Hoppa yfir valmynd
10. júní 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 2/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 10. júní 2004

í máli nr. 2/2004:

Austurbakki hf.

f.h. Baxter Medical AB

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 23. janúar 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála 24. janúar s.á., kærir Austurbakki hf., f.h. Baxter Medical AB., niðurstöðu útboðs nr. 13414, auðkennt „Lyfið storkuþáttur VIII fyrir sjúkrahús".

Kærandi krefst þess að sú niðurstaða útboðsins sem kynnt hafi verið bjóðendum með faxi 9. janúar sl. verði felld úr gildi.

I.

Í október 2003 óskaði kærði eftir tilboðum í rammasamningsútboði nr. 13414, auðkennt „Lyfið: Storkuþáttur VIII fyrir sjúkrahús." Kærði var umsjónaraðili útboðsins fyrir hönd Landspítala Háskólasjúkrahús. Útboðið var opið og á EES svæðinu. Svarfrestur var til 5. desember 2003. Tilboð voru opnuð 11. desember 2003. Sjö tilboð bárust í útboðinu. Þrjú frá kæranda, tvö frá Lyfjaveri ehf., eitt frá Pharmanor hf. og eitt frá Ísfarm ehf. Með símbréfi 9. janúar 2004 var þátttakendum útboðsins tilkynnt að ákveðið hafi verið að taka tilboðum Ísfarms ehf. og Lyfjavers ehf. Með bréfi 15. janúar 2004 var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útboðsmála. Kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar var hafnað með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 27. janúar sl.

II.

Kærandi gerir athugasemdir við niðurstöður hins kærða útboðs. Í niðurstöðunum komi fram að lyfið Helixate Nex Gen frá Bayer verði tekið í 80% af viðskiptunum og Recombinate framleitt af Baxter í 20%. Einnig komi fram að Lyfjaver ehf. muni sjá kaupanda fyrir Recombinate frá Baxter þrátt fyrir að kærandi hafi verið fulltrúi Baxter í meira en 30 ár. Baxter fylgi mjög strangri stefnu varðandi öryggi og gæði Recombinate og hafi því mikinn áhuga á að vita hvaðan Lyfjaver ehf. hyggst útvega lyfið.

III.

Kærði telur að hafna beri kröfu kæranda þar sem ekki sé grundvöllur til að taka hana til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup. Er byggt á því af hálfu kærða að kæra í málinu sé í andstöðu við reglu 2. mgr. 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 þar sem fram kemur efnislega að kæra og grundvöllur hennar skuli vera eins skýr og kostur er.

Kærði vísar einkum til þess sem fram kemur í útboðslýsingu að hann hafi áskilið sér rétt til að taka tilboðum frá tveimur aðilum í hlutföllunum 80/20. Ennfremur bendir hann á að Lyfjaver ehf. og Ísfarm ehf. hafi skilað lægri tilboðum en kærandi.

IV.

Í kafla 1.1.1 útboðslýsingar hins kærða útboðs kemur fram að kærði áskildi sér rétt til að taka tilboði í samskonar lyf frá tveimur aðilum og yrðu þá innkaupin hlutfölluð í skiptingunni 80/20. Í kafla 1.2.5 útboðslýsingar komu fram forsendur fyrir vali tilboða. Í ákvæðinu sagði að sérstakur faghópur myndi yfirfara tilboð bjóðenda og myndi mat hans ráða stigaeinkunn. Eftirtöld atriði yrðu höfð til hliðsjónar við mat á tilboðum við val á samningsaðila:

1-2 Læknis- og lyfjafræðileg atriði 10 stig

3 Þjónustugeta og afhendingaröryggi 10 stig

4 Verð 80 stig.

Í útboðinu bauð kærandi f.h. Baxter lyfið Recombinate í öll viðskipti sem boðin voru út. Ísfarm bauð lyfið Helixate í 80% viðskipta og Lyfjaver ehf. bauð Recombinate í 20% viðskipta. Óumdeilt er að tilboð Ísfarms ehf. og Lyfjavers ehf. voru lægri en það tilboð sem kærandi skilaði inn og eru grundvöllur kæru hans. Ennfremur liggur fyrir að kærandi, Ísfarme ehf. og Lyfjaver ehf. hlutu öll hæstu einkunn fyrir liði 1-3.

Svo sem að framan greinir var þess getið í útboðslýsingu að kærði áskildi sér rétt til að taka tilboð í samskonar lyf frá tveimur aðilum og yrðu þau hlutföll innkaupanna 80/20 milli tveggja aðila. Ennfremur liggur fyrir að þeir aðilar sem valdir voru, skiluðu inn lægra tilboði en kærandi. Með vísan til þessa verður ekki fallist á sjónarmið kæranda um að farið hafi verið á svig við lög um opinber innkaup eða aðrar reglur sem giltu í hinu kærða útboði.

Uppkvaðning úrskurðar þessar hefur dregist nokkuð á langinn og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda vegna útboðs nr. 13414, auðkennt „Lyfið storkuþáttur VIII fyrir sjúkrahús".

Reykjavík, 10. júní 2004.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 10. júní 2004.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum