Velferðarráðuneytið

Mál nr. 5/2002: Dómur frá 26. júní 2002.

Ár 2002, miðvikudaginn 26. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 5/2002:

Alþýðusamband Íslands vegna

Félags íslenskra hljómlistarmanna f.h.

lausráðinna hljómlistarmanna við

Sinfóníuhljómsveit Íslands

gegn

Sinfóníuhljómsveit Íslands

kveðinn upp svofelldur

d ó m u r:

Mál þetta, sem dómtekið var 4. þessa mánaðar, er höfðað 11. apríl síðastliðinn.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Kristján Torfason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson..

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, vegna Félags íslenskra hljómlistarmanna, kt. 530169-5539, Rauðagerði 27, Reykjavík, f.h. lausráðinna hljómlistarmanna við Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Stefndi er Sinfóníuhljómsveit Íslands, kt. 570269-3569, húsi Háskólabíós við Hagatorg, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

Að staðfest verði að launagreiðslur Sinfóníuhljómsveitar Íslands til lausráðinna hljómlistarmanna, er leika með hljómsveitinni, skuli miðast við 1. gr. kjarasamnings, dagsetts 31. maí 2001, milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands, frá 1. maí 2001 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

 

Dómkröfur stefnda 

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

 

Málavextir

Stefndi starfrækir Sinfóníuhljómsveit Íslands og þar starfa bæði fastráðnir hljómlistarmenn og lausráðnir. Einstaklingar beggja hópa eru félagsmenn í Félagi íslenskra hljómlistarmanna sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands.

Um kaup og kjör hljómlistarmannanna hafa verið í gildi tveir kjarasamningar, annars vegar kjarasamningur vegna fastráðinna hljómlistarmanna milli fjármálaráð-herra fyrir hönd ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hins vegar kjarasamningur vegna lausráðinna hljómlistarmanna milli stefnda og Félags íslenskra hljómlistarmanna. Hefur verið í gildi kjarasamningur vegna lausráðinna hljómlistarmanna, sem undirritaður var 15. apríl 1985, en með bréfi, dagsettu 26. júní 2001, sagði framkvæmdastjóri stefnda upp samningnum frá og með 1. júlí 2001.

Í fyrrgreindum kjarasamningi lausráðinna hljómlistarmanna segir í gr. 1.1 að greiðslur til lausráðinna hljóðfæraleikara skuli miðast við 1. gr. aðalkjarasamnings fjármálaráðherra og BHM og síðan eru tilgreindir þeir launaflokkar sem við eiga.  Þá var undirritað viðbótarákvæði í lok kjarasamningsins þess efnis að yrði í komandi samningum við fastráðna hljóðfæraleikara stefnda samið um hærri launaflokka en getið er um í gr. 1.1 skuli þeir einnig gilda um lausráðna hljóðfæraleikara þannig að jafnan sé miðað við sömu launaflokka fyrir fastráðna og lausráðna.

Allt frá gildistöku ofangreinds kjarasamnings til 1. maí 2001 hafa lausráðnum hljómlistarmönnum verið greidd laun í samræmi við launakjör fastráðinna hljómlistarmanna og launin verið greidd af ríkisbókhaldi.  Frá árinu 1985 hafa nokkrir kjarasamningar verið gerðir við fastráðna hljómlistarmenn en ekki við lausráðna. Var síðasti gildandi kjarasamningur við fastráðna hljómlistarmenn undirritaður 31. maí 2001 en tók gildi 1. sama mánaðar.  Er sá samningur á milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Allt frá því kjarasamningurinn við lausráðna hljómlistarmenn var gerður árið 1985 hefur launagreiðandi uppfært laun þeirra til samræmis við breytingar á launakjörum fastráðinna hljómlistarmanna. Frá 1. maí 2001 hafa lausráðnir hljómlistarmenn verið á óbreyttum launum og hefur stefndi ekki viljað fallast á að þeim séu greidd laun til samræmis við kjarasamning fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að í uppsagnarbréfi stefnda frá 26. júní 2001 á kjarasamningi lausráðinna hljómlistarmanna segi að uppsögnin taki gildi frá og með 1. júlí 2001. Í niðurlagi kjarasamningsins komi fram að samningurinn framlengist um þrjá mánuði í senn frá 31. desember 1985 og að segja beri honum upp með mánaðar fyrirvara. Hafi uppsögn hans því ekki orðið að veruleika fyrr en 30. september 2001.  Kjarasamningur fastráðinna hljómlistarmanna hafi því verið búinn að vera í gildi í fimm mánuði við gildistöku uppsagnar kjarasamnings lausráðinna hljómlistarmanna.  Í vinnurétti gildi sú venjuhelgaða regla að sé kjarasamningi sagt upp gildi hann áfram í samskiptum milli aðila þar til nýr samningur hafi verið gerður og verkfall sé ekki skollið á. Með vísan til þess og að í gildi hafi verið kjarasamningur fastráðinna hljómlistarmanna, er uppsögnin tók gildi, telji stefnandi að lausráðnir hljómlistarmenn hjá stefnda eigi að fá greidd laun í samræmi við 1. gr. kjarasamnings, dagsetts 31. maí 2001, milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands og að greiða beri samkvæmt þeim launakjörum frá 1. maí 2001.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til meginreglna vinnuréttarins, til gildandi kjarasamnings fastráðinna hljómlistarmanna, kjarasamnings lausráðinna hljómlistarmanna frá 15. apríl 1985, svo og til laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa stefnda byggist í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnda. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, fari fjármálaráðherra með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt lögunum en ekki einstakar opinberar stofnanir sem eru á fjárlögum eða njóta opinberra fjárframlaga.       Sé stefndi því ekki réttur aðili að máli þessu og beri því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á sýknu vegna aðildarskorts byggir stefndi á því að ekki sé hægt að túlka viðbótarákvæði kjarasamnings lausráðinna hljómlistarmanna á þann hátt að það nái til hvaða kjarasamnings fastráðinna hljómlistarmanna, sem gerður er, óháð því fyrir hvaða vinnufyrirkomulag er greitt. Geti kjarasamningurinn frá 2001 þannig ekki náð til lausráðinna hljómlistarmanna nema þeir séu á sama tíma tilbúnir til þess að vinna samkvæmt þeim ákvæðum sem í samningnum eru nú. Það samrýmist ekki reglum vinnuréttar eða starfsmannaréttar að menn geti valið þau ákvæði úr kjarasamningi, sem eru þeim hagstæð, en hafnað að um þá gildi ákvæði sem baka þeim skyldur í staðinn. Í ,,viðbótarákvæðinu svonefnda sé tekið fram að það nái til ,,komandi samninga. Samningar hafi tekist við fastráðna hljóðfæraleikara rösku ári síðar og hafi þá launaflokkum lausráðinna hljóðfæraleikara verið breytt í samræmi við þann samning og síðar. ,,Viðbótarákvæðinu hafi, eins og sjá megi af samhengi, verið ætlað að hafa tengingu við þá kjarasamninga fastráðinna hljóðfæraleikara, sem þá voru fyrirhugaðir, en verði ekki látið ná til allra framtíðarsamninga, óháð breytingum sem á þeim kynnu að vera gerðar án samþykkis beggja aðila, en frá gildistöku kjarasamnings lausráðinna frá 1985 og til gildistöku kjarasamningsins frá 2001 hafi báðir aðilar ætíð samþykkt að láta ákvæðið ná til þeirra kjarasamninga sem gerðir voru á tímabilinu.

Með hliðsjón af þeirri miklu breytingu, sem gerð hafi verið á vinnuskyldu og vinnutilhögun í kjarasamningnum frá 2001, hafi verið sérstaklega tekið fram í honum að hann tæki til afleysingamanna og sé þeim raðað niður í launaflokka í samningnum. Þannig komi t.a.m. fram í gr. 1.3.1 í samningnum að hljóðfæraleikari, sem telst byrjandi eða er í afleysingum, raðist í launaflokk 001, hljóðfæraleikari, sem staðist hefur hæfnispróf hjá SÍ, raðist í launaflokk 006 og staðgengill í launaflokk 008. Þá segi í gr. 1.3.2 að stofnunin geti raðað hljóðfæraleikurum (öðrum en afleysingamönnum og byrjendum), staðgenglum, þriðja konsertmeistara og leiðandi mönnum allt að tveimur launaflokkum ofar en segir í gr. 1.3.1.

Samkvæmt þessu sé í kjarasamningnum ekki gerður greinarmunur á lausráðnum og fastráðnum hljóðfæraleikara umfram það að lausráðnir hljóðfæraleikarar séu oft ráðnir í afleysingar. Þeir séu þó stöku sinnum ráðnir til viðbótar fastráðnum hljóðfæraleikurum til að leika í ákveðnum verkum. Hvort sem um sé að ræða hljóðfæraleikara, sem ráðnir eru til skamms tíma til afleysinga, eða til viðbótar fastráðnum hljóðfæraleikurum, fari röðun þeirra í launaflokka eftir ofangreindum ákvæðum gr. 1.3.1.

Þá byggist sýknukrafa einnig á því að stefndi hafi, eftir uppsögn á kjarasamningnum við lausráðna hljóðfæraleikara frá 1985, greitt þeim laun í samræmi við lög. Í kjarasamningnum frá 1985 sé tekið fram í gr. 6.1 að hann gildi frá 1. janúar 1985, röðunarákvæði í gr. 1.1 og 1.2 þó frá 1. mars 1985, og framlengist um þrjá mánuði í senn verði honum ekki sagt upp með mánaðar fyrirvara. Felist því í gr. 6.1 sérstakt uppsagnarákvæði sem stefndi hafi nýtt sér.

Með því að greiða lausráðnum hljóðfæraleikurum, eftir uppsögnina á kjarasamningnum frá 1985, áfram samkvæmt síðasta samþykkta kjarasamningi af báðum aðilum og að auki með þeim almennu prósentuhækkunum, sem stærstu samtök launþega og vinnuveitanda höfðu samið um, hafi stefndi fylgt þeirri sérreglu 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1986 að fara skuli eftir eldri kjarasamningi uns nýr kjarasamningur hefur verið gerður. Sé sérregla þessi lögákveðin undantekning frá meginreglunni um samningsfrelsi og að menn geti sagt upp samningum sem þeir hafa gert í samræmi við ákvæði þeirra um uppsögn. Í samræmi við þetta beri að túlka sérreglu þessa og gildissvið hennar þröngt. Geti gildissvið hennar því ekki náð lengra en til þeirra samninga sem falla undir lög nr. 94/1986.

Enn fremur er á því byggt til sýknu að kjarasamningurinn frá 2001 hafi verið staðfestur af Félagi íslenskra hljóðfæraleikara þrátt fyrir að félagið væri ekki samningsaðili og með því megi segja að félagið hafi samþykkt þá vinnutilhögun, sem fram kemur í samningnum, fyrir hönd félagsmanna sinna og því geti félagið ekki nú komið fram og krafist þess að samningurinn gildi einungis að hluta fyrir félagsmenn sína.

 

Niðurstaða

Mál þetta heyrir undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 36/1982 um stefnda, Sinfóníuhljómsveit Íslands, er stefndi sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og lýtur sérstakri stjórn. Þá kemur fram í 3. gr. laganna að rekstraraðilar hljómsveitarinnar eru ríkissjóður (56%), ríkisútvarp (25%), Borgarsjóður Reykjavíkur (18%) og bæjarsjóður Seltjarnarness (1%). Með vísan til framanskráðs er stefndi sjálfstæð stofnun sem getur átt réttindi og borið skyldur að landslögum.

Mál þetta varðar ágreining um skilning á kjarasamningi, dagsettum 15. apríl 1985, milli stefnda, Sinfóníuhljómsveitar Íslands annars vegar og stefnanda, Félags íslenskra hljómlistarmanna hins vegar, um kaup og kjör lausráðinna félagsmanna stéttarfélagsins hjá stefnda. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1982, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 196/1991, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, fer um launakjör og vinnutíma starfsmanna hljómsveitarinnar eftir kjarasamningum þeirra við fjármálaráðherra. Þrátt fyrir þetta hefur því ekki verið haldið fram af hálfu stefnda að stofnunina hafi brostið heimild til að gera greindan kjarasamning frá 15. apríl 1985. Þá liggur fyrir samkvæmt 1. gr. félagslaga Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands að einungis fastráðnir hljóðfæraleikarar hljómsveitarinnar teljast félagsmenn í félaginu. Með vísan til þessa og þar sem einsýnt þykir, gagnstætt því sem stefndi heldur fram, að um mál þetta fari eftir lögum nr. 80/1938, verður að telja að málsókninni sé réttilega beint gegn stefnda. Verður sýknukrafan því ekki tekin til greina á grundvelli aðildarskorts.

Svo sem áður greinir var gerður samningur 15. apríl 1985 milli Sinfóníuhljóm-sveitar Íslands og Félags íslenskra hljómlistarmanna um kaup og kjör lausráðinna hljómlistarmanna við hljómsveitina. Um gildistíma samningsins segir að hann sé frá 1. janúar 1985 til 31. desember sama ár og framlengist um þrjá mánuði í senn verði samningnum ekki sagt upp með eins mánaðar fyrirvara. Þá kemur fram í viðbótarákvæði með samningnum að verði í komandi samningum við fastráðna hljóðfæraleikara hljómsveitarinnar samið um hærri launaflokka en getið er um í samningnum skuli þeir einnig gilda um lausráðna hljóðfæraleikara þannig að jafnan sé miðað við sömu launaflokka fyrir fastráðna og lausráðna [hljóðfæraleikara].

Kjarasamningur var gerður 31. maí 2001 milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands vegna fastráðinna hljómlistarmanna og er gildistími hans frá 1. maí 2001 til 30. nóvember 2004.

Samkvæmt uppsagnarákvæði kjarasamnings lausráðinna hljómlistarmanna í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 15. apríl 1985, sem tók gildi 1. janúar og 1. mars sama ár og skyldi gilda til 31. desember það ár, skyldi samningurinn framlengjast sjálfkrafa um þrjá mánuði í senn yrði honum ekki sagt upp með eins mánaðar fyrirvara. Samningnum var, sem fyrr segir, sagt upp bréflega 26. júní 2001. Samkvæmt framlengingarákvæði samningsins varð uppsögnin því ekki gild fyrr en 30. september 2001 en þá hafði kjarasamningurinn milli stefnda og fastráðinna hljómlistarmanna verið í gildi í fimm mánuði. Eftir gildistöku uppsagnarinnar hefur ekki verið gerður kjarasamningur við lausráðna hljómlistarmenn stefnda sem numið hefur úr gildi fyrrgreint viðbótarákvæði kjarasamningsins frá 15. apríl 1985. Verður því að leggja til grundvallar að launaákvæði samningsins frá 31. maí 2001 við fastráðna hljómlistarmenn gildi einnig um lausráðna hljómlistarmenn stefnda frá 1. maí 2001 og þar til nýr kjarasamningur hefur verið gerður við hina síðarnefndu. Er krafa stefnanda því tekin til greina.

Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.

Dómsorð:

Launagreiðslur stefnda, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, til lausráðinna hljómlistar-manna, er leika með hljómsveitinni, skulu frá 1. maí 2001 miðast við 1. gr. kjarasamnings, dagsetts 31. maí 2001, milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Stefndi greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands vegna Félags íslenskra hljómlistarmanna f.h. lausráðinna hljómlistarmanna við Sinfóníuhljómsveit Íslands, 150.000 krónur í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn