákveðið hefði verið að taka tilboði A. Karlssonar hf., en tilboðið var hið fjórða lægsta. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi kærða fyrir þessari ákvörðun. Í rökstuðningi kærða 15. apríl 2002 kemur fram að talið hafi verið að tilboð kæranda uppfyllti ekki skilyrði útboðslýsingar um búnað. Þá hefðu þau gögn sem bárust eftir opnun tilboða ekki verið fullnægjandi. Síðan segir að af innsendum gögnum hafi ekki mátt ráða annað en að skoltæki (sbr. lið 2.1.2. í útboðslýsingu) hafi átt að standa á gólfi. Engar upplýsingar hafi fylgt um hvort hengja mætti tækið á vegg, þrátt fyrir skýrar kröfur um það í útboðslýsingu. Í annan stað kemur fram að gögn um hitaskáp, sýnageymsluskáp og innréttingar (sbr. liði 2.1.3.-9.) hafi verið ófullnægjandi þrátt fyrir þær viðbótarupplýsingar sem bárust frá kæranda. Engar myndir, teikningar né skriflegar tæknilegar útfærslur á boðnum tækjum hafi fylgt með, auk þess sem engar staðfestingar hafi fylgt um að framleiðslan væri vottuð skv. viðurkenndum gæðakerfum DIN EN 46001 eða sambærilegu.

Í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn um hvernig staðið var að mati þeirra tilboða sem talin voru gild.

II.

Kærandi telur í fyrsta lagi að útboðsgögn hafi verið aðlöguð að einni vörutegund með því að krafist hafi verið að skoltæki væri fest á vegg. Í annan stað telur hann að teikningar og útboðslýsing hafi stangast á, en af teikningum verði ekki ráðið að skoltæki eigi að festa á vegg. Í þriðja lagi telur hann að ekki hafi mátt ráða af útboðsgögnum að þess væri skýlaust krafist að mögulegt væri að festa skoltæki á vegg, en skilja hafi mátt útboðsgögn á þá leið að þessi krafa ætti aðeins við um innréttingar. Í fjórða lagi fullyrðir kærandi að unnt sé að festa skoltæki hans á vegg. Hins vegar hafi kærandi ekki óskað eftir neinum nánari upplýsingum um þetta atriði. Að lokum telur kærandi að það mat kærða að framleiðsla Frostverks fullnægi ekki kröfum útboðsgagna og þeim stöðlum sem þar er vísað til sé fráleitt og ólögmætt.

Kærði mótmælir því að útboðsgögn hafi verið aðlöguð að einni vörutegund og bendir á í því sambandi að vitað sé um a.m.k. þrjá framleiðendur sem bjóði fram skoltæki sem festa megi á vegg. Einnig bendir kærði á að krafan um að tækið megi festa á vegg styðjist við heilbrigðis- og hollustusjónarmið. Fullyrðingu kæranda um að teikningar og útboðsgögn stangist á er mótmælt sem haldlausri. Hvað varðar frest kæranda til að leggja fram viðbótargögn bendir kærði á að kæranda hafi borið að hafa þessi gögn undir höndum og reiða þau fram með litlum fyrirvara. Kærði leggur áherslu á að þess hafi verið krafist að mögulegt væri að festa skoltæki á vegg. Af tilboði kæranda hafi hins vegar ekki mátt ráða að unnt væri að festa tæki hans á vegg. Í gögnum kæranda sjáist skoltækið á gólfi og ekkert bendi til annars en að það sé hannað til þess að standa á gólfi. Þá telur kærði að ef tækið yrði hengt upp á vegg yrði notkun þess erfið án sérstakra lausna sem kærandi hafi ekki komið fram með. Hvað varðar þá málsástæðu að kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að leggja fram viðbótarupplýsingar um þetta atriði bendir kærði á að ekki hafi þótt rétt með tilliti til jafnræðis bjóðenda að kalla eftir upplýsingum um þetta atriði. Gengið hafi verið eins langt í þessu efni og heimilt var með bréfinu 14. mars 2002. Að lokum bendir kærði á að kærandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi tæknilegar upplýsingar um hitaskáp og sýnageymsluskáp. Engar myndir, teikningar eða skriflegar tæknilegar útfærslur hafi verið lagðar fram. Auk þess hafi engar staðfestingar fylgt um að framleiðslan væri vottuð samkvæmt viðurkenndum gæðakerfum DIN EN 46001 eða sambærilegu. Samkvæmt tilboði kæranda hafi verið gert ráð fyrir því að þessir hlutir væru smíðaðir. Af útboðsgögnum hafi hins vegar verið ljóst að óskað var eftir staðlaðri og vottaðri framleiðslu.

III.

Af 49. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup verður ályktað að tilboð skuli fullnægja skilmálum útboðs þegar það er afhent. Er kaupanda sniðinn þröngur stakkur við að gefa bjóðendum kost á því að bæta úr annmörkum á tilboðum sínum eftir opnun þeirra með því að leggja fram viðbótargögn eða færa fram skýringar. Verður ekki á það fallist með kæranda að möguleikar hans til að leggja fram viðbótargögn eða skýra tilboð sitt hafi verið skertir með ólögmætum hætti við framkvæmd útboðsins. Þá verður ekki á það fallist að útboðslýsing í máli þessu hafi miðast við eina vörutegund þannig að bjóðendum hafi verið mismunað eða ósamræmi hafi verið milli útboðslýsingar og teikninga sem fylgdu útboðslýsingu.

Í lið 2.1.2. í útboðslýsingu kemur skýrlega fram sú krafa að skoltæki skuli hengt á vegg. Þetta atriði útboðslýsingar var einnig áréttað í svari kærða 26. mars 2002 þannig að ekki gat miskilist. Í lokamálsgrein liðs 2.1. segir að bjóðandi skuli sýna fram á nægilegan styrk og fjölda festinga með tilliti til festinga í gifsvegg. Þótt nánari festing tækisins væri nokkuð óljós með hliðsjón af því svari kærða í bréfinu 26. mars 2002, að veggir væru ófrágengnir og yrðu styrktir til samræmis við kröfur framleiðenda, gat það allt að einu ekki valdið vafa, að óskað var eftir því, að fram kæmu í tilboði einhverjar upplýsingar um hvort tækið mætti festa á vegg. Að virtum þeim gögnum, sem kærandi lagði fram með tilboði sínu, getur nefndin ekki séð að það skoltæki, sem hann bauð fram, sé festanlegt á vegg, eins og skýrlega var krafist í útboðsgögnum. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að telja að tilboð kæranda hafi verið í ósamræmi við útboðsgögn að þessu leyti. Var kærða því rétt að meta tilboð hans ógilt af þessum sökum. Verður þegar af þessari ástæðu að hafna kröfum kæranda.

Það athugast að sú ákvörðun kærða, að gefa kæranda kost á því að leggja fram viðbótargögn um tiltekin atriði tilboð síns, þegar ljóst var að mati kærða, að tilboðið var ógilt vegna annarra atriða sem ekki var óskað nánari upplýsinga um, samræmdist ekki góðum siðum í útboðsmálum.

Úrskurðarorð :

Hafnað er kröfum kæranda, Lúkasar D. Karlssonar ehf., vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 12974 auðkennt „Tæki og innréttingar í skolherbergi, Barnaspítali Hringsins".

Reykjavík, 6. júní 2002.

Páll Sigurðsson

Anna Soffía Hauksdóttir

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

06.06.02

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn