Hoppa yfir valmynd
30. júní 2003 Matvælaráðuneytið

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Kjósahrepps

YFIRMATSGERÐ

á arðskrá fyrir Veiðifélag Kjósarhrepps

 

I.

Undirmat. Beiðni um yfirmat

Hinn 15. apríl 2002 luku þeir Hákon Aðalsteinsson, vatnalíffræðingur, og Sigurður Jónsson, hæstaréttarlögmaður, mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Kjósarhrepps. Hafði Hákon verið dómkvaddur til starfans af Héraðsdómi Reykjavíkur 3. desember 1996 ásamt Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni. Hinn síðarnefndi óskaði eftir að verða leystur undan starfanum og var Sigurður Jónsson dómkvaddur í hans stað 19. maí 2000.

Með bréfi stjórnar veiðifélagsins til yfirmatsmanna 11. júlí 2002 framsendi hún erindi Jóns Gíslasonar, Hálsi, til stjórnarinnar, sem dagsett er 25. júní 2002, en með því vísaði hann undirmatinu til endurskoðunar fyrir yfirmatsmönnum. Með því að þá voru liðnir meira en tveir mánuðir frá dagsetningu undirmatsins óskuðu yfirmatsmenn 2. ágúst 2002 eftir frekari skýringum stjórnarinnar á því hvort erindið væri fram komið innan lögmælts kærufrests, sbr. 2. mgr. 50. gr. og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 76/1970. Var sérstaklega óskað upplýsinga um það hvenær Jóni Gíslasyni var birt matsgerðin. Í svari stjórnarinnar 14. ágúst 2002 kom fram að ábyrgðarbréf til félagsmanna um matið hafi verið póstlögð 15. maí sama árs og fylgdu móttökukvittanir Íslandspósts hf. því til staðfestingar. Að fenginni þessari skýringu er ljóst að krafa Jóns Gíslasonar um yfirmat er nægilega snemma fram komin.

II.

Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.

Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.

Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Kjósarhrepps eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 13. september 2002 í Félagsgarði í Kjós. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn eigenda þessara jarða:  Valdastaða I og II, Háls og Neðri Háls, Laxárness, Meðalfells, Sogns, Írafells, Fremri-Háls, Grímsstaða, Hækingsdals og Káraness.

Á fundinum voru kynntar ráðagerðir yfirmatsmanna um verklag og óskað eftir athugsemdum um formhlið málsins og hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram. Var fundarmönnum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum og athugasemdum vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Var því jafnframt beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 10. nóvember 2002. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundinum eða við vettvangsgöngu að honum loknum: Jóhann Níelsson og Eggert Gíslason vegna Laxárness, Pétur Lárusson vegna Káraness, Guðbrandur Hannesson vegna Hækingsdals, Snorri Hilmarsson vegna Sogns, Jón Gíslason vegna Háls og Neðri-Háls, Ólafur Þ. Ólafsson vegna Valdastaða, Gísli Ellertsson og Sigþór Gíslason vegna Meðalfells.

Sama dag og fundurinn var haldinn voru kannaðar aðstæður á vatnasvæðinu. Var það gert með þeim hætti að formaður veiðifélagsins fylgdi yfirmatsmönnum um svæðið. Á fundinum var mönnum bent á að þeir gætu sjálfir sýnt yfirmatsmönnum aðstæður fyrir sínum löndum, teldu þeir ástæðu til. Nýttu nokkrir veiðiréttareigendur sér það við vettvangsgöngu.

Eftir þennan fund hafa yfirmatsmönnum borist greinargerðir frá eigendum eða talsmönnum eftirgreindra jarða: Laxárness (með fylgiskjölum), Háls og Neðri-Háls (með fylgiskjölum), Káraness og sameiginleg greinargerð Valdastaða I, Valdastaða II og Grímsstaða.

Leitað var eftir upplýsingum eða andsvörum nokkurra veiðiréttareigenda m.a. í tilefni fram kominna sjónarmiða í greinargerðum, sem yfirmatsmenn hafa fengið. Bárust af því tilefni í febrúar til júní 2003 svör frá talsmönnum Háls, Káraness, Meðalfells og Laxárness. Yfirmatsmenn hafa leitað til Veiðimálastofnunar, formanns veiðifélagsins, fulltrúa leigutakans og fleiri manna eftir margs kyns upplýsingum, auk þess sem Sigurður Már Einarsson og Guðni Guðbergsson, sérfræðingar hjá Veiðimálastofnun, hafa veitt svör við ýmsum álitaefnum varðandi viðfangsefnið.

 

 

 

 

III.

Um Veiðifélag Kjósarhrepps.

Félagið heitir Veiðifélag Kjósarhrepps og starfar samkvæmt samþykkt nr. 91/1949, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 5. júlí sama árs. Hefur ekki verið staðfest nein breyting á henni eftir það.

Samkvæmt 2. gr. samþykktarinnar er verkefnum félagsins lýst þannig að þau séu að viðhalda og auka fiskgengd á félagssvæðinu og að leigja veiðisvæðið til stangarveiða.

Í 3. gr. samþykktarinnar segir að félagið nái til allra eftirtalinna jarða, sem eigi land að eða veiðirétt í Laxá, Bugðu og Meðalfellsvatni ásamt lækjum, sem í það falla, en þær séu: Neðri-Háls, Valdastaðir, Sogn, Reynivellir, Vindás, Hækingsdalur, Fremri-Háls, Írafell, Möðruvellir, Eyjar, Þorláksstaðir, Hurðarbak, Káranes, Káraneskot, Laxárnes, Meðalfell, Flekkudalur, Grjóteyri og Sandur. Í nokkrum tilvikum munu veiðihlunnindi vera sameiginleg með tveimur eða fleiri jörðum, ýmist í jöfnum hlutföllum eða misháum. Verða þau þá metin í einu lagi svo sem áður hefur verið gert.

Í 11. gr. er ákvæði þess efnis að arði af sameiginlegri veiði skuli skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá og að félagsmenn greiði gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taka arð.

Gildandi arðskrá fyrir veiðifélagið er samkvæmt yfirmatsgerð 8. maí 1987.

IV.

Rekstur veiðivatna. Leigusamningur og tekjur.

Veiði í Laxá og Bugðu hefur um árabil verið á hendi leigutaka, en ekki veiðiréttareigenda sjálfra. Umsaminn leigutími hefur oft verið þrjú ár í senn, en um leigugjald hefur verið samið sérstaklega fyrir hvert ár leigutímans.

Með samningi 1. júlí 1999 seldi veiðifélagið Laxi ehf. á leigu alla stangaveiði í Laxá og Bugðu árin 2001 – 2003 að báðum árum meðtöldum. Með í leigunni var veiðihús félagsins, aðstaða í hluta skólahússins Ásgarðs til loka ágúst og búnaður, sem tilheyrir rekstri veiðihótels. Leyft var að veiða með 10 stöngum í einu í samtals 900 stangardaga. Leigutaka var þó heimilt á tímabilinu frá 1. júlí til 20. ágúst að veiða með 12 stöngum í senn, en sú heimild var háð því að þá væri eingöngu veitt með flugu. Lækkaði þá stangafjöldi aðra daga veiðitímans í réttu hlutfalli við það. Leyfilegt veiðiagn var fluga og maðkur. Eftir 15. september var veiði óheimil í Laxá ofan Álabakka og ofan brúar í Bugðu. Umsamið árlegt leigugjald var 21.000.000 krónur, sem breytist fyrir hvert ár leigutímans í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs í júlí 1999.

Í samningnum frá 1999 lýstu aðilarnir vilja sínum til að framlengja samninginn þegar eitt ár væri eftir af gildistíma hans. Það hafa þeir nú gert með samningi 27. maí 2003, sem gildir fyrir árin 2004-2006. Er hann í höfuðatriðum eins og fyrri samningurinn, en umsamið árlegt leigugjald er 27.000.000 krónur, sem breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs í apríl 2003 með nánar tilteknum hætti. Veiðitímabilið skal vera frá 10. júní til 9. september hvert ár leigutímans.

Veiðifélagið leigir sérstaklega út veiði í Meðalfellsvatni. Gerði félagið samning 1. apríl 2002 við Hermann Ingólfsson og Aðalheiði Birnu Ingólfsdóttur, Hjalla, um leigu á allri veiði í vatninu árin 2002, 2003 og 2004. Er leigutökum heimilt að selja veiðileyfi til stanga- og dorgveiði, en önnur veiði er óheimil. Endurgjald er 1.000.000 krónur fyrir hvert ár leigutímans, en sú fjárhæð breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs í apríl 2002. Veiði innan 50 metra frá ósi úr vatninu í Bugðu er óheimil. Áðurgildandi samningur veiðifélagsins um veiði í vatninu frá mars 2001 var við félagið Útivist og veiði og var leigugjald 1.200.000 krónur fyrir árið 2001.

 Samkvæmt rekstrarreikningi veiðifélagsins fyrir árin 2001 og 2002 voru tekjur þess fyrra árið samtals 23.878.892 krónur og 25.665.520 krónur hið síðara.

V.

Gögn til afnota við matsstörfin.

Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:

1.       Beiðni um yfirmat 11. júlí 2002 og bréf Jóns Gíslasonar, Hálsi, 25. júní 2002. (áður getið).

2.       Arðskrármat undirmatsmanna 15. apríl 2002. (áður getið).

3.       Bréfaskipti yfirmatsmanna og Veiðifélags Kjósarhrepps 2. ágúst 2002 og 14. sama mánaðar. (áður getið).

4.       Dómkvaðning undirmatsmanna 3. desember 1996 og 19. maí 2000. (áður getið).

5.       Samþykkt fyrir Veiðifélag Kjósarhrepps. (áður getið).

6.       Undirmatsgerð á skiptingu arðskrár fyrir Veiðifélag Kjósarhrepps 29. nóvember 1985.

7.       Yfirmatsgerð fyrir sama 8. maí 1987.

8.       Veiðimannakort af Laxá og Bugðu með merktum veiðistöðum.

9.       Gögn varðandi fundi undirmatsmanna með eigendum veiðiréttar dags. 22. mars 2001, 9. apríl, 15. og 28. maí og 8. júní sama árs (fundarboð, fundargerð, listi yfir fundarmenn).

10.   Bréf undirmatsmanna til veiðifélagsins 9. desember 1996. (varðar gagnaöflun)

11.   Spurningalisti Jóhanns H. Níelssonar hrl. til undirmatsmanna 22. maí 1998.

12.   Bréf undirmatsmanna 8. júlí 1998 til stjórnar veiðifélagsins um þörf á gagnaöflun um ýmsa þætti.

13.   Svarbréf stjórnar veiðifélagsins 12. október 1998 til undirmatsmanna.

14.   Gögn frá Talnakönnun hf. varðandi áhrif laxastiga á veiði.

15.   Mæling Hnita hf. á bakkalengd jarða við Laxá, Bugðu, Meðalfellsvatn og ós (ódagsett)

16.   Ársreikningar Veiðifélags Kjósarhrepps 1998, 2000, 2001 og 2002.

17.   Leigusamningar um stangarveiði (getið í IV. kafla að framan.)

18.   Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna (getið í II. kafla að framan.)

19.   Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til undirmatsmanna vegna: Laxárness (með þrettán fylgiskjölum), sameiginleg greinargerð Valdastaða I, Valdastaða II og Grímsstaða og sameiginleg greinargerð Káraness og Káraneskots.

20.   Dómur Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 797 í máli eigenda fimm jarða við neðsta hluta Laxár gegn Veiðifélagi Kjósarhrepps og eigendum tuttugu og átta jarða á félagssvæðinu varðandi dómkvaðningu matsmanna. Einnig greinargerðir lögmanna aðila málsins.

21.   Dómur Hæstaréttar í dómasafni 1996, bls. 33 í máli eigenda sömu jarða og í máli 1995 varðandi sama sakarefni. Einnig greinargerðir lögmanna aðila málsins.

22.   Veiðimálastofnun: Gögn um veiði í Laxá og Bugðu, skipt eftir veiðistöðum, árin 1983 – 2002 að báðum meðtöldum.

23.   Fundarboð og listi yfir fundarmenn á fundi Veiðifélags Kjósarhrepps með yfirmatsmönnum 13. september 2002.

24.   Bréf yfirmatsmanna til Jóhanns Níelssonar hrl. um framlengingu frests til 15. desember 2002 til að skila greinargerðum.

25.   Bréf Veiðimálastofnunar 1. október 2002 til Jóns Gíslasonar, Hálsi, um skiptingu veiði eftir veiðistöðum.

26.   Bréf Jóns Gíslasonar, Hálsi, 24. september 2002 til stjórnar veiðifélagsins um að fram fari sérstök könnun Veiðimálastofnunar á ósasvæði Laxár og svarbréf stjórnarinnar 23. október sama árs.

27.   Veiðimálastofnun: „Umfjöllun um ósasvæði Laxár í Kjós“, október 2002.

28.   Bréf Jóns Gíslasonar, Hálsi, 3. desember 2002 til yfirmatsmanna varðandi greiðslu kostnaðar af skýrslu um ósasvæði og svarbréf yfirmatsmanna 12. sama mánaðar.

29.   Bréf Gísla Ellertssonar, Meðalfelli, til undirmatsmanna 5. maí 2001 varðandi Dælisá og hólma í Meðalfellsvatni.

30.   Veiðimálastofnun: „Mat á búsvæðum fyrir lax á vatnasvæði Laxár í Kjós“, febrúar 1999 með leiðréttri töflu á bls. nr. 7 frá janúar 2003.

31.   Bréf talsmanns Valdastaða og Grímsstaða 16. janúar 2003 varðandi skýrslu Veiðimálstofnunar, sbr. lið nr. 32.

32.   Veiðimálstofnun: „Dreifing laxveiði í Laxá í Kjós fyrir og eftir byggingu laxastiga í Laxfossi“, janúar 2003.

33.   Bréf Jóns Gíslasonar, Hálsi, 1. febrúar 2003 til yfirmatsmanna varðandi netaveiði í Laxárvogi með fylgiskjali.

34.   Bréf Gísla Ellertssonar, Meðalfelli, 5. febrúar 2003 varðandi landlengd hólma í Meðalfellsvatni.

35.   „Frumathuganir vegna stíflu í Dælisá í Kjós“ (Hönnun hf. – ódagsett).

36.   Bréf undirmatsmanns 24. apríl 1974 til landeiganda varðandi bakkalengd jarða.

37.   Veiðimálstofnun: Níu rannsóknarskýrslur frá árunum 1976-2001.

38.   Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Káraness og Káraneskots 20. febrúar 2003 varðandi sjóbirtingsveiði og búsvæðamat.

39.   Bréf tveggja eigenda Fremri-Háls 11. september 2002 til yfirmatsmanna varðandi

Hálsá (með fylgiskjali)

40. Bréf yfirmatsmanna til veiðifélagsins 17. mars 2003 varðandi veiðibann í Höklum.

41.   Bréf Orkustofnunar 6. mars 2003 til yfirmatsmanna varðandi rennslismælingar í Laxá og Bugðu.     

42.   Bréf yfirmatsmanna 10. mars 2003 til talsmanna Meðalfells, Káraness og Laxárness varðandi vægi landlengdar við Bugðu.

43.   Tvö bréf yfirmatsmanna 13. apríl 2003 til veiðifélagsins varðandi annars vegar skiptingu Veiðimálastofnunar á afla á einstökum veiðistöðum á jarðir og um bakkamælingu Hnita hf. og hins vegar gildistöku nýrrar arðskrár.

44.   Svarbréf veiðifélagsins 3. apríl 2003 varðandi veiðibann í Höklum.

45.   Bréf yfirmatsmanna til talsmanna Háls og Laxárness 15. apríl 2003 varðandi veiðibann í Höklum.

46.   Bréf yfirmatsmanna til talsmanna Háls og Laxárness 22. apríl 2003 varðandi skýrslu Veiðimálstofnunar frá janúar 2003 um dreifingu laxveiði fyrir og eftir gerð laxastiga og um bréf talsmanns Valdastaða 16. janúar 2003.

47.   Svarbréf talsmanns Háls 5. maí 2003 varðandi veiðibann í Höklum.

48.   Bréf veiðifélagsins 5. maí 2003 um notkun agns og veiðibann í Höklum.

49.   Svarbréf veiðifélagsins varðandi skiptingu afla á jarðir (sbr. lið nr. 43).

50.   Svarbréf talsmanns Káraness 6. maí 2003 við fyrirspurn um sjóbirting og búsvæðamat (sbr. lið nr. 38).

51.   Svarbréf talsmanna Háls og Laxárness 6. maí 2003 við bréfi yfirmatsmanna 22. apríl 2003 (sbr. lið nr. 46).

52.   Bréf yfirmatsmanna 23. júní 2003 til talsmanna Káraness, Laxárness og Valdastaða vegna veiði í Ármótum.

53.   Svarbréf talsmanns Káraness 25. júní 2003 (sbr. lið nr. 52).

54.   Bréf Ásgeirs Heiðars, fulltrúa leigutaka, 29. júní 2003 varðandi veiði í Ármótum.

VI.

Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar.

Þess var áður getið að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum. Verða jafnframt tilfærð eftir því sem þarf viðhorf, sem birtast í greinargerðum þeirra til undirmatsmanna.

Káranes og Káraneskot:

Talsmaður jarðanna lagði fram skriflega greinargerð sína til yfirmatsmanna og lýsti jafnframt viðhorfum sínum á fundi með þeim og við vettvangsgöngu.  Fyrsta athugasemd þessara veiðiréttareigenda lýtur að búsvæðamati Veiðimálastofnunar, sbr. skjal nr. 30 í upptalningu gagna í V. kafla að framan. Telja þeir ekki trúverðugt álit fiskifræðinga á uppeldis- og hrygningarskilyrðum á svæði nr. 7 á uppdrætti, er fylgdi skýrslunni, en það er á miðsvæði Laxár. Þannig sé árbotninum á svæðinu lýst í skýrslunni sem leir- eða sandbotni að 80%, en 20% hans sé möl. Uppeldis- og hrygningarskilyrði séu ýmist léleg eða mjög léleg. Þessu er talsmaðurinn ósammála og telur möl þekja stærri hluta árbotnsins og að mikil hrygning fari þarna fram. Sérfræðingur Veiðimálastofnunar hafi í samtali upplýst að hann hafi ekki skoðað svæðið eftir hrygningartíma að hausti „heldur eingöngu stuðst við botngerðina samkvæmt viðurkenndum stöðlum.“ Slík rannsókn sé of yfirborðskennd og ekki gangi að viðhafa aðeins eina athugun, sem ráði um arðgreiðslur í átta ár eða lengur.

Þá sé miðsvæði árinnar mikilvægara en fram komi í arðskrá sakir þess að þar hafi fiskur góð skilyrði til að lifa af, t.d. vegna sveiflna í náttúrunni og í miklum vatnavöxtum. Hið sama gildi um mikla þurrka á sumrin þegar áin verður vatnslítil, en þá safnist fiskur í hylji á miðsvæðinu, sem veiðimenn sæki mikið í þegar lítið sé um fisk á öðrum svæðum. Ekki veiðist þó alltaf mikið við þær aðstæður, en í því liggi e.t.v. styrkur svæðisins fyrir ána að þarna sé fiskurinn óhultur.

Í greinargerð til undirmatsmanna var vakin athygli á að lengi hafi verið stunduð sjóbirtingsveiði í Laxá og Bugðu á haustin eftir hefðbundinn laxveiðitíma. Fyrir 3-4 árum hafi þessi veiði verið leigð leigutaka ánna og hún þá metin sérstaklega á 1 milljón króna. Skráning veiði hafi á þessum tíma þó verið mjög ófullkomin og sum árin nánast engin. Vitað sé engu að síður að aðalveiði á sjóbirtingi þessi ár hafi verið í Káranesfljóti. Tekjur af veiði fyrir sjóbirting megi bera saman við tekjur af veiði í Meðalfellsvatni.

Í sömu greinargerð er bent á að í landi jarðanna séu tjarnir eða sef þar sem laxaseiði sé að finna. Ekki hafi verið gerð skipuleg rannsókn á þessum stöðum á fjölda eða tegundum seiða. Er þess óskað að þetta verði kannað og tekið tillit til í arðskrá eins og annarra búsvæða laxaseiða. Loks eru gerðar athugasemdir við niðurstöður nokkurra ára gamallar könnunar Veiðimálastofnunar á útbreiðslu seiða í Bugðu ofanveðri og í Dælisá og tekið fram í því sambandi að síðarnefnda áin verði afar vatnslítil á sumrin.

Hækingsdalur:

Yfirmatsmenn gengu á vettvang, þar sem talsmaður jarðarinnar sýndi þeim aðstæður og skýrði sjónarmið sín. Jörðin á veiðihlunnindi að jöfnu óskipt með Hlíðarási. Kom fram að áður hafi Pokafoss hindrað fiskför lítillega, en aðstaða þar hafi verið lagfærð um 1980. Veiði er nú ekki takmörkuð ofan eða neðan við fossinn, andstætt því sem áður gilti. Bent var á að jörðin eigi land langt inn fyrir Þórufoss, en á því svæði hafi verið sleppt seiðum. Hliðarárnar Selá og Þverá falla um land Hækingsdals.

Háls og Neðri-Háls:

Talsmaður jarðarinnar lýsti sjónarmiðum sínum á fundi með yfirmatsmönnum við vettvangsgöngu og í greinargerð til yfirmatsmanna. Á vettvangi skýrði hann aðstöðuna við Sjávarfoss, sem liggur nærri flóðmörkum. Ofan hans en neðan þjóðvegar liggur raflína yfir ána og kom fram að á kaflanum milli raflínu og foss hafi leigutaki árinnar bannað alla veiði síðustu árin, þar með talið sjóbirtingsveiði að hausti. Við þetta hafi fimm merktir veiðistaðir dottið út (svonefndir Höklar), sem hafi verið gjöfulir. Bollastaðabreiða sé nú neðsti veiðistaðurinn í ánni. Að þessu var vikið nánar í greinargerð til yfirmatsmanna og þess getið að veiðibannið hafi staðið sl. sex ár. Samkvæmt upplýsingum Veiðimálastofnunar hafi skráð veiði á veiðistöðunum fimm verið 477 laxar frá 1990 til 1996, en frá því ári til 2000 séu skráðir þar 32 laxar. Eitthvað kunni að hafa bæst við síðan. Er þess óskað að jörðunum, sem eiga land að þessu svæði, verði bætt þetta.

Talsmaðurinn lýsir sig ósammála þeirri niðurstöðu undirmatsmanna að ekki hafi verið sýnt fram á að ósasvæði árinnar hafi einhver slík áhrif að telja beri það sjávarjörðum til sérstakra tekna við skiptingu arðskrár. Þetta svæði hafi orðið útundan í búsvæðamati Veiðimálastofnunar, sem lá fyrir við undirmat. Hafi talsmaðurinn þess vegna óskað þess við stjórn veiðifélagsins í september 2002 að hún hlutaðist til um að stofnunin rannsakaði svæðið. Þegar stjórnin neitaði hafi hann sjálfur á eigin kostnað óskað þess að Veiðimálastofnun gerði grein fyrir hlutverki ósasvæðis Laxár fyrir laxfiskastofna árinnar. Hefur hann lagt fram skýrslu stofnunarinnar um þetta, sbr. skjal nr. 27 í V. kafla að framan. Bendir talsmaðurinn sérstaklega á mikilvægi óssins fyrir aðlögun kynþroska lax að ferskvatni. Þá sé mikilvægt að vernda seiði í ósnum fyrir vargfugli, sem hafi áður fyrr verið gert.

Að því er varðar bakkalengd er þeirri skoðun lýst að meta eigi hana jafna í Laxá og Bugðu ofan ármóta, en frá ósi að ármótum eigi það að vera 50% hærra þar eð Laxá sé á þeim kafla farvegur fyrir lax og sjóbirting í báðar árnar.

Fram kom varðandi veiði að gæta yrði að því að árið 1988 hafi verið afbrigðilegt vegna mikils hafbeitarlax, sem þá hafi gengið í ána.

Talsmaðurinn hefur loks lýst bréflega tilhögun netaveiði í Laxárvogi frá jörðunum, sem aflögð var fyrir nokkrum áratugum, þ.e. „talsvert áður en veiðifélagið var stofnað.“ Ekki nýtur heimilda um aflamagn. Telur hann vera tíma til kominn að þessi réttindi verði metin eins og lög um lax- og silungsveiði kveði á um.

Laxárnes:

Eigendur jarðarinnar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri á fundi með yfirmatsmönnum, við vettvangsgöngu og í ítarlegum greinargerðum talsmanns þeirra til yfir- og undirmatsmanna ásamt fjölda fylgiskjala.

Að stórum hluta hefur hagsmunagæsla fyrir jörðina tengst áhrifum laxastiga, sem gerður var í Laxfossi eftir 1970. Fram að því hafi fossinn tafið fyrir fiskför fram ána og þá gjarnan safnast mikill lax neðan hans og veiðst vel. Eftir gerð laxastigans hafi þetta gjörbreyst þar eð fiskur eigi nú greiða för þar sem áður var hindrun og stöðvist lax því lítt þarna í samanburði við það, sem áður var. Afli á jörðinni hafi að sama skapi minnkað, en aðrir hagnast á framkvæmdinni á kostnað Laxárness. Krefst talsmaðurinn þess að jörðinni verði bætt veiðitap, sem af þessu hafi hlotist.

Í greinargerð til undirmatsmanna var lýst aðdraganda og gerð laxastigans 1971-1973, hönnun hans og gerð grein fyrir samþykkt veiðifélagsins og stjórnvalda fyrir framkvæmdinni. Ennfremur var lýst fyrirvara eigenda Laxárness, sem áskildu sér allan rétt ef veiðiaðstaða fyrir landi jarðarinnar skertist vegna þessarar aðgerðar. Í reynd hafi alls ekki verið fylgt upphaflegri hönnun mannvirkisins, sem var forsenda fyrir samþykki stjórnvalda, heldur byggður umfangsmikill laxastigi í miðjum fossinum, sem hafi eyðilagt veiðistaði neðan hans og verið með allt öðrum hætti en samþykkt aðalfundar tók til. Megi segja með réttu að laxastiginn, sem endanlega var gerður, hafi aldrei verið samþykktur af félagsmönnum í veiðifélaginu og ráðherra ekki veitt leyfi fyrir slíku mannvirki. Vatnsrennsli árinnar sé mjög breytt eftir sprengingar fyrir laxastiganum, hún nái nú ekki að hreinsa sig og skorur og hyljir fyllist af möl. Eigi þetta við um þá staði, sem áður voru taldir bestu veiðistaðirnir, og hafi veiði neðan Laxfoss hrunið eftir þetta. Er lögð áhersla á að við gerð fiskvegarins hafi það verið forsenda af hálfu landeigenda neðan Laxfoss að jarðir þeirra héldu óskertum hlutfallslegum arði af vatnasvæðinu eftir þessa framkvæmd. Þetta hafi brugðist með öllu þegar arðskrá var tvívegis skipt við yfirmat eftir gerð stigans árin 1976 og 1987. Fyrir gerð laxastigans hafi hlutur Laxárness í arðskrá verið 24,62%, en fallið eftir það í 20,52% og síðan í 17,09% samkvæmt núgildandi arðskrá. Telur talsmaðurinn ljóst að heildarveiði á vatnasvæði Laxár hafi ekki aukist við tilkomu laxastigans og hið sama eigi við um arðsemi árinnar, sem hafi minnkað. Niðurstaðan sé sú að samtímis því sem eigendur Laxárness hafi verið neyddir til að greiða um 25% kostnaðar við laxastigann hafi þeir orðið að þola lækkun á arðshlutfalli sínu niður í um 17%. Þetta misræmi vilji þeir fá leiðrétt. Við gerð laxastiga sé það almenn forsenda að þeir, sem eigi lönd að veiðivatni neðan fiskvegar, standi ekki lakar að vígi við arðskrármat eftir framkvæmdina en fyrir hana og að gerð fiskvegarins leiði ekki einungis til þess að arður færist frá þeim til þeirra, sem eiga lönd ofan hans.

Frekari umfjöllun um laxastigann kom fram í greinargerð talsmannsins til yfirmatsmanna. Var lögð áhersla á að forsenda þess að gerð stigans var samþykkt hafi verið sú að jarðir neðan hans héldu óskertum hlutfallslegum arði eftir framkvæmdina, enda hafi það verið samþykkt með bindandi hætti af hálfu veiðifélagsins. Einróma samþykkt í félaginu hafi hljóðað svo: „Fundur í Veiðifélagi Kjósarhrepps haldinn 8. maí 1971 samþykkir að gerður verði fiskvegur, eftir þeim teikningum sem fyrir liggja svo framt að það taki ekki af veiði neðan við Laxfoss ...“. Umboðsmaður eigenda Laxárness hafi gert svofelldan fyrirvara á fundinum: „Í sambandi við framkomna tillögu áskil ég eigendum Laxárness allan rétt ef veiðiaðstaða fyrir landi jarðarinnar skerðist vegna þessara framkvæmda.“ Engar athugasemdir hafi verið gerðar við fyrirvarann. Í þessari samþykkt veiðifélagsins felist að mati eigenda Laxárness bindandi ákvörðun þess efnis að jörðin „héldi óskertum arði vegna þess þáttar arðskrárinnar sem lýtur að hlutfallslegri veiði“, eins og segir í greinargerð talsmannsins. Engin afstaða hafi verið tekin í undirmati til þessarar málsástæðu eigenda jarðarinnar og hafi undirmatsmenn hvorki fjallað um gildi samþykktar veiðifélagsins né hafi það verið gert í fyrri matsgerðum að því ráða megi. Samþykktin sé bindandi og feli í sér að hlutur jarðarinnar „í þeim einingum sem miðast við veiði í ánni eigi að vera hlutfallslega óbreyttur frá því sem hann var við töku ákvörðunarinnar um gerð laxastigans á árinu 1971, enda hafi veiðifélagið samþykkt að arður umbjóðenda minna af fiskveiði ætti ekki að minnka við framkvæmdina.“ Í matsgerðum eftir 1971 hafi hlutur Laxárness hins vegar verið skertur vegna minni veiði neðan fiskvegarins andstætt samþykkt veiðifélagsins. Þetta tjón þurfi að bæta jörðinni til frambúðar með bindandi hætti í samræmi við samþykktina frá 1971. Þá var gagnrýnd umfjöllun undirmatsmanna varðandi verðmætisaukningu á veiði, sem þeir telji að megi rekja til gerðar fiskvegarins. Segir talsmaðurinn fullyrðingar af þessum toga hafa heyrst frá einstökum veiðiréttareigendum og þær jafnvel verið teknar upp í matsgerðum án þess að séð verði að sannanir hafi verið færðar fram þeim til stuðnings. Álit eigenda Laxárness sé þvert á móti það að verðmæti Laxár til útleigu hafi ekki aukist við þessar framkvæmdir umfram aðrar laxveiðiár. Einungis sé um að ræða almennar verðhækkanir á veiðirétti í laxveiðiám og tilfærslu milli veiðistaða í Laxá til hags veiðiréttareigendum ofan fiskvegar. Þannig hafi veiði á vatnasvæði árinnar 1969-1971 verið að meðaltali 1803 fiskar á ári, en 1324 fiskar á ári 1972-1995. Laxagengd hafi þannig ekki aukist í ánni við gerð fiskvegar og ekki heldur þótt keypt hafi verið upp laxveiðiréttindi í sjó á vegum veiðifélagsins. Var gerð sérstök grein fyrir veiði á þremur veiðistöðum við Laxfoss, sem hafi eyðilagst eftir 1971. Í undirmati nú hafi hlutur Laxárness enn verið lækkaður og sé samkvæmt því 14,69%. Fylgir yfirlit yfir útreiknað tjón á veiðirétti jarðarinnar 1976-2001, sem verði rakið beint til gerðar fiskvegarins. Loks er niðurstöðu undirmatsmanna um bætur til Laxárness vegna fiskvegarins lýst sem fráleitu, enda sé tjónið að miklum mun meira. Að auki sé skekkja í útreikningi þeirra þar eð eigendur bakka öðrum  megin ár fái í sinn hlut 9% bóta vegna veiði, en eigendur hins bakkans (Laxárness) fái 6% án þess að nokkur skýring komi fram á þessu misræmi. Er sú krafa gerð að tjónið verði bætt þannig að „þær 500 einingar sem koma til skipta vegna veiði við arðskrármat undirmatsmanna ...“ skiptist með tilteknum hætti. Er þá miðað við að tapast hafi hlutfallslega 27,7% af veiði fyrir landi jarða neðan fiskvegar með tilkomu hans. Verði þeim bætt tjónið með sama hlutfalli af áðurnefndum einingum og falli helmingur þeirra varanlega í hlut Laxárness. Öðrum einingum fyrir veiði verði skipt í hlutfalli við raunverulega veiði á vatnasvæðinu.

Um aðra þætti en laxastigann fjallar talsmaður jarðarinnar einnig og þá einkum í greinargerð til yfirmatsmanna. Telur hann undirmatsmenn ekki hafa tekið tillit til ýmissa þátta, sem beri að taka mið af samkvæmt 50. gr. laga nr. 76/1970. Er um það vikið fyrst að bakkalengd, en ekki komi fram í undirmati að tekið hafi verið tillit til bakkalengdar Dælisár, sem að hluta tilheyri Laxárnesi. Þá sé óljóst hvort bakkalengd Bugðu hafi verið metin. Telur talsmaðurinn að bakkar veiðivatns eigi að hafa mismikið vægi vegna mismunandi vatnsmagns og dýpis. Af þeim sökum beri að gefa bökkum neðan ármóta aukið vægi í samanburði við bakka ofan þeirra. Þá gefi neðsti hluti árinnar veiðifélaginu í reynd hlutfallslega hærri tekjur fyrr á hverju veiðitímabili en svæði, sem ofar liggja. Til alls þessa beri að taka tillit við matið. Í annan stað gerir talsmaðurinn athugasemdir við umfjöllun í undirmati um aðstöðu til veiði. Hömlur á veiði í Laxá komi fram í fimm atriðum. Þannig hafi leigutaki bannað veiði á neðstu veiðistöðum árinnar, bann sé lagt við veiði skv. 40. gr. laga nr. 76/1970 bæði 30 metra neðan fiskvegar og 20 metra ofan hans, en óumdeilt sé að áðurnefndur laxastigi sé fiskvegur, sérstakar hömlur séu lagðar á alla veiði í árós, bann við maðkaveiði 1. júlí –20. ágúst hafi orðið til að minnka veiði neðan fiskvegar þar sem áður voru bestu maðkaveiðisvæðin og loks hafi veiðistaðir neðan við Laxfoss spillst af möl og sandi og rennsli árinnar breyst við framkvæmdina. Um þessi atriði sé engin leið að sjá hvort eða í hvaða  mæli hafi verið tekið tillit til þeirra í undirmat. Er þess krafist að þau verði metin sérstaklega, sem og það að eigendur Laxárness leystu árið 1942 til sín öll réttindi til laxveiða í sjó, sem áður tilheyrðu Eyri og Eyrarkoti, og lögðu þau til Laxárness. Loks er vikið að búsvæðamati Veiðimálastofnunar og bent á að það taki ekki til uppeldis- og hrygningarskilyrða sjóbirtings og aðeins að hluta bleikju. Þá sé með haustveiði spillt hrygningarstöðum í ánum fyrir landi Laxárness, en þá sé fiskur að búa sig til hrygningar. Ekki hafi verið fjallað um þetta í undirmati. Leitað hafi verið til Veiðimálastofnunar um rannsókn á gildi ósasvæðisins fyrir uppeldi fisks og liggi niðurstaða hennar nú fyrir. Sýni hún ótvírætt að svæðið sé mikilvægt fyrir aðlögun seiða og göngufisks að seltu og ferskvatni. Þá hafi stofnstærð sjóbirtings aukist mjög síðustu árin í Laxá og sé það álit eigenda Laxárness að ósasvæðið hafi fengið aukna þýðingu í því sambandi.

Meðalfell:

Talsmenn jarðarinnar lýstu viðhorfum sínum á fundi með yfirmatsmönnum. Var lögð áhersla á mikilvægi efsta hluta Bugðu fyrir seiðauppeldi, svo sem búsvæðamat beri glöggt með sér. Fyrir undirmatsmönnum var gerð sú athugasemd að hvorki bakkar Dælisár né hólmi í Meðalfellsvatni hefðu verið mældir. Með bréfi (sbr. lið nr. 34. í V. kafla að framan) var greint frá því að samkvæmt eigin mælingu væru bakkar hólmans og rifs, sem tengist honum, 158 metrar.

Valdastaðir I og II og Grímsstaðir:

Talsmaður jarðanna og eigendur komu sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn á fundi með þeim, við vettvangsgöngu og í ítarlegum greinargerðum talsmannsins til yfir – og undirmatsmanna.

Um þessar jarðir gildir hið sama og Laxárnes að í framlögðum greinargerðum talsmanns þeirra er að verulegu leyti fjallað um laxastigann og hvernig gerð hans hafi minnkað veiði neðan stigans, en aukið hana að sama skapi þar yfir ofan. Er haldið fram að landeigendur neðan Laxfoss hafi beðið tjón af framkvæmdinni. Við gerð arðskrár verði að taka fullt tillit til þess að arður þeirra eigi ekki að skerðast af þessum sökum. Falla sjónarmið hans að þessu leyti saman við þau, sem talsmaður Laxárness hefur lýst, og áður voru rakin.

Í greinargerð til yfirmatsmanna er áréttað að það hafi verið forsenda fyrir sprengingu Laxfoss að jarðir neðan hans héldu eftir það óskertum hlutfallslegum arði vegna veiði á vatnasvæðinu og að „aðrir félagsmenn í veiðifélaginu hafi samþykkt þá skipan mála með bindandi hætti.“ Þrátt fyrir það hafi arður þessara jarða verið skertur í þeim arðskrám, sem síðan hafi verið gerðar, þar á meðal í undirmati nú. Á þessu verði yfirmatsmenn að taka sérstaklega og færa hlutfallslega skiptingu arðs vegna veiðiréttar neðan Laxfoss annars vegar og ofan hans hins vegar til fyrra horfs. Hafi undirmatsmenn alls ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirra áhrifa, sem sprenging fossins hafi haft á veiði neðan hans. Væri nær lagi að yfirmatsmenn viðhefðu þá aðferð að færa meginhluta allrar veiði ofan Laxfoss fram til 1. ágúst ár hvert á næstu veiðistaði neðan Laxfoss, þegar veiði er skipt niður á jarðir. Sé einungis rétt að deila niður veiði, sem fæst eftir 1. ágúst, eftir raunverulegum veiðistöðum. Vísar talsmaðurinn til þess að fram til þess að laxastiginn var gerður hafi  laxveiði í Laxá og Bugðu verið hverfandi fyrir ofan Laxfoss fram í ágústmánuð ár hvert. Fossinn hafi spillst sem veiðistaður sem og Fossbreiða vegna grjótframburðar og dreifðara vatnsrennslis. Tekið var fram að þess hefði verið farið á leit við Veiðimálastofnun að hún gerði samanburðarskýrslu á veiði í Laxá og Bugðu fyrir ofan og neðan Laxfoss annars vegar síðustu árin fyrir gerð fiskvegarins og hins vegar eftir það, svo rekja mætti með tölum hvernig veiði hafi flust til. Umrædda skýrslu stofnunarinnar, sem dagsett er í janúar 2003, sendi talsmaðurinn yfirmatsmönnum um miðjan þann mánuð. Er þar viðhöfð sú aðferð að tekin eru tvö átta ára tímabil fyrir og eftir gerð laxastigans og þau borin saman. Eru annars vegar tekin árið 1959-1966 og hins vegar 1994-2001. Afli á veiðistaðnum Fossbrún er talinn með veiði neðan Laxfoss. Helstu niðurstöður eru þær að árleg meðallaxveiði á fyrra tímabilinu í Laxá og Bugðu hafi verið 1127 laxar, en af þeim fiskum, sem færðir voru á veiðistaði, hafi að meðaltali 63,3% veiðst neðan Laxfoss, en 36,7% ofan hans. Heildarveiði á því árabili hafi verið nokkuð stöðug. Á síðarnefna tímabilinu hafi árleg meðalveiði verið 1057 laxar, en af þeim hafi að meðaltali veiðst 22% neðan Laxfoss, en 78% fyrir ofan. Heildarveiði á þessu tímabili hafi verið nokkuð breytilegri en á hinu fyrra. Veiði eftir veiðistöðum og vikum innan veiðitímabilsins var gefin upp í tveimur viðaukum við skýrsluna. Segir í henni að samanburðurinn leiði í ljós að veiðin neðan Laxfoss hafi að meðaltali lækkað um 473 laxa á ári, en að sama skapi aukist um 406 laxa ofan fossins. Þá gæti veiðiálag neðan Laxfoss hafa verið meira meðan fossinn var gönguhindrun fyrir lax. Við samanburð á þessum tveimur tímabilum verði að gæta þess að breytingar geti hafa orðið á sókn, veiðitækjum, ástundun og dreifingu sóknar. Engu að síður bendi samanburðurinn til tilfærslna í veiði upp fyrir fossinn, sem áður hafi tafið göngu laxins og um leið leitt til meiri veiði neðan hans.

Í bréfi talsmanns jarðanna, sem skýrslan fylgdi, hefur hann gert sérstaka grein fyrir veiðitapi á fjórum veiðistöðum neðan fiskvegar, sem eru í landi umbjóðenda hans og Laxárness. Eru Strengir hinn neðsti þeirra. Hefur hann jafnframt gert sérstakt yfirlit yfir árlega veiði á þessum fjórum veiðistöðum umrædd sextán ár, sem samanburðarskýrslan tekur til, en yfirlitið hefur hann unnið upp úr viðaukum með skýrslunni. Telur hann að árlega hafi veiðst þar á fyrra tímabilinu 48,48% heildaraflans í ánum, en einungis 7,70% á hinu síðara. Þannig hafi 40,78% árlegrar heildarlaxveiði flust frá þessum fjórum veiðistöðum á aðra veiðistaði. Sprenging Laxfoss hafi hins vegar haft óveruleg áhrif á veiði í Laxá neðan veiðistaðanna fjögurra. Telur talsmaðurinn rétt í ljósi þessara upplýsinga að 48,48% allra eininga fyrir veiði verði færð á veiðistaðina fjóra, en þau 51,52%, sem eftir standi, verði jafnað milli annarra veiðistaða. Þá lýsir hann þeirri skoðun að fyrir gerð fiskvegarins hafi mátt gera ráð fyrir öruggri 700 laxa árlegri veiði á veiðistöðunum fjórum, en miðað við núverandi markaðsaðstæður gefi slíkt veiðisvæði af sér 14 til 21 milljón krónur  í leigutekjur.

Í greinargerð til yfirmatsmanna er jafnframt vikið að landlengd. Er mótmælt þeirri aðferð undirmatsmanna að gefa hverri lengdareiningu bakka við Laxá og Meðalfellsvatn jafnt vægi. Megi ráða að hið sama sé látið gilda í undirmati um bakka Bugðu. Telur hann að gefa eigi bakkalengd á neðri hluta vatnakerfisins meira vægi en ofar í því, en bakkalengd endurspegli það vatnsmagn, sem renni fyrir landi einstakra jarða. Eigi þetta einkum við neðan ármóta Laxár og Bugðu, þar sem gefa ætti bakkalengd að minnsta kosti tvöfalt vægi vegna vatnsmagns. Þá sé ekki rétt að bakkalengd efst í vatnakerfi Laxár hafi sama vægi og neðar, enda renni til árinnar fjöldi lækja, sem auki vatnsmagn hennar eftir því, sem neðar dregur. Þá er sérstök athygli vakin á því að við úthlutun eininga fyrir veiði hafi undirmatsmenn ekki tekið með árin 1988 og 1989 þar eð veiðibækur frá þessum árum hafi ekki legið fyrir. Úr því hafi nú verið bætt. Þetta skipti máli, en umrædd tvö ár hafi verið mikil veiði neðan Laxfoss og hljóti því upplýsingar um þau að verða umbjóðendum hans til hags miðað við niðurstöður undirmatsmanna. Þá sé í undirmatsgerð ekki heldur gætt að því að silungsveiði kunni að dreifast með öðrum hætti en laxveiðin. Mikill munur sé á því hvort um sé að ræða staðbundinn silung eða sjóbirting, en síðustu árin hafi verið mikil sjóbirtingsgengd á neðstu svæðum árinnar. Sé veiði á honum mjög eftirsótt og hafi hún haldið uppi veiði þegar lax hafi ekki gefið sig. Um þennan þátt málsins vísar hann að öðru leyti til leigutaka ánna um upplýsingar. Loks er í greinargerð til yfirmatsmanna haldið fram varðandi uppeldis- og hrygningarskilyrði að undirmatsmenn hafi ekki tekið tillit til réttmætrar gagnrýni á búsvæðamat Veiðimálastofnunar.

Í greinargerð til undirmatsmanna leggur talsmaðurinn áherslu á að félagssvæðið verði metið til arðskiptingar sjálfstætt og án tilvísana til fyrri matsgerða. Þá segir að allur fiskur á leið á vatnasvæðið fari fyrir landi Valdastaða og Grímsstaða og mesta veiðin þar sé í júlímánuði þegar tekjur af hverju seldu veiðileyfi séu hvað mestar á svokölluðum útlendingatíma. Veiði á maðk sé bönnuð í júlí og fram í ágúst, en fyrir landi jarðanna séu margir veiðistaðir, sem henti vel til slíkrar veiði. Gera megi ráð fyrir að veiði þar yrði meiri að tiltölu ef bann við maðkveiði yrði afnumið. Árin 1988 og 1989 hafi veiði á maðk verið leyfð að hluta til í júlí, sem með öðru hafi leitt til gríðarlegrar veiði neðan Laxfoss. Núverandi leigutaki ánna hafi 8 stangir til veiða í upphafi veiðitíma í júní, en af þeim ráðstafi hann 5 til veiða í landi umbj. hans. Þá verði að taka tillit til umhverfis Laxár á þessum stað og meta það sérstaklega sem mikilvægan þátt í ímynd fiskihverfisins og þar með þátt í tekjuöflun veiðifélagsins. Þá telji eigendur jarðanna góð búsvæði fyrir laxaseiði vera fyrir landi þeirra ofan Laxfoss. Loks hafi verið látið hjá líða við undirmat að meta hrygningar- og uppeldisskilyrði í Valdastaðahverfi, Myllulæk og Langhólmaós. Hlutur Meðalfellsvatns og Bugðu sé augljóslega of hár í gildandi arðskrá. Um aðstæður annars staðar á vatnasvæðinu er tekið fram að laxar, sem veiðist í efri hluta Laxár eftir miðjan ágúst, séu oftar en ekki legnir og því léttari en fiskar, sem veiðist neðan til í ánni fyrri hluta sumars. Verðmæti þessarar veiði sé því augljóslega minna en veiðinnar í júlí. Í hliðarám hafi aldrei veiðst né sést lax svo vitað sé á síðari árum. Dregur talsmaðurinn mjög í efa að þær niðurstöður í búsvæðamati Veiðimálastofnunar fái staðist að önnur ársvæði en Laxá og Bugða leggi til 10% af hrygningar- og uppeldisskilyrðum á svæðinu.

Fremri-Háls:

Í bréfi tveggja eigenda jarðarinnar til yfirmatsmanna er þess farið á leit að Hálsá verði sérmetin við skiptingu arðskrár, svo sem gert hafi verið í yfirmati 1987.

VII.

Skipting arðs. Almennt

Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: „Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks.“

Samkvæmt 11. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Kjósarhrepps skal arði af sameiginlegri veiði skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Kostnað af starfsemi félagsins greiða félagsmenn í sama hlutfalli.

Í gildandi arðskrá fyrir félagið er arði skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi eininga, sem kemur til skipta milli allra rétthafa, sé 100. Yfirmatsmenn munu hins vegar nú sem endranær hafa þann hátt á að skipta arði í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 1000. Við skiptingu arðskrár verða notaðar heilar tölur og einn aukastafur. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig allar einingarnar skulu skiptast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein eru sérstaklega tilgreindir, og hvernig önnur atriði geta einnig haft þar áhrif á.

VIII.

Landlengd

Meðal málsgagna er ódagsett skrá verkfræðistofunnar Hnita hf. um bakkalengd jarða, en hennar var aflað við meðferð málsins fyrir undirmatsmönnum. Tekur skráin til bakkalengdar að Laxá, Bugðu, Meðalfellsvatni og ósasvæði Laxár, en hliðarár voru ekki mældar. Enginn hefur vefengt niðurstöður mælinganna. Af hálfu Meðalfells var því hins vegar mótmælt við undirmatsmenn að hvorki bakkar Dælisár né hólma í Meðalfellsvatni væru mældir. Við meðferð málsins fyrir yfirmatsmönnum lagði talsmaður jarðarinnar fram niðurstöðu eigin mælingar um bakkalengd hólmans. Talsmaður Laxárness hefur einnig lýst þeirri skoðun að taka eigi tillit til bakka Dælisár við skiptingu arðskrár. Verða tölur, sem skráin hefur að geyma, lagðar til grundvallar eins og þær liggja fyrir. Hið sama á við um mælda landlengd hólma í Meðalfellsvatni. Ekki er fram komið að ágreiningur sé um merki milli jarða, sem líta þurfi til við úthlutun eininga fyrir landlengd.

Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 280 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Laxá, Bugðu, Meðalfellsvatni og ósasvæði Laxár. Við mat á vægi þessa þáttar sem og annarra er í senn litið til allra aðstæðna á svæðinu og gætt samræmis við matsgerðir yfirmatsmanna við skiptingu arðskrár almennt fyrir veiðifélög.

Í 41. lið í V. kafla að framan var getið um rennslismælingar Orkustofnunar í Laxá og Bugðu, sbr. einnig 42. lið. Var talsmönnum jarða við Bugðu kynnt bréf stofnunarinnar frá 6. mars 2003 um þetta og sú ráðagerð yfirmatsmanna að taka mið af mismiklu vatnsmagni í ánum með þeim hætti að hver mæld eining bakka Laxár neðan ármóta fengi hæst vægi, bakkar Laxár ofan ármóta fengju lægra vægi og bakkar Bugðu enn lægra. Ekki bárust viðbrögð við þessu. Lög nr. 76/1970 verða ekki skýrð á annan hátt en þann að leggja beri mat á þennan þátt eins og aðra, sem ráða um úthlutun arðs. Verður samkvæmt því lagt sjálfstætt mat á gildi mældra lengdareininga bakka eftir því hvar á vatnasvæðinu þeir eru, sem leiðir til mismunandi niðurstöðu um vægi þeirra við úthlutun þessara eininga. Sú aðferð að vega einstaka bakka veiðivatns mishátt styðst auk þess við ríka hefð hjá veiðifélögum almennt í landinu. Að baki því liggur að gjarnan er litið svo á að úthlutun eininga fyrir landlengd sé endurgjald fyrir það vatnasvæði, sem markar lífsrými lax og silungs. Hefur mikið vatnsmagn á neðri hluta vatnasvæðis óhjákvæmilega mikið gildi að þessu leyti, jafnframt því sem gildi lækja og efstu draga veiðiár er að sama skapi einatt lítið í þessu tilliti og stundum nær ekkert. Samkvæmt þessum viðmiðunum er niðurstaða yfirmatsmanna sú að bakkar neðan ármóta Laxár og Bugðu fái vægið 1,4. Frá Þórufossi að nefndum ármótum eykst vatnsmagn Laxár jafnt og þétt af lækjum og hliðarám, sem til hennar falla. Verður landlengd við ána framan við ármótin gefið vægið 0,9 að Svínadalsá, 0,82 frá henni að Þverá, en 0,75 þaðan að Þórufossi. Bakkar Bugðu og Meðalfellsvatns fá vægið 0,5. Við úthlutun eininga fyrir landlengd hafa yfirmatsmenn í öðrum tilvikum miðað við að hún nái allt að óslínu í sjó. Fá mældir bakkar ósasvæðis vægið 0,7. Ekki verður úthlutað einingum fyrir bakkalengd til eigenda ólaxgengs svæðis ofan Þórufoss.

Landlengd hliðaráa, annarra en Bugðu, hefur ekki verið mæld. Af gögnum málsins má engu að síður fara nærri um hver lengd hins laxgenga hluta hverrar þeirra er. Af búsvæðamati, sbr. X. kafla hér á eftir, verður hins vegar ráðið að laxaseiði hafi í flestum þeirra ekki fundist nema í hluta þess kafla, sem laxgengur er. Á þetta ekki síst við um Dælisá, sem er laxgeng mun lengra en seiði hafa fundist. Í matinu er tekið fram um sumar þessara hliðaráa að ekki sé víst að lax hafi hrygnt þar, en í þeim tilvikum ganga seiði þá upp í þær úr Laxá. Um allar hliðarárnar er sagt að ekki sé vitað til að lax hafi veiðst þar. Að virtu öllu framanröktu eru ekki efni til að úthluta einingum fyrir bakkalengd til veiðiréttareigenda í öðrum hliðarám en Bugðu. Þeim verður hins vegar úthlutað einingum fyrir hrygningu og/eða uppeldi seiða í ánum, sbr. X. kafla hér á eftir.

IX.

Aðstaða til stangarveiði og netaveiði

Í IV. kafla að framan er gerð grein fyrir tilhögun við rekstur ánna og í V. kafla er getið skýrslna, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði á laxi og silungi 1983-2002 að báðum árum meðtöldum og skiptingu aflans á veiðistaði. Við mat á skiptingu arðskrár nú verður tekið mið af veiði 1987 – 2002 að báðum árum meðtöldum, en veiði árið 1986 og fyrr var talin með þegar arðskrá var skipt síðast. Hafa samtals veiðst 22.708 laxar þau ár, sem nú er tekið mið af, en auk þess hafa veiðst 85 laxar, sem ekki eru skráðir á veiðistaði. Varðandi þennan þátt í skiptingu arðskrár leggja yfirmatsmenn almennt til grundvallar allan afla skráðan á veiðistaði, sem fengist hefur frá gerð síðustu arðskrár. Á það ekki einungis við um lax, heldur einnig silung. Í tilviki Veiðifélags Kjósarhrepps eru annmarkar á því að unnt sé að fylgja áðurnefndri reglu að öllu leyti. Stafar það af því að verulega skortir á að viðhlítandi upplýsingar hafi fengist um silungsafla og skiptingu hans milli veiðiréttareigenda. Verður sérstaklega vikið að þessu atriði síðar.

Þar sem veiðistaðir eru í merkjum milli jarða hefur Veiðimálastofnun skipt afla í skýrslum sínum á viðkomandi jarðir eftir því, sem stofnunin telur rétt. Hefur stjórn veiðifélagsins lýst sig sammála útdeilingu Veiðimálastofnunar á þessum fiskum. Leggja yfirmatsmenn hana til grundvallar um annað en veiðistað nr. 19, Ármót. Að fenginni umsögn talsmanns Káraness er niðurstaða yfirmatsmanna sú að afli úr þessum veiðistað tilheyri Valdastöðum að hálfu og að fjórðungi Káranesi og Laxárnesi hvorri jörð.

Af hálfu talsmanna Laxárness og Valdastaða eru fram komnar kröfur, sem fela í sér að einingum, sem úthlutað verður vegna veiði, skuli ekki skipt eftir hefðbundnum viðmiðunum, þ.e. eftir því hvar afli er dreginn á land. Þess í stað verði veiði skipt í samræmi við það hver hlutdeild jarðanna var í heildarlaxveiði á vatnasvæðinu fyrir gerð laxastigans 1972 – 1973. Öðrum afla telur talmaður Valdastaða að verði þá skipt eftir hefðbundinni aðferð. Vísast til þess, sem rakið er í VI. kafla að framan um rök talsmanna jarðanna fyrir þessum kröfum.

Þótt nokkur munur sé á framsetningu sjónarmiða talsmannanna er sá kjarni hinn sami í málatilbúnaði beggja að aðrir veiðiréttareigendur hafi skuldbundið sig til að hlíta því að eigendur jarðanna tveggja við Laxfoss fengju í sinn hlut eftir gerð laxastigans óbreytt hlutfall heildaraflans á svæðinu þegar einingum, sem koma fyrir veiði, yrði úthlutað við gerð arðskrár. Við skiptingu arðskrár nú hafa veiðiréttareigendur ofan Laxfoss ekki tjáð sig sérstaklega um þetta. Á árunum 1995 og 1996 var hins vegar dæmt í Hæstarétti um kröfur eigenda jarðanna neðan Laxfoss um dómkvaðningu matsmanna til að meta ætlað tjón þeirra vegna gerðar laxastigans og tóku veiðiréttareigendur ofan stigans þá til andsvara. Hafa greinargerðir aðilanna í þeim málum verið lagðar fram í matsmálinu nú, sbr. 20. og 21. lið í V. kafla að framan. Er alveg ljóst að veiðiréttareigendur ofan stigans hafa ekki fallist á sjónarmið eigenda jarða neðan hans um að hinir fyrrnefndu hafi á sínum tíma skuldbundið sig til að hlíta því að jarðir neðan Laxfoss héldu óbreyttri hlutdeild vegna veiði við gerð arðskrár eftirleiðis.

Í málatilbúnaði talsmanns Laxárness hefur einkum verið vísað til samþykktar í veiðifélaginu 8. maí 1971, þegar lagning laxastiga var ákveðin. Er samþykktin tekin upp orðrétt að framan, sem og staðhæfingar talsmannsins um að í henni felist bindandi ákvörðun félagsins um að jörðin skyldi halda óskertum arði vegna þess þáttar arðskrár, sem komi fyrir veiði, og að félagið hafi samþykkt að arður Laxárness ætti ekki að minnka við framkvæmdina. Fyrirvari eiganda jarðarinnar við samþykktina er einnig tekinn upp orðréttur að framan. Ekki nýtur frekari heimilda um aðdraganda málsins en þeirra, sem talsmaður Laxárness hefur lagt til. Við úrlausn um þetta verður litið til þess að ákvörðun um gerð laxastiga með sprengingu í fossinum var óafturkræf aðgerð. Í því ljósi getur orðalag samþykktarinnar 1971 vart talist markvisst, þar sem slík óafturkræf framkvæmd var samþykkt „svo framt að það taki ekki af veiði neðan Laxfoss“. Markmið með gerð laxastigans var ótvírætt að gera fiskför fram ána greiðari, en fram til þess hafði fiskur tafist neðan Laxfoss um lengri eða skemmri tíma og safnast þar saman. Af aðgerð, sem beindist að því að breyta þessu ástandi, hlaut fyrirsjáanlega að leiða minni veiði á staðnum, svo sem raunin varð einnig á. Veiði hefur ekki „tekið af neðan Laxfoss“, svo sem glöggt kemur fram í skýrslu Veiðimálastofnunar frá janúar 2003, þótt hún hafi verulega minnkað. Ekki er komið fram að áhrif framkvæmdarinnar á veiði neðan Laxfoss hafi orðið önnur en þau, sem fyrirsjáanleg máttu vera. Orðalag samþykktarinnar eða markmið styðja ekki framanraktar staðhæfingar talsmanns Laxárness um að í samþykktinni 1971 hafi falist skuldbinding um tiltekinn arðshlut jarðarinnar af veiði framvegis. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, fallast yfirmatsmenn ekki á að talsmenn Laxárness og Valdastaða hafi sýnt fram á að aðrir veiðiréttareigendur hafi samþykkt 1971 að hlutdeild jarðanna í veiði skyldi haldast óbreytt við skiptingu arðskrár eftirleiðis. Verða kröfur þeirra ekki teknar til greina á slíkum grundvelli. Fyrirvari eiganda Laxárness við samþykktina 1971, þar sem hann áskildi sér allan rétt, breytir engu í því efni.

Í VI. kafla að framan voru rakin þau sjónarmið talsmanns Laxárness að tilkoma laxastigans hafi ekki orðið til þess að auka laxgengd í árnar og verðmæti Laxár til útleigu hafi ekki aukist við þessar framkvæmdir umfram aðrar laxveiðiár. Þvert á móti sé meðalveiði minni nú en var fyrir 1971. Áhrifin hafi orðið þau ein að færa veiði og þar með arð frá veiðiréttareigendum neðan Laxfoss til annarra ofan hans. Vegna þessa er rétt að líta til þess að laxveiði í ám á Suðvesturlandi hefur almennt farið minnkandi á því tímabili, sem um ræðir. Svar við því hvernig veiði í Laxá hefði þróast án laxastigans liggur ekki á lausu. Þau áhrif hans eru hins vegar alveg ljós að eftir 1971 gengur lax hindrunarlaust upp Laxfoss í stað þess að safnast fyrir neðan hans. Vegna framkvæmdanna nýtist allt svæðið ofan foss mun betur en áður fyrir hrygningu og uppeldi seiða og þar með til aukinnar fiskgengdar. Samkvæmt lýsingu talsmanns Valdastaða var fyrir 1971 hverfandi fiskgengd ofan Laxfoss fram í ágúst, en nú gengur fiskur hiklaust fram ána. Samkvæmt upplýsingum fulltrúa leigutakans kemur jafnvel fyrir að lax sé kominn á efstu svæðin þegar í upphafi veiðitímans. Er hafið yfir vafa að tilkoma laxastigans hefur gjörbreytt stöðu veiðifélagsins til hins betra til að njóta arðs með útleigu á svæðinu ofan Laxfoss í júní og júlí ár hvert, en í síðarnefnda mánuðinum fæst almennt hæst endurgjald fyrir veiðileyfi í laxveiðiám. Verður talið að eigendur jarða neðan Laxfoss fái lægri hlutdeild sína í arðskrá vegna minni veiði fyrir löndum þeirra að minnsta kosti að hluta bætta með auknum heildartekjum veiðifélagsins af leigu ánna vegna betri möguleika til stangarveiði á stærstum hluta vatnasvæðisins, sem beinlínis verður rakið til áðurnefndra framkvæmda. Verður því ekki fallist á með talsmönnum Laxárness og Valdastaða að enginn ávinningur hafi orðið af framkvæmdinni fyrir þessar jarðir, heldur einungis fyrir aðra veiðiréttareigendur, svo sem felst í rökstuðningi þeirra.

Samkvæmt öllu framanröktu skapar fiskvegurinn í Laxfossi öllum veiðiréttareigendum í Laxá og Bugðu bætta aðstöðu til veiða eða til að njóta arðs af veiði, en þó minnst þeim jörðum, sem hafa lagt hana til eða orðið að þola veiðitap vegna stigans. Til þessarar aðstöðu, sem líta má á sem framlag jarða neðan Laxfoss til hags fyrir alla, verður tekið tillit við skiptingu arðskrár, svo sem heimilt er samkvæmt lögum nr. 76/1970. Verður þá litið til upplýsinga í skýrslu Veiðimálastofnunar frá janúar 2003, sem talsmaður Valdastaða lagði fram og áður var greint frá. Með samanburði á tveimur átta ára tímabilum fyrir og eftir 1971 er þar dregið fram hve stór hluti árlegrar heildarveiði hafi færst frá svæðum neðan Laxfoss upp á efra svæðið með fyrirvörum um að breytingar geti hafa orðið á sókn, veiðarfærum, ástundun og dreifingu sóknar. Verður hluti þess afla, sem jarðir neðan Laxfoss hafa tapað, talinn þeim til tekna við skiptingu eininga, sem koma fyrir veiði. Verður þó ekki miðað við hlutfallslega breytingu frá fyrra átta ára tímabilinu til hins síðara, heldur miðað við breytingu frá fyrra tímabilinu til þeirrar hlutfallslegu skiptingar á afla eftir svæðum, sem verið hefur að meðaltali á árunum 1987-2002. Með þeirri viðmiðun er munurinn nokkuð minni en samanburður á tveimur átta ára tímabilum gefur. Að því virtu að þessar jarðir hafa einnig að hluta notið góðs af gerð fiskvegarins, sbr. hér að framan, og að niðurstöður Veiðimálastofnunar eru settar fram með fyrirvara um að fleira en gerð fiskvegarins geti hafa stuðlað að breytingu á hlutfallslegri skiptingu veiði milli svæða, þykir hæfilegt að 60% aflatapsins verið fært á milli svæða því neðra til hags. Kemur helmingur eininga, sem þannig fást, í hlut Laxárness, en hinn helmingurinn skiptist milli Háls og Valdastaða. Talsmaður síðastnefndu jarðarinnar hefur fært fram rök fyrir því að aflatapið hafi orðið mest í Laxfossi sjálfum og þremur veiðistöðum næst honum og þar með fyrir landi Valdastaða, en lítið þar fyrir neðan. Hefur talsmaður Háls átt þess kost að koma að athugasemdum við það. Að öllu virtu verður einingum, sem með þessum hætti er úthlutað til veiðiréttareigenda neðan Laxfoss norðan árinnar, skipt þannig að 80% þeirra falla til Valdastaða, en 20% til Háls.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 440 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á öllu félagssvæðinu. Skiptast þær á jarðir eftir veiðistöðum og að teknu tilliti til þess, sem áður var getið um tilfærslu afla vegna laxastigans og vegna veiðibanns í Höklum, sbr. nánar hér á eftir.

Að því er varðar Meðalfellsvatn er engri skráningu á afla til að dreifa, sem unnt væri að taka mið af við úthlutun eininga fyrir veiði til veiðiréttareigenda þar. Veiði í vatninu er leigð út sérstaklega. Verður ekki litið framhjá því að mikill meirihluti tekna veiðifélagsins stafar frá útleigu á lax- og silungsveiði í Laxá og Bugðu, en tekjur af Meðalfellsvatni eru hins vegar litlar. Árin 1997-2001 námu þær um 4,3 – 5,9% heildarteknanna, en 4,1% árið 2002. Verður tekið mið af þessari skiptingu tekna þegar arðskráreiningum fyrir veiði er deilt niður á vatnið annars vegar og árnar hins vegar. Er hæfilegt að 20 einingar falli til veiðiréttareigenda við Meðalfellsvatn vegna þessa þáttar. Verður þeim skipt milli jarða eftir hlutdeild í bakkalengd við vatnið.

Silungsveiði hefur aukist síðustu ár, en sjóbirtingur fer að jafnaði að veiðast um mánaðamót júní og júlí. Gildi sjóbirtingsveiðinnar er ótvírætt fyrir hendi, meðal annars þegar laxveiði er treg. Að auki er staðbundinn silungur í ánum og silungur gengur nokkuð úr Meðalfellsvatni í Bugðu. Má ætla að sú aðstaða, sem hér er til staðar, sé til þess fallin að auka nokkuð verðmæti ánna við útleigu þeirra, þótt yfirmatsmenn hafi ekki getað fengið staðfesta þá fullyrðingu talsmanns Káraness að sjóbirtingsveiðin hafi verið verðlögð með tilteknum hætti við gerð leigusamnings. Áður var að því vikið að skráningu á silungsveiði í ánum er verulega áfátt, þótt hún hafi heldur batnað allra síðustu ár. Þannig eru einungis til mjög ófullkomnar veiðitölur á silungi fram eftir því tímabili, sem tekið er mið af nú. Þótt á skorti að silungsveiði hafi síðar verið færð til bókar með viðhlítandi hætti þykir mega leggja tiltæk gögn um það til grundvallar frá og með árinu 1996. Vegna þess hve ótraust gögn liggja að baki verða einingar, sem koma fyrir þessa veiði, færri en efni hefðu ella staðið til. Er hæfilegt að 10 einingum verði úthlutað fyrir silungsveiði í ánum. Falla þær að miklu leyti í hlut Reynivalla, Káraness og Meðalfells.

Veiðibann hefur verið í Höklum frá og með árinu 1997, sbr. að framan. Samkvæmt upplýsingum leigutakans gildir það alla daga veiðitímabilsins og liggur ekki fyrir örugg skýring á því hvers vegna nokkrir fiskar eru þrátt fyrir það bókaðir á umrædda fimm veiðistaði. Verða eigendum veiðiréttar á svæðinu bætt áhrif bannsins með því að ganga út frá óbreyttu veiðihlutfalli þar á þeim sex árum, sem bannið hefur gilt, miðað við fyrri ár viðmiðunartímabilsins. Samkvæmt því þykir hæfilegt að samtals 5,6 einingar komi í hlut veiðiréttareigenda í Höklum, sem skiptast jafnt milli Háls og Laxárness.

Áður hefur verið greint frá því hvernig eigendum jarða neðan Laxfoss verður bætt veiðitap vegna gerðar fiskvegar. Koma einingar fyrir þennan þátt af þeim 404 einingum, sem eftir standa fyrir veiði, þegar tillit hefur verið tekið til veiði í Meðalfellsvatni, silungsveiði og veiðibanns í Höklum. Falla samtals 56 einingar til jarðanna neðan Laxfoss vegna afla, sem þannig er færður milli svæða. Að öðru leyti skiptast umræddar einingar milli veiðiréttareigenda eftir afla á einstökum veiðistöðum.

Talsmaður Laxárness hefur krafist þess að tekið verið tillit til að bann sé lagt við veiði samkvæmt 40. gr. laga nr. 76/1970 bæði 20 metra ofan og 30 metra neðan fiskvegar. Sé óumdeilt að laxastiginn í Laxfossi sé fiskvegur. Í reynd er veitt án nokkurra takmarkana á þessu svæði og því engin efni til að verða við kröfunni. Því hefur einnig verið hreyft af hálfu talsmanna Laxárness og Valdastaða að bann við maðkaveiði bitni á þessum jörðum með þeim hætti að tilefni sé til að bæta þeim það sérstaklega. Heimilt hefur verið síðustu árin að veiða með maðki allan júnímánuð og einnig í seinni hluta ágúst og í september. Bann við maðkaveiði á svokölluðum útlendingatíma í júlí og fyrri hluta ágúst er almennt, auk þess sem flestir, sem þá eru að veiðum, stunda ekki sinn veiðiskap með maðki, heldur flugu. Eru ekki fram komin haldbær rök fyrir því að taka sérstakt tillit til áðurnefndra tveggja jarða af þessu tilefni. Staðhæfingar um mikið álag á neðsta svæðið í upphafi veiðitímans gera það ekki heldur. Bæði eru það einungis fáir dagar í upphafi vertíðar, sem margar stangir eru settar á svæðið, auk þess sem álag verður mun meira á öðrum svæðum er líður á veiðitímann. Endurgjald fyrir veiðileyfi fer stighækkandi fram eftir júní og enn frekar í júlí og styðja sjónarmið um tekjuöflun fyrir veiðifélagið meðan margar stangir eru á svæðinu ekki heldur þessa kröfu. Umhverfi Laxár í landi Valdastaða, sem talsmaður jarðarinnar víkur að, auk nálægðar við veiðihús, eykur án vafa sóknarþunga veiðimanna þar, sem skilar sér í auknum afla. Til þess er tekið fullt tillit, sbr. áður. Þá er allur afli árin 1988 og 1989 talinn með, svo sem talsmaðurinn krefst. Krafa talsmanns Laxárness um að tekið verði tillit til kaupa á netaveiðirétti í sjó fyrir landi Eyrar og Eyrarkots verður ekki tekin til greina þegar af þeirri ástæðu að umræddar netalagnir voru utan óslínu Laxár og þar með utan félagssvæðisins. Heimildir um netaveiði fyrir landi Háls, sem lögð var af fyrir stofnun veiðifélagsins, eru alls ófullnægjandi og getur þetta atriði ekki komið til álita við skiptingu arðskrár nú. Hinu sama gegnir um sjónarmið talsmanns Laxárness þess efnis að hrygningarstöðum í Laxá fyrir landi jarðarinnar sé spillt með haustveiðum. Sjónarmið talsmanns Valdastaða um að veiði á síðari hluta veiðitímabils sé verðminni þar eð fiskar séu þá orðnir legnir og léttari en áður, eru engum gögnum studd og skipta ekki máli.

X.

Uppeldis og hrygningarskilyrði

Í 30. lið í upptalningu gagna í V. kafla að framan er getið um skýrslu Veiðimálastofnunar frá 1999 með leiðréttri töflu frá janúar 2003. Er þar gerð grein fyrir sérstakri rannsókn, svokölluðu búsvæðamati, á uppeldis- og hrygningarskilyrðum í vatnakerfi Laxár. Hafa yfirmatsmenn jafnframt fengið nánari upplýsingar og skýringar í viðtölum við höfund skýrslunnar, Sigurð Má Einarsson, sérfræðing hjá Veiðimálastofnun. Eftir þetta hefur stofnunin kannað sérstaklega tvö svæði, sem féllu utan búsvæðamats 1999, sbr. síðar.

Greint er frá því í skýrslunni að búsvæðamatið hafi verið gert að beiðni Veiðifélags Kjósarhrepps, en sambærileg athugun hafi ekki verið gerð áður á vatnasvæðinu. Hafi rannsóknin haft að markmiði að meta einstaka hluta vatnasvæðisins með tilliti til skilyrða fyrir hrygningu lax og gæða einstakra árhluta eða búsvæða til framleiðslu á seiðum. Er í matinu sérstaklega tekið mið af búsvæðum fyrir laxaseiði. Töluverð þekking hafi þó áður legið fyrir um viðfangsefnið, en um það er vísað til nokkurra rannsóknarskýrslna Veiðimálastofnunar frá seinni árum. Einstökum vatnsföllum á svæðinu er nánar lýst. Lax sé ríkjandi tegund á vatnasvæði Laxár og sé áin meðal bestu veiðivatna í landinu. Að auki sé þar töluverð sjóbirtingsveiði. Er síðan almenn umfjöllun í skýrslunni um hrygningarskilyrði og búsvæði fyrir laxaseiði í straumvatni og að helstu þættir, sem hafi þar áhrif á, séu botnlag, straumlag, dýpt og frjósemisskilyrði innan hvers svæðis. Er vatnasvæðinu síðan skipt í kafla, þar sem áin er svipuð með tilliti til botngerðar og rennslishátta. Á hverjum kafla var tekinn breytilegur fjöldi þversniða, þar sem breidd, dýpt og straumhraði var mældur og botnefnum skipt í fimm flokka eftir grófleika og þeir metnir til hundraðshluta. Við útreikning á gæði búsvæða var hlutdeild hvers botnsgerðarflokks síðan margfölduð með stuðli, svokölluðu botngildi, sem er mjög mishár eftir grófleika botnefna. Er hann lægstur þar sem leir/sandur eða klöpp er í botni, en hæstur fyrir smágrýti. Með þessu móti var fundið út framleiðslugildi hvers svæðis og reiknaður fjöldi svokallaðra framleiðslueininga þar. Loks var litið til þess að búsvæði geta verið mjög ólík hvað varðar frjósemisforsendur og hverju þeirra gefinn búsvæðastuðull frá 0,2 – 3,0 eftir því, sem fyrir liggur um þéttleika og vöxt laxaseiða á svæðinu. Var Laxá þannig skipt í níu mislanga kafla eða búsvæði, Bugðu í tvö búsvæði og hliðaránum Þverá, Hálsá, Svínadalsá, Dælisá, Sandsá og Flekkudalsá í eitt til þrjú búsvæði hverri. Samtals eru búsvæðin því 22. Er ljóst að uppeldis- og hrygningarskilyrði eru afar misjafnlega góð milli búsvæða og fjöldi framleiðslueininga að sama skapi mismikill. Eru tæplega 77% þeirra í Laxá, rúmlega 13% í Bugðu, en það sem eftir er í hliðarám. Mörk svæðanna eru tilgreind, en þau eru ekki dregin með tilliti til landamerkja milli jarða. Tölum um bakkalengd í matinu ber ekki alls kostar saman við landlengdarmælingu Hnita hf., en matið hefur að geyma hærri tölur um landlengd en áin hefur. Hafa yfirmatsmenn jafnað þeim mun hlutfallslega niður á svæðin.

Búsvæðamatið tók ekki til Meðalfellsvatns, en fram kemur í því að sú aðferð, sem beitt var, henti aðeins við rannsóknir í straumvatni. Ljóst er engu að síður að vatnið hefur gildi fyrir hrygningu og uppeldi, svo sem tekið er fram í matinu, auk þess sem hér má nokkuð styðjast við eldri rannsóknarskýrslur. Gildi vatnsins er einkum fyrir hrygningu  og uppeldi á silungi. Lax hrygnir ekki í stöðuvötnum, en seiði ganga úr Bugðu inn í vatnið, einkum frá hrygningu efst í ánni, og er verulegt uppeldi seiða í Meðalfellsvatni. Segir í matinu að strandsvæði þess, einkum grýtt svæði, nýtist til uppeldis á laxaseiðum. Í rannsóknarskýrslum kemur fram að laxaseiði sé einkum að finna næst ósnum úr vatninu. Engar nákvæmar upplýsingar liggja þó fyrir um hlutdeild vatnsins í heildarseiðaframleiðslunni. Niðurstaða yfirmatsmanna um þetta verður því óhjákvæmilega reist á ótraustari grunni en á þeim svæðum, sem búsvæðamatið tekur til. Auk þeirra gagna, sem vísað er til að framan, verður til samanburðar einnig litið til fjölda framleiðslueininga, sem eru veittar í búsvæðamati fyrir Bugðu.

Tvær rannsóknarskýrslur frá Veiðimálastofnun liggja fyrir, sem gerðar voru í september og október 2002 á svæðum, sem búsvæðamatið tók ekki til. Er annars vegar um að ræða athugun á tjörnum og lækjum í landi Valdastaða og Káraness og hins vegar umfjöllun um ósasvæði Laxár. Fyrrnefnda skýrslan leiðir ekki í ljós að umræddar tjarnir og lækir hafi nokkurt gildi fyrir uppeldi laxaseiða, sem máli skipti við mat á arðskrá. Nokkurt uppeldi silungsseiða er þar hins vegar. Að því er varðar ósasvæðið er niðurstaðan hin sama um laxaseiðin, en lax aðlagar sig á svæðinu fyrir göngu úr og í ferskvatnið. Svæðið hefur nokkurt gildi fyrir silungsseiði og einnig fyrir stærri silung, en mikið fæðuframboð er fyrir hann þar.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 280 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Af  þeim þykir rétt að tólf falli til eigenda veiðiréttar í Meðalfellsvatni, sem skiptast eftir bakkalengd við vatnið. Fyrir tjarnir í landi Káraness og Valdastaða verður samtals úthlutað einni einingu og fyrir ósasvæðið samtals tveimur einingum. Til veiðiréttareigenda í Laxá, Bugðu, Þverá, Hálsá, Svínadalsá, Dælisá, Sandsá og Flekkudalsá verður úthlutað samtals 265 einingum, sem skiptast í samræmi við leiðréttar niðurstöður búsvæðamats frá 1999. Áður er komið fram að skilyrði eru mjög misjöfn eftir því til hvaða kafla í ánum er litið. Er tekið tillit til þess að einstakar jarðir geta átt land að misjöfnum svæðum.

XI.

Niðurstöður

Ekki er fram komið tilefni til að aðrir þættir en þeir, sem að framan greinir, hafi áhrif á skiptingu arðskrárinnar. Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Þar sem hlunnindi eru óskipt milli tveggja eða fleiri jarða, verður ekki hróflað við þeirri innbyrðis hlutfallsskiptingu sem gilt hefur í reynd, enda hafa engar kröfur komið fram í þá veru. Samkvæmt eldri arðskrá fellur arður til fleiri jarða en þeirra, sem eiga aðild að veiðifélaginu samkvæmt samþykkt fyrir það, sbr. III. kafla að framan. Er um að ræða jarðir, sem eiga land að hliðarám eða ósasvæði Laxár. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við það og verður aðild þessara jarða að arðskrá óbreytt frá því sem verið hefur.

Tveir eigenda Fremri-Háls hafa farið þess á leit að Hálsá verði sérmetin við skiptingu arðs. Af þeim einingum, sem koma í hlut jarðarinnar, eru 4,5 vegna Hálsár.

Veiðifélag Kjósarhrepps greiðir kostnað af mati þessu.

Mat þetta gildir frá 1. janúar 2003. Arðskrá fyrir Veiðifélag Kjósarhrepps skal vera svo sem greinir í XII. kafla hér á eftir.

XII.

Arðskrá fyrir Veiðifélag Kjósarhrepps

Jarðir                                                                                                                     einingar

 

 1.   Háls og Neðri-Háls ................................................................................             60,9                                                 

 2.   Valdastaðir I og II og Grímsstaðir ...........................................................             78,4                  

3.      Reynivellir ..............................................................................................             77,0

4.      Sogn ......................................................................................................             11,4

5.      Vindás ...................................................................................................             77,4      

6.      Hækingsdalur og Hlíðarás ......................................................................           101,5      

7.      Fremri-Háls ...........................................................................................             72,8      

8.      Írafell .....................................................................................................             47,7      

9.      Möðruvellir I og Möðruvellir II ...............................................................             42,7

10.  Eyjar I, Eyjar II og Hjalli ........................................................................             28,7

11.  Þorláksstaðir .........................................................................................             36,4

12.  Hurðarbak .............................................................................................             13,6

13.  Meðalfell með Hjarðarholti .....................................................................           125,6

14.  Bær .......................................................................................................               2,8

15.  Káranes og Káraneskot .........................................................................             43,2

16.  Laxárnes ................................................................................................           152,2

17.  Grjóteyri og Flekkudalur ........................................................................             17,9

18.  Sandur ...................................................................................................               1,6

19.  Fell ........................................................................................................               3,1

20.  Blönduholt .............................................................................................               2,5

21.  Þúfa og Þúfukot .....................................................................................               0,4

22.  Eyri og Eyrarkot .................................................................................... ­­­              2,2

      

                                                                                               Samtals:               1000,00      

 

 

Reykjavík 30. júní 2003

 Gunnlaugur Claessen

 Þorsteinn Þorsteinsson

Sveinbjörn Dagfinnsson

 

Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum