Hoppa yfir valmynd
18. desember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðstæður barna í daggæslu

Um það bil 70 dagmæður sóttu fundinn sem haldinn var í Norræna húsinu. Í framhaldi af kynningu var fyrirspurnum svarað og spunnust áhugaverðar umræður um aðstæður barna og vinnuskilyrði dagmæðra.

Um það bil 70 dagmæður sóttu fundinnFjölmörg sjónarmið komu fram, annars vegar um framkvæmd könnunarinnar og hins vegar um starfið sjálft. Í ljós hefur meðal annars komið að eldvarnaeftirlit er nú komið í gott lag og í kjölfar könnunarinnar hafa nokkur sveitarfélög sett sér nýjar reglur um daggæslu barna.

Bent var á að þar sem umsjónaraðilar hefðu sjálfir framkvæmt könnunina væru niðurstöður um aðstoð og stuðning frá sveitarfélagi ef til vill ekki marktækar. Væri fróðlegt að gera sérstaka könnun um þetta bréfleiðis. Þetta gæti verið kjörið verkefni fyrir sveitarfélögin hvert um sig eða saman. Spurt var hvort heppilegt væri að eftirlit með dagmæðrum og stuðningur við þær væri á sömu hönd. Um þetta ríkja mismunandi sjónarmið, en það er álit ráðuneytisins að þetta geti vel farið saman á þessu sviði ef vandað er til verksins.

Rætt var um barnafjölda í gæslu. Reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum kveður á um að dagmóðir geti haft fimm börn samtímis í gæslu, þar af mega tvö verið yngri en ársgömul. Þetta hafa samtök dagmæðra gagnrýnt og var sú gagnrýni endurtekin á fundinum.

Fjölmörg sjónarmið komu fram á fundinumMargar dagmæður telja að við góðar aðstæður geti þær annast sex börn. Ráðuneytið leitaði á sínum tíma álits umsjónaraðila og leikskólakennara um þetta og komst að þeirri niðurstöðu, í ljósi umfangs og ábyrgðar dagmóðurstarfsins, að ekki væri mögulegt að heimila dagmæðrum að fjölga börnum.

Dagmæðurnar töldu að tekjur þeirra af gæslu fimm barna væru vart viðunandi. Tilhneiging væri til að líta á greiðsluna með hverju barni sem hrein laun en svo væri ekki. Kostnaðurinn sem fylgdi starfinu væri oft ekki viðurkenndur. Annars vegar er um ræða beinan kostnað vegna matar og viðhalds húsnæðis og leikfanga og hins vegar trygginga, greiðslna í lífeyrissjóð og fleira. Leyfisveitingunni í upphafi fylgdi einnig kostnaður. Enn fremur sé mismunandi hve mikið sveitarfélögin greiði þjónustuna niður vegna einstakra barna. Framundan er því ærið verkefni fyrir samtök dagmæðra við að koma hagsmunamálum sínum á þessu sviði á framfæri við rétta aðila.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum