Hoppa yfir valmynd
13. desember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðherra styrkir starfsemi Geðhjálpar

Páll Pétursson félagsmálaráðherra heimsótti húsakynni Geðhjálpar að Túngötu 7 í gærmorgun og færði félaginu styrk að upphæð þrjár milljónir króna.

Að undanförnu hefur verið vakið máls á málefnum geðsjúkra og aðstæðum þeirra í samfélaginu. Margir hafa komið þar við sögu en þó má segja að Geðhjálp hafi haft um það nokkra forgöngu að nú er umræðan um geðheilbrigðismál almennari og upplýstari en oft áður. Geðhjálp hefur beitt sér fyrir öflugu félagsstarfi meðal þeirra sem búa við geðsjúkdóma og opnað hug margra gagnvart mikilvægi góðrar og öflugrar heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir þennan hóp. Geðhjálp hefur jafnframt lagt áherslu á sjálfsstyrkingar og sjálfshjálparstarf þar sem geðsjúkir sjálfir hafa styrkt hvern annan í viðleitni sinni til betra lífs.

Það er því mat ráðherra að samtökin verðskuldi enn frekari stuðning samfélagsins til þess að gera þeim betur kleift að rækta hlutverk sitt. Með styrkframlagi vill ráðherrann þakka félaginu fyrir framlag sitt til heilbrigðara samfélags og vonar að því farnist vel í starfi sínu um ókomin ár.

Sigursteinn Másson formaður Geðhjálpar og Sveinn Magnússon framkvæmdastjóri tóku á móti styrkframlaginu og lögðu áherslu á að fénu yrði vel varið til frekari styrkingar á starfsemi félagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum