Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 20/2002. Úrskurður kærunefndar

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 26. nóvember 2002

í máli nr. 20/2002:

Verkfræðistofa FHG ehf.

gegn

Vegagerðinni.

Með bréfum 19. og 27. ágúst 2002 kærir Verkfræðistofa FHG ehf. útboð Vegagerðarinnar auðkennt „Hringvegur (1) um Þjórsá, vegur og brú, eftirlit 2002-2003".

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvæði útboðsgagna um að mat á tæknilegum atriðum ráði vali tilboðs. Hann krefst þess einnig að samningsgerð kærða við Verkfræðistofu Björns Ólafssonar í framhaldi af útboðinu verði stöðvuð, ákvörðun um að ganga til samninga við fyrirtækið verði felld úr gildi og samið verði við kæranda. Þá krefst hann endurskoðunar á einkunn sinni fyrir tæknileg atriði. Loks verður ráðið af kærunni að kærandi óski eftir áliti nefndarinnar um skaðabótaskyldu kærða.

Af hálfu kærða er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði frá kærða komst á bindandi samningur milli kærða og Verkfræðistofu Björns Ólafssonar 8. ágúst 2002. Að þessu virtu voru ekki talin efni til að fjalla um kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar í sérstakri ákvörðun, sbr.1. mgr. 83. gr. laga nr. 94/2001.

I.

Með hinu kærða útboði óskaði kærði eftir tilboðum í eftirlit með vega og brúargerð á Hringvegi (1) um Þjórsá. Um er að ræða umsjón og eftirlit með gerð vegar og brúar á Þjórsá. Framkvæmd verksins mun þegar hafa verið boðin út í tvennu lagi.

Samkvæmt lið 1.6 í útboðsgögnum skyldi við val á bjóðanda meta upphæð þóknunar (verð) og hæfni. Mat á hæfni var nánar tilgreint sem hér segir: Verktilhögun (10%); Starfslið (30%); Gæðakerfi (10%). Þóknun skyldi hafa 50% vægi. Bjóðandi skyldi leggja fram upplýsingar á sérstöku fylgiskjali með tilboði þar sem sundurliðuð voru þau atriði sem þýðingu áttu að hafa við mat á framangreindum atriðum. Bjóðendum skyldi gefa stig og skyldi hvert stig jafngilda 1% í mati.

Samkvæmt lið 1.6.1 „ Verktilhögun 10%" skyldi bjóðandi skilgreina í tilboði hvernig hann ætlaði að standa að stjórn verkefnisins og tryggja fagleg gæði. Stigagjöf skyldi vera 0-10 stig. Í útboðsgögnum var krafist upplýsinga um eftirfarandi í þessu sambandi: 1. Skipurit ráðgjafa fyrir verkefnið; 2. Áætlaður manntími á helstu verkhluta; 3. Hvernig verður staðið að gerð eftirlitsáætlunar til þess að fylgjast með og tryggja framvindu verksins; 4. Hvaða búnaður og aðstaða verða notuð við rannsóknir, mælingar og úttektir; 5. Hvernig verður staðið að gagnaskráningu og skjalavörslu. Samkvæmt útboðsgögnum skyldi gefa 0 stig ef upplýsingar vantaði. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því í fylgiskjali 2 að mjög góð greinargerð fái 10 stig, góð greinargerð fái 8 stig og sæmileg greinargerð 6 stig.

Samkvæmt lið 1.6.2 „Starfslið 30%" skyldi gefa 0-12 stig fyrir umsjónarmann eftir reynslu hans. Í þessu sambandi var krafist upplýsinga um fyrri verk (3 stig), meðmæli (3 stig), starfsferil sem umsjónarmanns eða verkefnisstjóra (3 stig) og samstarfshæfileika (3 stig). Á fylgiskjali 2 er nánar tilgreint hvernig gefa eigi stig fyrir einstaka undirliði. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að 10 ára verkefnisstjórn eða lengri gefi hámarksstig (3 stig), 5-9 ára stjórn 2 stig og 2-4 ára stjórn 0,5 stig. Einkunn fyrir samstafshæfileika er gefinn þannig að „mjög góðir" samstarfshæfileikar eru metnir til 3 stiga, góðir til 2 stiga og sæmilegir til 0,5 stiga. Fyrir starfslið sem vinna á að verkefninu eru gefin 0-18 stig. Í 1.6.2 segir að miða skuli við að ráðgjafi hafi til ráðstöfunar reynda menn í eftirliti með brúargerð, jarðvinnu, lögn slitlaga og í mælingum. Lágmarksskrafa sé tveir á hverju sviði. Í þessu samandi er krafist gagna um starfsferil og fyrri verk. Í fylgiskjali 2 koma fram nánari skilgreiningar um hvernig gefa eigi einkunn fyrir einstaka liði og er þar miðað við að umræddir tveir starfsmenn þurfi að hafa annars vegar 5 ára reynslu og hins vegar 3-4 reynslu til að bjóðandi fái hámarksfjölda stiga.

Samkvæmt lið 1.6.3 „Gæðakerfi 10%" skyldi gefa bjóðanda 10 stig ef hann hefði vottað gæðakerfi samkvæmt ISO 9001, en 4 stig ef hann hefði eigið skilgreint kerfi. Bjóðandi skyldi fá 0 stig ef hann hefði ekkert gæðakerfi. Í þessu sambandi var krafist upplýsinga frá bjóðanda um gæðakerfi hans.

Samkvæmt lið 1.6.4 „Þóknun 50%" skyldi gefa 50 stig fyrir fjárhæð tilboðs þannig að lægsta tilboð fengi 50 stig og önnur tilboð fengju einkunn sem hlutfall af lægsta tilboði (S=50*[ÞL/Þ]). Bjóðandi skyldi greina frá tímagjaldi starfsmanna.

Við opnun tilboða 15. júlí 2002 lagði kærandi fram bókun þar sem hann mótmælti framangreindum aðferðum við mat á tilboðum. Í kæru segir að 7. ágúst sama árs hafi kærandi fengið upplýsingar um niðurstöðu útboðsins, en það hafi verið tilkynnt með bréfi dagsettu 30. júlí sama árs. Með bréfi 16. ágúst sama árs gerði kærandi ítarlegar athugasemdir við niðurstöðu útboðsins. Bréfi kæranda var svarað með bréfi kærða 20. sama mánaðar, þar sem forsendur einkunnagjafar og niðurstöður útboðsins voru skýrðar með almennum hætti.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með lægsta tilboð. Hann fékk 68.50 stig alls, þar af 50 fyrir verð, en Verkfræðistofa Björns Ólafssonar 81,17 stig alls, þar af 48.67 fyrir verð.

II.

Kærandi byggir kröfur sínar annars vegar á því að ákvæði útboðsgagna um val tilboða mismuni bjóðendum með ólögmætum hætti, en hins vegar hafi verið staðið rangt að mati tilboðs hans samkvæmt ákvæðum útboðsgagna.

Að því er varðar fyrra atriðið telur kærandi að óheimilt sé að taka tillit til þeirra tæknilegu atriða, sem að framan greinir, við mat á hagkvæmni tilboða. Þetta leiði til þess að stórir aðilar njóti yfirburðarstöðu og minni aðilar, t.d. þeir sem komi nýir inn á markaðinn, verði að lækka verð sitt ef þeir eigi að hafa möguleika í útboðinu.

Að því er varðar síðargreinda atriðið telur kærandi að einkunnagjöf fyrir þau atriði sem að framan greinir sé annað hvort órökstudd eða röng. Þannig sé ómögulegt að skilja hvers vegna kærandi hafi einungis fengið 6 stig af 10 fyrir verktilhögun, þ.e. að umbeðin greinargerð hans hafi einungis verið metin sæmileg. Þá hafi verkefnisstjóri kæranda átt að fá 3 stig fyrir starfsreynslu, þar sem hann hafi yfir 10 ára reynslu af verkefnisstjórn auk annarra þriggja stiga fyrir að hafa sinnt verkum stærri en 300.000.000 krónur. Samkvæmt þessu hafi kærandi átt að fá 10 stig af 12, en hafi í raun fengið aðeins 5 stig. Kærandi telur einnig að stigagjöf fyrir starfsfólk sé röng, en kærandi fékk 5,5 stig af 18 mögulegum fyrir þennan lið. Þá telur kærandi að gæðakerfi hans hafi ranglega verið gefin aðeins 2 stig af 10, en kerfið samræmist meginþáttum ISO 9001 staðalsins.

Kærði vísar til þess að forsendur fyrir vali tilboða hafi verið skýrar í útboðsgögnum, sbr. 26. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Sú aðferð sem hafi verið beitt hafi mjög verið í samræmi við Leiðbeiningarrit um kaup á ráðgjöf sem gefið hafi verið út fjármálaráðuneytinu 2002, en samkvæmt því beri að velja ráðgjafa með vísan til hæfni/þóknunar. Að því er varðar mat á tilboðum bendir kærði á að kærandi hafi ekki lagt fram öll umbeðin gögn og hafi hann af þeim sökum ekki fengið stig fyrir þau atriði. Þannig hafi kærandi ekki skilað gögnum um áætlaðan manntíma. Þá hafi greinargerð um eftirlitsáætlun verið haldin þeim annmarka að aðeins hafi verið vísað til fyrirhugaðs gæðakerfis, en ekki gerð grein fyrir skipulagi og tilhögun eftirlits. Það sama gildi að þessu leyti um gagnaskráningu og skjalavörslu. Kærði telur að ekki hafi legið fyrir með vissu að verkefnisstjóri kæranda hafi haft meira en 10 ára reynslu samanlagt. Þar sem meðmæli um samstarfshæfileika hafi skort hafi verið óhjákvæmilegt að gefa ekkert stig fyrir þann þátt. Þá segir að engin verkefni hafi verið tilgreind sem gæðakerfi hafi verið notað til að vinna. Kærandi hefði strangt til tekið ekki átt að fá stig fyrir gæðakerfi, en hafi þrátt fyrir það fengið 2 stig. Samkvæmt öllu þessu telur kærði að einkunnagjöf hafi verið í samræmi við ákvæði útboðsgagna.

III.

Samkvæmt 78. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í máli þessu byggir kærandi kröfur sínar meðal annars á því að ákvæði útboðsgagna um val tilboða hafi mismunað honum með ólögmætum hætti. Að mati nefndarinnar verður að líta svo á að í síðasta lagi 15. júlí 2002, þegar tilboðsfrestur rann út, hafi kæranda mátt vera kunnugt um efni framangreindra ákvæða útboðsgagna. Varð kærandi að bera lögmæti umræddra útboðsskilmála undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá þeim degi, sbr. áðurtilvitnaða 78. gr. laga nr. 94/2001. Eins og áður greinir barst kæra fyrst 19. ágúst 2002. Samkvæmt framangreindu var þá liðinn frestur kæranda til að kæra ákvörðun kærða um efni útboðsgagna. Verður lögmæti ákvæða útboðsgagna því ekki borið undir nefndina.

Að mati kærunefndar útboðsmála hefur kærandi ekki bent á þá annmarka á einkunnagjöf kærða sem gætu haft þýðingu um niðurstöðu útboðsins og höfnun tilboðs kæranda.

Samkvæmt öllu framangreindu verður kröfum kæranda hafnað.

Úrskurðarorð :

Kröfum kæranda, Verkfræðistofu VHG ehf., vegna útboðs kærða, Vegagerðarinnar, auðkennt „Hringvegur (1) um Þjórsá, vegur og brú, eftirlit 2002-2003" er hafnað.

Reykjavík, 26. nóvember 2002.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

Staðfest endurrit staðfestir.

26.11.2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn