Hoppa yfir valmynd
10. desember 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 24/2002. Úrskurður kærunefndar:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 10. desember 2002

í máli nr. 24/2002:

Málar hf.

gegn

Ríkiskaupum.

Með bréfi 20. september 2002 kærir Málar ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 13094 auðkennt „Náttúrufræðahús Háskóla Íslands, Útboðsverk 6, Sandspörtlun" sem fram fór fyrir hönd Háskóla Íslands.

Kærandi krefst þess að samningsgerð kærða verði stöðvuð um stundarsakir. Kærandi krefst þess einnig að lagt verði fyrir Ríkiskaup að bjóða að nýju út ofangreint verk. Loks er þess óskað að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Upplýst var að bindandi samningur milli kærða og Elvars Ingasonar ehf. komst á þann 10. september 2002. Að þessu virtu voru ekki talin efni til að fjalla um kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir í sérstakri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 94/2001.

I.

Með hinu kærða útboði óskaði kærði eftir tilboðum í sandspörtlun steyptra og múraðra flata Náttúrufræðahúss Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Í útboðsgögnum kom fram að opna ætti tilboð 21. ágúst 2002 kl. 15.00. Í auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu þann 14. júlí 2002 var hins vegar tekið fram að tilboðin yrðu opnuð 21. ágúst kl. 11.00. Opnunarfundur var haldinn 21. ágúst kl. 11.00 hjá kærða og mætti fulltrúi kæranda á þann fund. Tilboð höfðu þá borist frá fjórum bjóðendum, þ. á m. frá kæranda. Þegar lesin höfðu verið upp tvö tilboð var fundurinn stöðvaður og honum frestað til kl. 15.00 „vegna misræmis auglýsingar um opnunarfund við útboðsgögn", sbr. fundargerð. Fundinum var fram haldið kl. 15.00 og lét kærandi bóka það álit sitt að opinberlega auglýstur opnunartími væri kl. 11.00 og að sá útboðsfrestur gilti. Kl. 15.00 höfðu borist átta tilboð, þ.e. fjórum fleiri en kl. 11.00, þ. á m. tilboð Elvars Ingasonar ehf. Kærði ákvað að taka tilboði Elvars Ingasonar ehf., sem var lægsta tilboðið, og var kæranda tilkynnt þessi niðurstaða með símbréfi 10. september 2002. Upplýst er að kærandi átti næstlægsta tilboðið í verkið.

II.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að brotið hafi verið gegn grundvallarreglu útboðsframkvæmdar um að tilboð skuli opna samtímis, á tilgreindum stað og tíma og í heyranda hljóði. Samhljóða ákvæði um þessa grundvallarreglu sé að finna í íslenskum réttarreglum um útboð, sbr. 6. 8. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða, VII. kafla laga nr. 94/2001 um opinber innkaup og 7. kafla ÍST 30. Hér sé um að ræða hornstein opins og gegnsæs útboðsmarkaðar, lykilatriði til að tryggja jafnræði bjóðenda og heiðarleika í viðskiptum. Mistök hafi augljóslega átt sér stað við framkvæmd útboðsins og frestun opnunarfundar með þessum hætti sé svo alvarlegur ágalli á framkvæmd útboðs að íslenska ríkið geti ekki með réttu byggt viðskipti á niðurstöðu þess. Vekur kærandi sérstaka athygli á því að engar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til að hefja það yfir allan vafa að upplýsingar gætu borist til annarra bjóðenda.

Af hálfu kærða er byggt á því að rétt hafi verið staðið að útboðinu í einu og öllu og að niðurstaðan sé í samræmi við lög, reglugerðir og viðteknar venjur sem gilda um opinber innkaup. Útilokað sé að aðrir bjóðendur hafi milli kl. 11.00 og 15.00 haft spurnir af þeim tilboðum sem lesin voru upp kl. 11.00, enda séu fulltrúar verkkaupa bundnir þagnarskyldu og þess hafi verið gætt að upplýsingar frá fyrri útboðsfundi bærust ekki til annarra bjóðenda. Af 23. og 33. gr. laga nr. 94/2002 sé ljóst að þegar um misræmi milli auglýsingar og útboðsgagna hvað varðar opnunartíma sé að ræða verði að gera ráð fyrir að tilgreindur opnunartími í útboðsgögnum gildi. Kærði byggir jafnframt á því að kæra sé of seint fram komin samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 og því beri að vísa henni frá.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í 3. gr. starfsreglna kærunefndar útboðsmála nr. 982/2001 kemur fram að umræddur frestur miðist við móttökudag hjá skrifstofu nefndarinnar eða póstlagningardag kæru.

Sá opnunarfundur sem er tilefni þeirrar kæru sem hér er til úrlausnar fór fram 21. ágúst 2002. Var fulltrúi kæranda viðstaddur fundinn og því vissi kærandi þann 21. ágúst 2002 um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Samkvæmt ótvíræðum orðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 bar kæranda að bera kæru undir nefndina inna fjögurra vikna frá þeim degi. Eins og áður greinir er kæran dagsett 20. september 2002. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að hafna kröfum kæranda án þess að tekin sé efnisleg afstaða til málsins.

Úrskurðarorð :

Kröfum kæranda, Málar hf. vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 13094 auðkennt „Náttúrufræðahús Háskóla Íslands, Útboðsverk 6, Sandspörtlun" er hafnað.

Reykjavík, 10. desember 2002.

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

Auður Finnbogadóttir

Rétt endurrit staðfestir.

10.12.02

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum