Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 37/2003. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 19. nóvember 2003

í máli nr. 37/2003:

Samtök verslunarinnar

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 12. nóvember 2003, sem barst nefndinni hinn 13. nóvember 2003, kæra Samtök verslunarinnar f.h. Austurbakka hf., Lífs hf. og PharmaNor hf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa nr. 13402, auðkennt „Ýmis lyf 2 fyrir sjúkrahús".

Kærandi krefst þess útboðið verði stöðvað og kærða gert að bjóða þau lyf sem útboðið nær til aftur. Jafnframt er þess krafist að opnun tilboða sem áætluð er fimmtudaginn 13. nóvember 2003 kl. 14:00 verði stöðvuð þar til niðurstaða í kærumálinu liggur fyrir.

Eins og málið liggur fyrir telur nefndin rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun útboðsins þegar í stað, þótt kærði hafi ekki enn tjáð sig um kæruna. Frekari gagnaöflun og úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

Með rammasamningsútboði nr. 13402, auðkennt „Ýmis lyf 2 fyrir sjúkrahús" óskaði kærði eftir tilboðum fyrir hönd ýmissa sjúkrastofnana í lyf í eftirfarandi ATC flokkum: C01DA, C02KX, C08CA, C08DB, C09AA, C10AA, L01XC, L01XD, L01XX, L02AE, L02BB, L02BG, L03AA, L04AA. Nánari upplýsingar um umfang útboðsins eru í kafla 2 í útboðslýsingu. Opnunartími tilboða er samkvæmt lið 1.1.1 í útboðslýsingu 13. nóvember 2003 kl. 14:00. Með símbréfi kærða til bjóðenda, dags. 24. október 2003, voru gerðar breytingar á útboðsgögnum og aftur með símbréfi, dags. 6. nóvember 2003.

Í lið 3.1 í upphaflegri útboðslýsingu voru talin upp tiltekin verð sem lesin skyldu upp við opnun tilboða og í lið 1.1.11 kom m.a. fram að lesa ætti upp heiti framleiðenda boðinna lyfja. Með bréfi til bjóðenda, dags. 6. nóvember 2003, var þessum liðum breytt með þeim hætti að heildartilboðsfjárhæð skyldi lesin upp, en engin einstök verð, auk þess sem horfið var frá því að lesa upp heiti framleiðenda boðinna lyfja. Í lið 1.1.11, eins og honum var breytt 6. nóvember 2003, var jafnframt ekki sú setning sem fram kom í hinum upphaflega lið 1.1.11, um að þátttakendum í útboðinu yrðu sendar niðurstöður útboðsins þar sem fram kæmi við hverja yrði samið og samningsverð.

Með bréfi til kærða, dags. 12. nóvember 2003, krafðist kærandi þess að opnun tilboða í útboðinu yrði frestað í ljósi þess að verið væri að gera verulegar breytingar á útboðsgögnum og fyrirtækjunum væri ómögulegt að fá svör og skýringar á þeim atriðum sem þar kæmu fram í ljósi þess að fyrirspurnarfrestur hefði runnið út hinn 4. nóvember 2003. Þessari kröfu mun hafa verið hafnað munnlega af hálfu kærða.

II.

Kærandi telur mjög óeðlilegt að gerðar séu veigamiklar breytingar á útboðsgögnum fjórum virkum dögum fyrir opnun tilboða án þess að veittur sé frestur til að fá skýringar á þeim breytingum sem gerðar séu einhliða af hálfu kærða. Þessi vinnubrögð séu í andstöðu við anda laga um opinber innkaup, auk þess sem ennfremur komi til greina hvort ákvæði stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Algjör höfnun kærða á fresti í stuttan tíma lýsi ófaglegum vinnubrögðum og hroka af hálfu þjónustustofnunar ríkisins. Það hljóti að verða að gilda jafnræði á milli seljenda og kaupenda innan opinbera geirans, en kærði hunsi algjörlega þá meginreglu.

Kærandi telur þá breytingu, að lesa einungis upp heildarverð við opnun tilboða, en engin einstök verð, verða að teljast í andstöðu við túlkun nefndarinnar á 47. gr. laga nr. 94/2001, sbr. úrskurð í máli nr. 37/2002. Í hinu kærða útboði séu boðin út 102 lyf eða lyfjaform í 14 flokkum og það sé óásættanlegt að bjóðendum sé ekki gefinn kostur á að fá a.m.k. upplýsingar um verð í helstu flokkum eins og upphaflega útboðslýsingin hafi gert ráð fyrir.

Kærandi telur að sú breyting, að fella út ákvæði um að bjóðendum verði gerð grein fyrir niðurstöðum útboðs þar sem fram komi við hverja verður samið og samningsverð, feli í sér brot á jafnræðisreglu og komi enn frekar í veg fyrir að gegnsæi ríki í útboðum ríkisins.

Þá vekur sú breyting að lesa ekki upp nöfn framleiðenda lyfjanna furðu kæranda, því í lið 1.2.5 um val á samningsaðila sé reynsla og áreiðanleiki eitt af þeim atriðum sem meta eigi varðandi lyfjafræðileg atriði. Það að því sé haldið leyndu hverjir framleiði þau lyf sem boðin séu veki tortryggni og leiði óhjákvæmilega til efa um heiðarleika þeirra sem að útboðinu standa.

III.

Kærandi telur samkvæmt framansögðu að breytingar sem gerðar voru á útboðsskilmálum í hinu kærða útboði brjóti að ýmsu leyti í bága við lög og reglur um opinber innkaup. Opnun tilboða hefur þegar farið fram, en nefndin tekur hér afstöðu til þess hvort stöðva beri hið kærða útboð á grundvelli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001, þar til endanlega hefur verið skorið úr kærunni.

Í 80. gr. laga nr. 94/2001 er nefndinni veitt heimild til að stöðva útboð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Í ákvæðinu sjálfu, sbr. og athugasemdir við ákvæðið í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 94/2001, er skýrlega tekið fram að skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar sé að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar verður ekki talið að svo verulegar líkur liggi fyrir um brot gegn útboðslögum eða útboðsreglum að skilyrði séu til stöðvunar útboðsins. Því verður að hafna kröfu kæranda þess efnis.

Ákvörðunarorð :

Kröfu kæranda, Samtaka verslunarinnar, um stöðvun rammasamningsútboðs Ríkiskaupa nr. 13402, auðkennt „Ýmis lyf 2 fyrir sjúkrahús", er hafnað.

Reykjavík, 19. nóvember 2003.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Auður Finnbogadóttir

Rétt endurrit staðfestir.

19.11.03

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum