Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Tillaga til þingsályktunar um nýjan grundvöll að ákvörðun kirkjugarðsgjalds og skiptingu þess.

Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra hefur lagt fyrir kirkjuþing tillögu til þingsályktunar um nýjan grundvöll að ákvörðun kirkjugarðsgjalds og skiptingu þess.

Flutt af: Kirkjumálaráðherra

Framsögumaður: Hjalti Zóphóníasson

Kirkjuþing 2003 ályktar að samþykkja nýjan grundvöll að ákvörðun kirkjugarðsgjalds og skiptingu þess og heimilar fyrir sitt leyti flutning lagabreytingar þar að lútandi.
I.
Starfsemi kirkjugarða og skipulag þeirra.

Kirkjugarðar starfa á grundvelli laga nr. 36/1993 með síðari breytingum um kirkjugarða, greftranir og líkbrennslu. Hlutverk kirkjugarða er einkum tvíþætt. Annars vegar að annast greftranir látinna og hins vegar að hafa með höndum uppbyggingu og umhirðu garðanna. Hver kirkjugarður er sjálfseignarstofnum sem kirkjugarðsstjórnir sóknarnefnda hafa umsjón með fyrir hönd safnaða undir yfirstjórn prófasta. Kirkjugarðaráð hefur yfirumsjón með skipulagsmálum kirkjugarða á landsvísu. Málefni kirkjugarða eru öðrum þræði heilbrigðismál og bygginga- og skipulagsmál, og gætu því allt eins verið verkefni á vegum sveitarfélaga, fengju þau tekjur til að annast þau.
II.
Framlög ríkisins til kirkjugarða.

Fjárveitingar ríkisins til kirkjugarða eru fólgnar í lögbundnu framlagi, svonefndu kirkjugarðsgjaldi, sem er tiltekin fjárhæð samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Gjaldið tekur hækkunum á milli ára í hlutfalli við hækkun á meðaltekjuskattstofni einstaklinga næstliðinna tveggja ára á undan gjaldárinu. Gjaldið er greitt vegna allra einstaklinga, 16 ára og eldri sem búa á viðkomandi svæði í lok ársins á undan gjaldárinu. Gjaldið er greitt mánaðarlega frá ríkinu og nemur mánaðarlega greiðsla á árinu 2003 kr. 246,00 eða sem svarar til tæpra 3.000 króna á ári. Hluti gjaldsins, 8%, rennur í Kirkjugarðasjóð sem nýtir féð til að jafna aðstöðu kirkjugarða með því að veita lán eða styrki þegar tekjur hrökkva ekki fyrir útgjöldum. Ef miðað er við meðalævilíkur 16 ára einstaklinga hér á landi lætur nærri að ríkið greiði 190 þúsund krónur til kirkjugarða á ævi hvers einstakings.
III.
Eðli kirkjugarðsgjaldsins.

Þótt í lögum sé kveðið á um gjald til kirkjugarða sem ríkið skili af óskiptum tekjuskatti hefur ekki verið litið svo á að um sé að ræða skatta, afnotagjöld, félagsgjöld eða aðrar sambærilegar lögþvingaðar tekjur sem innheimtar eru af ríkinu. Ekkert kirkjugarðsgjald er lagt á einstaklinga og hækkanir á framlaginu til kirkjugarða breyta engu um tekjuskatt manna. Um er að ræða bein framlög frá ríkinu sem bundin eru í lögum með ákveðinni viðmiðun um hvernig þau skuli reiknuð. Þetta kemur m.a. fram í því að í fjárlögum eru framlögin sett fram sem vanalegar fjárveitingar á gjaldahlið og tilgreind sem eitt af lögbundnum framlögum ríkisins í sérstöku yfirliti nr. 5, en ekki sem markaðar skatttekjur til þessara aðila.

IV.
Þróun kirkjugarðsgjaldsins frá 1991-2004.

Fjármálaráðuneytið hefur reiknað út þá þróun sem verið hefur á undanförnum áratug á kirkjugarðsgjaldinu. Það athugast að tekjur komu einnig með markaðsgjaldi hluta tímabilsins, sem síðan voru felldar niður.
Taflan hér á eftir sýnir þróun kirkjugarðsgjaldsins og lögboðna framlagsins til kirkjugarða frá árinu 1991.Ár
Mán-
gjald
Staðvirt
gjald1)
Nafn-
hækkun
Raun-
hækkun
Fjölgun
einstakl.
Árlegt
framlag
Staðvirt
framlag1)
Nafn-
hækkun
Raun-
hækkun
1991
127,20
186,31
4,4%
-2,2%
1,0%
287,4
420,9
5,5%
-1,2%
1992
139,92
197,56
10,0%
6,0%
1,7%
321,4
453,9
11,8%
7,8%
1993
141,60
192,03
1,2%
-2,8%
1,0%
328,7
445,7
2,3%
-1,8%
1994
139,88
186,92
-1,2%
-2,7%
1,0%
327,9
438,2
-0,2%
-1,7%
1995
142,22
186,90
1,7%
0,0%
0,9%
336,3
441,9
2,5%
0,8%
1996
146,63
188,45
3,1%
0,8%
0,8%
349,5
449,1
3,9%
1,6%
1997
164,13
207,23
11,9%
10,0%
0,7%
393,9
479,4
12,7%
10,7%
1998
174,59
216,79
6,4%
4,6%
1,7%
426,3
529,4
8,2%
6,4%
1999
196,51
235,96
12,6%
8,8%
1,6%
487,4
585,3
14,3%
10,6%
2000
213,44
244,00
8,6%
3,4%
1,5%
537,6
614,6
10,2%
5,0%
2001
232,12
248,74
8,8%
1,9%
1,7%
594,6
637,2
10,6%
3,7%
2002
232,00
236,64
-0,1%
-4,6%
1,4%
602,5
616,4
1,3%
-3,3%
20032)
244,67
244,67
5,5%
3,4%
0,8%
640,8
640,8
6,3%
4,3%
20042)
256,90
250,63
5,0%
2,4%
1,0%
663,0
663,0
6,0%
3,5%
Hækkun 1991-2004
   
102,0%
34,9%
     
136,4%
57,9%

Eins og taflan sýnir þá hækkar fjárhæð kirkjugarðsgjaldsins á hvern einstakling að nafnvirði á hverju ári á tímabilinu 1991-2004 að undanskildu árinu 1994. Ef litið er á þróunina á föstu verðlagi miðað við neysluverðsvísitölu lækkar gjaldið dálítið árin 1991, 1993, 1994 og 2002 að raungildi, en hækkar öll hin árin. Raunhækkun mánaðarlegs gjalds frá 1991 til 2004 nemur um 35%. Við þessar hækkanir á sjálfu gjaldinu bætast síðan aukin framlög sem leiða af fólksfjölgun milli ára, sem hefur verið 0,7% til 1,7% á tímabilinu. Þegar þetta reiknast með hefur hækkunin á framlagi ríkisins til kirkjugarðanna orðið enn meiri, þannig að hækkunin frá árinu 1991 til 2004 nemur rúmlega 58% að raungildi.

1) Staðvirðing fjárhæða miðast við neysluverð og uppfærslu til áætlaðs verðlag ársins 2003
2) Tölur fyrir árin 2003 og 2004 eru áætlaðar miðað við forsendur fjárlaga


V.
Nánar um þróun og breytingu kirkjugarðsgjaldsins frá 1991.


Í töflunni hér að framan kemur fram að þróunin framan af tímabilinu var með þeim hætti að framlagið hækkaði verulega árið 1992 en rýrnaði síðan nokkuð að raungildi árin 1993 og 1994 og hækkaði innan við 1% að raungildi árið 1995. Hafa ber í huga að á þessum árum var djúp efnahagskreppa í landinu og stjórnvöld stóðu þá í ströngu að draga úr miklum halla á rekstri ríkissjóðs. Erfiðar ákvarðanir þurfti að taka um útgjaldaaðhald og lækkun framlaga og ríkar kröfur voru gerðar til ríkisstofnana um hagræðingu í starfsemi sinni. Á síðari hluta áratugarins hafði tekist að snúa hallanum í afgang í ríkisfjármálum , og eins og sjá má á töflunni jukust framlögin til kirkjugarða verulega að raungildi, þar af tvö árin 1997 og 1999 um nærri 11%. Á árinu 2002 lækkaði framlagið um rúmlega 3% að raungildi, þar sem það var látið standa óbreytt frá fyrra ári í tengslum við aðrar aðhaldsaðgerðir í ríkisrekstrinum. Vakin skal athygli á að tölur fyrir árin 2003 og 2004 eru áætlaðar miðað við varfærnar forsendur fjárlaga og eru líkur á að þær verði jafnvel hærri. Benda má á að þessi auknu framlög til kirkjugarða hafa að sama skapi skert getu ríkissjóðs til að verja fé til annarra mikilvægra verkefna. Framlög til reksturs ríkisstofnana hafa ekki aukist í sama mæli á umræddu tímabil. Sem dæmi má nefna að framlög til skattstofa á sama tímabili hafa hækkað um rúm 46% að raungildi.
VI.
Kröfur Kirkjugarðasambands Íslands (KGSÍ) um hækkun á fjárveitingum til kirkjugarða og leiðir sem komu til álita í því sambandi.

Á árinu 2000 bar KGSÍ sig illa undan bágborinni fjárhagsstöðu kirkjugarðanna, sem hafi stafað að skerðingu sem hafi dunið á tekjum þeirra. Tilgreint var í bréfi til sóknarnefnda og presta að skerðingin hafi numið rúmlega 40% á tímabilinu 1990 til 1996. Sams konar fullyrðingar komu fram í fréttabréfi sambandsins og í erindum til fjárlaganefndar. Í bréfi KGSÍ til dómsmálaráðherra, dags. 9. mars 2000, var óskað eftir fundi um þessar skerðingar. Í skýrslum sem ríkisendurskoðun tekur saman samkvæmt ársreikningum kirkjugarða var fjárhagsstaða kirkjugarða í heild ekki mjög bágborin eða komin í þrot eins og ætla mætti af málflutningi KGSÍ. Þvert á móti hefur hagnaður kirkjugarða verið upp undir 15% af tekjum árin 1999-2000. Hins vegar er staða garðanna mismunandi og jafnvel neikvæð víða á landsbyggðinni, einkanlega á minni stöðum. Þetta skýrist að hluta til af stærðarhagkvæmni. Eins eru margir garðar á landsbyggðinni tiltölulega stórir og viðhaldsþurfi, þótt sóknirnar þar séu í dag orðnar afar fámennar, og einstaklingar 16 ára og eldri langtum færri en á árum áður. Í ljósi þessa má segja að fullt tilefni hafi verið til að skoða hvort ekki kunni að vera heppilegri grundvöllur fyrir innbyrðis skiptingu fjárveitingarinnar milli garðanna.

Þann 9. nóvember 2000 kom fram hjá fulltrúa fjármálaráðuneytisins á fundi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu með stjórn KGSÍ að til álita gæti komið að setja kirkjugarða á fjárlög og nema úr gildi hina lögboðnu hækkun milli ára sem tekur mið af hækkun meðaltekjuskattstofns einstaklinga. Í staðinn gæti komið vanaleg fjárveiting í fjárlögum sem fjallað væri um út frá útgjaldaþörf skv. rekstraráætlun kirkjugarða og sem hækki milli ára miðað við launa- og verðlagsforsendur fjárlaga á sama hátt og tíðkast um flesta aðila sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði. Var m.a. bent á að kirkjugarðsgjaldið hækkar í réttu hlutfalli við laun, en launakostnaður kirkjugarða sé um 2/3 hluti í rekstri þeirra, og þar sem launahækkun sé meiri en almenn verðlagsþróun, þá hafi garðarnir haft af þessu nokkurn ávinning. Einnig stangist þetta fjármögnunarfyrirkomulag á við útgjaldastýringu með rammafjárlögum og sé ósveigjanlegt gagnvart breytingum stjórnvalda á hverjum tíma eða tímabundnum útgjaldahreyfingum hjá kirkjugörðum, t.d. vegna stærri framkvæmda. Fulltrúar KGSÍ drógu ekki dul á áhyggjur sínar og bentu m.a. á að staðfest hefði verið í tveimur skýrslum, sem samdar hafa verið með fulltrúum fjármála- og dóms- og kirkjumálaráðuneyta á undanförnum árum, að tekjur garðanna dygðu ekki til að sinna lögboðnum verkefnum þeirra. Fulltrúi fjármálaráðuneytisins benti á aðra fjármögnunarleið sem kæmi til álita og fælist í því að breyta reikniviðmiðum fyrir framlaginu þannig að við árlegar breytingar væri gengið út frá fjölda grafa í umhirðu og greftrana. Það ætti að endurspegla betur útgjaldaþróunina hjá görðunum. Framlagið tæki síðan hækkun skv. launa- og verðlagsforsendum fjárlaga. Niðurstaða fundarins var sú að KGSÍ kvaðst mundu á næstu misserum taka til athugunar og fara vel ofan í fjármál kirkjugarðanna í landinu og vinna að gerð gjaldalíkans, sem mætti notast við í tengslum við skiptingu kirkjugarðsgjaldsins til garðanna.
VII.
Gjaldalíkan KGSÍ.

KGSÍ skipaði í framhaldi af þessu vinnuhóp, sem vann síðan að gerð og útfærslu gjaldalíkans, og lauk því starfi í mars 2003, en þá gaf Kirkjugarðasamband Íslands út skýrslu er ber heitið: Skýrsla um fjármál kirkjugarða. Er þar um ítarlega skýrslu að ræða, 94 bls. að lengd, þar sem gerð er grein fyrir störfum nefndarinnar, úttektar hennar á öllum kirkjugörðum landsins, útreikningi fyrir hvern þeirra og þeim sjónarmiðum sem lágu að baki gjaldalíkaninu. Jafnframt eru settar fram tillögur um breytta skipan kirkjugarðsmála.

Ekki er talin ástæða til að rekja efni skýrslunnar hér, enda hefur henni verið dreifit hér á þinginu. Verður því látið nægja að vísa til hennar. Bent skal á, að gjaldalíkanið byggir á skiptingu kirkjugarðanna í landinu í 10 flokka eftir fjölda greiðenda, og einstakir verkþættir og umfang þeirra í lögboðnum störfum þeirra reiknaðir út, miðað við upplýsingar um kostnað við þá. Helstu rekstrarliðirnir eru: hirðing að sumarlagi, grafartaka, annað viðhald, prestkostnaður, afskrift/viðhald/rekstur húsnæðis, nýframkvæmdir, bókhald og reikningsskil, stjórnun o.fl. Úthlutun kirkjugarðsgjaldsins er síðan byggð á þesssu gjaldalíkani.

Kirkjugarðasamband Íslands hefur haldið marga kynningarfundi og gert rækilega grein fyrir störfunum að gjaldalíkaninu. Hefur þessari hugmyndafræði að ákvörðun fjár til kirkjugarðanna almennt verið mjög vel tekið. Þá hefur Kirkjugarðaráð og kirkjuráð hvatt Kirkjugarðasamband Íslands til að kynna efni hennar og tillögur fyrir stjórnvöldum í því skyni að freista þess að koma á þeirri skipan sem þar er lýst og að síðan verði lagt fram lagabreytingafrumvarp fyrir kirkjuþing í haust.

VIII.
Hugmyndir að breyttum grundvelli fyrir framlögum ríkisins til starfsemi kirkjugarða.

Hinn 30. júlí sl. komu stjórnarmenn Kirkjugarðasambands Íslands á fund dóms- og kirkjumálaráðherra til þess að kynna honum efni skýrslunnar um hið nýja gjaldalíkan. Að loknum þeim fundi ákvað ráðherrann, eftir athugun á málinu, að nokkrum starfsmönnum í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu yrði falið að fara vel yfir málið og gera síðan tillögur um frekari úrvinnslu og framvindu málsins.

Það var samdóma álit fulltrúa ráðuneytanna að gjaldalíkanið væri allt of ítarlegt til þess að nota mætti það sem reiknigrundvöll. Í árlegri fjárlagagerð fjalli ráðuneytin ekki um forsendur, útreikninga og kostnaðarbreytingar í slíkum smáatriðum. Hins vegar gæti notkun slíks líkans verið skynsamleg og eðlileg til að dreifa fjármunum til einstakra kirkjugarða. Bent var á að ákvörðun fjárframlaga sé einföld og gegnsæ. Núgildandi viðmiðun um ákveðna krónutölu pr. einstaklinga 16 ára og eldri hafi reynst hagstæð viðmiðun þar sem launaþróun hefur oft verið meiri en verðlagsforsendur fjárlaga og fólksfjölgun hafi líka komið til góða. Hagræðingarkröfur sem gerðar eru í rekstri ríkisins hafa sjaldnast haft áhrif á ráðstöfunartekjur kirkjugarðanna. Fulltrúarnir voru sammála um að vel mætti hugsa sér að nota tvær grunnstærðir í viðmiðun fyrir framlagi sem komi í stað kirkjugarðsgjaldisins, þ.e. hvernig sú fjárveiting skuli ákvörðuð. Þær endurspeglast í meginhluta rekstrarins, þ.e. fjölda grafa í umhirðu viðkomandi kirkjugarðs og fjölda greftrana. Ennfremur töldu fulltrúarnir að gera mætti lagabreytingu þannig að ekki verði kveðið á um það í lögum hvernig fjármagninu verði ráðstafað til einstakra kirkjugarða heldur verði sú skipting á hendi yfirstjórnar kirkjugarðanna, kirkjugarðaráðs. Við þá úthlutun mætti vel hugsa sér að leggja gjaldalíkan KGSÍ til grundvallar. Einnig mætti skoða að framlag í kirkjugarðasjóð gæti verið breytilegt milli ára, en þó með tilteknu lágmarki, til að jafna milli minnstu garða eftir úthlutun samkvæmt samræmdum reikniforsendum í líkaninu.

Á grundvelli minnisblaðs til dóms- og kirkjumálaráðherra, sem hafði að geyma þau atriði sem að ofan eru rakin, taldi ráðherra rétt að rætt yrði við formann KGSÍ og þess yrði freistað að leita eftir sameiginlegri niðurstöðu.

Var síðan haldinn fundur með fulltrúunum og formanni KGSÍ þar sem upplýst var hvaða breytingar ráðuneytin teldu geta verið í sjónmáli. Það væri forsenda fyrir breyttu fyrirkomulagi að ekki rynni meira fjármagn til kirkjugarða en nú er. Telja mætti víst, að ef kirkjuþing og aðrir aðilar á kirkjulegum vettvangi fallast á tillögurnar, þá sé ekkert því til fyrirstöðu að semja lagabreytingar sem tækju gildi frá og með árinu 2005 í kjölfar fjárlagavinnslunnar á næsta ári, 2004. Eins megi ávallt búast við því að breytingar kunni að vera gerðar á framlagi til kirkjugarða með alveg sama hætti og þær kunna að vera gerðar á hverjum öðrum fjárframlögum í ljósi ríkjandi ástands eða fyrirsjáanlegs ástands í ríkisfjármálum hverju sinni.

IX.
Hvað felst nánar í þessu breytta fyrirkomulagi?

Eitt atriði í sambandi við fjármögnun í rekstri kirkjugarða sem rétt er að hafa í huga, er að lögbundna framlagið byggir á forsendum sem ætla má að þróist á allt annan veg en raunverulegar rekstrarforsendur kirkjugarðanna. Þar er þá ekki aðeins um að ræða framangreindar verðlagsforsendur heldur ekki síður að fjárþörfin ræðst aðallega af stærð garðanna og fjölda árlegra greftrana fremur en af því hversu margir einstaklingar 16 ára og eldri eru á lífi í landinu. Þá bætist við að þarna mun skilja mikið á milli vegna lýðfræðilegrar þróunar á næstu áratugum, þegar "öldrunar" fer að gæta í auknum mæli og útförum fjölgar væntanlega í sama hlutfalli. Út frá þessu sjónarmiði kæmi til álita að taka upp viðmiðanir fyrir fjárveitingunni þar sem byggt verði á frekar einföldu einingarverðlíkani sem félli betur að væntanlegri þróun í umfangi rekstrarins og þjónustunni. Vel má hugsa sér einingaverð fyrir grafir sem þarf að hirða, einingaverð fyrir nýjar grafir sem eru teknar á árinu og einingaverð fyrir líkbrennslu. Jöfnunarframlagi, sem vel má hugsa sér hærra en núgildandi 8%, mætti úthluta á grundvelli reiknilíkans á vegum kirkjugarðaráðs vegna garða í strjálbýli. Húsbyggingar, uppsetning nýs líkbrennsluofns, standsetning nýrra garða og aðrar þvílíkar fjárfrekar framkvæmdir þyrftu hins vegar að koma til sérstakrar skoðunar eins og hver annar stofnkostnaður við ákvarðanatöku rammafjárlagagerðarinnar. Sem dæmi má nefna um breytta nálgun, að til greina kemur að ríkið greiði einingaverð sem væri talsvert umfram kostnað við bálför. Kostnaður við líkbrennslu og jarðsetningu duftkers og umhirðu þess er langt undir kostnaði við venjulega grafartöku og umhirðu legstæðis, auk þess landrýmis sem sparast. Þannig hefðu garðarnir hvata til að reyna að stuðla að auknum bálförum þar sem báðir aðilar hefðu hag af því kostnaðarlega. Slíkar fjármögnunarforsendur væru þá ekki bundnar í lögum heldur mætti gera samkomulag um þær milli garðanna og ráðuneytis með þjónustusamningi.
Rétt þykir að lokum að árétta þær áherslur sem fjármálaráðuneytið hefur haft varðandi notkun reikniviðmiða eða líkana fyrir forsendum fjárlaga.
  • Reiknilíkönum er ætlað að deila niður fjárveitingu sem stjórnvöld hafa ákveðið fyrir viðkomandi málaflokk, t.d. skóla eða hjúkrunarheimili fyrir aldraða, en ekki að "reikna út" fjárveitinguna t.d. miðað við að þær rekstrarforsendur hafa verið fyrir hendi á hverjum stað undanfarin ár. Líkönum er þannig ekki ætlað að útbúa sjálfvirkar fjárheimildir út frá því hvernig kostnaður "þróast" á hverjum tíma og stað.
  • Við ákvörðun heildarframlags til málaflokks er þó litið til þess hvernig grunnviðmiðanir reiknilíkans eru að þróast milli ára, t.d. fjöldi nemenda í framhaldsskólum eða fjöldi rýma eða umönnunarþyngarstuðull hjá hjúkrunarheimilum. Jafnframt kann þá að vera ákveðið að bregðast við þróuninni með einhverjum hætti til að sporna gegn auknum útgjöldum eða jafnvel að koma alveg í veg fyrir þau, þannig að ekki verði þörf frekari fjárveitingar.
  • Forsendur í reiknilíkönum eiga ekki aðeins að taka mið af reynslutölum um tilkostnað rekstraraðilanna að meðaltali, heldur einnig mið af því sem talið er hagkvæmt og jafnvel eingöngu af þeirri fjárheimild sem er til skiptanna eftir að ráðuneytið hefur forgangsraðað sínum útgjaldaramma.
  • Forsendur reiknilíkans séu sé fæstar og einfaldastar til að þær snúi eingöngu að þeim aðalatriðum sem stjórnvöld eru reiðubúin til að gera samkomulag um við þá sem annast um starfsemina, t.d. fjöldi rýma og umönnunarþyngd hjá hjúkrunarheimilum en ekki rekstrarforsendur í einstökum atriðum, s.s. launakjör, fjöldi starfsmanna, vaktafyrirkomulag, ferðakostnaður, símakostnaður, húsaleiga, rafmagn og hiti o.s.frv. Reiknilíkön sem byggð eru á fjárlögum eiga ekki að þjóna sem allsherjar rekstraráætlun fyrir allar stofnanir viðkomandi málaflokks. Slíkar smáatriðakenndar rekstrarforsendur eiga ekki erindi inn í rammafjárlagagerð ráðuneyta heldur eru þær betur komnar á borðum stjórnenda í stofnunum, sem hafa það hlutverk að stýra forsendum fyrir daglegum rekstri. Reynslan hefur líka sýnt að ráðuneytin hafa ekki mannafla eða tíma til þess að fást við slík flókin reikniverk með fjöldmörgum breytum þegar á mjög skömmum tíma þarf jafnvel að leggja mat á og ná samkomulagi um hverja breytu fyrir sig.
  • Í sambandi við kirkjugarðana þyrfti reikniviðmiðun fjárveitingar að beinast að heildarstarfsemi þeirra á landsvísu. Innbyrðis skipting framlagsins til allra kirkjugarða landsins, sem eru um 250 talsins, væri þá á vegum yfirstjórnar garðanna, t.d. með sérstöku reiknilíkan þar sem gengið væri út frá sértækari rekstrarforsendum og e.t.v. reglum um jöfnun á milli garðanna. Hlutverk reikniviðmiðunarinnar fyrir málaflokkinn væri þá fyrst og fremst að þjóna ákvarðanatöku ráðuneyta um breytingar á fjárveitingunni frá einu ári til þess næsta.

X.
Næstu skref í málinu.

Á þessu stigi málsins þykir ekki rétt að setja fram drög að lagabreytingum, er taki mið af þeim hugmyndum og tillögum sem uppi eru i málinu. Talið er nægilegt að leggja hugmyndafræðina, eins og hún hefur verið reifuð hér að framan, fyrir Kirkjuþing til umfjöllunar og ályktunar. Lagatæknilega er ekki talið flókið að útfæra þessar tillögur í lagatexta. Rétt er að árétta að nýr grundvöllur við ákvörðun framlags til kirkjugarða og skiptingu þess byggir á þeirri hugmyndafræði að sömu grundvallarverkefni þarf að vinna í hverjum garði, án tillits til fjölda íbúa í sókninni. Mikill munur er á milli kirkjugarða innan sama flokks hvað varðar tölu íbúa, en ekki er að sama skapi eins mikill munur á milli þeirra verkefnalega séð. Nýja fyrirkomulagið mun byggja á því að greina lögbundin verkefni og kostnað við að framkvæma þau.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira