Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2004 Innviðaráðuneytið

Norrænn húsnæðisráðherrafundur

Mynd af húsnæðisráðherrum
Húsnæðisráðherrar

Þann 1. nóvember síðastliðinn stýrði Árni Magnússon fundi húsnæðisráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Einnig funduðu ráðherrarnir með fulltrúum Eystrasaltsríkjanna og Póllands um aukna samvinnu milli ríkjanna um húsnæðis- og byggingarmál. Á fundinum var samþykktur samningur um aðgerðaráætlun um aukna samvinnu milli Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Póllands um að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum og auka samvinnu milli landanna á sviði byggingarmála.

Hár húsnæðiskostnaður er í dag vandamál meðal margra þjóða. Aukin viðskipti milli landanna skapar forsendur fyrir meiri samkeppni á byggingarmarkaði. Háan byggingarkostnað er meðal annars hægt að rekja til viðskiptahafta á markaðnum. Með því að minnka þau höft sem nú eru til staðar er hvatt til aukinnar samkeppni og forsendur skapast til að lækka húsnæðiskostnaðinn. Markmiðsáætlun um skilgreindar aðgerðir sem miðar að því að koma innihaldi samningsins í framkvæmd fylgir samninginum.

Grundvöllur undir markmiðsáætlunina er skýrslan sem unnin var af embættismannanefndinni í byggingar- og húsnæðismálum: Building Sector Regulations – A background to increased exchange between countries in the Baltic Sea region.

Áætlunin inniheldur fimm mismunandi undirverkefni sem eiga að hvetja til aukinna viðskipta í byggingargeiranum á svæðinu og henni skal hrint í framkvæmd árin 2005–2007. Verkefnin eru eftirfarandi:

  1. Að byggja upp opinberan gagnagrunn þar sem aðilar innan byggingargeirans geta sótt upplýsingar um meðal annars mismunandi reglur sem gilda í löndunum og sem hafa þýðingu fyrir þá, til dæmis reglur um samninga, reglur um húsaleigu, kröfur um ábyrgðir og tryggingar, reglur um heilsuvernd byggingarverkamanna, öryggisreglur o.fl.
  2. Að byggja upp sameiginlegt verkefni landanna á Norðurlandasvæðinu og áhersla verði lögð á að löndin deili reynslu sinni og nýrri þekkingu á sviði byggingarmála. Á þennan hátt deila löndin með sér þeirri þekkingu og þeim góða árangri sem náðst hefur í mörgum löndum og það kemur stærri hópi fólks til góða. Verkefnið getur einnig snúið að spurningum um hversu mikið aukin verslun með byggingavörur milli landanna geti leitt til minni framleiðslukostnaðar og hvernig hægt væri að stuðla að slíku.
  3. Framkvæma samanburðarrannsókn á reglugerðum í byggingargeiranum sem geti legið til grundvallar því að menn ráðfæri sig milli landanna um mögulega samhæfingu eða breytingar á lögum, með það að markmiði að skapa betri forsendur fyrir fyrirtækin að komast inn á nýja markaði.
  4. Þróa stuðningsefni til að meta samkeppniskröfur og kröfur um reynslu á vinnumarkaðnum í byggingargeiranum í löndunum. Þær ólíku kröfur sem settar eru í löndunum tengjast ólíkum menntakerfum og ólíkum leiðum sem farnar eru í mismunandi löndum við skipulagningu í byggingarstarfsemi.
  5. Koma á laggirnar sameiginlegu netverki á því sviði sem um ræðir í áætluninni. Netverkið gæti stuðlað að því að auka þekkingu til dæmis með málþingum, ráðstefnum og sameiginlegum rannsóknaverkefnum. Netverkið geti myndað hóp áhrifamikilla fræðimanna sem geta veitt ráðamönnum í hinum mismunandi löndum ráð út frá niðurstöðum rannsókna þar sem leitað er svara við spurningum sem upp koma.

Viðfangsefni áætlunarinnar heyrir bæði undir félagsmálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið sem munu vinna sameiginlega að framgangi þess hér á landi. Félagsamálaráðherra og umhverfisráðherra eru sammála um að aðgerðaráætlunin sé til þess fallin að auka samstarf og samvinnu ofangreindra ríkja á sviði byggingar- og húsnæðismála og jafnframt að hún geti leitt til þess að lög og reglur landanna á sviði byggingar- og húsnæðismála verði samræmdar og einfaldaðar sem ásamt fækkun viðskiptahindrana muni lækka byggingar- og húsnæðiskostnað.

Það kom í hlut Árna Magnússonar félagsmálaráðherra að kynna samkomulagið á Norðurlandaráðsþinginu 2. nóvember sl. og einnig kynnti hann norrænt jafnréttissamstarf á Norðurlandaþinginu 3. nóvember ásamt jafnréttisráðherra Noregs Lailu Dåvöy.

Ísland hefur á formennskuárinu lagt mikla áherslu á samstarf Vestur-Norðurlanda. Á Norðurlandaþinginu boðaði Árni Magnússon félagsmálaráðherra til fundar með Hans Pauli Strøm, húsnæðisráðherra Færeyja, og Jens Napãtôĸ’, húsnæðisráðherra Grænlands. Rætt var um samstarf landanna á sviði húsnæðismála og komu fram óskir um nánara samstarf við Íslendinga um upplýsingavinnslu og miðlun reynslu varðandi starfsemi Íbúðalánasjóðs, um búseturéttaríbúðir, um leigulög og fleira. Ákveðið var að fela embættismönnum landanna að koma á samstarfi um ofangreind mál og er ráðstefna fyrirhuguð á næstunni sem fyrsta skref.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum