Hoppa yfir valmynd
24. október 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 40/2004. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. október 2004

í máli nr. 40/2004:

GT verktakar ehf.

gegn

Innkaupastofnun Reykjavíkur

Með bréfi dags. 14. október 2004, sem barst nefndinni hinn 19. október 2004, kærir GT verktakar ehf. útboð Innkaupastofnunar Reykjavíkur f.h. Gatnamálastofu, auðkennt „Hálkuvörn og snjóhreinsun gatna í Reykjavík 2004-2008".

Kærandi gerit eftirfarandi kröfur: 1. Að stöðvuð verði gerð fyrirhugaðs samnings kaupanda við Vélamiðstöðina ehf. / Malbikunarstöðina Höfða hf. 2. Að hið kærða útboð verði fellt niður og lagt fyrir kaupanda að bjóða verkið út að nýju. 3. Að nefndin láti uppi álit sitt um skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda. 4. Að kaupanda verði gert að greiða kæranda hæfilegan kærumálskostnað.

Kærða var gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda og krefst kærði þess að kröfunni verði vísað frá.

Eins og málið liggur fyrir telur nefndin rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar þegar í stað. Frekari gagnaöflun og úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

Með hinu kærða útboði var boðin út vetrarþjónusta gatna í Reykjavík, þ.e. hálkuvörn og snjómokstur árin 2004-2008. Samkvæmt útboðs- og verklýsingu skyldu bjóðendur í tilboðum sínum skila inn upplýsingum um sjálfa sig og verðtilboð sín, og upplýsingar um hæfni sína til að annast verkið. Skyldi verðtilboðið gilda 30% í heildarmati við val á bjóðanda en gæði 70%. Skyldi dómnefnd, skipuð fulltrúa Gatnamálastofu, fulltrúa Innkaupastofnunar og ráðgjafa frá VST, fara yfir tilboðin og gefa bjóðendum einkunn. Það tilboð sem hæstu heildareinkunn fengi fyrir verð og gæði skyldi talið hagstæðast.

Tilboð bárust frá tveimur aðilum í útboðinu, annars vegar frá kæranda og hins vegar sameiginlega frá Vélamiðstöðinni ehf. og Malbikunarstöðinni Höfða hf. Við opnun tilboða hinn 21. september 2004 var upplýst að kærandi bauð kr. 1.070.196.000,- í verkið og hlaut 4,95 stig í einkunn. Malbikunarstöðin Höfði hf. og Vélamiðstöðin ehf. buðu kr. 739.448.000 í verkið og hlutu 6,43 stig í einkunn. Kostnaðaráætlun nam kr. 618.547.906,-.

II.

Í kæru er tekið fram að Vélamiðstöðin ehf., einn bjóðenda í verkið, sé í eigu Reykjavíkurborgar (75%) og Orkuveitu Reykjavíkur (25%). Stjórnarformaður fyrirtækisins sé Stefán Jóhann Stefánsson, sem áður hafi um árabil verið stjórnarformaður innkauparáðs Reykjavíkur. Í varastjórn sitji einnig Hrólfur Ölvisson, núverandi stjórnarformaður innkauparáðs. Þá tekur kærandi fram að Malbikunarstöðin Höfði hf. sé í eigu Reykjavíkurborgar og Aflvaka hf. Nýlega hafi borgaryfirvöld ákveðið að selja Vélamiðstöðina ehf. og Malbikunarstöðina Höfða hf. og stefnt sé að því að fá sem hæst verð við söluna.

Kærandi segist eftir opnun tilboða hafa leitað eftir nokkrum upplýsingum frá dómnefnd útboðsins og innkauparáði um framkvæmd útboðsins, en að fullnægjandi svör hafi ekki borist. Telur kærandi tímasetningu útboðsins, tengsl umsjónaraðila með útboðinu við lægstbjóðanda og fleiri atriði, sem hann muni gera nánari grein fyrir síðar, gefa sér réttmæta ástæðu til að kanna nánar lögmæti útboðsins og það hvort kærði hafi gætt þess að bjóðendur nytu jafnræðis í útboðinu. Af þessu tilefni hafi kæran verið send nefndinni. Er tekið fram í kæru að kærandi muni gera nánari grein fyrir málsástæðum sínum og lagarökum í sérstakri greinargerð eða viðbót við kæruna, sem send verði nefndinni innan fárra daga.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 21. október 2004, tilkynnti kærandi að það kunni að dragast um nokkra daga að unnt verði að senda inn greinargerðina, þar sem öll gögn sem hann hafi óskað eftir frá Gatnamálastofu og Innkaupastofnun Reykjavíkur hafi ekki enn borist. Kæranda þyki hins vegar rétt á þessu stigi málsins að benda á að í stjórn Vélamiðstöðvarinnar ehf. sitji Björn Ingi Sveinsson, borgarverkfræðingur. Sem stjórnarmaður hafi hann væntanlega tekið þátt í ákvörðun um að bjóða í verkið. Hann sé jafnframt sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs borgarinnar, en undir það svið heyri Gatnamálastofa. Verkið hafi verið boðið út af kærða fyrir hönd Gatnamálastofu. Einn af deildarstjórum Gatnamálastofu hafi verið í dómnefnd vegna útboðsins.

Kærandi tekur fram að það sé og hafi ekki verið ætlun kæranda að varpa rýrð á starfsheiður embættis- og trúnaðarmanna borgarinnar í stjórn innkauparáðs og hjá umhverfis- og tæknisviði. Hin vegar hafi þessi óumdeildu, nánu tengsl þeirra við Vélamiðstöðina ehf., sem og tímasetning útboðsins og skipulag þess leitt til þess að kærandi og aðrir verktakar eða samtök verktaka á þesu sviði telji sig hafa réttmæta ástæðu til að efast um að skilyrði 11. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, sbr. 1. gr. laganna, séu uppfyllt.

III.

Um stöðvunarkröfu kæranda tekur kærði fram að í kæru séu ekki færð nokkur rök fyrir réttmæti þess að samningsgerð verði stöðvuð. Telur kærði það engum vafa undirorpið að umræddur kröfuliður sé háður slíkum annmörkum að nefndinni sé með öllu ókleift að taka afstöðu til hans.

Kærði vekur athygli á því að lögum samkvæmt sé hlutverk nefndarinnar að leysa úr ágreiningi sem rísa kann vegna ætlaðra brota á lögum nr. 94/2001 um opinber innkaup, og reglum settum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 75. gr. laganna. Málatilbúnaðar kæranda byggist að öllu leyti á því að nefndin hafi frumkvæði að því að kannað verði nánar lögmæti umrædds útboðs og það hvort kærði hafi gætt þess að bjóðendur hafi notið jafnræðis í því. Engum rökum séu studdar þær staðhæfingar sem kærandi haldi fram um að útboðið hafi verið ólögmætt. Þá séu haldlausar staðhæfingar kæranda um að jafnræðis hafi ekki verið gætt í útboðsferlinu.

Telur kærði ljóst að krafa kæranda um stöðvun samningsgerðar gangi í berhögg við meginreglu réttarfarslöggjafar um ákveðna og skýra kröfugerð. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa henni frá nefndinni.

IV.

Í kæru er umfjöllun um málsástæður kæranda fyrir kröfu sinni um stöðvun samningsgerðar af mjög skornum skammti. Við kæruna hefur þó verið bætt með bréfi til nefndarinnar, dags. 21. október 2004, og ekki verður talið annað en að kæran uppfylli þau lágmarksskilyrði til efnis kæru sem fram koma í 2. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Ekki eru því efni til að taka kröfu kærða um frávísun til greina, heldur verður tekin efnisleg afstaða til kröfunnar.

Í 80. gr. laga nr. 94/2001 er nefndinni veitt heimild til að stöðva útboð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Í ákvæðinu sjálfu, sbr. og athugasemdir við ákvæðið í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 94/2001, er skýrlega tekið fram að skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar sé að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Miðað við þau gögn, upplýsingar og röksemdir sem þegar liggja fyrir nefndinni, verður ekki talið að svo verulegar líkur liggi fyrir um að brotið hafi verið gegn kæranda samkvæmt útboðslögum eða útboðsreglum að skilyrði séu til stöðvunar útboðsins. Því verður að hafna kröfu kæranda þess efnis.

Ákvörðunarorð :

Kröfu kæranda, GT verktaka ehf, um stöðvun samningsgerðar á grundvelli útboðs Innkaupastofnunar Reykjavíkur, auðkennt „Hálkuvörn og snjóhreinsun gatna í Reykjavík 2004-2008", er hafnað.

Reykjavík, 24. október 2004.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

24.10.04



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum