Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 33/2002. Úrskurður kærunefndar:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. febrúar 2003

í máli nr. 33/2002:

Strengur hf.

gegn

Ríkiskaupum.

Með bréfi 23. október, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Strengur hf. forval Ríkiskaupa nr. 13101 auðkennt „Alma Upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins."

Kærandi krefst þess að ákvörðun Ríkiskaupa um að hafna Streng hf. sem þátttakanda í útboðinu verði felld úr gildi. Ennfremur að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit á skaðabótaskyldu kaupanda.

Kærði Ríkiskaup gerir þá kröfu að hafnað verði kröfum kæranda.

I.

Kærði efndi til forvals fyrir hönd Tryggingastofnunar ríkisins til þess að velja þátttakendur í fyrirhuguðu útboði á nýju upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Útboðið var nefnt „Alma" (á ensku: Information System for The State Social Security Institute). Með bréfi, dags. 18. september 2002, skilaði kærandi inn umsókn vegna forvalsins. Forvalsgögn voru opnuð hjá kærða þann 19. september 2002 kl. 14.00. Með bréfi, dags. 9. október 2002, tilkynnti kærði kæranda að ósk kæranda um þátttöku í forvalinu væri vísað frá. Skýringar kærða voru í fyrsta lagi að kærandi hefði ekki skilað inn þátttökutilkynningu í forvalið, heldur aðeins tilboðsgögnum og í öðru lagi var vísað til þess að samkvæmt innsendum gögnum frá kæranda væri fyrirtækið í vanskilum við ríkissjóð að fjárhæð kr. 154.157,-. Með tölvupósti þann 11. október 2002 óskaði kærandi eftir því að tekin yrði til endurskoðunar frávísun á þátttöku í forvali kærða. Með bréfi kærða, dags. 18. október 2002, var þátttöku kæranda í útboðinu hafnað á ný. Kærandi skaut málinu til kærunefndar útboðsmála með bréfi dags. 23. október 2002. Með bréfi kærunefndar útboðsmála þann 28. nóvember 2002 var kæranda bent á það að í kæru hans væri ekki að finna tilgreiningu á kröfu. Var kæranda veittur frestur til 13. desember s.á. til að bæta úr þeim annmörkum kærunnar. Með bréfi kæranda þann 4. desember 2002 gerði kærandi fyrrgreindar kröfur í málinu. Kærða var gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri sem hann gerði með bréfi þann 3. janúar 2003. Kærandi skilaði inn andmælum við sjónarmiðum kærða þann 13. janúar sl.

II.

Kærandi reisir kröfur sínar um ógildingu ákvörðunar kærða um að hafna kæranda um þátttöku í útboði nr. 13101 á því að þrátt fyrir að þátttökutilkynning hafi verið á formi frá kærða og ekki verið stuðst við dæmi sem bent er á, hafi sannanlega allar upplýsingar og öll gögn, sem óskað hafi verið eftir, verið til staðar. Formlega undirskrift hafi þó vantað en frávikið hafi verið það lítið að hægt hefði verið að líta framhjá því eða óska eftir lagfæringu. Varðandi skuld kæranda við ríkissjóð er á það bent að óskað hafi verið eftir formlegum gögnum frá tollstjóra sem veitt hafi verið. Í þeim hafi komið fram skuld upp á kr. 154.000,- sem reyndar hafi verið rangar upplýsingar og það hafi verið staðfest af Tollstjóranum í Reykjavík. Kærða hafi síðar verið gefnar réttar upplýsingar um greiðslustöðuna. Ljóst sé að upphæðin hafi verið óveruleg og síðar hafi Ríkiskaupum verið kynnt að um mistök hafi verið að ræða hjá þriðja aðila. Hefði það þjónað hagsmunum kærða betur ef litið hefði verið framhjá þessu atriði eða tekið tillit til leiðréttingar.

III.

Af hálfu kærða er krafa um að hafnað verði kröfum kæranda byggð á því að ekki sé grundvöllur til að taka kröfur kæranda til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup. Málatilbúnaði kæranda hafnar kærði í heild sinni. Kærði bendir á að skv. gr. 1.1.1. í útboðslýsingu hafi eftirfarandi komið fram: „Þeir sem hafa hug á að taka þátt í fyrirhuguðu útboði skulu senda inn þátttökutilkynningu ásamt umbeðnum upplýsingum samkvæmt kafla 1.4. Þátttakendur í forvali verði síðan valdir sem bjóðendur í fyrirhuguðu útboði á grundvelli innsendra upplýsinga." Af hálfu kærða kemur fram að umbeðin þátttökutilkynning sem var hluti forvalsgagna, sbr. gr. 1.15. hafi ekki fylgt með undirrituð af kæranda svo sem áskilið hafi verið í gr. 1.1.1.

Kærði vísar til e-liðar 1. mgr. 28. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup sem kveður á um að vísa beri bjóðanda frá ef hann er í vanskilum með opinber gjöld en samkvæmt framlagðri yfirlýsingu frá Tollstjóranum í Reykjavík, dags. 19. september 2002, hafi komið fram að kærandi hafi skuldað tollstjóraembættinu kr. 154.157,-. Fyrirmæli tilvitnaðs ákvæðis laga um opinber innkaup séu ófrávíkjanleg og ekki háð mati kaupanda hvort skuldin sé mikil eða lítil heldur aðeins hvort um skuld sé að ræða eða ekki. Hafi því verið óhjákvæmilegt að vísa umsókn kæranda frá. Kærði telur að 32. gr. laga um opinber innkaup breyti engu í þessu sambandi en þar sé að finna heimild þess efnis að gefa megi kaupanda færi á því að auka við framkomin gögn samkvæmt 28.-31. gr. laganna eða skýra þau á hvaða stigi útboðs sem er. Vísar kærði í þessu samhengi til ummæla í greinargerð með 32. gr. laganna en þar segir: „Í greininni er því slegið föstu að kaupandi geti gefið bjóðanda færi á því að auka við gögn um fjárhagslega og tæknilega getu sína eða skýra fyrirliggjandi gögn, jafnvel eftir opnun tilboða. Regluna ber að skoða sem frávik frá meginreglunni um almennt bann við viðræðum kaupanda við bjóðendur eftir að tilboð hafa verið opnuð og ber því að skýra þrengjandi. Samskipti kaupanda og bjóðanda eiga að takmarkast við framlagningu eða útskýringu á umræddum gögnum. Hins vegar veitir reglan enga heimild til frekari viðræðna kaupanda eða bjóðanda eða breytinga á framkomnu tilboði bjóðanda, en slíkar ráðstafanir myndu almennt ganga gegn jafnræðisreglu 22. gr. frumvarpsins, nema þegar um væri að ræða samningskaup."

IV.

Af framlögðum gögnum málsins má ráða að kærandi tilkynnti um þátttöku í forvali kærða með umsókn sem skilað var inn á níu blaðsíðum, auk fylgigagna. Kærði byggir kröfu sína á því að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði gr. 1.1.1. forvalslýsingar þar sem þátttökutilkynning hafi ekki fylgt með umsókn kæranda. Telur kærði að greinilega hafi komið fram í gr. 1.1.1. að þátttökutilkynning skyldi vera hluti af þeim gögnum sem send væru kærða. Þátttökutilkynning var á sérstöku formi í gr. 1.15 í forvalsgögnum. Í gr. 1.1.1. segir orðrétt um þennan þátt: „Þeir sem hafa hug á að taka þátt í fyrirhuguðu útboði skulu senda inn þátttökutilkynningu ásamt umbeðnum upplýsingum samkvæmt kafla 1.4." Ekki verður fallist á þau sjónarmið kærða að sérstaklega hafi verið áskilið að þátttakendur í forvali kærða ættu að fylla út eyðublað, sbr. gr. 1.15, í stað þess að senda sjálfir þær upplýsingar sem áskilið var að kæmu fram. Af þeim gögnum sem kærandi skilaði inn verður skýrlega ráðið að ætlunin var að óska eftir þátttöku í forvali kærða. Verður það ekki talið hafa þau áhrif að kærandi fái ekki að taka þátt í útboðinu að ekki komi fram sími, fax, netfang og tengiliður kæranda.

Samkvæmt yfirlýsingu Tollstjórans í Reykjavík um skuldastöðu kæranda við ríkissjóð, dags. 19. september 2002, mátti ráða að kærandi skuldaði alls kr. 154.157,- í ríkissjóð. Ennfremur verður það séð af yfirlýsingu tollstjórans þann 3. október 2002 að á því tímamarki var kærandi einnig talinn vera í vanskilum við ríkissjóð. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 28. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 skal á hvaða stigi útboðs sem er vísa bjóðanda frá ef bjóðandi er í vanskilum með opinber gjöld, lífeyrissjóðsgjöld eða sambærileg lögákveðin gjöld. Af færslu Skattstjórans í Reykjavík þann 17. október 2002 verður ráðið að kærandi hafi fengið leiðréttingu vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og að sú breyting hafi verið tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs, Tollstjóranum í Reykjavík. Sú breyting sem varð á stöðu kæranda gagnvart ríkissjóði hefði væntanlega leitt til þess að hann hefði fengið að taka þátt í útboði kærða hefðu upplýsingarnar legið fyrir við þátttökutilkynningu kæranda. Með vísan til 32. gr. laga um opinber innkaup verður að telja að rétt hefði verið af hálfu kærða að gefa kæranda kost á því að auka við þau gögn sem skilað hafði verið af kæranda með þátttökutilkynningunni. Verður ekki talið að það hefði raskað jafnræði meðal þátttakenda forvalsins, sbr. 11. gr. laga um opinber innkaup. Orkar það einkum á þessa niðurstöðu að í þátttökutilkynningu kæranda kom sérstaklega fram að ágreiningur væri milli hans og tollstjóraembættisins um raunverulega skuldastöðu fyrirtækisins við ríkissjóð. Með vísan til þessa er það mat nefndarinnar að ákvæði e-liðar 1. mgr. 28. gr. laga um opinber innkaup hafi ekki staðið því í vegi að kærandi tæki þátt í forvali kærða nr. 13101. Í máli þessu háttar þannig til að útboð kærða hefur farið fram og tilboð hafa verið opnuð. Hins vegar hefur ekki verið gengið til samninga við þáttakendur útboðsins. Í 1. mgr. 83. gr. laga um opinber innkaup eru tekin af öll tvímæli um að nefndinni sé óheimilt að fella úr gildi samning sem gerður hefur verið við bjóðanda. Er litið svo á ekki sé hægt að raska almannahagsmunum og hagsmunum bjóðanda eftir að samningur hefur komist á. Hins vegar getur nefndin ógilt ákvörðun kaupanda fyrir það tímamark og lagt fyrir hann að bjóða út tiltekin innkaup eða auglýsa útboð á nýjan leik, sbr. 1. mgr. 81. gr. laga um opinber innkaup. Með vísan til þess verður niðurstaða málsins sú að ákvörðun Ríkiskaupa um að hafna kæranda sem þátttakanda í forvali Ríkiskaupa nr. 13101 auðkennt sem „Alma-Upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins" er felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Ríkiskaupa um að hafna Streng hf. sem þátttakanda í forvali Ríkiskaupa nr. 13101 auðkennt sem „Alma-Upplýsingakerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins." Lagt er fyrir Ríkiskaup að auglýsa forvalið á ný.

Reykjavík, 5. febrúar 2003

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

5. febrúar 2003.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum