Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tilkynningarskylda heilbrigðisstarfsfólks til barnaverndarnefnda

Barnaverndarstofa, Barnavernd Reykjavíkur og starfsfólk Landspítala háskólasjúkrahúss hafa útbúið verklagsreglur um tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsfólks til barnaverndarnefnda.

Barnaverndarstarfið er viðkvæmur og sérstakur málaflokkur. Opinberir aðilar fjalla sjaldan um jafn viðkvæm mál einstaklinga og miklu skiptir að sá stuðningur og ákvarðanir sem barnaverndaryfirvöld taka komi barninu til góða.

Í barnaverndarlögum er að finna sérstakt ákvæði um tilkynningarskyldu þeirra sem hafa afskipti af börnum til barnaverndarnefnda. Tekið er fram að skyldan gangi framar þagnarskyldu starfsmanna. Barnaverndarnefndir fá oftast upplýsingar um barn sem talið eru búa við erfiðar heimilisaðstæður gegnum tilkynningu frá einhverjum sem þekkir til barnsins vegna vina- eða fjölskyldutengsla eða gegnum starf sitt.

Nýtt ákvæði er í barnaverndarlögum um skyldu til að tilkynna um þungaðar konur sem stofna lífi og heilsu ófædds barns síns í hættu. Dæmi um þetta getur verið kona sem er í mikilli vímuefnaneyslu eða sem á við alvarlegan geðsjúkdóm að etja. Markmiðið er að ná samstarfi við konuna um leiðir til að vernda hið ófædda barn.

Heilbrigðisstarfsmönnum, eins og öðrum sem hafa afskipti af börnum starfs síns vegna, er skylt að veita barnaverndarnefnd upplýsingar um barnið og foreldra þess til að barnaverndarnefnd geti metið hvernig best er að styðja barnið og fjölskylduna.

Árið 2001 bárust barnaverndarnefndum 4.075 tilkynningar. Um 5% tilkynninganna bárust frá starfsfólki heilbrigðisstofnana. Spurningar hafa vaknað um hvort heilbrigðisstarfsfólk verði í starfi sínu vart við tilvik þar sem grunur vaknar um að barn búi við vanrækslu, hafi orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi eða stofni eigin heilsu eða þroska í hættu með líferni sínu.

Markmiðið með verklagsreglunum er að auka vitund heilbrigðisstarfsmanna um tilkynningarskylduna og um leið veita ákveðnar leiðbeiningar um hvað ber að athuga sérstaklega og meta þegar grunur vaknar um atriði sem tilkynna á um. Er t.d. ósamræmi milli áverkanna sem sjást á barninu og sögunnar sem sögð er um tilurð áverkans? Finnast við læknisskoðun merki um fyrri áverka sem ekki hafa verið meðhöndluð? Er foreldri barnsins í þannig ástandi að það er ekki fært um að sinna þörfum þess nú, t.d. vegna vímuefnaneyslu?

Miklu skiptir að barnaverndarnefndir eigi gott samstarf við alla sem koma að málefnum barna. Hér er átt við barnið sjálft og foreldra þess svo og fagfólk sem á einn eða annan hátt vinnur með börnum og barnafjölskyldum. Verklagsreglunum er ætlað að stuðla að góðu samstarfi þeirra sem að þessum málum koma.

Skjal fyrir Acrobat ReaderVerklagsreglur um tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsfólks til barnaverndarnefnda (PDF, 145 KB)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum