Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 28/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 25. nóvember 2004

í máli nr. 28/2004:

P. Ólafsson ehf.

gegn

Knattspyrnusambandi Íslands

Með bréfi 2. júlí 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir P. Ólafsson ehf. útboð Knattaspyrnusambands Íslands á 40 gervigrasvöllum auðkenndu sem „Sparkvellir – Gervigras"

Kröfur kæranda eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi „að kærunefnd kalli eftir skýringum frá kærða hvers vegna svo mikil „reikningsskekkja" var á tilboði Polytan sem sagt. Nefndin kanni sjálfstætt hvort þessi leiðrétting var réttmæt og gerð á lögmætan hátt með tilliti til almennra útboðsreglna."

Í öðru lagi „komi í ljós að ekki hafi verið réttilega staðið að úrvinnslu útboðsins þá verði ákvörðun kærða felld úr gildi eða breytt jafnframt því sem gefið verði álit á því hvort kærður kunni að vera skaðabótaskyldur gagnvart kæranda."

Kærði krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda.

I.

Knattspyrnusamband Íslands óskaði í maí 2004 eftir tilboðum í útvegun og allan frágang á gervigrasi á 40 sparkvelli víða um Ísland. Vellirnir skyldu lagðir á árunum 2004 og 2005 og var verkið hluti af átaki kærða um sparkvelli á Íslandi. Kærandi tók þátt í útboðinu en varð ekki fyrir valinu. Með bréfi 2. júlí 2004 kærði hann ákvörðun kærða að ganga til samninga við annan tiltekinn aðila. Kærði kom sínum sjónarmiðum á framfæri með bréfi, dags. 27. ágúst 2004. Þann 16. nóvember 2004 gerði kærandi kærunefnd útboðsmála kunnugt um að hann hygðist ekki svara sjónarmiðum kærða.

II.

Kærandi byggir á því að við upplestur tilboða hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með lægsta tilboðið. Eins og venja væri þá hafi þurft að yfirfara útreikninga. Með bréfi 9. júní hafi kæranda verið gert kunnugt um að tilboðin hafi verið yfirfarin. Þá hafi komið í ljós að tilboð Polytan sem við opnun hafi verði kr. 67.716.000,- hafi verið fært niður um kr. 5.243.160,- og hafi þá verið orðið kr. 134.160,- lægra en tilboð kæranda sem ekkert hafi þurft að hrófla við. Einu skýringarnar sem kærandi hafi fengið hafi verið að leiðrétta hafi þurft útreikning á einingaverðum.

III.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Byggt er á ákvæðum 0.1.1, 0.1.4 og 0.2.2 í útboðsgögnum. Kærði bendir á að 24 tilboð hafi borist frá átta aðilum. Flutningskostnaður og þar af leiðandi gjöld í tolli hafi verið mismunandi milli tilboða vegna mismunandi staðsetningar verksmiðju og breytileika í þyngd þeirra efna sem boðin hafi verið. Vegna mats á flutnings- og uppskipunarkostnaði og gjöldum í tolli hafi verið óskað upplýsinga frá bjóðendum um þyngd vöru og fjölda gáma frá bjóðendum. Einn bjóðandi, Polytan, hafi ekki sundurliðað tilboð sitt í efni og niðurlögn. Því hafi verið óskað eftir sundurliðun hans með vísan til ákvæðis 0.1.4 í útboðsgögnum. Við þá sundurliðun hafi sá bjóðandi orðið var við skekkju í tilboði sínu vegna gjalda í tolli.

IV.

Í II. kafla laga um opinber innkaup nr. 94/2001 er fjallað um gildissvið laganna. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. taka lögin til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. þeirra. Lögin taka samkvæmt ákvæðinu einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér. Í 2. mgr. 3. gr. segir að aðili teljist opinber ef hann geti borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Þá segir í sama ákvæði að auk þess skuli eitt eftirfarandi eiga við um aðilann svo hann geti talist opinber:

a. Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila, ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af rekstrarkostnaði. Tekjur aðila á grundvelli gagnkvæms viðskiptasamnings við opinberan aðila teljast ekki opinber fjármögnun.

b. Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.

c. Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. íþróttalaga nr. 64/1998 fer menntamálaráðuneytið með yfirumsjón íþróttamála að því leyti er ríkið lætur þau til sín taka. Í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur fram að íþróttastarfsemi utan skóla byggist á frjálsu framtaki landsmanna. Knattspyrnusamband Íslands er almennt félag sem starfar að knattspyrnumálum á Íslandi. Félagið er eitt aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem er æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu. Starfsemi félagsins er ekki rekin að mestu leyti á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila, í skilningi a-a-liðar 2. mgr. 3. gr. laga um opinber innkaup, þó sambandið kunni í einhverjum mæli að hljóta styrki úr opinberum sjóðum í einstökum tilvikum. Lýtur það samkvæmt íþróttalögum ekki yfirstjórn ráðuneytis eða annarra opinberra aðila en lögin gera þvert á móti ráð fyrir verulegu sjálfstæði íþróttahreyfingarinnar þegar íþróttaiðkun í skóla sleppir. Ekki verður heldur séð að kærði lúti yfirstjórn opinberra aðila né að aðilar frá opinberum aðilum skipi stjórn hans að meiri hluta. Verður samkvæmt þessu talið að kærði falli ekki undir gildissvið laga um opinber innkaup nr. 94/2001.

Um heimildir og úrræði kærunefndar útboðsmála er fjallað í XIII. kafla laganna. Hlutverk nefndarinnar er að leysa úr ágreiningi aðila vegna ætlaðra brota á lögunum. Þar sem kærði fellur ekki undir lögin samkvæmt framansögðu brestur nefndina heimild til að leysa úr kæru kæranda. Með vísan til framangreinds verður að vísa kröfum kæranda frá kærunefnd útboðsmála.

 

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, P. Ólafssonar ehf., vegna útboðs kærða, Knattspyrnusambands Íslands, auðkennt: „ Sparkvellir – Gervigras ", er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

Reykjavík, 25. nóvember 2004,

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir

25. nóvember 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum