Hoppa yfir valmynd
15. júní 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 16/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 15. júní 2004

í máli nr. 16/2004:

Bedco & Mathiesen hf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi dags. 5. maí 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Bedco & Mathiesen hf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa nr. 13466, auðkennt „Bleiur, netbuxur, undirlegg, fæðinga- og dömubindi og svampþvottaklútar". Nánar tiltekið er kærð sú ákvörðun að ganga til samninga við tvo aðila um vöruflokk A í útboðinu.

Kærandi krefst þess að samningur við Rekstrarvörur hf. verði metinn ólögmætur með vísan til 50. gr. laga nr. 94/2001, sbr. 26. gr. sömu laga. Kærandi gerir og athugasemdir við að tilboðsaðilar hafi ekki fengið upplýsingar um verð eins og lofað hafi verið í útboðslýsingu fyrr en á síðasta degi kærufrests. Þá gerir kærandi kröfu um greiðslu kostnaðar við útboðsgerð og kærumálskostnað.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

I.

Með hinu kærða útboði leitaði kærði, fyrir hönd Tryggingastofnunar ríkisins og heilbrigðisstofnana sem aðilar eru að rammasamningakerfi kærða á hverjum tíma, tilboða vegna kaupa á ýmsum gerðum af bleium og netbuxum, undirleggjum, dömu- og fæðingarbindum og svampþvottaklútum sem notaðar eru á heilbrigðisstofnunum og af skjólstæðingum Tryggingastofnunar ríkisins. Ekki er fyrir fram ljóst hvaða magn verður keypt á grundvelli útboðsins, enda ætlunin að gera rammasamninga um tiltekna vöruflokka í tiltekinn tíma, án þess að magntölur séu þekktar. Í kafla 2 í útboðslýsingu er þó fjallað um áætlað umfang og gefnar upp notkunartölur ársins 2003 í einstökum vöruflokkum.

Vöruflokkarnir sem leitað var tilboða í eru eftirfarandi, sbr. lið 1.1.1 í útboðslýsingu:

„1. Vöruflokkur A. Tegund A. Venjulegar bleiur.

Tegund B. Netbuxur.

Tegund C. Buxnableiur.

Tegund D. Lekableiur.

Tegund E. Undirlegg.

Tegund F. Dömubindi, fæðingarbindi.

Tegund G. Barnableiur.

2. Vöruflokkur B. Svampþvottaklútar."

Í lið 1.1.1 í útboðslýsingu segir m.a.: „Stefnt er að því að semja við sem fæsta um þessi viðskipti. Stefnt er að því að samið verði við einn til tvo aðila um vöruflokk A og einn aðila um vöruflokk B sé þess kostur. Auk þess er áskilinn réttur til að kaupa, vegna sérstakra aðstæðna allt að 5% viðkomandi flokks utan samnings." Í lið 1.1.11 er tekið fram að þegar niðurstaða um val á samningsaðilum liggi fyrir, verði samningsverð birt þátttakendum útboðsins. Í lið 1.2.2, sem ber heitið „Taka tilboða" segir: „Ríkiskaup munu taka hagstæðasta/ustu tilboði/tilboðum sbr. gr. 1.1.1, eða hafna öllum." Í lið 1.2.4 er fjallað um þau atriði sem höfð eru til hliðsjónar við mat á tilboðum og val á samningsaðila. Kemur þar fram að fyrir vöruflokk A geti „Gæði, tæknilegir eiginleikar og vöruúrval" hæst gefið 40 stig, „Afhending og þjónusta" 10 stig og „Verð" 50 stig. Hæst er þannig hægt að fá 100 stig og í lið 1.2.4 er nánar rakið eftir hvaða forsendum hver og einn þáttur er metinn.

Kærandi var meðal þátttakenda í útboðinu og fékk útboðsgögn, sem dagsett eru í febrúar 2004, afhent hinn 16. febrúar 2004. Á fyrirspurnartíma kom m.a. fram athugasemd við það ákvæði útboðslýsingar að stefnt væri að því að samið yrði við einn til tvo aðila um vöruflokk A. Var í athugasemdinni farið fram á að umræddu ákvæði yrði breytt. Í svari kærða, sem sent var með símbréfi hinn 1. mars 2004 til þeirra sem keypt höfðu útboðsgögn, sagði m.a.:

„Ekki er mögulegt að skipta magni viðskipta milli aðila né sjá skiptingu á hlutfalli fyrirfram vegna eðli þessa rammasamnings. Ástæðan er að aðilar sem að versla innan þessa rammasamnings eru með margvíslegar og mismunandi þarfir. Það eru bæði sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir og einstaklingar sem að eru skjólstæðingar Tryggingastofnunar Ríkisins (TR). Skjólstæðingar TR eru margskonar, einstaklingar sem að eru rúmfastir og einnig einstaklingar sem að eru úti í samfélaginu. Með því að hafa fleiri en einn aðila er verið að bjóða upp á val fyrir þessa aðila sem að er mjög mikilvægt, sérstaklega fyrir skjólstæðinga TR.

Þegar að einn birgi [svo] var með þennan samning þá þurfti TR oft að fara út fyrir samninga við að útvega skjólstæðingum hentugar bleiur sem að aðili innan samnings hafði ekki upp á að bjóða. Oft á tíðum voru aðilar með ofnæmi eða fengu ýmis útbrot við notkun tiltekinna vörutegunda. Miklar kvartanir bárust frá skjólstæðingum vegna þess að einungis var hægt að velja um eina tegund, og það var mikil fyrirhöfn fyrir skjólstæðinga og starfsmenn TR að útvega bleiur utan samnings."

Í svari kærða er aðferðinni við bleiukaup hjá Tryggingastofnun ríkisins jafnframt m.a. lýst með eftirfarandi hætti:

„Aðili sækir um bleiur og fær heimild til bleiukaupa í tiltekinn tíma. Aðilar fá lista yfir samningsaðila, vörulista þeirra og nafn og símanúmer hjá tengiliðum. Skjólstæðingar fá síðan sjálfir að velja við hvaða aðila innan samnings er verslað við. Oft á tíðum skiptir fólk við fleiri en einn aðila innan samnings, t.d. kaupir dagbleiur af einum en næturbleiur af hinum. Einnig skiptir fólk um aðila þar til að það finnur þá vöru sem að hentar þeim einstaklingi best. Það er því mjög breytilegt eftir tegundum hvernig skipting á viðskiptum er milli aðila innan samnings."

Tilboð voru opnuð hinn 17. mars 2004. Tilboð bárust frá 7 aðilum, þ.á m. kæranda, og var kærandi lægstbjóðandi. Með símbréfi til bjóðenda, dags. 7. apríl 2004, tilkynnti kærði að ákveðið hefði verið að taka tilboði bæði kæranda og Rekstrarvara hf. í vöruflokk A, en tilboði Stratus ehf. í vöruflokk B. Með símtali hinn 13. apríl 2004 óskaði fulltrúi kæranda eftir því að fá upplýsingar um verð þeirra sem fengu samþykkt tilboð. Með tölvubréfi sama dag var af hálfu kærða tilkynnt að samningsverðin yrðu birt bjóðendum þegar að samningar hefðu verið undirritaðir.

Með bréfi til kærða, dags. 14. apríl 2004, óskaði kærandi eftir efnislegum rökstuðningi fyrir ákvörðun kærða um að semja við tvo aðila um vöruflokk A í útboðinu. Í bréfinu var jafnframt m.a. tekið fram að tilboð kæranda væri afgerandi lægst og að ákvörðunin kæmi verulega á óvart. Bréfinu var svarað með bréfi, dags. 20. apríl 2004, en samdægurs óskaði lögmaður kæranda jafnframt eftir því að samningsverð yrðu þegar í stað birt kæranda, með vísan til liðar 1.1.11 í útboðslýsingu. Með bréfi kærða, dags. 3. maí 2004, voru samningsverðin send kæranda. Af þeim má ráða að heildartilboð kæranda nemi kr. 62.318.075,-, en heildartilboð Rekstrarvara hf., sem einnig var tekið, nemi kr. 76.509.499,-. Þá liggur fyrir að við stigagjöf samkvæmt lið 1.2.4 í útboðslýsingu hlaut kærandi 100 stig, þ.e. 50 stig fyrir gæði og þjónustu og 50 stig fyrir verð, en Rekstrarvörur hf. 91 stig, þ.e. 50 stig fyrir gæði og þjónustu en 41 stig fyrir verð. Aðrir bjóðendur fengu færri stig.

II.

Kærandi byggir á því að hann hafi verið mun lægri í öllum verðum í tilboði sínu en samkeppnisaðilinn, Rekstrarvörur hf., sem jafnframt hafi verið samið við. Varan sem kærandi bjóði sé þýsk gæðavara, sem framleiðendur hafi þróað að þörfum markaðar í fjölda ára. Fyrirtækið sé 180 ára gamalt og með stærstu fyrirtækjum í heimi á þessu sviði. Varan standist allar þær gæðakröfur sem til hennar séu gerðar og hafi hlotið fullt hús stiga fyrir gæða- og þjónustuþátt verkefnisins, líkt og Rekstrarvörur hf. Kærði semji við samkeppnisaðila jafnhliða kæranda þrátt fyrir gífurlegan verðmun tilboðanna og þrátt fyrir þá staðreynd að gæði og þjónusta þessara aðila sé sú sama. Kærandi telur að sá 18% munur sem sé á verði kæranda og þess sem næstur hafi verið hafi átt að leiða til þess að einungis yrði samið við kæranda. Sá háttur að semja við tvo aðila þegar svo mikill munur sé á tilboðum stríði gegn ákvæðum laga nr. 94/2001, sem kveði á um að við val á bjóðanda skuli gengið út frá hagkvæmasta boði. Hagkvæmasta tilboð sé það boð sem sé lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægi þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem settar hafi verið fram í útboðsgögnum.

Kærandi tekur fram að kærði gefi þá skýringar á því að samið hafi verið við tvo aðila að skjólstæðingar eigi rétt á vali. Kærði nefni að tilfelli hafi komið upp um ofnæmi en leggi engin gögn fram til rökstuðnings þessari fullyrðingu að öðru leyti. Kærandi segir auðvelt að benda á sem andsvar við þessum rökum að hagstætt ætti að vera fyrir kærða að semja við einn aðila, fyrir kaupendur að hafa einn birgi og starfsfólk sjúkrahúsa að hafa tengsl við einn aðila fremur en tvo. Hvergi í útboðslýsingu, svo sem kveðið sé á um í 26. gr. laga nr. 94/2001, sé greint frá þeirri forsendu að skjólstæðingar skuli eiga rétt á vali. Skýringar kærða standist því ekki og séu brot á 50. gr., sbr. 26. gr. laga nr. 94/2001. Í útboðslýsingu segi ekkert um að skylt sé að semja við tvo aðila. Þar segi þvert á móti að stefnt sé að því að semja við sem fæsta um þessi viðskipti. Í útboðslýsingu áskilji kærði sér rétt til að kaupa vegna sérstakra aðstæðna allt að 5% viðkomandi flokks utan samnings. Þar sé hins vegar ekki rökstutt frekar hvers vegna þessi 5% heimild skuli áskilin, en ætla megi að hún sé til að bregðast við óvæntum þörfum, svo sem vegna stærðar, gerðar, lögunar eða nýjungar eða einhvers sem ekki verði séð fyrir.

Kærandi vísar til þess að megintilgangur laga um opinber innkaup sé sá að leita eftir hagstæðustu innkaupum á hverjum tíma. Tilgangi laganna verði ekki náð með því að ganga til samninga við samkeppnisaðila kæranda í útboðinu. Kærandi vekur athygli á því að stór hluti þeirra sem nýti sér þá vöru sem boðin hafi verið út sé skjólstæðingar Tryggingastofnunar ríkisins, einstaklingar sem greiði ekki sjálfir fyrir vöruna og hafi því engra hagsmuna að gæta sjálfir af því að leita eftir lægsta verði. Kærandi telur sig því standa höllum fæti og að á rétt hans sé gengið við útboðið þegar honum sé ekki mögulegt með vísan til verðs að keppa við samkeppnisaðila. Hann láti í té fullkomna vöru og veiti 100% þjónustu en verði að sæta því að fá einungis 82% þess verðs fyrir vöruna sem samkeppnisaðilinn fái.

Kærandi kvartar og yfir því að upplýsingar sem kærði hafi skuldbundið sig til að láta í té þegar samningsaðilar yrðu kynntir hafi ekki verið afhentar fyrr en daginn áður en kærufrestur rann út. Í ljósi þess að niðurstaða kærða hafi verið kynnt síðasta dag fyrir páskaleyfi hafi allt þetta valdið kæranda miklum erfiðleikum. Í lögum um opinber innkaup sé rík áhersla lögð á það að kærumeðferð öll skuli ganga hratt fyrir sig og taka sem skemmstan tíma. Við þá meðferð alla verði að gæta meðalhófs og ætla tíma til að bregðast við.

Kærandi mótmælir fullyrðingum kærða þess efnis að kæran sé of seint fram komin. Kæranda hafi vissulega verið ljóst hinn 16. febrúar 2004 að til gæti staðið að semja við fleiri en einn aðila. Það sem kærandi sé hins vegar að kæra sé ekki að samið hafi verið við tvo aðila, heldur þá staðreynd að samið skuli hafa verið við fleiri en einn aðila þegar svo mikill munur sé á lægsta og næstlægsta tilboði. Kæranda hafi ekki verið ljóst fyrr en hann fékk upplýsingar um verð samkeppnisaðila hinn 4. maí 2004, daginn áður en kærufrestur rann út, hvaða verð samkeppnisaðili hafi boðið. Þrátt fyrir það hafi hann kært útboðið innan þess fjögurra vikna frests sem áskilinn var frá því að kærði tilkynnti um hvaða tilboðum yrði tekið. Kæranda hafi ennfremur fyrst orðið ljóst þegar greinargerð kærða hafi verið lögð fram að hann hafi hlotið 50 stig fyrir gæði og þjónustu, líkt og samkeppnisaðilinn. Kærandi hafi engar forsendur haft til að mótmæla útboðinu eða gera athugasemdir við það fyrr en eftir að ljóst hafi verið hvaða verð, gæði og þjónustu samið var um.

III.

Kærði byggir á því að hafna beri kröfu kæranda þar sem ekki sé grundvöllur til að taka hana til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup og að rétt hafi verið staðið að mati tilboða og gerð útboðsgagna. Af hálfu kærða er því hafnað málsástæðum og lagarökum sem kærandi vísar til í kæru.

Kærði vísar til þess að í lið 1.1.1 í útboðsgögnum komi fram að stefnt sé að því að samið verði við einn til tvo aðila um vöruflokk A. Kærandi hafi fengið útboðsgögnin afhent hinn 16. febrúar 2004. Hinn 1. mars 2004 hafi kæranda síðan borist greinargerðin frá kærða vegna framkominnar fyrirspurnar er varðaði lið 1.1.1 um að stefnt væri að því að semja við einn til tvo aðila um vöruflokk A. Fyrir liggi að öllum þátttakendum útboðsins hafi strax í upphafi verið fullkomlega ljós áskilnaður útboðsgagna að þessu leyti og að hann hafi verið áréttaður enn frekar hinn 1. mars. Þáttakendum hafi því verið gefið jafnt færi á að haga tilboðum sínum í samræmi við þetta. Þá hafi allir þátttakendur haft færi á að tjá sig frekar ef hugur þeirra stóð til þess, sbr. til hliðsjónar fresti í 41. gr. laga nr. 94/2001.

Kærði vísar til þess að samkvæmt 78. gr. laga nr. 94/2001 skuli kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telji brjóta gegn réttindum sínum. Ágreiningslaust sé að kæranda hafi verið fullkomlega ljóst frá og með 16. febrúar 2004 að til greina kæmi að samið yrði við einn eða tvo aðila um vöruflokk A og þeir skilmálar hafi verið áréttaðir enn frekar með tilkynningunni hinn 1. mars. Engar athugasemdir né fyrirspurnir hafi borist frá kæranda á tilboðstíma. Þá hafi kæranda mátt vera rækilega ljósir skilmálar útboðsgagna hvað þetta varðar og verið að fullu ljós ákvæði í útboðinu, enda sé kærandi margreyndur í útboðum af þessu tagi, og m.a. um árabil verið með samning samhliða öðrum seljanda við kærða um sölu á vörum í umræddum vöruflokki þessa útboðs. Telji kærandi að brotið hafi verið á rétti sínum hafi honum átt að vera það ljóst er hann skráði sig fyrir útboðsgögnum hinn 16. febrúar og fullljóst hinn 1. mars. Þar með hafi honum borið samkvæmt lögum að hafa kæru sína uppi innan fjögurra vikna frá þeim tíma. Í þessu sambandi tekur kærði fram að í útboðsgögnum, í lið 1.2.5, sé að finna sérstaka umfjöllun um réttarúrræði bjóðenda þar sem tekið sé sérstaklega fram hvaða úrræði bjóðendur hafi gagnvart kærunefnd útboðsmála. Tómlæti kæranda við að hafa kæruna uppi verði því ekki rakið til kærða enda kærða verið heimilt samkvæmt útboðsskilmálum að taka einu eða tveimur hagstæðustu tilboðum í vöruflokk A í útboðinu. Kærði tekur jafnframt fram að tilboðsverð í útboðinu hafi verið gerð bjóðendum ljós við opnunarfund útboðsins hinn 17. mars 2004, enda hafi þau verið lesin þar upp og allir viðstaddir fengið afrit af fundargerðinni, þ.á m. kærandi. Kæran hafi borist kærunefnd útboðsmála hinn 5. maí 2004, en samkvæmt framangreindu hafi frestur kæranda til að kæra þá verið liðinn.

Um efnislegan rökstuðning fyrir því að semja við tvo aðila vísar kærði til hins áðurnefnda svars við fyrirspurn þess efnis, dags. 1. mars 2004. Einnig til svarbréfs kærða, dags. 20. apríl 2004, en í því kemur m.a. fram að með því að hafa fleiri en einn aðila sér verið að bjóða upp á val fyrir skjólstæðinga Tryggingastofnunar sem sé mjög mikilvægt fyrir þá. Þegar að einn birgir hafi verið með þennan samning hafi Tryggingastofnun oft þurft að fara út fyrir samninga við að útvega skjólstæðingum sínum hentugar bleiur. Oft á tíðum hafi aðilar verið með ofnæmi eða fengið ýmis útbrot við notkun tiltekinna vörutegunda. Miklar kvartanir hafi borist frá skjólstæðingum vegna þess að einungis hafi verið hægt að velja um eina tegund og mikil fyrirhöfn verið fólgin í því að útvega bleiur utan saminga.

Kærði byggir á því að val á viðsemjendum hafi verið framkvæmt í samræmi við lið 1.2.4 í útboðslýsingu. Samið hafi verið við þá tvo sem hæstu einkunn hafi fengið, kæranda sem hafi fengið 100 stig og Rekstrarvörur hf. sem fengið hafi 91 stig, í samræmi við lið 1.1.1 í útboðslýsingu.

Þeirri fullyrðingu kæranda, að verð hafi ekki áhrif á kaup, svarar kærði þannig til að heilbrigðisstofnanir sem séu kaupendur Tryggingastofnunar muni ávallt leita hagstæðustu innkaupa og gera skjólstæðingum sínum grein fyrir verðmuni og hvetja til kaupa á þeim vörum sem hagstæðastar séu í innkaupum.

Kærði tekur jafnframt fram, vegna fullyrðinga kæranda um drátt á upplýsingagjöf, að bréfi lögmanns kæranda hinn 20. apríl 2004, með ósk um upplýsingar um samningsverð, hafi verið svarað hinn 3. maí 2004 eða innan 15 daga frá því að erindi kæranda hafi borist, í samræmi við 53. gr. laga nr. 94/2001.

IV.

Kærði krefst þess með vísan til 78. gr. laga nr. 94/2001 að kærunni verði hafnað sem of seint fram kominni, þar sem kæranda hafi verið fullkomlega ljóst frá og með 16. febrúar 2004 að til greina kæmi að samið yrði við tvo aðila, og að honum hafi í síðasta lagi verið þetta ljóst hinn 1. mars 2004. Þótt af útboðsgögnum hafi mátt ráða að samið yrði við einn til tvo aðila lá ákvörðun sú sem kærð er ekki endanlega fyrir fyrr en hinn 7. apríl 2004. Málskot kæranda byggir á óánægju með þá ákvörðun við þær aðstæður sem uppi voru í útboðinu, einkum með tilliti til verðs tilboða sem og einkunnagjafar. Kæran kom fram innan fjögurra vikna frá því að kæranda var ljós sú ákvörðun kærða að semja við tvo aðila við þessar aðstæður og raunar lá einkunnagjöf kærða ekki fyrir fyrr en undir rekstri málsins. Með vísan til 1. mgr. 78. gr., sem og starfsreglna fyrir kærunefnd útboðsmála nr. 982/2001, telst kæran því ótvírætt fram komin innan kærufrests. Kröfu kærða um höfnun á kröfum kæranda á grundvelli kærufrests er því hafnað.

Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort kærða hafi verið heimilt að gera rammasamninga við tvo aðila um vöruflokk A, þrátt fyrir að annað tilboðið hafi hlotið 100 stig, en hitt 91 stig, vegna mismunar í verði. Í lið 1.1.1 í útboðsgögnum var tekið fram að stefnt væri að því að semja við einn til tvo aðila um vöruflokk A. Af svörum kærða við fyrirspurnum, dags. 1. mars 2004, sem teljast hluti útboðsgagna, má jafnframt ótvírætt ráða að til greina komi að semja við tvo aðila. Raunar er þar mjög sterklega gefið til kynna að samið verði við tvo aðila, þar sem færð eru allítarleg rök fyrir slíkri ráðstöfun. Í skilgreiningu á rammasamningi í 2. gr. laga nr. 94/2001 er gert ráð fyrir að rammasamningar geti verið við fleiri en einn bjóðanda, enda tekið fram að rammasamningar séu „samningar við einn eða fleiri bjóðendur".

Samkvæmt útboðsgögnum sem og lögum nr. 94/2001 verður því að telja að kærða hafi verið heimilt að semja við tvo aðila um vöruflokk A, svo fremi sem fyrir þeirri ákvörðun lægju málefnalegar og hlutlægar ástæður. Að mati nefndarinnar hefur kærði fært slík rök fram, þ.e. að með tilliti til hagsmuna skjólstæðinga Tryggingastofnunar ríkisins hafi það verið eðlileg og málefnaleg ráðstöfun að semja við tvo aðila.

Þeir tveir aðilar sem urðu fyrir valinu voru þeir sem hæstu einkunnir fengu samkvæmt forsendum útboðsgagna, þ.e. kærandi og Rekstrarvörur hf. Við val á hinum tveimur bjóðendum var því gengið út frá hagstæðustu boðum, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001, og eins og atvikum er háttað getur verðmunur þeirra tveggja tilboða ekki breytt áðurnefndum rétti kærða til að semja við tvo aðila.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur nefndin að kærða hafi verið heimilt að útboðsgögnum og lögum nr. 94/2001 að semja við umrædda tvo aðila á grundvelli útboðsins. Kröfu kæranda þess efnis að samningurinn við Rekstrarvörur hf. verði metinn ólögmætur er því hafnað.

Nefndin bendir þó á, að ef fyrir lá af hálfu kærða strax í upphafi að samið yrði við tvo aðila, hefði verið æskilegra að geta þess skýrlega í útboðslýsingu. Umrædd framsetning verður þó ekki talin með þeim hætti að útboðsgögn hafi brotið gegn 26. gr. laga nr. 94/2001, enda mátti sem fyrr segir skýrt ráða af svörum við fyrirspurnum, sem teljast hluti útboðsgagna, að sterkar líkur væru á því að samið yrði við tvo aðila, og útboðslýsing veitti kærða sem fyrr segir skýra heimild til þeirrar ákvörðunar.

Kærandi gerir athugasemdir við að upplýsingar um samningsverð hafi ekki borist honum á tilsettum tíma. Í lið 1.1.11 í útboðslýsingu er skýrt tekið fram að þegar niðurstaða um val á samningsaðilum liggi fyrir, verði samningsverð birt þátttakendum útboðsins. Gegn þessu ákvæði braut kærði með því að veita umræddar upplýsingar ekki fyrr en tæpum mánuði eftir að niðurstaða um val á samningsaðilum lá fyrir, þrátt fyrir kröfu þar um. Umrætt brot kærða breytir því þó ekki að kærða var heimilt að semja við Rekstrarvörur hf., auk kæranda, og getur því ekki leitt til þess að tekin verði til greina sú krafa kæranda að samningurinn við Rekstrarvörur hf. verði metinn ólögmætur. Þá getur brotið ekki leitt til þess að nefndin gefi upp það álit sitt að kærði sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 94/2001, enda skertust möguleikar kæranda til að fá samninginn einn og sér ekki við brotið.

Samkvæmt framansögðu verður að hafna öllum kröfum kæranda.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Bedco & Mathiesen hf., vegna rammasamningsútboðs Ríkiskaupa nr. 13466, auðkennt „Bleiur, netbuxur, undirlegg, fæðinga- og dömubindi og svampþvottaklútar " er hafnað.

Reykjavík, 15. júní 2004.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

15.06.04

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum