Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 19/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. ágúst 2004

í máli nr. 19/2004:

Monstro ehf.

gegn

Innkaupastofnun Reykjavíkur

Með bréfi dagsettu 2. júní 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála 4. júní 2004, kærir Monstro ehf., ákvörðun Innkauparáðs Reykjavíkur, í kjölfar útboðs nr. 13414, auðkennt sem „Kantar 2004-2006", að ganga að tilboði Véltækni ehf.

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

  1. Að ákvörðun um að ganga að tilboði Véltækni ehf. verði úrskurðuð ólögmæt.
  2. Að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.
  3. Að kærunefnd ákveði að kærða verði gert að greiða kæranda tiltekinn kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá.

I.

Í apríl 2004 óskaði kærði, f.h. Gatnamálastofu Reykjavíkur, eftir tilboðum í steypta kanta víðsvegar um borgina fyrir árin 2004 til 2006. Verkið nefndist „steyptir kantsteinar 2004-2006". Um var að ræða opið útboð eins og því er lýst í ÍST 30 gr. 2.2, sbr. grein 0.1.2 útboðslýsingar.

Kærandi skilaði inn tilboði ásamt tveimur öðrum aðilum. Tilboð kæranda reyndist lægst við opnun tilboða 19. apríl 2004 eða 69,42% af kostnaðaráætlun.

Í bréfi gatnamálastjóra til Innkauparáðs Reykjavíkur, dags. 27. apríl 2004, kemur fram að þrjú tilboð hafi borist í útboðinu. Hið lægsta hafi verið frá kæranda. Á fundi með forráðamönnum kæranda hafi komið í ljós, að engin reynsla af kansteypu sé til staðar hjá félaginu, að kantsteypuvél, sem þeir hafi pantað, kæmi til landsins í maí, og að kærandi hygðist nota undirverktaka við mælingar fyrir kanti og hreinsun fyrir kantsteypuna en þess sé hvergi getið í tilboði. Af þessum ástæðum var í bréfinu mælt með að gengið yrði til samninga við Véltækni ehf., sem hafi átt næstlægsta tilboðið.

II.

Kærandi byggir á því að þær þrjár athugasemdir, sem komu fram í bréfi gatnamálastjóra, dags. 27. apríl 2004, eigi ekki við um hann. Því sé í fyrsta lagi mótmælt harðlega að reynsluleysi hafi verið gild ástæða til að hafna tilboði hans. Verkstjóri hafi verið mjög reynslumikill sem og aðrir starfsmenn. Í öðru lagi hafi verið eðlilegar skýringar á því að kansteypuvél kæmi til landsins í maí. Embætti gatnamálastjóra hafi dregið að ljúka útboðinu og því hafi pöntun og koma kansteypuvélarinnar dregist. Í þriðja lagi mótmælir kærandi þeim athugasemdum sem fram komu vegna þess að hann hafi ekki getið þess í tilboði að hann hygðist nota undirverktaka. Heimilt hafi verið að nota undirverktaka við tiltekna þætti eins og fram hafi komið í útboðsskilmálum. Slíkt hafi verið fyrir hendi í þessu tilviki.

III.

Kærði byggir kröfu sína um frávísun á því að kæran hafi fallið utan valdsviðs kærunefndar útboðsmála. Eins og fram komi í kæru þá sé um að ræða verkframkvæmdir sveitarfélags og sé tilboð hæstbjóðanda u.þ.b. kr. 111.000.000,-. Sú fjárhæð sé langt undir viðmiðunarfjárhæðum auglýsingar nr. 1012/2003 vegna EES-útboða, sem sé kr. 516.000.000,- vegna verkframkvæmda. Lög um opinber innkaup nr. 94/2001 taki ekki til útboða sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum og kærur vegna slíkra útboða falli því utan valdsviðs kærunefndar útboðsmála.

IV.

Í máli þessu er deilt um það hvort hið kærða útboð falli undir lög um opinber innkaup nr. 94/2001 og eigi því undir kærunefnd útboðsmála. Kaup kærða í útboðinu falla undir verksamning svo sem hugtakið er skilgreint í 4. mgr. 4. gr. laga um opinber innkaup.

Óumdeilt er með aðilum að innkaupin séu undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins eins og fjárhæðirnar eru tilgreindar í 2. þætti laga um opinber innkaup. Samkvæmt 10. gr. laganna taka ákvæði 2. þáttar ekki til innkaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra, annarra opinberra aðila á þeirra vegum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna, eða samtaka sem þessir aðilar kunna að hafa með sér.

Með vísan til þessara ákvæða og að virtum gögnum málsins verður ekki annað séð en að hið kærða útboð hafi verið undanskilið ákvæðum 2. þáttar laga um opinber innkaup. Á því kæruefnið ekki undir kærunefnd útboðsmála, sem hefur það hlutverk að leysa úr kærum aðila vegna brota á lögum um opinber innkaup, sbr. 2. mgr. 75. gr. laganna. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda, Monstro ehf., vegna útboðs nr. 13414, auðkennt sem „Kantar 2004-2006".

Reykjavík, 5. ágúst 2004

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 5. ágúst 2004.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn