Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 38/2003. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 9. desember 2003

í máli nr. 38/2003:

Hýsir ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 24. nóvember 2003, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Hýsir ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 13414 auðkennt: „Lyfið: Storkuþáttur VIII fyrir sjúkrahús."

Kröfur kæranda eru eftirfarandi:

Aðallega að útboðið „verði lýst ógilt og fellt niður af kærunefnd útboðsmála. Þess er einnig krafist að útboðið verði stöðvað á meðan leyst er úr kærumáli þessu og að opnun tilboða fari ekki fram á fyrirhuguðum tíma."

Til vara er þess krafist „að skilmálum í útboðsgögnum verði breytt þannig að þeir verði þeir sömu og áður var í útboði nr. 13249, sem kærunefnd útboðsmála felldi niður þann 13. febrúar sl. Til vara er þess svo einnig krafist að lagfærð verði í útboðsskilmálum þau atriði sem kærð eru sjálfstætt, til samræmis við gildandi lög, reglur og útboðsstefnu stjórnvalda. Er hér átt við atriði sem kærð eru utan við eða samhliða þeirri kærumálsástæðu sem byggir á að breytt hafi verið útboðsskilmálum frá fyrra útboðinu nr. 13249. Vararkrafan er jafnframt sú að í framhaldinu af breytingum og lagfæringu á útboðsskilmálum skv. varakröfu, verði veittur hæfilega langur frestur (tilboðsfrestur), þar til skila á tilboðum í útboðinu og alls ekki styttri en gert var ráð fyrir í útboðsgögnum, en ef ekki þá í lögum um opinber innkaup og að sá frestur verði í fyrsta lagi talinn frá því kærumálinu er lokið. Í varakröfu er þess að auki sérstaklega krafist að jafnræði verði að öllu leyti tryggt með ótvíræðum hætti milli bjóðenda í lesmáli útboðsskilmála, ásamt að gegnsæi útboðsins verði gert þannig að sjáanlegt verði að jafnræði bjóðenda sé tryggt aftur fyrir opnun tilboða, ásamt í fyrirhugaðri framkvæmd viðskipta sem komast á við bjóðendur á grundvelli tilboða í útboðinu. Einnig er þess krafist að kostnaður og vinna þeirra sem þátt vilja taka í útboðinu sé ekki gerð meiri fram að mati tilboða, en ástæða og nauðsyn krefur. Jafnframt er varakrafan sú að samningstími verði ákveðinn í útboðsskilmálum með ótvíræðari hætti en nú er gert. Varakrafan er auk þess sú að samningstími verði ekki minni en 4 ár, en til vara-vara 3 ár og til þrautavara 2 ár."

Kærða Ríkiskaupum var gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Með bréfi dagsettu 28. nóvember 2003 gerði kærði þá kröfu að kröfum kæranda yrði hafnað.

II.

Eins og málið liggur fyrir telur nefndin rétt að taka afstöðu til krafna kæranda um stöðvun útboðsins, en láta úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíða endanlegs úrskurðar.

Í 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála veitt heimild til að stöðva útboð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins er að nefndin telji að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup, sbr. 1. mgr. 80. gr. laganna. Í máli þessu verður ekki séð að skilyrði ákvæðisins sé fullnægt og verður því að hafna kröfu kæranda um stöðvun útboðsins á meðan leyst er úr kærumáli þessu.

Ákvörðunarorð :

Kröfum kæranda um stöðvun útboðs Ríkiskaupa nr. 13414 auðkennt „Lyfið: Storkuþáttur VIII. fyrir sjúkrahús" er hafnað.

Reykjavík, 9. desember 2003.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

9. desember 2003.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn