Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Úrskurðir landbúnaðarráðuneytis - til 2008

1/2002 Úrskurður frá 9. ágúst 2002

Árið 2002, föstudaginn 9. ágúst, var í landbúnaðarráðuneytinu kveðinn upp svofelldurÚRSKURÐURI. Með erindi dagsettu 19. febrúar 2002 hefur Jón Egilsson, hdl,. f.h. umbjóðanda síns, Guðmundar Loga Ólafssonar, hér eftir nefndur kærandi, kært til landbúnaðarráðuneytisins, samkvæmt heimild í 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, þá ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu, dags. 23. janúar 2002, að synja staðfestingar á aðilaskiptum 1/3 hluta jarðarinnar Kvía I, í Þverárhlíð. II. Hinn 14. júní 2001 gerði kærandi eiganda hluta jarðarinnar Kvía I, Þorgeiri Ólafssyni, kauptilboð í 1/3 hluta jarðarinnar. Þann 18. júlí 2001 ákvað sveitarstjórn Borgarbyggðar hins vegar að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Í samræmi við það samþykkti jarðanefnd Mýrasýslu, þann 8. ágúst 2001, að sveitarstjórn Borgarbyggðar neytti forkaupsréttar að jörðinni og samþykkti jafnframt sölu jarðarinnar til Þorsteins Eggertssonar og Laufeyjar Valsteinsdóttur, ábúenda á Kvíum II. Samkvæmt þessu greiddi sveitarstjórnin kaupverðið til seljanda jarðarinnar Þorgeirs Ólafssonar og seldi síðan jörðina með fyrirvara til Þorsteins og Laufeyjar. Ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar um að neyta forkaupsréttar var síðan felld úr gildi með úrskurði landbúnaðarráðuneytisins dagsettum 9. október 2001. Kærandi og Þorgeir Ólafsson gerðu þá með sér kaupsamning um jörðina dagsettan 7. desember 2001. Í desember gekk kærandi jafnframt til samninga við sveitarstjórn um greiðslu kaupverðsins, fékk jörðina afhenta og flutti lögheimili sitt að Kvíum í janúar 2002. Þann 10. janúar 2002 var óskað þinglýsingar á kaupsamningi aðila. Sýslumaðurinn í Borgarnesi vísaði hins vegar umræddum kaupsamningi frá þinglýsingu þann 15. janúar 2002, þar sem skilyrði 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 um samþykki jarðanefndar vegna fyrirhugaðra aðilaskipta var ekki fullnægt. Jarðanefnd Mýrasýslu synjaði síðan staðfestingar á kaupsamningi aðila þann 23. janúar 2002 eftir að erindið barst nefndinni. Jarðanefnd tilkynnt ákvörðun sína með bréfi sem dagsett var sama dag. Að ósk kæranda rökstuddi jarðanefnd ákvörðun sína í bréfi dagsettu 15. febrúar 2002. Ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu var kærð til landbúnaðarráðuneytisins þann 19. febrúar 2002. Afsal að jörðinni til handa kæranda var gefið út 1. mars 2002. Jarðanefnd Mýrasýslu var þann 23. mars 2002 gefin kostur á að neyta andmælaréttar, sem hún gerði með bréfi dagsettu 26. mars 2002. Þann 4. apríl 2002 veitti landbúnaðarráðuneytið kæranda frest til að koma fram með athugsemdir sínar. Rökstuðningur og athugasemdir lögmanns kæranda vegna kæru hans bárust ráðuneytinu 12. apríl 2002. Sama dag var jarðanefnd Mýrasýslu gefin kostur á að koma á framfæri andmælum sínum, sem bárust með bréfi dagsettu 20. apríl. Í framhaldi af því eða 21. maí 2002, var kæranda gefinn kostur á því að koma fram með athugasemdir og andmæli sín.III. Kærandi krefst þess, að landbúnaðarráðuneytið felli úr gildi ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu og staðfesti aðilaskiptin samkvæmt kaupsamningi dagsettum 7. desember 2001 á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jarðalaga. Kröfur sínar byggir kærandi einkum á eftirfarandi málsástæðum: Að eldri úrskurður landbúnaðarráðuneytisins dagsettur 9. október 2001 sé bindandi við úrlausn þessa máls. Að ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu þann 23. janúar 2002 um synjun staðfestingar aðilaskiptanna á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jarðalaga, sé of seint fram komin, enda hafi sveitarstjórn Borgarbyggðar afgreitt sama mál 18. júlí 2001. Að nefndarmenn í jarðanefnd Mýrasýslu hafi verið vanhæfir við meðferð og úrlausn málsins vegna vinskapar við málsaðila. Nefndarmenn viðurkenni vinskap um langan aldur við Þorstein Eggertsson og föður hans. Að jarðanefnd Mýrasýslu byggi úrskurð sinn á sérstökum hagsmunum ábúenda en ekki almennum hagsmunum landbúnaðar eða sveitarfélagsins skv. 1. gr. og 6. gr. jarðalaga. Kærandi telur að ómálefnaleg rök liggi til grundvallar ákvörðun jarðanefndar og núverandi ábúandi á Kvíum II og ættmenni hans hafi beitt jarðanefnd þrýstingi við ákvarðanatökuna. Að ákvörðun jarðanefndar sé skýlaust brot á. meðalhófsreglu (12. gr.) og jafnræðisreglu (11. gr.) stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi verið tekið tillit til raka og athugasemda kæranda en einungis byggt á sjónarmiðum núverandi ábúenda á Kvíum II. Í athugasemdum jarðanefndar Mýrasýslu er þess krafist að ákvörðun nefndarinnar frá 23. janúar sl., um að synja staðfestingar aðilaskipta 1/3 hluta jarðarinnar Kvía I, á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976, verði staðfest. Vegna þeirrar málsástæðu kæranda að fyrri úrskurður landbúnaðarráðuneytisins sé bindandi vegna ákvörðunar jarðanefndar bendir jarðanefnd á að heimildir nefndarinnar í máli þessu byggja á 2. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 en ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar, í úrskurði landbúnaðarráðuneytisins dagsettum 9. október 2001, byggi hins vegar á 30 gr. sömu laga. Sá úrskurður geti því eðli málsins samkvæmt ekki bundið jarðanefnd í ákvörðunum sínum. Jarðanefnd hafnar því að ákvörðun nefndarinnar þann 23. janúar 2002, sé of seint fram komin. Jarðanefnd taki afstöðu til mála eftir því sem erindi berist til nefndarinnar. Jarðanefnd eigi ekki að hafa frumkvæði að því að gæta skilyrða 2. mgr. 6. gr. jarðalaga heldur aðilar kaupanna. Jarðanefnd hafnar því að nefndarmenn hafi verið vanhæfir við meðferð málsins og er ásökunum kæranda mótmælt sem órökstuddum og sumpart ósönnum. Er sérstaklega tekið fram að ekki sé náinn vinskapur milli nefndarmanna í jarðarnefnd og Þorsteins Eggertssonar eða föður hans. Jarðanefnd leggur áherslu á að ákvörðun nefndarinnar sé byggð á málefnalegum rökum og samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé ráðstöfunin andstæð hagsmunum sveitarfélaagsins. Aðstæður á Kvíum séu þannig, að meginhluti jarðarinnar sé innan afréttargirðingar og hafi afrétturinn verið leigður til upprekstrar Þverárréttar um mjög langt skeið. Séstaklega er tekið fram, að síðastliðin 30 ár eða svo hafi verið óheimilt að reka hross á afréttinn. Land jarðarinnar er í óskiptri sameign, sem jarðanefnd telur hafa mikla þýðingu við úrlausn þessa máls. Jarðanefnd nefnir að kærandi hyggst stunda hrossarækt og samkvæmt þeim upplýsingum sem jarðanefnd hefur aflað sér telja núverandi ábúendur á Kvíum II, sem búa einnig á 2/3 hluta Kvía, að verði þær fyrirætlanir að veruleika sé þeim ókleift að halda áfram búrekstri sínum. Jarðanefnd telur æskilegt að þau fáu kúabú, sem enn séu í sveitinni verði rekin þar áfram og telur að áframhald slíks búskapar sé í bestu samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins, en nú eru einungis 5 kúabú í sveitinni. IV.Kærandi heldur því fram að úrskurður landbúnaðarráðuneytisins dagsettur 9. október 2001 sé bindandi við úrlausn máls þessa. Í máli því er hér er til umfjöllunar liggur fyrir stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar jarðanefndar Mýrasýslu. Áður hefur landbúnaðarráðuneytið úrskurðað um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar vegna sömu jarðakaupa. Skv. 5. gr. jarðalaga er hlutverk jarðanefndar að vera sveitarstjórnum til aðstoðar við framkvæmd jarðalaga. Hins vegar verður að líta svo á að jarðanefndir hafi fullgilda og sjálfstæða heimild til að fjalla um aðilaskipti að réttindum yfir fasteign, samanber 6. gr. jarðalaga, án tillits til þess hvort viðkomandi sveitarstjórn hefur afgreitt viðkomandi mál eða ekki. Því verður að líta svo á að jarðanefndum sé ætlað að taka sjálfstæðar ákvarðanir og afstöðu til einstakra mála óháð öðrum stjórnvöldum að þessu leyti, enda um að ræða sjálfstætt og óháð stjórnvald. Ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu þann 23.janúar 2002 er samkvæmt ofansögðu sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem fellur undir kæruheimild 26. gr stjórnsýslulaga og landbúnaðarráðuneytinu ber að úrskurða um, sem æðra sett stjórnavald. Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að fyrri úrskurður landbúnaðarráðuneytisins, sem kveðin var upp þann 9. október 2001, sé bindandi fyrir úrlausn þessa máls.Kærandi heldur því fram að synjun jarðanefndar Mýrasýslu á staðfestingu aðilaskiptanna þann 23. janúar 2002 á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jarðalaga, sé of seint fram komin. Í bókun jarðanefndar Mýrasýslu frá 8. ágúst 2001 kemur fram að nefndin samþykkti forkaupsrétt Borgarbyggðar og sölu eignarhlutans til Þorsteins Eggertssonar og Laufeyjar Valsteinsdóttur, ábúenda að Kvíum II. Í þessari sömu bókun jarðarnefndar Mýrasýslu kemur hins vegar ekkert fram um afstöðu jarðanefndar til aðilaskipta milli kæranda og Þorgeirs Ólafssonar. Samkvæmt þessu vissi jarðanefnd Mýrasýslu um aðilaskipti kæranda og Þorgeirs Ólafssonar þegar þann 8. ágúst 2001 en tók ekki ákvörðun til staðfestingar eða synjunar aðilaskiptunum þá, heldur aðhafðist ekkert fyrr en beiðni barst rúmum 5 mánuðum síðar. Í 1. mgr. 6. gr. jarðalaga segir Nú eru fyrirhuguð aðilaskipti að réttindum yfir fasteign&og er þá jafnan skylt að tilkynna það sveitarstjórn og jarðanefnd og afla samþykkis þeirra til ráðstöfunarinnar. Óumdeilt er að formlegt erindi barst ekki til jarðanefndar Mýrasýslu fyrr en í janúar 2002 og nefndin hafi þá afgreitt málið innan lögboðinna fresta. Að sögn fasteignasalans sem annaðist umrædd aðilaskipti er ástæða þess að erindið barst ekki jarðanefnd Mýrasýslu sú að erindið var sent til jarðanefndar Borgarfjarðarsýslu vegna mannlegra mistaka. Ekki liggur fyrir í máli þessu hvort umrætt erindi hafi í reynd borist Jarðanefnd Borgarfjarðarsýslu og ekki vitað að öðru leyti um afdrif umrædds bréfs. Samkvæmt þessu og því að skýr lagaskylda hvílir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 á aðilum kaupsamninga að tilkynna jarðanefndum um aðilaskiptin verður ekki á það fallist að synjun jarðanefndar Mýrasýslu á staðfestingu aðilaskiptana sé of seint fram komin og því ógild stjórnvaldsákvörðun. Kærandi heldur því fram að nefndarmenn jarðanefndar Mýrasýslu séu vanhæfir við meðferð málsins og það vanhæfi feli í sér ógildi ákvörðunarinnar. Um hæfi nefndarmanna í jarðanefnd gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þessu sambandi kemur til skoðunar 6. töluliður 3. gr. laganna sem segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef fyrir hendi eru þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Kærandi hefur haldið því fram að fyrir liggi mikill vinskapur milli jarðanefndarmanna annars vegar og Þorsteins Eggertssonar og föður hans hins vegar. Ljóst er að náin vinátta getur valdið vanhæfi samkvæmt 6. tölulið. Hins vegar nægir kunningsskapur aðila ekki eða þær aðstæður á fámennum stöðum að allir þekki alla heldur verður að vera um nána vináttu að ræða. Þar sem kærandi hefur ekki sýnt fram á hvort um sé að ræða nána vinnátta ábúenda og jarðanefndar eða einungis um að ræða kunningsskap milli manna verður ekki á það fallist að vanhæfisástæður valdi ógildi ákvörðunnar jarðanefndar. Kærandi heldur því fram að jarðanefnd byggi úrskurð sinn á sérstökum hagsmunum núverandi ábúenda jarðarinnar en ekki almennum hagsmunum landbúnaðar eða sveitarfélagsins skv. 1. gr. jarðalaga nr. 65/1976 og 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Fram kemur í rökstuðningi jarðanefndar Mýrasýslu að fyrirhuguð ráðstöfun til kæranda sé andstæð hagsmunum sveitarfélagsins þar sem þau fáu kúabú, sem enn séu í sveitinni verði rekin þar áfram og telur að áframhald slíks búskapar sé í bestu samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins, en nú eru einungis 5 kúabú í sveitinni. Þessi niðurstaða jarðanefndar er byggð á því mati ábúenda að Kvíum II að fyrirætlanir kæranda um hrossarækt séu ósamrýmanlegar núverandi búskap þeirra á Kvíum, enda séu Kvíar óskipt sameign þriggja eigenda. Ekki liggja fyrir frekari skýringar eða útlistanir jarðanefndar hvers vegna ábúendur á Kvíum II þurfa að bregða búi vegna kaupa kæranda á hlut í Kvíum I. Kvíar er mjög landstór jörð og þar hafa verið rekin tvö býli, Kvíar I og Kvíar II, frá árinu 1956. Ekkert í fyrirætlunum kæranda gefur tilefni til að ætla að áframhald geti ekki verið á slíkum rekstri þ.e. að hrossarækt eða annar búrekstur kæranda og kúabúskapur ábúenda geti ekki verið rekin saman á jörðinni. Kvíar hafa verið í óskiptri sameign um áratugaskeið og núverandi ábúandi á Kvíum II rekið bú sitt á Kvíum á þeirri forsendu. Samkvæmt ofansögðu er ekki er hægt að fallast á það mat jarðanefndar Mýrasýslu að sala 1/3 jarðarinnar Kvía I hafi verið andstæð hagsmunum sveitarfélagsins samkvæmt 2. mgr. 6 gr. jarðalaga nr. 65/1976.Ekki verður heldur á það mat jarðanefndar Mýrasýslu fallist að ákvörðun nefndarinnar samræmist tilgangi jarðalaga nr. 65/1976, sem kemur fram í 1. gr. laganna. Þar segir að tilgangur laganna sé að tryggja að nýting landsins utan skipulagðrar þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignaráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda. Fyrir liggur að kærandi hefur flutt lögheimili sitt á jörðina og hyggst nýta jörðina til landbúnaðarnota áfram þannig að nýting jarðarinnar verður að teljast eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Við svo íþyngjandi ákvarðanatöku sem um ræðir í þessu máli ber sérstaklega að gæta meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í henni fellst að stjórnvöld skulu því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun, þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægari móti. Skulu stjórnvöld þá gæta þess að ekki sé farið strangara í sakirnar en nauðsyn ber til. Jarðanefnd Mýrasýslu gat beitt öðru og vægara úrræði til að ná fram lögmætu markmiði sínu. Hafi jarðanefnd Mýrasýslu verið í vafa um landbúnaðarnot og búsetu kæranda var henni heimilt samkvæmt 6. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 að binda samþykki sitt fyrir aðilaskiptunum því skilyrði, að sá sem öðlaðist réttindi yfir jörðinni hefði í allt að tveimur árum fasta búsetu á jörðinni og með sama hætti var henni heimilt að binda samþykki sitt því skilyrði að jörðin væri nýtt til landbúnaðar. Samkvæmt ofansögðu verður að telja ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.Samkvæmt því sem að framan segir þykir nægilega sýnt fram á, að á hinni kærðu ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu, sem tekin var á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 65/1976 séu slíkir annmarkar, að ógilda beri hana af hálfu landbúnaðarráðuneytisins sem æðra stjórnvalds. Því er tekin til greina krafa kæranda um að hin kærða ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu að synja staðfestingar á kaupsamningi, dagsettum 7. desember 2002, á þriðjungi jarðarinnar, Kvíum I, Borgarbyggð, verði felld úr gildi. ÚRSKURÐARORÐ: Ákvörðun jarðanefndar Mýrasýslu frá 23. janúar 2002, um að synja staðfestingar á aðilaskiptum samkvæmt kaupsamningi, dags. 7. desember 2001, á þriðjungi jarðarinnar, Kvíum I, Borgarbyggð er felld úr gildi. Jafnframt er viðurkennt að jarðanefnd Mýrasýslu hafi glatað rétti sínum til að taka málið fyrir að nýju, þar sem liðinn er sá frestur sem tilgreindur er í 7. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Aðilaskipti samkvæmt ofangreindum kaupsamningi milli Þorgeirs Ólafssonar og Guðmundar Loga Ólafssonar eru staðfest. Guðni Ágústsson Atli Már Ingólfsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn