Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 10/2003. Úrskurður kærunefndar:

 

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 6. maí 2003

í máli nr. 10/2003:

Nýherji hf.

gegn

Ríkiskaupum.

I.

Með bréfi dagsettu 28. nóvember 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærði Nýherji hf. útboð Ríkiskaupa nr. 13082 auðkennt ?Hljóð- og myndsendingarkerfi fyrir Kennaraháskóla Íslands."

Kærandi krafðist þess að ákvörðun Ríkiskaupa frá 31. október 2002 um að ganga að tilboði Exton hf. verði úrskurðuð ólögmæt og að viðurkennd verði skaðabótaskylda Ríkiskaupa gagnvart kæranda. Þá krafðist kærandi kostnaðar úr hendi Ríkiskaupa við að hafa kæruna uppi.

Kærði krafðist þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Í ákvörðun 5. febrúar 2003 komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að ákvörðun kærða að hafna frávikstilboði kæranda í útboði nr. 13082 hafi verið ólögmæt. Lagt var fyrir Ríkiskaup að taka afstöðu til frávikstilboða kæranda og gefa tilboðinu einkunn með sama hætti og önnur tilboð samkvæmt útboði Ríkiskaupa nr. 13082 auðkennt sem ?Hljóð- og myndsendingarkerfi fyrir Kennaraháskóla Íslands."

Með bréfi lögmanns kæranda dagsettu 6. mars 2003 var farið fram á það við kærunefnd útboðsmála að hún tæki málið til úrskurðar á grundvelli bréfs kærða til kæranda dagsetts 18. febrúar 2003. Í bréfinu segir: ?Í samræmi við úrskurð Kærunefndar útboðsmála nr. 34/2002 dags. 5. febrúar sl. fylgir með bréfi þessu einkunnargjöf fyrir frávikstilboð Nýherja hf. í ofangreindu útboði ásamt umsögn um einstaka liði einkunnargjafar. Samkvæmt meðfylgjandi einkunnarblaði fær frávikstilboð 91,5% í heildareinkunn." Kærandi krafðist þess í tilgreindu bréfi frá 6. mars 2003 að ákvörðun Ríkiskaupa frá 31. október 2002 um að ganga að tilboði Exton hf. og hafna frávikstilboði kæranda verði úrskurðuð ólögmæt. Ennfremur krafðist kærandi að viðurkennd væri skaðabótaskylda kærða gagnvart kæranda, bæði vegna kostnaðar við tilboðsgerðina, þátttöku í útboðinu og vegna missis hagnaðar. Loks var krafist kostnaðar úr hendi kærða við að hafa kæruna uppi.

Kærða var gefinn kostur á að tjá sig um efni kröfu kæranda frá 6. mars sl. Með bréfi, dags. 8. apríl 2003, krafðist kærði aðallega þess að kröfum kæranda verði hafnað. Til vara krafðist kærði að kæranda yrði aðeins úrskurðaður kostnaður við gerð tilboðs með vísan til 84. gr. laga um opinber innkaup.

Kærði rökstuddi aðalkröfu sína með vísan til þess að frávikstilboð kæranda í tilgreindu útboði hafi ekki fullnægt þeim lágmarkskröfum sem gerðar voru í útboðsgögnum. Byggir kærði á því að kærandi hafi ekki gert grein fyrir frávikstilboði sínu og hvernig það fullnægði þörfum kaupanda. Ennfremur hafi kærandi, með því að sleppa geislaspilara í tilboði sínu, endurskilgreint þarfir kaupanda sem ekki sé heimilt.

Kærði rökstuddi varakröfu sína með vísan til þess að kærandi þurfi samkvæmt 84. gr. laga um opinber innkaup að sýna fram á að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að vera valinn af kaupanda. Það hafi kærandi ekki sýnt fram á.

II.

Um málavexti máls þessa vísast einkum til ákvörðunar Kærunefndar útboðsmála frá 5. febrúar 2003 þar sem tekin var sú ákvörðun að ólögmætt hafi verið af hálfu kærða að hafna frávikstilboði kæranda. Í samræmi við tilmæli kærunefndarinnar hefur kærði nú gefið frávikstilboði kæranda einkunn. Hlaut tilboð kæranda 91,5% í einkunn. Óumdeilt er að það tilboð sem tekið var í kjölfar hins kærða útboðs, tilboð Exton hf., hlaut einkunnina 86,5%. Í ljósi þessa telur kærunefnd útboðsmála að með þeirri ákvörðun kærða að hafna frávikstilboði kæranda hafi kærði komið í veg fyrir að tilboð það, sem reyndist síðar hagstæðasta tilboðið, væri tekið. Með hliðsjón af þessu verður ekki hjá því komist að fallast á kröfu kæranda um að úrskurða að ólögmætt hafi verið af kærða að taka tilboði Exton hf.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu er það álit nefndarinnar að kærði sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna kostnaðar hins síðarnefnda við tilboðsgerðina. Ennfremur er kærða gert að greiða kæranda þann kostnað sem hann þurfti að inna af hendi til að hafa uppi kröfur í máli þessu og fylgja þeim eftir. Kostnaður ákveðst kr. 324.850,-.

Ekki þykja efni til að taka til greina kröfu kæranda um skaðabætur vegna missis hagnaðar, enda hefur ekki verið sýnt fram á tjón vegna þess þáttar.

Úrskurðarorð :

Sú ákvörðun kærða að taka tilboði Exton hf. í útboði kærða nr. 13082 auðkennt ?Hljóð- og myndsendingarkerfi fyrir Kennaraháskóla Íslands var ólögmæt. Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna kostnaðar við að gera tilboð í útboðinu. Kærði greiði kæranda kr. 324.850,- vegna kostnaðar við að hafa kröfur uppi í máli þessu.

Reykjavík, 6. maí 2003.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

Rétt endurrit staðfestir.

6. maí 2003.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn