Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 1/2003. Ákvörðun kærunefndar:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 30. janúar 2003

í máli nr. 1/2003:

Deloitte & Touche hf.

gegn

Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar.

Með bréfi 29. janúar 2003 kærir Deloitte & Touche hf. ákvörðun stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar, dags. 28. janúar 2003, um að taka ekki tilboði Deloitte & Touche í lokuðu útboði nr. ISR 0210/RBORG, auðkennt „Endurskoðunarþjónusta fyrir Reykjavíkurborg".

Kærandi krefst þess að samningsgerð Reykjavíkurborgar á grundvelli ofangreinds útboðs verði stöðvuð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kröfum kæranda. Kærandi krefst þess aðallega að tilboð kæranda til kærða, dags. 10. janúar 2003, verði lýst gilt og lagt verði fyrir kærða að gera verksamning við kæranda á grundvelli tilboðs hans. Til vara krefst kærandi þess að hið kærða útboð verði lýst ógilt í heild sinni og lagt fyrir kærða að efna til útboðs að nýju.

Kærða hefur verið gefinn kostur á að tjá sig sérstaklega um kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Í athugasemdum sínum krefst kærði þess að þessari kröfu kæranda verði hafnað.

Eins og málið liggur fyrir telur nefndin rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir þegar í stað, en láta úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíða endanlegs úrskurðar.

Vegna hins skamma umþóttunartíma sem nefndin hafði til að taka afstöðu til kröfu um stöðvun um stundarsakir verða úrskurðarorð ekki rökstudd að svo komnu máli. Rökstuðningur nefndarinnar mun hins vegar liggja fyrir innan tíðar.

Úrskurðarorð :

Samningsgerð Reykjavíkurborgar undir umsjá kærða í framhaldi af útboði nr. ISR 0210/RBORG, „Endurskoðunarþjónusta fyrir Reykjavíkurborg" er stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru kæranda, Deloitte & Touche hf.

Reykjavík 30. janúar 2003

Páll Sigurðsson

Auður Finnbogadóttir

Inga Hersteinsdóttir

Rétt endurrit staðfestir:

30.01.2003.

Rökstuðningur

Deloitte & Touche hf.

Stórhöfða 23

110 Reykjavík

Innkaupastofnun Reykjavíkur

Fríkirkjuvegi 3

101 Reykjavík

3. febrúar 2003

Efni: Rökstuðningur fyrir ákvörðun kærunefndar útboðsmála í máli nr. 1/2003

Með bréfi 29. janúar 2003 kærði Deloitte & Touche hf. ákvörðun stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar, dags. 28. janúar 2003, um að taka ekki tilboði Deloitte & Touche í lokuðu útboði nr. ISR 0210/RBORG, auðkennt „Endurskoðunarþjónusta fyrir Reykjavíkurborg". Kærandi krafðist þess m.a. að samningsgerð Reykjavíkurborgar á grundvelli ofangreinds útboðs yrði stöðvuð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kröfum kæranda. Með ákvörðun sinni þann 30. janúar 2003 tók nefndin þessa kröfu kæranda til greina og voru úrskurðarorðin svohljóðandi: „Samningsgerð Reykjavíkurborgar undir umsjá kærða í framhaldi af útboði nr. ISR 0210/RBORG, „Endurskoðunarþjónusta fyrir Reykjavíkurborg" er stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru kæranda, Deloitte & Touche hf." Vegna þess stutta tíma sem nefndin hafði til að taka ofangreinda ákvörðun gafst ekki kostur á skriflegum rökstuðningi í ákvörðuninni sjálfri. Rökstuðningur nefndarinnar fyrir ákvörðuninni er eftirfarandi:

Með hliðsjón af útboðsgögnum, sbr. einkum liði 1.6, 1.12 og 1.13, verður að telja ótvírætt að sú greinargerð, sem kærandi og aðrir bjóðendur áttu að skila um hvernig þeir hyggðust standa að endurskoðuninni, telst hluti af tilboðinu sjálfu. Til að tilboðið teljist gilt þarf greinargerðin því að samræmast útboðsgögnum. Miðað við þau gögn og skýringar, sem þegar liggja fyrir í máli þessu, verður ekki séð að sá hluti tilboðs kæranda, sem fram kemur í nefndri greinargerð, sé í beinu ósamræmi við útboðsgögn eða að öðru leyti þannig úr garði gerður, með hliðsjón af því verki, sem boðið var í, að heimilt hafi verið að hafna tilboðinu alfarið á þeim forsendum. Er þá m.a. haft í huga að efni greinargerðarinnar gat engu að síður haft veruleg áhrif á val verkkaupa, sbr. lið 1.12 í útboðslýsingu, þar sem það, hvernig bjóðandi kemur til með að haga verkefninu, er ætlað 40% vægi.

Miðað við fyrirliggjandi gögn og með vísan til þess sem fyrr var rakið er það mat nefndarinnar að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 94/2001. Að því virtu er skylt að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001.

F.h. kærunefndar útboðsmála,

Páll Sigurðsson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn