Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 11/2003. Úrskurður kærunefndar:

 

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 12. maí 2003

í máli nr. 11/2003:

TölvuMyndir hf.

gegn

Ríkiskaupum.

Með bréfi 24. mars 2003, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir TölvuMyndir hf. útboð Ríkiskaupa nr. 13157 auðkennt sem ?Lögreglukerfi - Upplýsingakerfi fyrir lögregluna."

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála leggi mat á tilboðin, sem bárust í útboðinu, og gangi úr skugga um hvort tilboð Skýrr hf. sé í samræmi við útboðsskilmála og hve raunhæft tilboð þeirra sé miðað við umfang verksins.

Kærði krefst þess að kröfu kæranda verði hafnað.

I.

Að undangengnu forvali kærða nr. 13088 efndi kærði til lokaðs útboðs. Í nóvember 2002 var óskað eftir tilboðum í nýtt upplýsingakerfi fyrir lögregluna. Fjórum aðilum, Hugi hf., Skýrr hf., Tölvumiðlun hf. og kæranda var boðið að skila inn tilboðum. Skilafrestur tilboða rann út 27. desember 2002. Tilboðið var tveggja umslaga útboð og skyldi umslag númer tvö verða opnað 17. janúar 2003. Umslag eitt átti að geyma lausn bjóðanda ásamt greinargerðum og upplýsingum sem farið var fram á í útboðslýsingu. Umslag 2 átti að geyma verðtilboð bjóðanda. Um val á samningsleiðum er fjallað í grein 1.2.5 útboðslýsingar. Þar kemur fram að tilboðum verði fyrst gefin einkunn eftir eftirfarandi þáttum: Hæfni og styrk verkefnishóps, skilningi bjóðanda á verkefninu, nálgun og aðferðarfræði bjóðanda að verkefninu, heilleika og gæðum tillögu bjóðanda að verkáætlun og rökréttri uppbygging heilleika og gæðum tilboðsins í heild. Allir framangreindir þættir voru taldir til stiga í ákveðnum hlutföllum, alls 100 stig. Heildarfjöldi þessara þátta skyldi samkvæmt grein 1.2.5. útboðslýsingar hafa 30% vægi í heildareinkunn. Verð tilboða vó hins vegar 70%. Kom fram í sama ákvæði útboðslýsingarinnar að það tilboð yrði talið hagstæðast sem hlyti hæsta vegna meðaleinkunn allra matsþátta. Í grein 1.2.3 útboðslýsingar sagði að kærði myndi taka hagstæðasta tilboði eða hafna öllum. Í sama ákvæði sagði síðan orðrétt: ?Ríkiskaup áskilja sér rétt til að hafna tilboðum ef ekki er talið samræmi milli verðs og þess sem lýsingar og greinargerðir um hönnun og þjónustu segja til um. Þetta er í samræmi við VIII. kafla laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Tekið skal fram að kallað verður eftir rökstuðningi frá bjóðanda áður en ákvörðun verður tekin um að hafna tilboði hans."

Þrjú tilboð bárust í hinu kærða útboði. Tilboð kæranda hlaut hæstu einkunn fyrir lausn, eða 86,4 stig. Tilboð Skýrr hf. hlaut hins vegar hæstu heildareinkunnina, eða 91,99 stig af 100 mögulegum. Hugur hf. hlaut heildareinkunnina 57,67 stig. Kærandi hlaut lægsta heildareinkunn, eða 49,78 stig. Í framhaldi af opnun tilboða gekk kærði til samninga við Skýrr hf.

Með bréfi kæranda, dags. 24. mars 2003, var framkvæmd útboðsins kærð. Kærði skilaði inn greinargerð með sjónarmiðum sínum með bréfi, dags. 8. apríl 2003. Kæranda skilaði svo inn athugasemdum við greinargerð kærða 6. maí 2003.

II.

Kærandi byggir kröfu sína á því að það liggi ljóst fyrir að ekkert samræmi hafi verið á milli tilboðsfjárhæðar Skýrr hf. og raunverulegs kostnaðar við verkið. Kærandi hafi talið sig vera að bjóða mjög lágt í verkið með tilboði sínu, sem reyndist vera 70% af matsverði. Tilboðsfjárhæð Skýrr hf. hafi verið grunsamlega lág. Kærandi telur að tilboðið geti ekki staðist og að kærða hafi borið, áður en gengið var til samninga við Skýrr hf., að óska eftir við Skýrr hf., að það fyrirtæki rökstyddi tilboð sitt og sýndi fram á að það gæti framkvæmt verkið fyrir tilboðsfjárhæðina. Bendir kærandi á að þegar óraunhæfum tilboðum sé tekið sé hætta á að gangur og gæði verksins verði ekki eins og að var stefnt og jafnvel að endanlegur kostnaður við verkið verði hærri en kostnaðarmat.

Kærandi bendir ennfremur á að hann meti það svo að til lítils sé að taka þátt í útboðum á vegum ríkisins ef það fyrirtæki sem hefur setið að verkefnum á vegum þess undanfarin ár getur komist upp með undirboð eins og kærandi telur að hafi átt sér stað í tilviki Skýrr hf.

III.

Kærði reisir kröfu sína á því að ekki sé grundvöllur til að taka kröfu kæranda til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup og að rétt hafi verið staðið að hinu kærða útboði og úrvinnslu tilboða. Hafnar kærði málsástæðum og lagarökum kæranda.

Kærði byggir kröfu sína á því að Skýrr hf. hafi verið með langhagstæðasta tilboðið. Óneitanlega veki hins vegar athygli hverslu lágt tilboð félagsins hafi verið miðað við kostnaðarverð. Kærði fullyrðir að bæði hann og dómsmálaráðuneytið hafi kannað það ítarlega hvort eitthvað gerði það að verkum að Skýrr hf. gæti ekki staðið við tilboð sitt. Haldnir hafi verið tveir fundir með fulltrúum Skýrr hf. þar sem þeir hafi fullyrt að staðið yrði við tilboðið í einu og öllu og á því verði sem þeir buðu. Engir fyrirvarar hafi komið fram í tilboði þeirra. Skýrr hf. sé eitt stærst og öflugasta fyrirtæki landsins á sínu sviði og því ekkert sem hafi legið fyrir sem gæti tortryggt tilboð þeirra.

Kærði bendir á að hann hafi óskað eftir skýringum Skýrr hf. á því hvers vegna tilboð þeirra væri svo lágt sem raun bar vitni. Gefnar voru þær skýringar að félagið hefði mikinn áhuga á verkefni því sem boðið hafi verið út í hinu kærða útboði, eftir á að hyggja hefðu ákveðnir þættir við hönnun og smíði lögreglukerfisins verið vanmetnir og að félagið teldi að við smíði lögreglukerfisins öðluðust starfsmenn þess dýrmæta reynslu sem koma myndi fyrirtækinu til góða.

Varðandi fyrirvara kærða í grein 1.2.3 í útboðslýsingu bendir kærði á að fyrirvarinn hafi verið settur í útboðslýsinguna til viðbótar almennum heimildum til að hafna tilboðum. Ekki væri ætlunin að þrengja þær heimildir. Í 51. gr. laga um opinber innkaup felist ekki skylda til að vísa lágum tilboðum frá heldur ganga eftir skýringum frá bjóðanda og meta þær síðan óski kaupandi eftir að hafna tilboðinu sem óeðlilega lágu. Það hafi verið mat kærða að tilboð Skýrr hf. væri þess eðlis að hann gæti staðið við það og framkvæmd verkefnisins væri tryggð.

IV.

Í máli þessu gerir kærandi þá kröfu að kærunefnd útboðsmála leggi mat sitt á tilboð sem bárust í hinu kærða útboði og gangi úr skugga um hvort tilboð Skýrr hf. hafi verið í samræmi við útboðsskilmála og hve raunhæft tilboð þeirra hafi verið miðað við umfang versksins. Í kæru kæranda kemur m.a. fram að tilefni kærunnar sé fyrirvari kærða í grein 1.2.3 í útboðslýsingu. Með hliðsjón af málatilbúnaði kæranda og valdsviði kærunefndar útboðsmála, sbr. XIII. kafla laga um opinber innkaup nr. 94/2001, verður nú leyst úr þeim ágreiningsatriðum sem uppi eru og geta komið til kasta nefndarinnar.

Kærandi byggir kröfu sína á því að tilboð Skýrr hf. geti ekki hafa staðist, hvað verð snertir, og að kærða hafi borið áður en gengið var til samninga, að óska eftir við Skýrr hf. að félagið rökstyddi tilboð sitt. Í 1. mgr. 51. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 kemur m.a. fram að þegar tilboð virðast óeðlilega lág, miðað við raunvirði þess sem kaupa á, skuli kaupandi óska eftir nánari upplýsingum frá bjóðanda um þau atriði sem máli skipta og sannreyna þær áður en boði er hafnað. Markmið ákvæðisins er m.a. að koma í veg fyrir að bjóðanda sé fengið verk sem ekki eru líkur á að hann geti staðið við. Í hinu kærða útboði liggur fyrir að tilboð Skýrr hf. hlaut bestu heildareinkunnina. Vó þar þyngst að fjárhæð tilboðs félagsins var sú lægsta sem boðin var. Óumdeilt er meðal aðila máls þessa að tilboð Skýrr hf. var lægra heldur en matsverð verksins sem boðið var út í hinu kærða útboði. Ekkert er hins vegar fram komið um að Skýrr hf. geti ekki staðið við tilboð sitt við framkvæmd verksins. Í útboðslýsingu kom fram sá fyrirvari að kærði áskildi sér rétt til að hafna tilboðum ef ekki væri samræmi á milli verðs og þess sem lýsingar og greinargerðir um hönnun og þjónustu segja til um. Fyrirvari þessi verður að mati kærunefndar útboðsmála ekki talinn fela í sér skyldu kærða til að hafna tilboðum í þeim tilvikum sem fjárhæðir tilboðanna voru lægri heldur en matsverð. Slíkar skyldur verða ekki heldur lagðar á kærða samkvæmt ákvæði 51. gr. laga um opinber innkaup. Með vísan til þessa telur kærunefnd útboðsmála ekki tilefni til að grípa til þeirra úrræða sem nefndinni eru heimil samkvæmt XIII. kafla laga um opinber innkaup.

Í málatilbúnaði kærða kemur fram að hann metur það svo að til lítils sé að taka þátt í útboðum á vegum ríkisins ef það fyrirtæki sem hefur setið að verkefnum á vegum þess undanfarin ár getur komist upp með undirboð eins og kærandi telur að hafi átt sér stað í tilviki Skýrr hf. Eftirlit og íhlutun vegna hugsanlegrar yfirburðastöðu Skýrr hf. og bolmagn félagsins til undirboða vegna stöðu félagsins á markaði heyrir ekki undir kærunefnd útboðsmála, heldur samkeppnisyfirvöld.

Úrskurðarorð:

Kærunefnd útboðsmála telur ekki tilefni til að aðhafast neitt vegna ákvörðunar Ríkiskaupa um að ganga til samninga við Skýrr hf. í framhaldi af útboði nr. 13157 auðkennt sem ?Lögreglukerfi - Upplýsingakerfi fyrir lögregluna."

Reykjavík, 12. maí 2003.

Rétt endurrit staðfestir:

12. maí 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn