Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 36/2002. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 13. janúar 2003:

Í máli nr. 36/2002:

Verkfræðistofa F.H.G. ehf.

gegn

Vegagerðinni.

Með bréfi 6. desember 2002, kærir Verkfræðistofa F.H.G. ehf. útboð Vegagerðarinnar auðkennt "Reykjanesbraut (41), breikkun Hvassahraun - Strandarheiði".

Kærandi krefst þess að opinberir verkkaupar hætti með það vinnulag að tæknilegt mat bjóðanda sé hluti af verðtilboði þeirra þar sem slíkt neyði nýja og litla aðila til undirboða, vilji þeir frá verkefni. Kærandi krefst þess að sömu reglur gildi um útboð hönnunar- og eftirlitsstarfa og aðra vinnu sem ríkið/kærði er að bjóða út þannig að bjóðendur séu annað hvort metnir hæfir eða ekki til að vinna viðkomandi verk. Þeir sem metnir eru hæfir sitji þá við sama borð og verði leyft að bjóða í verkið á jafnréttisgrundvelli. Kærandi krefst þess jafnframt að hið kærða útboð verði gert ógilt og verkið boðið út að nýju þar sem ákvæðin um meðferð á hinu tæknilega mati séu felld út.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

I.

Með hinu kærða útboði bauð kærði út eftirlit með breikkun (tvöföldun) Reykjanesbrautar milli Hvassahrauns og Strandarheiðar. Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Auglýsing um útboðið birtist hinn 25. nóvember 2002 og skyldu tilboð berast eigi síðar en 6. janúar 2003, en tilboð skyldu opnuð sama dag. Samkvæmt auglýsingu sem og útboðslýsingu skyldi val bjóðanda fara fram á grundvelli hæfnisvals og bar bjóðanda að leggja fram tilboð sitt í tveimur hlutum, þ.e. upplýsingar um hæfni bjóðanda annars vegar og verðtilboð hins vegar. Í hæfnisvali skyldi matsatriðum gefið eftirfarandi vægi, sbr. lið 1.6. í útboðslýsingu: Verktilhögun 10%, starfslið 30%, gæðakerfi 10% og þóknun 50%. Nánar tiltekið skyldi hlutfallslegt vægi þóknunar vera 50% en hæfni 50%. Bjóðendum skyldi gefa stig og skyldi hvert stig jafngilda 1% í mati.

Í lið 1.6 í útboðslýsingu er gerð grein fyrir hvernig matið á hæfni bjóðenda fari fram. Samkvæmt lið 1.6.1 "Verktilhögun 10%" skyldi bjóðandi skilgreina í tilboði hvernig hann ætlaði að standa að stjórn verkefnisins og tryggja fagleg gæði. Stigagjöf skyldi vera 0-10 stig. Í útboðsgögnum var krafist upplýsinga um eftirfarandi í þessu sambandi: 1. Skipurit ráðgjafa fyrir verkefnið; 2. Áætlaður manntími á helstu verkhluta; 3. Hvernig verður staðið að gerð eftirlitsáætlunar til þess að fylgjast með og tryggja framvindu verksins; 4. Hvaða búnaður og aðstaða verður notuð við rannsóknir, mælingar og úttektir; 5. Hvernig verður staðið að gagnaskráningu og skjalavörslu. Samkvæmt útboðsgögnum skyldi gefa 0 stig ef upplýsingar vantaði. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því í fylgiskjali 3 að mjög góð greinargerð fái 10 stig, góð greinargerð fái 6 stig og sæmileg greinargerð 2 stig.

Samkvæmt lið 1.6.2 "Starfslið 30%" skyldi gefa 0-12 stig fyrir umsjónarmann eftir reynslu hans. Í þessu sambandi var krafist upplýsinga um fyrri verk (3 stig), meðmæli (3 stig), starfsferil sem verkefnisstjóra (3 stig) og samstarfshæfileika (3 stig). Á fylgiskjali 2 er nánar tilgreint hvernig gefa eigi stig fyrir einstaka undirliði.

Samkvæmt lið 1.6.3 "Gæðakerfi 10%" skyldi gefa bjóðanda 10 stig ef hann hefði vottað gæðakerfi samkvæmt ISO 9001, en 6 stig ef ann hefði eigið skilgreint kerfi. Bjóðandi skyldi fá 0 stig ef hann hefði ekkert gæðakerfi. Í þessu sambandi var krafist upplýsinga frá bjóðanda um gæðakerfi hans.

Samkvæmt lið 1.6.5 [svo] "Þóknun 50%" skyldi gefa 50 stig fyrir fjárhæð tilboðs þannig að lægsta tilboð fengi 50 stig og önnur tilboð fengju einkunn sem hlutfall af lægsta tilboði (S=50 x [ÞL/Þ]). Bjóðandi skyldi greina frá tímagjaldi starfsmanna.

Í lið 1.6.5 "Lágmarksfjöldi stiga" er tekið fram að til að koma til greina við endanlegt val við opnun tilboðsskrár þurfi bjóðandi að hafa náð að lágmarki 33 stigum af 50 mögulegum í hæfnismati.

Opnunarfundur fór fram þann 6. janúar 2003 og var kærandi ekki meðal tilboðsgjafa í hinu kærða útboði, sbr. fundargerð opnunarfunda.

II.

Kærandi byggir á því að hið tæknilega mat á bjóðendum krefjist þess af þeim sem fá lágt mat að þeir verði að bjóða lægra verð í verkið en þeir sem fá hátt mat, þ.e. til að vinna upp fá stig í tæknilega matinu verði þeir að skora mörg stig í verðmatinu. Að öðrum kosti sé viðkomandi ekki samkeppnishæfur. Hér sé um mismunun að ræða sem m.a. felist í því að ef kærandi og ein af stærstu verkfræðistofum landsins væru að selja út sama einstaklinginn, fengi kærandi 40% til 50% lægri þóknun fyrir vinnuframlag þessa manns. Slík mismunun á fyrirtækjum sem bæði eru metin hæf til að vinna viðkomandi verk geti ekki verið eðlileg eða lögleg þar sem hér sé verið að þvinga hluta bjóðenda til undirboða, vilji þeir fá verkið. Mismununin verði til þess að útiloka nýja aðila frá vinnu fyrir opinbera aðila vilji þeir fá sanngjarna þóknun fyrir vinnu sína. Þeir sem fái lágmarksstigafjölda, þ.e. 33 stig, þurfi að leggja fram 34% lægra verðtilboð en þeir sem fá hæstu stigagjöfina í hæfnismatinu til þess að fá sama heildarstigafjölda og til að eiga þar með möguleika á að vera lægstbjóðandi í verkið. Þetta sé sérstaklega furðulegt í ljósi þess að kærði hafi samþykkt bjóðanda sem hæfan og ætlast sé til að bjóðandi vinni verkið í einu og öllu samkvæmt útboðsgögnum. Kærði sé að komast upp með að greiða fyrirtækjum misháa þóknun fyrir sömu vinnu eftir hverjir vinna verkið. Kærandi byggir einnig á því að á öðrum sviðum þar sem hið opinbera sé að bjóða út vinnu sé hvergi um slíka mismunun fyrirtækja að ræða. Þessi meðferð tilboða sé því einstök og einstæð á íslenskum útboðsmarkmaði en vinna tæknimanna ætti að meðhöndlast með sama hætti og þegar almennt er verið að bjóða út vinnu og þjónustu. Málsmeðferð kærða bjóði upp á að kærði útiloki ákveðin fyrirtæki og einstaklinga um aldur og ævi frá vinnu fyrir kærða með einelti. Matið verði ávallt mikilli óvissu háð og þetta fyrirkomulag bjóði upp á spillingu og mismunun. Þá byggir kærandi á því að þessi krafa kærða um undirboð hljóti að vera í andstöðu við gildandi samkeppnislög.

Kærði byggir á því að hin kærða aðferð sé mjög í samræmi við "Leiðbeiningarit um kaup á ráðgjöf" sem fjármálaráðuneytið gaf út á árinu 2002. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til greinar 3.2. í umræddu riti þar sem gerð er grein fyrir forsendum fyrir vali á ráðgjöfum og fram kemur að við mat á hagkvæmasta tilboði skuli litið til hæfni bjóðenda. Í flestum útboðum kærða hafi verið notað hlutfallið 50/50 líkt og í hinu kærða útboði. Kærði segir það skyldu sína að vinna á sem hagkvæmastan hátt að lausn þeirra verkefna sem honum eru falin og telur að það sé m.a. fólgið í því að þeir sem að verkum kærða koma hafi reynslu og sérþekkingu og tryggi sem mest gæði verka fyrir sem lægst verð. Til að þetta megi takast þurfi að gera kröfur til hæfni þeirra sem að verkunum koma og meta hæfnina til fjár. Ákvæði útboðslýsingar um val á tilboði séu í samræmi við ákvæði laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Samkvæmt 50. gr. laganna skuli við val á bjóðanda gengið út frá hagkvæmasta boði, annað hvort tilboði sem er lægst að fjárhæð eða tilboði sem fullnægi þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem útboðsgögn greiða um val á tilboði, sbr. 26. gr. laganna. Í útboðslýsingu sé gerð ítarleg grein fyrir því hvernig staðið sé að mati á hæfni bjóðenda og nákvæmlega tilgreint hvaða upplýsingar ætlast sé til að bjóðendur leggi fram. Þessi tilhögun feli ekki í sér óeðlilega eða ólöglega mismunun milli bjóðenda eins og haldið sé fram af kæranda, heldur séu þvert á móti allar forsendur fyrir vali á tilboði skýrar og gerð ítarleg grein fyrir þeim í útboðsgögnum, þannig að ekki fari á milli mála hvaða forsendur beri að leggja til grundvallar. Því fari fjarri að bjóðendur séu neyddir til undirboða með þessari tilhögun. Kærandi hafi engin rök fært fyrir því að sú tilhögun á vali tilboðs, að meta hæfni bjóðenda, brjóti gegn ákvæðum laganna. Kærði vísar jafnframt til úrskurðar kærunefndar útboðsmála frá 26. nóvember 2002 í máli sömu aðila. Loks byggir kærði á því að kærandi hafi ekki verið meðal tilboðsgjafa í hinu kærða útboði. Þar með hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og hafi þar af leiðandi ekki málskotsrétt varðandi lögmæti útboðsins. Því verði að telja óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá nefndinni, sbr. 77. gr. laga nr. 94/2001.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laga nr. 94/2001 er heimild til að skjóta málum til kærunefndar útboðsmála bundin við þá einstaklinga og lögaðila sem njóta réttinda samkvæmt lögunum og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls. Ótvírætt er að kærandi nýtur réttinda samkvæmt lögunum, sbr. 8. gr. þeirra. Þar sem kærandi er ekki meðal tilboðsgjafa í útboðinu verður hins vegar ekki talið að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að hafna kröfum kæranda án þess að tekin sé efnisleg afstaða til málsins.

Úrskurðarorð :

Kröfum kæranda, Verkfræðistofu F.H.G. ehf. vegna útboðs Vegagerðarinnar auðkennt "Reykjanesbraut (41), breikkun Hvassahraun - Strandarheiði" er hafnað.

 

Reykjavík, 13. janúar 2003.

Páll Sigurðsson
Sigfús Jónsson
Stanley Pálsson

Rétt endurrit staðfestir.

13.01.03

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn