Hoppa yfir valmynd
3. mars 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 2/2003. Úrskurður kærunefndar:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 3. mars 2003

í máli nr. 2/2003:

Batteríið Arkitektar

gegn

forsætisráðuneytinu,

Framkvæmdasýslu ríkisins og

Ríkiskaupum

Með bréfi 16. janúar 2003, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Batteríið Arkitektar samkeppni um hönnun skrifstofubygginga fyrir þrjú ráðuneyti á Stjórnarráðsreitnum í Reykjavík.

Kærandi krefst þess að ólögmæti framkvæmdarinnar verði viðurkennt og kærði verði átalinn fyrir brot gegn reglum um opinber útboð og góða siði í útboðsmálum. Jafnframt er þess krafist að kærunefnd útboðmála tjái sig um bótaskyldu kærða. Loks er krafist að kæranda verði ákveðin þóknun úr hendi kærðu vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá kærunefnd útboðsmála en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Í báðum tilfellum er gerð krafa um að kæranda verði gert að greiða kostnað varnaraðila við að hafa uppi andmæli við kærunni.

I.

Hönnunarsamkeppni um nýja ráðuneytisbyggingu á stjórnarráðsreitnum var auglýst 31. mars og 7. apríl 2002. Skila átti tillögum 19. júní 2002. Verkkaupi var forsætisráðuneytið en umsjón var í höndum Framkvæmdasýslu ríkisins. Samkeppnislýsing og samningur um hana var gerður á milli Arkitektafélags Íslands og verkkaupa. Var samkeppnislýsingin undirrituð af hálfu fulltrúa í dómnefnd og fulltrúa Arkitektafélags Íslands 27. mars 2002. Heildarfjárhæð verðlauna fyrir sigur í samkeppninni var kr. 6.000.000,-. Alls bárust dómnefndinni 25 tillögur vegna verksins. Kærandi skilaði ekki inn tillögu af sinni hálfu og var því ekki aðili að keppninni.

II.

Kærandi telur að við hönnunarsamkeppnina hafi verið lagðar ákveðnar forsendur og skilyrði sem tillögur keppenda áttu að taka tillit til en ella hefðu þær ekki verið teknar til greina. Kærandi telur að litið hafi verið framhjá grundvallarforsendum keppninnar og jafnræði keppenda verulega raskað. Kæranda hafi ekki verið mögulegt að taka þátt í keppninni eftir að hafa kynnt sér forsendur hennar. Í samkeppnislýsingu keppninnar hafi verið gert ráð fyrir ákveðinni samningsupphæð sem síðar hafi verið hækkuð. Þóknun hönnuða hafi verið ráðgerð 9% en með hækkun samningsupphæðarinnar hafi þóknunin hækkað að sama skapi.

III.

Kærði reisir kröfur sínar á því að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að leita úrlausnar um það sakarefni er málið varðar. Hann hafi ekki verið þátttakandi í hönnunarsamkeppninni og njóti því ekki stöðu aðila. Kærði telur að fjögurra vikna kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 hafi auk þess verið liðinn er kærandi sendi inn kæru sína. Fresturinn hafi byrjað að líða í síðasta lagi 19. desember 2002 en kærandi hafi skilað inn kæru sinni 17. janúar 2003. Kærandi lítur svo á að annmarkar séu á kröfugerð kæranda þar sem kröfur hans séu þess eðlis að ekki sé á valdi kærunefndar útboðsmála að taka afstöðu til þeirra, sbr. 81. gr. laga um opinber innkaup og starfsreglur nefndarinnar.

IV.

Í 1. mgr. 77. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2002 segir að heimild til að skjóta málum til kærunefndar útboðsmála hafi þeir einstaklingar eða lögaðilar sem njóta réttinda samkvæmt lögunum og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls. Úrlausn þess hvort aðili hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunefndar útboðsmála ræðst af hefðbundnum sjónarmiðum um lögvarða hagsmuni að stjórnsýslurétti. Óumdeilt er að kærandi var ekki þátttakandi í samkeppni um hönnun skrifstofubyggingar fyrir þrjú ráðuneyti á Stjórnarráðsreitnum í Reykjavík. Er því ljóst að kærandi hafi ekki verið bjóðandi í hönnunarsamkeppninni í skilningi 2. gr. laga um opinber innkaup og hafði því ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu dómnefndar í hönnunarsamkeppninni. Samkvæmt þessu verður að fallast á kröfu kærða um frávísun þar sem talið er að kæranda skorti þá lögvörðu hagsmuni sem áskildir eru fyrir málskoti til kærunefndar útboðsmála. Verður ekki talið hafa þýðingu þó kærandi hafi keypt gögn og haft vilja til að bjóða í umrætt verk á grundvelli forsendna hans sem síðar brugðust að hans mati. Verður samkvæmt þessu ekki komist hjá því að vísa kröfum kæranda í máli þessu frá kærunefnd útboðsmála.

Úrskurðarorð :

Kröfum Batterísins Arkitekta vegna hönnunar skrifstofubygginga fyrir þrjú ráðuneyti á Stjórnarráðsreitnum í Reykjavík er vísað frá kærunefnd útboðmála.

Reykjavík, 3. mars 2003.

Rétt endurrit staðfestir:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum