Hoppa yfir valmynd
5. október 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 5. október 2004. 3. tbl. 6. árg.

3 tbl. 6. árg.
Útgefið 5. október 2004
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang: [email protected]

Fréttabréfið er einnig fáanlegt á PDF-formi sem er afar hentugt til útprentunar (44K) og sem unnt er að lesa með forritinu Adobe Acrobat Reader en það fæst ókeypis á vefslóðinni: "http://www.adobe.com/products/acrobat/readstep.html"

Hugleiðing um stjórnir ríkisstofnana

Um þriðjungur ríkisstofnana í A-hluta fjárlaga1) eða 75 af um 220 hafa stjórnir skv. ákvæðum laga. Hlutverk þessara stjórna, samkvæmt lögum og reglugerðum sem um starfsemina gilda, er nokkuð misjafnt og oft og tíðum óljóst. Þrátt fyrir að í daglegu tali sé talað um stjórnir stofnana á svipuðum nótum og stjórnir, t.d. hlutafélaga, er langur vegur þar á milli og ljóst að þau sem sæti eiga í stjórnum ríkisstofnana líta í flestum tilvikum ekki á sig sem fulltrúa eiganda eins og einkennandi er fyrir stjórnir hlutafélaga. Þetta vekur upp almennar spurningar um hlutverk stjórna hjá hinu opinbera samanborið við einkamarkaðinn, samskipti ráðherra og stofnana sem og þörfina á stjórnum í ríkisstofnunum.

1) Það eru ríkisstofnanir sem að stærstum hluta eru fjármagnaðar af almennum skatttekjum. Langflestar ríkisstofnanir falla undir þennan flokk.

Stjórnir í hlutafélögum

Hlutverk stjórna í hlutafélögum, eins og það kemur fram í lögum um hlutafélög, er nokkuð skýrt sem og verkaskipting milli stjórnar og annarra stjórnenda. Stjórnirnar eru kosnar af hluthöfum og hafa það hlutverk að ráða stjórnendur fyrirtækisins, vinna að og samþykkja stefnumótun, samþykkja fjárhagsáætlanir, sinna virku eftirliti með rekstri innan ársins og veita þannig stjórnendum almennt aðhald. Stjórnir bera síðan ábyrgð gagnvart hluthöfum og þurfa endurnýjað umboð á hverju ári. Auk laga um hlutafélög hafa verið gefnar út leiðbeiningar um stjórnunarhætti fyrirtækja þar sem m.a. annars er fjallað um stjórnir. Í þessum leiðbeiningum er t.d. fjallað almennt um starf stjórna, um hæfi stjórnarmanna og hvort þeir teljist háðir félaginu eða ekki. Í anda þessara leiðbeininga og í samræmi við niðurstöður nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi er síðan líklegt að lögleiddar verði frekari reglur og leiðbeiningar um starfshætti stjórna hjá hlutafélögum.

Samskipti stofnana og ráðherra

Hjá ríkinu sinna ráðuneyti aftur á móti svipuðu hlutverki gagnvart stofnunum í A-hluta fjárlaga og stjórnir í hefðbundnum hlutafélögum á markaði. Ráðherra er ábyrgur gagnvart Alþingi og almenningi fyrir rekstri þeirra stofnana sem undir ráðuneyti hans heyra. Ráðherra skipar forstöðumann án tilnefningar og tiltekur verkefni hans og skyldur í erindisbréfi. Ráðherra getur sett forstöðumann af, sinni hann ekki skyldum sínum og hann gerir tillögur að fjárhagsramma með hliðsjón af verkefnum og stefnu stjórnvalda hverju sinni. Ráðherra hefur einnig yfirumsjón með stefnumótun í þeim málaflokkum sem stofnanirnar starfa í og gerir árangursstjórnunarsamninga við stofnanir um framkvæmd þeirra stefnu. Ráðherra ber síðan að hafa eftirlit með starfsemi stofnunarinnar og meta hana með hliðsjón af árangri og nýtingu þeirra fjármuna sem ákveðið hefur verið að setja í þau verkefni sem stofnunin sinnir. Þetta er almenna reglan en í einstaka tilvikum, sérstaklega þegar um er að ræða opinberar eftirlitsstofnanir, eru samskipti ráðuneyta og stofnana ekki þetta náin.

Stjórnir ríkisstofnana

Þessi samskipti ráðuneyta og stofnana eiga sér stað burtséð frá því hvort stofnun hefur stjórn eða ekki. Stjórnir ríkisstofnana í A-hluta fjárlaga eru skipaðar af ráðherra til nokkurra ára í senn, oft þannig að hluti stjórnarmanna er skipaður samkvæmt tilnefningu utanaðkomandi aðila, þó sjaldnast stjórnarformaður. Hlutverk stjórnanna fer í flestum tilvikum eftir sérlögum um hverja stofnun og er það æði mismunandi þar sem sumar eiga fyrst og fremst að vera ráðgefandi á meðan aðrar koma að stefnumótun og hafa eftirlitsskyldum að gegna. Yfirleitt er ekki kveðið sérstaklega á um hæfi stjórnarmanna eða tiltekið með skýrum hætti hver sé verkaskipting milli stjórna og forstöðumanna annars vegar eða milli stjórna og ráðuneyta hins vegar. Ekki eru til neinar almennar reglur, lög eða leiðbeiningar um starfshætti stjórna hjá ríkinu þó að í 49. gr. fjárreiðulaga sé kveðið á um að forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila beri ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir og að ársreikningar séu gerðir í samræmi við lög. Af þessari lagagrein verður ekki annað ráðið en að allar stjórnir ríkisstofnana hafi ásamt forstöðumönnum ákveðnum skyldum að gegna varðandi fjármál stofnana þrátt fyrir náin samskipti ráðuneyta og stofnana er varðar fjármálastjórn og þá staðreynd að sumar stjórnir eru fyrst og fremst skipaðar til þess að veita faglega ráðgjöf. Óhætt er að segja að hlutverk stjórna hjá ríkisstofnunum sé því oft og tíðum óljóst. Ráðherra skipar bæði stjórn og forstöðumann og báðir aðilar bera ábyrgð gagnvart honum. Stjórnir hafa oftast ekki bein völd yfir forstöðumanni og hafa fá tæki í hendi sér til þess að láta að sér kveða í rekstri stofnana þrátt fyrir að þess sé kannski vænst. Þetta flækir ábyrgðartengsl og upp geta komið álitamál um hver beri ábyrgð á ákveðnum málum. Er það ráðuneytið? Er það stjórnin? Eða er það forstöðumaðurinn? Í þessum tilvikum gæti hver bent á annan og erfitt yrði að ná sátt um niðurstöðu auk þess sem þetta fyrirkomulag brenglar skýrt vald ráðuneytis yfir stofnun samkvæmt stjórnskipun.

Hagsmunir stjórnarmanna

Stjórnarmenn hlutafélaga líta eftir hagsmunum eigenda sem leggja peningana sína í reksturinn og gera þannig fyrirtækinu kleift að starfa. Hagsmunir eigendanna eru að fjárfesting þeirra skili arði með skilvirkum rekstri og góðri nýtingu fjármuna. Þessu er eins farið hjá ríkinu. Hagsmunir almennings eru góð nýting fjármuna og árangursrík starfsemi stofnana. Margar þjónustustofnanir ríkisins standa hins vegar frammi fyrir því að veita þjónustu á sviðum þar sem eftirspurn getur verið nánast óendanleg. Við þessar aðstæður getur myndast mikill þrýstingur af hálfu notenda á aukna þjónustu og eru þær kröfur oft í litlum tengslum við það fjármagn sem ákveðið hefur verið að veita til verkefnanna. Þá þarf að forgangsraða og finna ákveðið jafnvægi milli þeirra krafna sem settar eru fram af hálfu þeirra sem nota þjónustuna og þess fjármagns sem veitt er til rekstrarins. Það er hlutverk Alþingis, sem aftur á að endurspegla hagsmuni almennings, að ákveða þetta jafnvægi með samþykkt fjárlaga hverju sinni. Ráðherra ber síðan ábyrgð á því að fylgja stefnumótuninni eftir, líkt og stjórn í hlutafélagi, og tryggja að verkefnin séu leyst af hendi á hagkvæman og árangursríkan hátt. Í þeim tilvikum þar sem ráðherra skipar stjórn, á hún að gæta þessara sömu hagsmuna, þ.e. fylgja stefnumótuninni eftir. Í reynd líta stjórnarmenn hins vegar oft á sig sem hagsmunaaðila fyrir notendur þjónustunnar. Þannig verður stjórnin oft þrýstihópur um meira fjármagn til starfseminnar sem ef til vill kemur niður á öðrum rekstri ríkisins og getur þannig leitt til þess að markmið Alþingis nást ekki. Í öðrum tilvikum telja sumir stjórnarmenn sig fyrst og fremst talsmenn þeirra aðila sem tilnefnt hafa þá til stjórnarsetu og geta þá beinlínis í einhverjum tilvikum unnið gegn stefnumótun Alþingis eins og hún birtist í fjárlögum.

Framtíð stjórna hjá ríkinu

Eins og fram hefur komið bera ráðherrar ábyrgð á rekstri ríkisstofnana gagnvart Alþingi og almenningi. Stíga þarf varlega til jarðar við að úthýsa þeim skyldum til stjórna með óræð hlutverk, litla ábyrgð og óljósa hagsmuni. Fullyrða má að stjórn án skýrs hlutverks innan þess ramma sem íslensk stjórnskipan setur rekstri stofnana ríkisins er ekki til þess fallin að auka skilvirkni í rekstri þeirra. Í ljósi þess hve sterk tengsl eru milli stofnana og ráðuneyta og hve ábyrgð þarf að vera skýr, væri farsælast ef ríkisstofnanir í A-hluta hefðu ekki stjórnir í þeirri mynd sem margar stofnanir hafa í dag. Ef í sérstökum tilvikum er talin þörf á því að skipa stjórnir, þarf að setja þeim skýrar leikreglur, skilgreina vald þeirra og verksvið innan þess ramma sem stjórnskipunin starfar eftir. Eins mætti huga að því að kalla slíkar stjórnir fagráð til aðgreiningar frá valdamiklum stjórnum fyrirtækja á markaði.

Bent skal á að á árinu 2000 var á vegum fjármálaráðuneytisins unnin skýrsla um tengt efni. Skýrslan heitir Ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna.

_______________

Athyglisverður dómur

Um nýlegan dóm Félagsdóms um félagsaðild

Hin síðari ár hafa komið upp nokkur félagsdómsmál þar sem deilt hefur verið um samningsrétt stéttarfélaga vegna starfsmanna sem hafa flutt sig á milli stéttarfélaga. Í slíkum málum togast á réttur starfsmanns til að velja sér stéttarfélag og hagsmunir vinnuveitenda af því að fá að velja sér viðsemjanda og að stöðugleiki ríki á vinnustað. Jafnframt hefur því stéttarfélagi sem starfsmaður gekk úr verið stefnt til þess að þola úrsögnina og að annað stéttarfélag taki við samningsumboðinu. Séð frá sjónarhorni vinnuveitandans má segja að í upphafi hafi hann skipulagt starfsemi sína, þ. á m. hvaða störf skulu unnin og samkvæmt hvaða kjarasamningi. Í dönskum rétti hefur verið litið svo á að hafi vinnuveitandi gert kjarasamning við stéttarfélag um tiltekin störf, geti annað stéttarfélag ekki gert kröfu um að við það verði einnig gerður kjarasamningur jafnvel þó svo að starfssvið þess taki einnig til umræddra starfa. Hér má hugsa sér að í auglýsingu um starfið og við gerð ráðningarsamnings sé ákveðið hvaða kjarasamningur skuli lagður til grundvallar. Í slíkum tilfellum vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort starfsmaður geti einhliða breytt ráðningarkjörum sínum með því að ganga í annað stéttarfélag sem hefur samningsrétt á því starfssviði sem um er að ræða. Í nýlegu félagsdómsmáli (12. júlí 2004 í málinu nr. F-2/2004) byggði ríkið m.a. á þeirri málsástæðu að slíkt væri ekki unnt.

Málavextir voru í stuttu máli þeir að 43 starfsmenn á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) sögðu sig úr Eflingu - stéttarfélagi og gengu í SFR. SFR krafðist viðurkenningar á því annars vegar að félagið færi með samningsaðild vegna starfsmannanna og hins vegar að kjarasamningur félagsins tæki til þeirra frá og með 1. janúar 2004 eða frá þeim tíma sem úrsögn þeirra tók gildi. Fram kom að almennir starfsmenn á geðdeildum ríkisspítalanna höfðu ýmist verið félagsmenn í stéttarfélagi opinberra starfsmann, nú SFR, eða átt aðild að almennu stéttarfélagi, áður Sókn en nú Eflingu - stéttarfélagi (E) og að íslenska ríkið hafði gert kjarasamninga við bæði félögin um störf fyrrgreindra starfsmanna. Að því er varðaði þá málsástæðu ríkisins og E að ráðningarsamningar hefðu staðið gegn félagsskiptunum tók Félagsdómur fram að það væri ekki innan valdssviðs Félagsdóms að dæma um ráðningarkjör eða ráðningarsamninga sem starfsmenn gera þegar þeir ráða sig til vinnu eða um forsendur slíkra samninga, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986. Slíkt ágreiningsefni gæti ekki heldur staðið í vegi fyrir samningsaðild SFR vegna umræddra starfsmanna, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 4. gr. laga nr. 94/1986. Samkvæmt þessu var fyrri kröfuliður í dómkröfu SFR tekinn til greina. Félagsdómur féllst einnig á síðari kröfuliðinn í dómkröfu SFR og vísaði þar til dóma sinna í málum nr. 18/1998 (Fd.XI:350) og nr. 9/2001 frá 4. júlí 2001 en þeir hefðu fordæmisgildi varðandi niðurstöðu í málinu. Félagsdómur tók einnig fram varðandi síðari kröfuliðinn að ekki væri tekin afstaða til ráðningarsambands einstakra félagsmanna SFR og LSH.

_______________

Ýmislegt fréttnæmt

Kynningarfundur með nýjum forstöðumönnum

Árlegur kynningarfundur fjármálaráðuneytisins með nýjum forstöðumönnum var haldinn 30. september sl. Þetta er í fimmta skiptið sem ráðuneytið stendur fyrir slíkum kynningarfundi.

Að þessu sinni höfðu níu nýir forstöðumenn tekið til starfa frá því í október á síðasta ári. Þeir mættu allir á fundinn og auk þess sóttu fundinn tveir sem hófu störf árinu áður en komust ekki á síðasta kynningarfund ráðuneytisins. Alls mættu því 11 nýir forstöðumenn á fundinn að þessu sinni, fimm konur og sex karlar.

Á fundinum fjölluðu fulltrúar ráðuneytisins m.a. um hver eru fyrstu verkefnin hjá nýjum forstöðumanni, fjallað var um ríkið sem vinnuveitanda, rammafjárlagagerð, framkvæmd fjárlaga og árangursstjórnun í ríkisrekstri, helstu verkfæri stjórnandans í starfsmannamálum, val á starfsmönnum, ákvörðun launa og ennfremur var vefsíða ráðuneytisins kynnt. Mikil ánægja var með fundinn að hálfu forstöðumanna.

Sérsniðin námskeið fyrir ríkisstarfsmenn veturinn 2004-2005

Fjármálaráðuneytið skipulagði s.l. vetur, í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands, sérsniðin námskeið fyrir ríkisstarfsmenn. Markmiðið var að efla starfsemi ríkisins og koma til móts við kröfur stjórnenda og starfsmanna.

Nú er hafin ný námskeiðslota veturinn 2004-2005 og hefur kynningarbæklingur og upplýsingar um kennara, dagsetningar og kostnað verið sendur út. Hægt er að nálgast fleiri bæklinga hjá fjármálaráðuneytinu. Tólf námskeið verða í boði, fimm fyrir áramót og sjö eftir áramót og verða þau haldin í húsnæði Endurmenntunar HÍ, Dunhaga 7, 107 Reykjavík, www.endurmenntun.is. Eitt þeirra verður kennt bæði í Reykjavík og á Akureyri og annað verður kennt á netinu. Forstöðumenn eru hvattir til að kynna sér þau námskeið sem í boði verða og leggja mat á hver þeirra henta starfsemi og starfsmönnum stofnunarinnar. Námskeiðin eru skipulögð með það fyrir augum að þau nýtist starfsmönnum við úrlausn verkefna innan stofnunarinnar. Stofnanir greiða námskeiðsgjöld og skal kostnaður vegna námskeiðanna, líkt og annarrar endurmenntunar, rúmast innan fjárheimilda stofnana.

Nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna á vef fjármálaráðuneytisins og einnig er hægt að hafa samband við Hans Júlíus Þórðarson, Endurmenntun Háskóla Íslands og Ingibjörgu Sverrisdóttir, fjármálaráðuneytinu.

Stjórnendaþjálfun fyrir forstöðumenn ríkisstofnana

Nýlega var undirritaður samningur um stjórnendaþjálfun fyrir forstöðumenn ríkisstofnana. Þetta er samstarfsverkefni Félags forstöðumanna ríkisstofnana, fjármálaráðuneytisins, IMG og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ.

Þjálfunin er ætluð öllum forstöðumönnum ríkisstofnana og hefst 13. október nk. í fyrsta hópnum og stendur í fimm mánuði. Stjórnendaþjálfunin skiptist á þrjá megin kjarna sem eru:

Forustuhlutverk stjórnenda

Stjórnun á breytingatímum

Árangursrík mannauðsstjórnun

Öll framkvæmd og kennsla verður í höndum IMG en verður faglega í nánu samráði við Félag forstöðumanna og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ.

Staðan í kjaraviðræðum ríkisins 5. október 2004

Skammtíma- og/eða framlengingarsamningar við flugmenn og flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands voru undirritaðir í nóv/des 2003 í kjölfar samningsgerðar þeirra við Samtök atvinnulífsins. Nýr kjarasamningur við flugmenn var undirritaður 25. ágúst 2004 og gildir hann til ársloka 2007. Gert hefur verið samkomulag um viðræðuáætlun við flugvirkja en viðræður ekki hafnar. Núverandi samningur þeirra gildir til 15. október.

Áhafnir skipa

Tveir samningar ríkisins við Sjómannafélag Reykjavíkur, annars vegar vegna Hafrannsóknastofnunarinnar (Hafró) og hins vegar vegna Landhelgisgæslu Íslands (LHG), féllu úr gildi um síðustu áramót og er samningum við Hafró lokið. Sá samningur var undirritaður 26. júlí 2004 og er gildistími hans til 31. ágúst 2008. Þá varð laus samningur við Matsveinafélag Íslands vegna Hafró 30. apríl sl. en viðræður eru ekki hafnar. Samningar við önnur félög til sjós runnu út 31. ágúst en það eru samningur við Félag matreiðslumanna vegna LHG og tveir samningar við annars vegar Félag skipstjórnarmanna og hins vegar við Vélstjórafélag Íslands vegna beggja stofnana. Viðræður eru hafnar við bæði síðarnefndu félögin en þó aðeins vegna Hafró við VSFÍ.

Félög sem semja á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna

Yfirgnæfandi meirihluti stéttarfélaga opinberra starfsmanna er með samning til nóvemberloka 2004. Þrjú félög eru þó með samningstíma fram á næsta ár. Alls eru nú 57 stéttarfélög í þessum hópi sem ríkið semur við; 25 í BHM, 25 í BSRB, þar af 13 félög sem semja í samfloti, 2 í KÍ og 5 utan bandalaga. Alls þarf samninganefnd ríkisins því að gera 43 kjarasamninga innan þessa hóps. Lokið er gerð samkomulags um viðræðuáætlun við allan hópinn að undanskildum félögunum þremur sem eru með lausa samninga síðar.

BHM, BSRB, KÍ

Viðræður eru nú hafnar við fulltrúa bandalaganna þriggja um ýmis réttindamál og er þeim ætlaður tími til miðs október. Síðan taka við umræður um sérmál félaganna en í nóvember er áætlað að ræða launaliðinn og það sem honum tengist.

_______________

Norræn starfsmannaskipti

Norræna ráðherranefndin hefur frá árinu 1979 veitt styrki til að gera ríkisstarfsmönnum kleift að stunda tímabundið störf eða starfsnám á starfsvettvangi sínum hjá ríkisstofnunum á hinum Norðurlöndunum. Styrkurinn er nú 8.000 danskar krónur á mánuði. Ráðherranefndin greiðir einnig ferðakostnað til og frá dvalarstað samkvæmt sérstökum reglum.

Starfsmannaskiptin eins og þau eru nefnd eru ekki bundin því að um eiginleg skipti milli stofnana sé að ræða, heldur sækir hver starfsmaður um á sínum forsendum og er ekki bundinn þvi að annar komi hingað til lands í staðinn. Skiptin eru ekki bundin við sérstök störf eða starfshópa en starfið eða starfsnámið verður þó að vera í faglegum tengslum við verksvið umsækjanda og teljast bæði stofnun og starfsmanni til gagns. Á meðan á dvölinni stendur skal starfsmaðurinn njóta venjulegra mánaðarlauna á sínum fasta vinnustað. Þetta er ein af forsendum þess að starfsmaðurinn hljóti styrkveitingu.

Á síðasta ári fengu níu Íslendingar styrk til þess að dvelja við störf eða starfsnám á hinum Norðurlöndunum og fóru flestir til Danmerkur en einnig nokkrir til Svíþjóðar. Þegar styrkþegarnir koma heim skrifa þeir skýrslu um dvölina sem þeir skila yfirmönnum sínum og senda einnig fjármálaráðuneytinu eintak sem stendur svo skil á skýrslunum til Norrænu ráðherranefndarinnar.

Við lestur á skýrslum styrkþeganna kemur skýrt fram að sá tími sem þeir dvelja erlendis nýtist þeim vel. Þeir auka þekkingu sína, öðlast nýja sýn og skilning á ýmsum málum. Auk þess skapast ný tengsl sem nýtast bæði starfsmönnunum sem styrkinn hlutu og ekki síður þeim stofnunum sem þeir starfa hjá vegna þess að þeir miðla þeirri þekkingu sem þeir öðlast bæði til yfirmanna sinna og samstarfsmanna.

Við bendum forstöðumönnum á að kynna starfsmönnum sínum þennan möguleika en umsóknarfrestur vegna ársins 2005 er til 30. nóvember 2004. Upplýsingar um starfsmannaskiptin er að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

Norræn starfsmannaskipti

_______________

Túlkun kjarasamninga

Vinnuslys – kostnaðarhlutur Tryggingastofnunar ríkisins

Í þeim tilvikum þegar starfsmanni eru greidd laun í forföllum vegna slysa við vinnu (vinnuslysa), kunna stofnanir að eiga rétt til greiðslu slysadagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins. Slysadagpeningarnir renna síðan til starsfmanns þegar og ef hann fellur af launaskrá.

Verði starfsmaður fyrir útgjöldum vegna vinnuslyss kann hann eða eftir atvikum stofnun að eiga rétt á greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins.

Forsenda þess að Tryggingastofnun ríkisins greiði slysadagpeninga og sinn hluta af útgjöldum vegna vinnuslyss er sú að henni hafi borist tilkynning um slysið. Tilkynningaskyldan hvílir á hlutaðeigandi stofnun að því er varðar vinnuslys en til þeirra teljast einnig slys til og frá vinnu.

Sjá nánar nýtt efni um vinnuslys á vefsíðu ráðuneytisins.

Slysatrygging vegna varanlegrar örorku eða dauða

Starfsmenn ríkisins eru nú langflestir slysatryggðir allan sólarhringinn vegna varanlegrar örorku eða dauða. Þeir eru þannig tryggðir bæði við störf og í frítíma. Þetta gildir um alla þá sem heyra undir lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þá sem falla undir kjaranefnd og Kjaradóm og sömuleiðis frá og með kjarasamningunum sl. vor, gildir það um félagsmenn í SGS, RSÍ, Samiðn – sambandi iðnfélaga og VSSÍ. Um þessa slysatryggingu gilda reglur nr. 30/1990 og 31/1990 með nokkrum undantekningum þó.

Þeir starfsmenn sem ekki falla undir framangreinda hópa eða eru beinlínis undanskildir í reglum nr. 31/1990, njóta þó slysatryggingar í starfi eða á beinni leið til og frá vinnu en eru ekki tryggðir í frítíma. Bætur samkvæmt kjarasamningsbundnum slysatryggingum byggja almennt á læknisfræðilegu mati og eru fastar fjárhæðir sem breytast samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þetta þýðir að fjárhagslegt tjón eða aldur og aflahæfi hins slasaða hefur ekki áhrif á bótafjárhæðir. Þannig myndu tveir starfsmenn, sem væru metnir með jafnmörg örorkustig, fá jafnháar bætur þótt örorkan kosti annan þeirra starfið en hinn ekki. Í tryggingunni eru ekki ákvæði um dagpeninga vegna tímabundinnar örorku.

Slysatryggingar ríkisstarfsmanna eru að langstærstum hluta í eigin áhættu ríkissjóðs og annast embætti ríkislögmanns, Hverfisgötu 6, 150 Rvík, uppgjör bóta.

Sjá nánar nýtt efni um slysatryggingar vegna örorku eða dauða á vefsíðu ráðuneytisins.

_______________

Frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana

Félagsstarf og áherslur

Nú er að hefjast nítjánda starfsár Félags forstöðumanna ríkisstofnana. Félagið var stofnað á árinu 1986 og var ætlað að efla samskipti meðal forstöðumanna ríkisstofnana og skapa þeim samráðsvettvang. Er það enn annar aðaltilgangur félagsstarfsins en hinn er að vera sameiginlegur vettvangur stofnana ríkisins.

Eðlilega hefur FFR og félagsstarf þess tekið nokkrum breytingum á liðnum árum. Á fyrsta undirbúningsfundi félagsins komu 32 verðandi félagsmenn saman en fyrstu ár eftir stofnun félagsins var félagafjöldi á milli 80 og 90 forstöðumenn. Félagsstarf lá að mestu niðri um skeið frá árinu 1994 og fram til ársins 1997 en þá var starfsemi félagsins endurvakin. Á síðustu árum hefur fjölgað í félaginu jafnt og þétt og nú eru félagsmenn orðnir 185 en þar af eru rúmir 30 sem látið hafa af störfum sem forstöðumenn. Þannig er nú mikill meiri hluti starfandi forstöðumanna ríkisstofnana félagsmenn í FFR.

Félagsstarf FFR hefur á síðustu árum beinst í auknum mæli að ýmsum sameiginlegum hagsmunum stofnana ríkisins. Þannig eru samningamál opinberra starfsmanna nú meira til umfjöllunar á vettvangi félagsins en áður hefur verið. Amk. tveir félagsfundir á þessu starfsári eru áformaðir þar sem samningamál opinberra starfsmanna munu verða til umfjöllunar. Þá hafa ýmsar hugmyndir um breytingar á starfsmannalögum einnig komið til kasta félagsins og síðast en ekki síst hafa menntunarmál félagsmanna og annarra starfsmanna ríkisins komið til meðferðar félagsins bæði í samstarfi við fjármálaráðuneyti og forsætisráðuneyti.

Stjórnsýslan og staða hennar að lögum hefur löngum verið félagsmönnum hugleikin. Haldnir hafa verið fundir og ráðstefnur um stjórnsýslumál, m.a. til að fjalla um þær lagareglur sem um þau gilda og hvernig unnt sé að bæta stjórnsýsluna. Er í því sambandi rétt að nefna ráðstefnu sem haldin var fyrr á þessu ári í samstarfi við forsætisráðuneyti og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ. Þar voru fyrirlesarar Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, Páll Hreinsson, prófessor í stjórnsýslurétti og Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Ráðstefnu þessa sóttu yfir 200 manns og voru mörg álitamál þar reifuð. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, ávarpaði ráðstefnugesti og hvatti þar m.a. til að aðstandendur ráðstefnunnar leituðu leiða til að auka þekkingu starfsmanna ríkisins á regluverkinu.

Á nýbyrjuðu starfsári mun FFR áfram beita sér fyrir umræðum um stjórnsýsluna en mikilvægt er að stöðugt sé leitað leiða til að gera hana skilvirka. Er þannig fyrirhugað að standa fyrir ráðstefnu um skipulag hennar, framtíð og réttaröryggi. Þá mun í október og nóvember 2004 verða haldið ítarlegt stjórnsýslunámskeið í samstarfi við forsætisráðuneyti og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ en aðalkennari verður Páll Hreinsson, prófessor. Tilefni þess að til svo ítarlegs námskeiðs er stofnað, var einmitt hvatning forsætisráðuneytis til að herða enn frekar á fræðslu um þessi mál.

Fjármál stofnana og fjárveitingar til þeirra eru sígilt umræðuefni. Aðgangur stofnana og forstöðumanna að fjárveitingavaldinu er misjafn og það mun vera sjaldan sem forstöðumenn stofnana eru kallaðir á fund fjárlaganefndar Alþingis. Félagið mun á vetrarmánuðum halda félagsfund með formanni fjárlaganefndar þar sem ríkisfjármálin og forsendur fjárlaga munu án efa koma til umræðu.

Af öðrum viðburðum á starfsárinu er frá því að segja að stjórn FFR hefur áhuga á að ræða skipun embættismanna til fimm ára, hvaða þýðingu ákvæði í lögum hefur að þessu leyti og hvort slík tímabundin skipun sé raunhæf. Þá er á döfinni að ræða samskipti stofnana og forstöðumanna þeirra við fjölmiðla og hvernig heppilegast sé að koma upplýsingum á framfæri við almenning.

Fjölmargir fleiri viðburðir munu verða í félagsstarfinu enda mikilvægt að forstöðumenn stofnana hittist reglulega og fari sameiginlega yfir þau mál sem eru efst á baugi hvað varðar rekstur stofnana og mál er þær snerta. Réttindamál forstöðumanna sjálfra og samskipti við hlutaðeigandi stjórnvöld eru einnig þýðingarmikill hluti af félagsstarfinu, er í því samhengi m.a. fyrirhugað að ræða lífeyrismál og stöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Fh. félagsstjórnar FFR

Skúli Eggert Þórðarson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum