Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 147 um lágmarkskröfur á kaupskipum

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 147 um lágmarkskröfur á kaupskipum

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er kom saman til 62. þingsetu sinnar í Genf hinn 13. október 1976 eftir kvaðningu stjórnar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar

     minnist ákvæða í Tillögu nr. 107 frá 1958 um ráðningu farmanna á skip, sem skráð eru erlendis og Tillögu nr. 108 frá 1958 um félagslegar aðstæður og öryggi farmanna

     hefur samþykkt ákveðnar ábendingar um skip, sem ekki uppfylla gerðar kröfur, einkum þau skip, sem skráð eru undir hagkvæmisfána, sem er 5. mál á dagskrá þingsins, og

     þar sem þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar gerir það í dag hinn 29. október 1976 eftirfarandi samþykkt, sem nefna má Samþykkt um lágmarkskröfur á kaupskipum 1976:

 

1. gr.

1. Ef ekki er annað ákveðið í þessari grein, tekur þessi samþykkt til allra hafskipa bæði í einkaeign og hins opinbera, sem annast flutninga á farmi eða farþegum í atvinnuskyni eða einhverja aðra arðbæra starfsemi.

2. Með lögum eða reglugerðum skal kveða á um það, hvenær skip skuli talin hafskip í merkingu þessarar samþykktar.

3. Þessi samþykkt tekur til dráttarbáta á sjó.

4. Þessi samþykkt tekur ekki til:

     a. skipa, sem aðallega eru knúin seglum, hvort sem þau hafa hjálparvél eða ekki;

     b. skipa, sem stunda fiskveiðar, hvalveiðar eða hliðstæða starfsemi;

     c. smáskipa og farkosta svo sem borpalla þegar þeir eru ekki á ferð.

Ákvörðun um það, hvaða skip falli undir þennan tölulið tekur hlutaðeigandi stjórnvald í hverju landi í samráði við aðalsamtök útgerðarmanna og farmanna.

5. Ekkert í þessari samþykkt skal talið auka gildissvið samþykktanna, sem nefndar eru í viðauka þessarar samþykktar eða ákvæða, sem í þeim felast.


2. gr.

     Sérhvert ríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skuldbindur sig til þess:

a. að hafa lög eða reglugerðir, sem varðandi skip skráð í umdæmi þess hafi að geyma:

     (i) öryggisreglur, þar á meðal reglur um hæfniskröfur, vinnutíma og mönnun, til þess að tryggja mannslíf og öryggi um borð í skipum;

     (ii) ákvæði um viðeigandi félagslegt öryggi;

     (iii) ákvæði um vinnuskilyrði og aðbúnað um borð að svo miklu leyti sem þessi atriði, að dómi aðildarríkisins, eru ekki tryggð með heildarsamningum eða ákveðin af hlutaðeigandi dómstólum á þann hátt að jafn bindandi sé fyrir útgerðarmenn og hlutaðeigandi farmenn;

og að fullvissa sig um að ákvæði slíkra laga og reglugerða samsvari í meginatriðum þeim samþykktum eða greinum samþykkta, sem taldar eru í viðauka með þessari samþykkt, að svo miklu leyti sem aðildarríkið er ekki með öðrum hætti skuldbundið til þess að framfylgja viðeigandi samþykkt;

b. að framfylgja raunhæfri lögsögu eða eftirliti með skipum, sem skráð eru í landi þess, að því er varðar:

     (i) öryggisreglur, þar á meðal reglur um hæfniskröfur, vinnutíma og mönnun, samkvæmt lögum eða reglugerðum;

     (ii) félagslegar öryggisreglur samkvæmt lögum eða reglugerðum;

     (iii) vinnuskilyrði og aðbúnað samkvæmt lögum eða reglugerðum eða úrskurðum hlutaðeigandi dómstóla, sem séu jafn bindandi fyrir útgerðarmenn og hlutaðeigandi farmenn;

c. að fullvissa sig um að ráðstafanir til raunhæfs eftirlits með öðrum vinnuskilyrðum og aðbúnaði, þar sem það hefur ekki lögsögu, séu gerðar með samkomulagi útgerðarmanna eða samtaka þeirra og samtaka farmanna, sem stofnuð eru í samræmi við aðalreglur Samþykktarinnar um félagafrelsi og verndun þess, 1948, og Samþykktarinnar um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega, 1949;

d. að tryggja:
     (i) viðeigandi skipan ráðningar farmanna á skip, sem skráð eru í landi þess og rannsóknir á kærum í því sambandi og séu þessi mál háð almennu eftirliti hlutaðeigandi stjórnvalds, að höfðu samráði milli þess stjórnvalds og aðalsamtaka útgerðarmanna og farmanna þar sem það á við;

     (ii) viðeigandi skipan rannsókna á kærum í sambandi við ráðningu eigin farmanna í eigin lögsögu á erlend skip og gerist þær um leið og ráðning ef unnt er. Einnig skal séð um að slíkar kærur og aðrar kærur, sem fram koma í sambandi við ráðningu og ef mögulegt er samtímis ráðningu, innan lögsögu hlutaðeigandi aðildarríkis á erlendum farmönnum á erlend skip, séu af hlutaðeigandi stjórnvaldi í skráningarlandinu sendar tafarlaust til hlutaðeigandi stjórnvalds í skráningarlandi skipsins og afrit til framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Er þetta háð almennu eftirliti hlutaðeigandi stjórnvalds að höfðu samráði milli þess stjórnvalds og aðalsamtaka útgerðarmanna og farmanna þar sem það á við;

e. að tryggja það að farmenn, sem starfa á skipum, sem skráð eru í landi þess, séu nægilega hæfir eða þjálfaðir til þeirra starfa, sem þeir eru ráðnir til, og sé fullt tillit tekið til Tillögu um starfsþjálfun, 1970;

f. að staðreyna með rannsókn eða öðrum viðeigandi hætti, að skip, sem skráð eru í landi þess fullnægi viðeigandi alþjóðavinnumálasamþykktum, sem í gildi eru og það hefur fullgilt, svo og þeim lögum og reglugerðum, sem krafist er í a-lið þessarar greinar og í viðeigandi heildarsamningum eftir því sem samrýmist landslögum;

g. að láta fara fram opinbera rannsókn á öllum alvarlegum sjóslysum, er varða skip skráð í landi þess, sérstaklega þeim slysum, sem hafa í för með sér meiðsli á mönnum eða líftjón. Yfirleitt skal birta opinberlega niðurstöður slíkra rannsókna.

  
3. gr.

     Sérhvert aðildarríki, sem hefur fullgilt þessa samþykkt skal svo sem unnt er fræða þegna sína um hugsanleg vandamál í sambandi við skráningu á skip, sem skráð er í ríki, sem ekki hefur fullgilt þessa samþykkt, þar til það hefur fullvissað sig um, að fullnægt sé kröfum er jafnist á við þær, sem gerðar eru í þessari samþykkt. Aðgerðir í þessu skyni sem ríki, er fullgilt hefur samþykktina, framkvæmir, skulu ekki vera í mótsögn við meginregluna um frjálsa flutninga verkamanna, sem kveðið er á um í samningum, sem hin tvö hlutaðeigandi ríki kunna að vera aðilar að.


4. gr.

1. Nú kemur skip í höfn aðildarríkis, sem hefur fullgilt þessa samþykkt, í eðlilegum erindagerðum eða vegna tæknilegra ástæðna og ríkinu berst kæra eða sannanir fyrir því að skipið fullnægi ekki kröfum þessarar samþykktar eftir að hún gekk í gildi og getur ríkið þá gefið skýrslu til stjórnar skráningarlands skipsins og sent afrit af henni til framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Einnig getur það gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að bæta úr hverjum þeim atriðum um borð sem eru greinilega hættuleg lífi og heilbrigði.

2. Þegar slíkar ráðstafanir eru gerðar skal aðildarríkið þegar í stað tilkynna þær næsta siglingamálafulltrúa, ræðismanni eða sendifulltrúa skráningarlandsins og hafa slíkan fulltrúa viðstaddan ef unnt er. Eigi skal halda skipi eða tefja það umfram nauðsyn.

3. Að því er tekur til þessarar greinar er með "kæru" átt við upplýsingar frá skipverja, starfshópi, félagi, stéttarfélagi eða hverjum þeim, sem hefur hagsmuna að gæta í sambandi við öryggi skipsins þar á meðal varðandi öryggi og heilbrigði áhafnar þess.


5. gr.

1. Fullgilding þessarar samþykktar er heimil aðildarríkjum, sem

     a. eru aðilar að Alþjóðasamþykktinni um öryggi mannslífa á sjó, 1960, eða Alþjóðasamþykktinni um öryggi mannslífa á sjó, 1974, eða hverri síðari samþykkt um breytingar á þessum samþykktum; og

     b. eru aðilar að Alþjóðasamþykktinni um hleðslumörk, 1966, eða hverri síðari samþykkt um breytingu á þeirri samþykkt; og

     c. eru aðilar að eða framfylgt hafa ákvæðum Reglugerðar um varnir gegn árekstrum á sjó frá 1960, eða Samþykktar um alþjóðlegar reglugerðir um varnir gegn árekstrum á sjó, 1972, eða hverri þeirri samþykkt sem síðar breytir þessum alþjóðlegu gjörningum.

2. Fullgilding er enn fremur heimil hverju því aðildarríki, sem við fullgildingu skuldbindur sig til þess að uppfylla þær kröfur í 1. tölul. þessarar greinar, sem ekki eru þegar uppfylltar.

3.  Formlegar fullgildingar þessarar samþykktar skulu senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


6. gr.

1. Þessi samþykkt skal einungis bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem hafa látið framkvæmdastjórann skrá fullgildingar sínar.

2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að skráðar hafa verið fullgildingar a.m.k. tíu aðildarríkja, sem samanlagt hafa 25% af rúmlestafjölda kaupskipaflota heims.

3. Síðan gengur þessi samþykkt í gildi, að því er snertir hvert aðildarríki, tólf mánuðum eftir að fullgilding þessi hefur verið skráð.


7. gr.

1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.

2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


8. gr.

1. Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna, sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.

2. Þegar skilyrðum skv. 2. tölul. 6. gr. hér að framan hefur verið fullnægt skal framkvæmdastjórinn vekja athygli aðildarríkjanna á, hvaða dag samþykktin gangi í gildi.


9. gr.

     Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir, sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.


10. gr.

     Þegar stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt, skal hún leggja fyrir Allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt, hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni allri eða hluta hennar.


11. gr.

1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt að meira eða minna leyti og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg, þá skal:

     a. fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæðum 7. gr. hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma er það gerist;

     b. aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt, eftir að hin nýja samþykkt gekk í gildi.

2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu eins og hún er að formi og efni hvað snertir þau aðildarríki, sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.


12. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar eru jafngildir.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum