Velferðarráðuneytið

Mál nr. 9/2002: Dómur frá 8. nóvember 2002

Ár 2002, föstudaginn 8. nóvember, var í Félagsdómi í málinu nr. 9/2002.

Alþýðusamband Íslands

gegn

Samtökum atvinnulífsins

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 7. október sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

  1. Að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að samningur Alþýðusambands Íslands (ASÍ) annars vegar og Samtaka atvinnulífsins (SA) hins vegar frá 13. desember 2001 skuldbindi stefnda SA gagnvart öllum aðildarsamtökum ASÍ.
  2. Að stefnanda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt mati réttarins.

 

Dómkröfur stefnda

  1. Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.
  2. Að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að samningur milli Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) frá 13. desember 2001 taki ekki til fiskimanna í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands (SSÍ).
  3. Stefndi gerir kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

 

Málavextir

Málavextir eru þeir að á fyrri hluta árs 2000 gengu aðildarsamtök ASÍ til kjarasamninga við SA og aðildarfélög þess.  Samningar tókust fyrir öll aðildarsamtök ASÍ önnur en Sjómannasamband Íslands (SSÍ).

Samningsforsendur þessara kjarasamninga voru að meginstefnu tvíþættar.  Í fyrsta lagi að launastefna og kostnaðarhækkun sem í þeim fólst yrði almennt stefnumarkandi og í öðru lagi að verðbólga færi minnkandi.  Stæðust þessar forsendur væru kjarasamningar óuppsegjanlegir fram til ársloka 2003 eða fram á fyrri hluta ársins 2004.

Til þess að meta ofangreindar forsendur urðu aðilar ásáttir um að setja á fót sérstaka fjögurra manna nefnd skipaða tveimur fulltrúum tilnefndum af ASÍ og tveimur fulltrúum tilnefndum af SA.

Nefndinni var falið þríþætt hlutverk samkvæmt forsenduákvæðum fyrrgreindra kjarasamninga.

Í fyrsta lagi að meta það í febrúar 2001, 2002 og 2003 að kröfu aðila, hvort samningsbundinn launakostnaður hafi hækkað marktækt meira í samningum stærri félaga eða sambanda. Ef samkomulag næðist í nefndinni gæti hún úrskurðað almenna hækkun launataxta en ef ekki væru samningar uppsegjanlegir með þriggja mánaða fyrirvara.

Í öðru lagi skyldi nefndin fjalla um það á sömu tímapunktum hvort sú forsenda sem samningarnir hvíli á, að verðbólga hafi farið minnkandi, hafi staðist.  Kæmi í ljós að sú forsenda hefði brugðist væri launaliður samningsins uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.

Í þriðja lagi skyldi nefndin leita eftir formlegu samstarfi við stjórnvöld um eftirlit með þróun verðlags og öðrum þenslumerkjum og setja fram tillögur um viðbrögð þar sem við á.

Stefnandi kveður ákvæði kjarasamninga aðildarsamtaka ASÍ um samningsforsendur vera svipuð.  Nokkur afbrigði sé þó að finna.  Forsendur kjarasamninga Landssambands íslenskra verslunarmanna og Verslunarmannafélags Reykjavíkur við SA hvíli einungis á verðlagsforsendum og jafnframt hafi þessir aðilar ekki aðild að fyrrgreindri sameiginlegri nefnd ASÍ og SA.

Kjarasamningur Rafiðnaðarsambands Íslands við SA vísi beint til niðurstaðna úr störfum nefndar ASÍ og SA.  Gildistími hans sé til 1. mars 2004 en uppsegjanlegur í desember 2002, óháð niðurstöðum sameiginlegrar nefndar ASÍ og SA.

Kjarasamningur Samiðnar við SA gildi til 31. janúar 2004 en sé sömuleiðis uppsegjanlegur í desember 2002, óháð niðurstöðum sameiginlegrar nefndar ASÍ og SA.

Sjómannasambandi Íslands (SSÍ) og aðildarfélögum Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍU) tókst ekki að ljúka kjarasamningum en kjarasamningar þessara aðila höfðu verið lausir frá 15. febrúar 2000.  Af hálfu aðila var gripið til þvingunarúrræða.  Verkföllum og verkbönnum var frestað með lögum frá 19. mars til 1. apríl 2001.  Með lögum nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira var aðilum gefinn frestur til 1. júní 2001 til þess að ná samningum.  Tækist það ekki skyldi gerðardómur ákveða kjaramál þeirra og hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001.  Samningar tókust ekki og þann 30. júní 2001 kvað gerðardómurinn upp úrskurð sinn.

Varðandi samningsforsendur segir í úrskurðinum að komi til þess að nefnd ASÍ og SA  sem fjalli um forsendur kjarasamninga nái samkomulagi um breytingar á launalið samninga í árlegri athugun sinni 2002 og 2003 skuli sama gilda um kauptryggingu og tímakaup samkvæmt þessum samningi.  Gildistími var ákveðinn til 31. desember 2003.  Var aðilum heimilt að semja breytingar á kjörum en óheimilt að knýja fram breytingar með vinnustöðvun.            

Á síðari hluta árs 2001 hafi aðilum vinnumarkaðarins verið ljóst að koma þyrfti í veg fyrir að verðbólga, sem virtist stefna í að verða utan þeirra marka sem kjarasamningar byggðu á, myndi festast í sessi.  Draga þyrfti úr óvissu og beita samstilltum aðgerðum ASÍ, SA og ríkisstjórnarinnar til þess að stuðla að hækkun gengis íslensku krónunnar, minnkandi verðbólgu og lækkun vaxta.

Hinn 12. desember 2001 samþykkti ríkisstjórnin yfirlýsingu um stöðugleika í efnahagsmálum, aðhald í ríkisfjármálum, lánamál ríkissjóðs, lækkun á grænmetisverði, verðkannanir, eflingu starfsfræðslu í atvinnulífinu og um lækkun tryggingagjalds.  Yfirlýsingin var undirrituð og gefin út 13. desember 2001.

Þennan sama dag skrifuðu ASÍ og SA undir samning um eftirfarandi:

Í fyrsta lagi urðu samningsaðilar sammála um að verði vísitala neysluverðs eigi hærri en 222,5 stig í maí 2002 teljist verðlagsforsenda kjarasamninga hafa staðist.  Standist þessi forsenda ekki séu launaliðir viðkomandi kjarasamninga uppsegjanlegir í maí með þriggja mánaða fyrirvara miðað við mánaðarmót.

Í öðru lagi var samið um að frá og með 1. júlí 2002 skyldu vinnuveitendur greiða 1% framlag í séreignasjóð launamanns án framlags af hálfu launamanns.  Áfram skyldi haldast reglan um 2% mótframlag gegn 2% viðbótarsparnaði launamanns. 

Í þriðja lagi var samið um almenna 0,40% launahækkun frá 1. janúar 2003 umfram áður umsamdar hækkanir. 

Þá segir í samningi ASÍ og SA að framangreindar viðbætur við kjarasamninga um viðbótarframlag í séreignasjóði og almenna launahækkun í janúar 2003 séu háðar því að verðlagsviðmiðun samkvæmt 1. tl. samningsins, þ.e. að vísitala neysluverðs verði eigi hærri en 222,5 stig, standist í maí 2002 og að ekki komi til uppsagnar launaliðar kjarasamninga.  Verði launalið kjarasamninga sagt upp í maí 2002 komi viðbæturnar ekki til framkvæmda.

Undir samninginn rituðu f.h. aðildarsamtaka ASÍ forseti ASÍ, formenn allra aðildarsamtaka ASÍ og formenn VR og Eflingar.  Fyrir hönd SA ritaði undir hann formaður samtakanna, framkvæmdastjóri og aðalhagfræðingur.

Sama dag kom fjögurra manna nefnd ASÍ og SA um samningsforsendur saman og ákvað, í ljósi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og samnings aðila, að ekki yrði um frekara mat á samningsforsendum að ræða á árinu 2002.

Um vorið 2002 kom upp ágreiningur á milli stefnanda og stefnda um það hvort samkomulagið frá 13. desember 2001 tæki til fiskimanna innan aðildarfélaga SSÍ.

Í bréfi ASÍ  til SA, dags. 11. júní 2002, kemur fram að fulltrúar ASÍ og SA hafi átt í viðræðum um gildissvið kjarasamningsins frá 13. desember 2001 þar sem SA hafi lýst efasemdum sínum um að 2. gr. samningsins taki til fiskimanna innan SSÍ.  Af því tilefni áréttar ASÍ í bréfi þessu þann skilning sinn að þessi kjarasamningur nái til allra féagsmanna innan ASÍ.

Í bréfi SA til ASÍ, dags. 12. júní 2002, er þeirri skoðun lýst m.a. að samningnum frá 13. des. 2001 hafi verið ætlað að bregðast við hugsanlegum uppsögnum kjarasamninga og hafi því einungis náð til þeirra kjarasamninga sem hafi verið með uppsagnarheimild.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi höfðar mál þetta á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 og byggir á því að hinn 13. desember 2001 hafi bindandi kjarasamningur stofnast á milli ASÍ fyrir hönd allra aðildarsamtaka sinna, þ.m.t. SSÍ og aðildarfélaga þess, annars vegar og SA fyrir hönd aðildarfélaga sinna hins vegar.  Samning þennan eigi, í samræmi við meginreglu samnings- og vinnuréttar, að efna í samræmi við bein og skýr ákvæði hans, m.a. þannig að ákvæði hans um viðbótarframlög í séreignasjóði taki til fiskimanna innan aðildarfélaga SSÍ.

Í viðræðum aðila hafi legið ljóst fyrir að til þess að þríhliða átak aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda tækist yrði að búa svo um hnútana að samkomulag ASÍ og SA yrði skuldbindandi fyrir öll aðildarsamtök aðila og einstaka launagreiðendur sem umsamin lágmarkskjör sem gilda myndu í kjölfar samningsins fyrir alla í samræmi við 1. gr. laga nr. 55/1980.  Af þeim ástæðum hafi verið gerður sérstakur og sjálfstæður samningur milli aðila.

Þess vegna tiltaki texti samningsins að hann sé gerður í nafni allra aðildarsamtaka ASÍ og sé hann undirritaður fyrirvaralaust af forsvarsmönnum þeirra allra, þar á meðal formanni SSÍ.  Hann sé undirritaður af hálfu SA án nokkurs fyrirvara sem takmarkað geti gildissvið hans gagnvart einstökum aðildarsamtökum ASÍ, aðildarfélögum þeirra, hópum innan þeirra eða gagnvart aðilum innan SA.

Það hafi staðið SA næst að tiltaka í texta samningsins, eða gera fyrirvara við undirritun sína, ef samningnum hafi ekki verið ætlað að taka til fiskimanna innan SSÍ eða verið ætlað að hafa þrengra gildi en bein orð hans segi til um.  Það hafi ekki verið gert.

Hefð sé fyrir því í samningum aðila að tilgreina skýrt hvort tiltekin aðildarsamtök eigi aðild að honum eða ekki, hvort tiltekin ákvæði eigi ekki að taka til einhverra aðila samningsins eða ef tilteknar samningsskuldbindingar skuli falla niður við tiltekin skilyrði gagnvart tilteknum aðila samningsins eða öllum.

SA haldi því fram í bréfi sínu frá 12. júní 2002 að það hafi verið skilyrði og forsenda af hálfu SA fyrir samningi SA og ASÍ frá 13. desember 2001 að með honum væri einungis ætlunin að hindra hugsanlegar uppsagnir kjarasamninga með uppsagnarheimild.  Þar sem kjör fiskimanna hafi verið óuppsegjanleg til 31. desember 2003 taki samningurinn ekki til þeirra.  Stefnandi segir að engra slíkra skilyrða eða forsendna hafa verið getið, hvorki í viðræðum aðila eða í samningi.  Þvert á móti hafi á fundi aðila sérstaklega verið rætt um það hvort samningur aðila tæki ekki örugglega til fiskimanna innan SSÍ og það hafi verið staðfest af samningamönnum SA.  Stefnanda og stefnda beri hins vegar ekki saman um þetta.  Hafi stefndi haft framangreindar forsendur fyrir samningi aðila hafi hann bæði haft tækifæri til, og raunar borið skylda til, að geta þeirra í viðræðum, tiltaka þær í texta eða við undirritun.  Ekkert af því hafi hann gert og beri því ótvíræða sönnunarbyrði um að efni samnings aðila frá 13. desember 2001 sé annað og þrengra en orð samningsins og beinn skilningur á þeim leiði til.

Stefnandi telur að lög nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira hindri það ekki að þolendur laganna geti átt aðild að kjarasamningum á vinnumarkaði.  Í 1. gr. laga nr. 34/2001 sé sérstaklega tiltekið að aðilum þeim sem lögin beinist að, þar á meðal aðildarfélögum SSÍ og LÍU, sé heimilt að semja um breytingar á kjaramálum sínum með öðrum hætti en gerðardómur ákveði en sé hins vegar óheimilt að knýja slíkar breytingar fram með vinnustöðvun.  Þessa heimild hafi aðilar nýtt sér með því að taka fullan þátt í samningi allra aðildarsamtaka ASÍ og SA sem undirritaður var 13. desember 2001.

Markmið samningsins frá 13. desember 2001 hafi verið að koma böndum á verðbólgu, styrkja gengi krónunnar, lækka vexti og draga úr óvissu í kostnaðar- og verðlagsþróun.  Ríkisstjórnin hafi lýst stuðningi við þessi markmið í yfirlýsingu sinni þann 13. desember 2001 og öll hafi markmiðin náðst.  Forsenda þessa árangurs sé að öll aðildarsamtök ASÍ og SA hafi tekið þátt í samningsgerðinni í samvinnu við stjórnvöld.

Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefnandi til 65. gr. laga nr. 80/1938 og meginreglna 21. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að kröfugerð stefnanda sé allt of almenn og víðtæk.  Með afdráttarlausu orðalagi sínu taki hún jafnt til þeirra aðildarfélaga ASÍ sem séu með lausa samninga og þeirra sem gert hafi samninga með forsenduákvæði og samningnum frá 13. desember 2001 hafi verið ætlað að bregðast við.  Stefndi bendir í því sambandi á að Sjómannafélagið Jötunn í Vestmannaeyjum hafi sagt upp samningum háseta og þjónustufólks á m.s. Herjólfi og séu þeir enn lausir.  Þá hafi vinnudeila fiskimanna verið leyst með lögum nr. 34/2001, sem stefnandi véfengi og krefjist ógildingar á úrskurði gerðardómsins fyrir dómstólum.

Í öðru lagi byggir stefndi kröfur sínar á því að kjarasamningur sá sem gerður hafi verið 13. desember 2001 á milli ASÍ og SA hafi samkvæmt forsendum sínum og efni aldrei átt að taka til fiskimanna.  Öll umræða og umfjöllun aðila hafi snúið að því að reyna að tryggja frið á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að samningar yrðu lausir í febrúar 2002 eða að um það yrðu deilur.  Í samræmi við það hafi samningurinn frá 13. desember 2001 falið í sér breytingar á forsendum kjarasamninga um endurskoðunartíma, sem skyldi vera í maí 2002 í stað febrúar 2002, og ef nýjar forsendur um verðbólgu stæðust í maí 2002 hafi gildandi kjarasamningar átt að framlengjast óbreyttir með viðbótum um greiðslu í lífeyrissjóð og 0,4% kauphækkun í janúar 2003.

Aðild SSÍ og undirskrift formanns SSÍ að fyrrgreindum samningi grundvallist á því að samningurinn taki til annarra sjómanna, sem séu félagar í aðildarfélögum SSÍ, sem stefndi hafi gert kjarasamninga við, svo sem undirmanna á kaupskipum og sanddæluskipum, svo eitthvað sé nefnt.  Kjarasamningur SA við eitt aðildarfélag SSÍ, Sjómannafélag Reykjavíkur, sé með sömu samningsforsendum og samningar Flóabandalags og Verkamannasambands Íslands sem og annarra stéttarfélaga í landi.

Mótmælt sé sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum stefnanda um að samningamenn SA hafi í viðræðum um kjarasamning sem gerður var 13. desember 2001 staðfest að sá samningur tæki til fiskimanna innan SSÍ.  Fiskimenn hafi aldrei verið nefndir á nafn í viðræðum ASÍ og SA við gerð samningsins enda hefði slík víkkun á gildissviði samningsins kallað á sterk viðbrögð af hálfu SA.  Fiskimenn hafi lotið öðrum lögmálum.

Lög nr. 34/2001 sem sett hafi verið um kjarasamninga fiskimanna hafi ekki haft að geyma endurskoðunarákvæði vegna verðbólgu. Í úrskurðarorði samkvæmt lögunum um breytingu á kjarasamningi fiskimanna sé hins vegar svohljóðandi ákvæði um samningsforsendur:

„Komi til þess að nefnd ASÍ og SA sem fjallar um forsendur kjarasamninga nái samkomulagi um breytingar á launalið samninga í árlegri athugun sinni 2002 og 2003 skal sama gilda um kauptryggingu og tímakaup samkvæmt samningi þessum.“

Eins og fram komi í niðurstöðu nefndar ASÍ og SA um samningsforsendur hafi nefndin ekki úrskurðað um breytingar á launalið þannig að ofangreint ákvæði hafi  ekki orðið virkt.  Jafnvel þó svo hefði verið hefðu hugsanlegar breytingar aðeins náð til fiskimanna að því er varðar kauptryggingu og tímakaup.

Samkomulagið frá 13. desember 2001 hafi verið breyting á eldri kjarasamningum og hafi öðlast gildi 4 vikum eftir undirritun þess samkvæmt 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.  Með samkomulaginu hafi þau aðildarfélög, sem að því hafi staðið, í reynd verið að framlengja gildandi undirritaða kjarasamninga og gangast undir áframhaldandi friðarskyldu gegn kauphækkunum. Fiskimenn hafi, samkvæmt framansögðu, enga aðild átt að samkomulaginu, enda hafi lög verið sett á þá og samningsforsendur samkvæmt úrskurði gerðardóms aðrar en í kjarasamningum sem stefndi SA hafi gert við önnur stéttarfélög.  Hefðu fiskimenn óskað aðildar að samkomulaginu frá 13. desember 2001 hefði það verið eðlilegt skilyrði að þeir féllu frá dómsmáli sem SSÍ höfðaði 30. október 2001 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn LÍÚ, þar sem krafist sé breytinga á úrskurði gerðardóms.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu ASÍ og SA 14. maí 2002 sé vitnað til kjarasamninga SA og aðildarfélaga ASÍ, sem flestir hafi verið gerðir árið 2000.  Sé sú tilvitnun til kjarasamninga stéttarfélaga starfsmanna í landi.  Ekkert sé þar minnst á samninga sem hafi verið framlengdir með lögum, en ástæða hefði verið til að gera það ef talið hefði verið að samkomulagið ætti líka að ná til þeirra.  Þá væri ekki notað orðalagið að gera kjarasamning um samning sem framlengdur væri með lögum.

Þá sé jafnframt vísað til þess í fréttatilkynningunni að samkvæmt gildandi kjarasamningum sé vinnuveitanda skylt frá 1. janúar 2002 að greiða mótframlag í séreignasjóð.  Varðandi fiskimenn séu hins vegar, samkvæmt úrskurði gerðardóms, ákvæði um greiðslu í séreignasjóð frá 1. júní 2002, en ekki 1. janúar eins og sé í öllum kjarasamningum sem stefndi hafi gert við aðildarfélög stefnanda.

Tengsl hafi verið lítil í gegnum tíðina milli kjarasamninga í landi og til sjós enda um svo ólík launakerfi og sjónarmið að ræða.  Varðandi fyrirvara í kjarasamningi Flóabandalagsins ef samningsbundinn launakostnaður hafi hækkað marktækt meira í samningum stærri félaga eða sambanda en í samningnum fælist geti nefndin úrskurðað almenna hækkun á launataxta, skuli það tekið fram að það hafi ekki tíðkast samanburður við kjarasamninga fiskimanna heldur hafi fyrirvarinn gildi gagnvart hækkunum annarra sambanda eða stærri félaga sem semji um kaup og kjör starfsmanna í landi.  Kjarasamningar fiskimanna og launakerfi þeirra hafi ekki verið til viðmiðunar varðandi kjaramál starfsmanna í landi þar sem það hafi verið talið alls óskylt og ósamanburðarhæft enda byggi það á hlutaskiptum.

Í héraðsdómsmálinu nr. 11357/2001, sem dæmt var í 21. mars 2002, geri stefnandi kröfur um ógildingu úrskurðar gerðardóms í fiskimannadeilunni. Telji stefnandi hann vera ólögmætan og viðurkenni ekki að komist hafi á kjarasamningur.  Hvernig megi þá vera að stefnandi telji nú, rúmum mánuði fyrir aðalmeðferð framangreinds máls í Hæstarétti, að úrskurðurinn sé þó í raun kjarasamningur og að gerð hafi verið breyting á honum með samkomulaginu 13. desember 2001?  Stefnda hafi ekki órað fyrir þessum sinnaskiptum og telji þau vera tilkomin löngu eftir að samkomulagið hafi verið gert.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Stefnandi, Alþýðusamband Íslands, krefst þess í málinu að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að samningur milli stefnanda annars vegar og stefnda, Samtaka atvinnulífsins, hins vegar frá 13. desember 2001 skuldbindi stefnda gagnvart öllum  aðildarsamtökum stefnanda. Af hálfu stefnda er m.a. byggt á því að þessi krafa stefnanda sé alltof almenn og víðtæk. Taka verður undir þetta með stefnda, enda verður naumast séð að dómsorð í þá veru, sem stefnandi krefst, myndi eitt út af fyrir sig ráða ákveðnu ágreiningsefni til lykta á einn eða annan veg, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938.

Samkvæmt stefnu og málatilbúnaði beggja málsaðila, sbr. og bréf þeirra, dags. 11. og 12. júní 2002, er hins vegar ljóst að ágreiningur málsaðila varðar nánar það hvort greindur samningur frá 13. desember 2001 taki til fiskimanna innan aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands að því er snertir 2. tölulið í samningnum sem varðar viðbótarframlag í séreignarsjóð. Nánar tiltekið er hér um að ræða skyldu vinnuveitenda til að greiða 1% framlag í séreignarsjóð launamanns frá og með 1. júlí 2002 án framlags af hálfu launamanns. Ljóst er að stefnandi heldur því fram að stefndi virði ekki þessa skyldu að því er varðar umrædda aðila. Samkvæmt þessu er einsýnt að með málsaðilum er ágreiningur um túlkun samningsins að þessu leyti. Að þessu athuguðu þykir ekki næg ástæða til að vísa málinu frá dómi ex officio, enda þykir orðalag dómkröfu stefnanda ekki vera því til fyrirstöðu að leyst verði úr fyrrgreindum efniságreiningi málsins.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hinn 13. desember 2001 hafi komist á bindandi kjarasamningur milli stefnanda fyrir hönd allra aðildarsamtaka sinna, þ.m.t. Sjómannasambands Íslands og aðildarfélaga þess, annars vegar og stefnda fyrir hönd aðildarfélaga sinna hins vegar. Í samræmi við meginreglu samninga- og vinnuréttar eigi að efna þennan samning í samræmi við bein og skýr ákvæði hans, meðal annars þannig að ákvæði hans um viðbótarframlag í séreignarsjóði taki til fiskimanna innan aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands. Er vísað til markmiðs með þríhliða átaki aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins.  Í samræmi við það sé tiltekið í samningnum að hann sé gerður í nafni allra aðildarsamtaka stefnanda og sé samningurinn undirritaður fyrirvaralaust af forsvarsmönnum þeirra allra, þar á meðal formanni Sjómannasambands Íslands. Þá sé samningurinn undirritaður af stefnda án nokkurs fyrirvara um takmörkun á gildissviði hans gagnvart einstökum aðilum innan vébanda stefnanda og stefnda. Það hafi staðið stefnda næst að tilgreina fyrirvara í texta samningsins hafi ætlunin verið að hann tæki ekki til fiskimanna innan Sjómannasambands Íslands. Stefnandi bendir á að lög nr. 34/2001 séu því ekki til fyrirstöðu að þeir, sem lögunum sæta, geti átt aðild að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, sbr. 1. gr. laganna.

Stefndi byggir á því að umræddur samningur málsaðila frá 13. desember 2001 hafi samkvæmt forsendum sínum og efni aldrei átt að taka til fiskimanna, enda hafi markmið samningsins verið að tryggja frið á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að kjarasamningar yrðu lausir í febrúar 2002. Í samræmi við þetta hafi samningurinn falið í sér breytingar á forsendum kjarasamninga um endurskoðunartíma, og ef nýjar verðbólguforsendur stæðust, skyldu kjarasamningar framlengjast óbreyttir með viðbótum varðandi greiðslu í lífeyrissjóð og kauphækkun í janúar 2003. Þetta hafi ekki átt við um fiskimenn innan Sjómannasambands Íslands, enda hafi kjaramálum þeirra verið skipað samkvæmt úrskurði gerðardóms frá 30. júní 2001, sbr. lög nr. 34/2001, um kjaramál fiskimanna og fleira, sem framlengt hafi tilgreinda kjarasamninga með breytingum til 31. desember 2003. Lög nr. 34/2001 hafi ekki að geyma endurskoðunarákvæði vegna verðbólgu. Samningsforsendur samkvæmt úrskurði gerðardómsins hafi verið aðrar en í kjarasamningum sem stefndi hefði gert við önnur stéttarfélög.

Með 1. gr. laga nr. 34/2001 voru þargreind yfirstandandi verkföll og verkbönn svo og verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir, sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, lýst óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma gerðardóms sem nánar er mælt fyrir um í 2. og 3. gr. laganna. Þó er aðilum heimilt að semja um slíkar breytingar, en ekki má knýja þær fram með vinnustöðvun. Aðilum, sem lög nr. 34/2001 taka til,  tókst ekki að gera með sér nýjan kjarasamning fyrir 1. júní 2001 og kom því til tilnefningar þriggja manna í gerðardóm, sbr. 2. gr. laganna. Kvað gerðardómurinn upp úrskurð sinn hinn 30. júní 2001. Gerðardómurinn kvað m.a. á um breytingar á lögfestum kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna annars vegar og Sjómannasambands Íslands hins vegar í samræmi við þau viðfangsefni sem gerðardóminum voru falin með 2. gr. laga nr. 34/2001. Framlengdi gerðardómurinn samning þennan með tilgreindum breytingum til 31. desember 2003.  Í úrskurðarorði gerðardómsins er m.a. fjallað um mótframlag útgerðar í séreignarsjóð gegn framlagi launamanns er komi til framkvæmda í áföngum 1. júní 2001 og 1. júní 2002. Um þetta atriði er fjallað í XI. kafla í forsendum gerðardómsins. Í 11. tölul. í úrskurðarorði gerðardómsins er fjallað um samningsforsendur. Þar segir svo: “Komi til þess að nefnd ASÍ og SA sem fjallar um forsendur kjarasamninga nái samkomulagi um breytingu á launalið samninga í árlegri athugun sinni 2002 og 2003 skal sama gilda um kauptryggingu og tímakaup samkvæmt samningi þessum.”

Með samningnum frá 13. desember 2001 urðu samningsaðilar ásáttir um að yrði vísitala neysluverðs ekki hærri en 222,5 stig í maí 2002 teldist verðlagsforsenda kjarasamninga hafa staðist. Stæðist hún hins vegar ekki væru launaliðir viðkomandi kjarasamninga uppsegjanlegir í maí með þriggja mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót. Þá hefur samningurinn að geyma greint ákvæði um 1% framlag vinnuveitenda í séreignarsjóð án framlags af hálfu launamanns, auk ákvæðis um að almenn launahækkun 1. janúar 2003 verði 0,40% hærri en ella. Bæði ákvæðin eru háð því að fyrrgreind verðlagsviðmiðun standist í maí 2002 og að ekki komi til uppsagnar launaliðar kjarasamninga. Komu samningsákvæði þessi þannig í raun í stað forsenduákvæða kjarasamninga vegna ársins 2002. Í málinu liggur fyrir mat nefndar málsaðila um samningsforsendur, dags. 13. desember 2001. Þar er tekið fram að í ljósi samnings málsaðila frá 13. desember 2001 og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá sama degi liggi fyrir að ekki verði um frekara mat að ræða af hálfu nefndarinnar á samningsforsendum á árinu 2002. Samningurinn kveði á um skýrt viðmið sem fastsetji uppsagnarheimild vegna verðbólguforsendna miðað við maí 2002. Í þessu felist því full og endanleg niðurstaða vegna starfa nefndarinnar vegna ársins 2002.

Í umræddum samningi málsaðila frá 13. desember 2001 er tilgreint að hann sé gerður milli stefnanda, Alþýðusambands Íslands, fyrir hönd aðildarsamtaka sinna annars vegar og stefnda, Samtaka atvinnulífsins, hins vegar. Af hálfu stefnanda er samningurinn undirritaður af formönnum þeirra sex landssambanda sem eru innan vébanda stefnanda, þar á meðal formanni Sjómannasambands Íslands, sem er eitt þessara landssambanda. Auk þess undirrituðu forseti stefnanda og framkvæmdastjóri samninginn. Enginn fyrirvari er í samningnum um að hann taki ekki til einhverra þeirra landssambanda stéttarfélaga eða aðildarfélaga, sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands. Eins og samningurinn er úr garði gerður að þessu leyti verður því að taka undir það með stefnanda að stefnda beri að sýna fram á þá staðhæfingu sína að samningnum hafi ekki verið ætlað að taka til allra aðildarsamtaka stefnanda að öllu leyti eða hluta, í þessu tilviki  til fiskimanna innan aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands. Samkvæmt gerðardómnum var lögfestur kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 27. mars 1998 framlengdur með breytingum til 31. desember 2003 og gert er ráð fyrir því að til breytinga á samningsforsendum geti komið samkvæmt 11. tölulið í úrskurðarorði. Eins og fyrr segir er aðilum, þrátt fyrir þá skipan kjaramála sem mælt er fyrir um í lögum nr. 34/2001, heimilt að semja um breytingar á kjörum, en ekki má knýja þær fram með vinnustöðvun, sbr. niðurlagsákvæði 1. gr. laga þessara. Að þessu virtu þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að samningurinn frá 13. desember 2001 taki ekki til fiskimanna innan aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands að því er tekur til 2. töluliðar í samningnum. Þykir því mega fallast á kröfu stefnanda, eins og nánar greinir í dómsorði. Af því leiðir að hafna ber viðurkenningarkröfu stefnda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að samningur Alþýðusambands Íslands (ASÍ) annars vegar og Samtaka atvinnulífsins (SA) hins vegar frá 13. desember 2001 taki til fiskimanna innan aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands að því er tekur til 2. töluliðar í samningnum.

Hafnað er viðurkenningarkröfu stefnda í málinu.

Málskostnaður fellur niður.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn