Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2003 Innviðaráðuneytið

Samþykkt Vélstjórafélags Íslands mótmælt

Samgönguráðuneytið mótmælir harðlega samþykkt Vélstjórafélags Íslands dagsett 21. ágúst 2003.


Með reglugerð um eftirlit og skráningu á afli aðalvéla íslenskra skipa er heimilað að breyta skráðu afli vélanna að fengnu samþykki Siglingastofnunar Íslands sem hefur eftirlit með framkvæmdinni.

Heimild til að breyta skráðu afli aðalvéla var upphaflega veitt með reglugerð nr. 143/1984. Árið 1998 gaf Umboðsmaður Alþingis út álit þess efnis að reglugerðin stæðist ekki lög. Alla tíð síðan hefur ríkt mikil réttaróvissa á þessu sviði. Árið 2001 kvað Héraðsdómur Suðurlands upp dóm þar sem ákveðið var að skrá skuli raunverulegt afl aðalvéla. Tillaga Siglingastofnunar að reglugerðinni, sem er í samræmi við héraðsdóminn, á sér langan aðdraganda eða allt frá árinu 2000. Hagsmunaaðila í sjávarútvegi hefur greint mjög á um efni hennar og hafa Siglingastofnun og ráðuneytið leitað allra leiða til að finna niðurstöðu sem tryggir öryggi sjófarenda.

Vélstjórafélagið hefur ekki lagst gegn breytingu á skráðu afli aðalvéla heldur hefur lagt til að öðrum aðferðum verði beitt. Þær aðferðir eru að mati Siglingastofnunar óhagkvæmar en leiða til sömu niðurstöðu um fjölda vélstjóra. Yfirlýsing Vélstjórafélagsins um minnkun öryggiskrafna er því er úr lausu lofti gripin.

Ráðuneytið vísar á bug fullyrðingum um að það hafi haft bein afskipti af veitingu undanþágu vélstjóra á tilteknu skipi.
Veitingar undanþága sem eru á annað þúsund á ári eru í höndum undanþágunefndar og Siglingastofnunar Íslands.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum