Hoppa yfir valmynd
12. september 2003 Innviðaráðuneytið

Fundur samgönguráðherra Norðurlandanna 2003

Hinn 9. september s.l hittust samgönguráðherrar Norðurlandanna á sínum árlega fundi, að þessu sinni í Grythyttan í Svíþjóð.

Auk Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra tóku eftirtaldir ráðherrar þátt í fundinum: Ulrica Messing, samgönguráðherra Svíþjóðar sem stýrði fundinum, Flemming Hansen, samgönguráðherra Danmerkur, Torild Skogsholm, samgönguráðherra Noregs, Bjarni Djurholm, samgönguráðherra Færeyja og Runar Karlsson, samgönguráðherra Álands.

Aðal viðfangsefni fundarins var á hvern hátt samgöngur gætu stutt við þróun byggðar í löndunum.
Umræðan um þróun byggðar er ofarlega á baugi í öllum norrænu löndunum og leggja ríkisstjórnir landanna ríka áherslu á mál er lúta að byggðaþróun.

Á fundinum kom fram að enda þótt finna megi dæmi um atriði sem aðskilji löndin er fleira sem sameini þau. Meðal annars glíma öll löndin við vandamál vegna strjálbýlis og lágrar íbúatölu, mikilla fjarlægða á milli byggðakjarna og vegna yfirburða stórborgar.
Norrænu samgönguráðherrarnir urðu sammála um að raunhæfar samgöngulausnir væri það sem mestu máli skipti við þróun byggðar. Ráðherrarnir lögðu einnig áherslu á að lega landanna í norður Evrópu gerði allt samstarf þeirra við önnur Evrópuríki á sviði samgöngumála mikilvægt til að koma á greiðari flutningaleiðum fyrir útflutning landanna.

Greiðar og örar samgöngur eru til hagsbóta fyrir alla. Þess vegna er samstarf og samvinna mikilvæg, milli Norðurlandanna, milli þeirra og annarra Evrópulanda, en einnig milli ólíkra samgöngukerfa til þess að ná sem bestum árangri í þróun byggða og útflutnings frá löndunum.
Sem dæmi um kraftmikla byggðakjarna voru tvö svæði nefnd, annars vegar Eyrarsundssvæðið og hins vegar Haparanda ? Torneå. Á þessum svæðum hefur tekist með byggingu samgöngumannvirkja að brúa landamæri og leggja áherslu á þróun samfélagsins.
Danski samgönguráðherrann greindi frá samvinnu Dana og Þjóðverja við byggingu mannvirkis yfir Ferman- Beltið. Ályktaði fundurinn um nauðsyn þessa verkefnis, ekki eingöngu fyrir þessi tvö ríki heldur einnig fyrir hin Norðurlöndin sem brú milli Norðurlanda og annarra Evrópuríkja. Þessi nýja flutningaleið mun einnig bæta samgöngur og flutninga til Íslands.

Norrænu samgönguráðherrarnir ályktuðu að lokum um að umferðaröryggismál yrðu áfram sem hingað til forgangsverkefni í samstarfi Norðurlandanna.

Í lok fundarins gerði Sturla Böðvarsson grein fyrir áherslum Íslands í norrænu samstarfi á næsta ári en á því ári mun Ísland taka við formennsku í norrænu samstarfi af Svíþjóð. Bauð hann til ráðherrafundar á Íslandi í ágústmánuði 2004.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum