Hoppa yfir valmynd
6. desember 2004 Innviðaráðuneytið

Breytingar á lögum um húsnæðismál

Hinn 3. desember sl. tóku gildi ný lög um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Lögin eru nr. 120/2004 og má nálgast texta þeirra hér: http://stjornartidindi.is/servlet/stjrtid/A/2004/120.pdf

Jafnframt hefur félagsmálaráðherra í dag undirritað tvær reglugerðir sem fela í sér breytingar á lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Annars vegar er um að ræða nýja reglugerð um lánshlutfall og fjárhæðir ÍLS-veðbréfa, sem kemur í stað reglugerðar nr. 21/2004 um lánshlutfall og fjárhæðir ÍLS-veðbréfa. Hins vegar er um að ræða reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf og um leið er felld úr gildi reglugerð um viðbótarlán nr. 783/1998, með síðari breytingum. Báðar reglugerðirnar taka gildi nú þegar.

Eftir þessar breytingar verður hámarkslán Íbúðalánasjóðs 14,9 m.kr. en var áður 11,5 m.kr. Lánshlutfall getur þó mest orðið 90% af kaupverði íbúðar eða byggingarkostnaði þegar um nýbyggingu er að ræða. Lán verður aldrei hærra en sem nemur brunabótamatsverði íbúðar. Fjárhæðir og lánshlutfall miðast við að ÍLS-veðbréf hvíli á fyrsta veðrétti ella koma áhvílandi lán Íbúðalánasjóðs og önnur framar áhvílandi lán til frádráttar hámarksfjárhæð.

Sjöundi kafli laga nr. 44/1998, sem fjallar um viðbótarlán féll úr gildi með hinum nýju lögum. Hætt verður að taka við umsóknum um viðbótarlán en samþykktar umsóknir sem enn hafa ekki verið afgreiddar af Íbúðalánasjóði verða afgreiddar í samræmi við þær reglur sem gilt hafa um slík lán. Samanlögð fjárhæð viðbótarláns ásamt almennu láni Íbúðalánasjóðs getur að hámarki numið 13 m.kr., sem er það hámark sem var í gildi fyrir gildistöku laganna. Sveitarfélög sem veitt hafa samþykki sitt fyrir veitingu viðbótarláns skulu greiða framlag í Varasjóð viðbótarlána af þeim viðbótarlánum sem sjóðurinn afgreiðir eftir gildistöku laganna en að öðru leyti fellur greiðsluskylda sveitarfélaga í varasjóðinn niður.

Til að hægja á uppgreiðslu eldri lána hefur Íbúðalánasjóði verið heimilað að fallast á veðsetningu á undan öðrum áhvílandi lánum sjóðsins en ÍLS-veðbréfum, svo fremi sem sameiginleg uppreiknuð fjárhæð eftirstöðva lánsins og nýs láns er ekki hærri en hámarkslán Íbúðalánasjóðs á hverjum tíma. Einnig þarf sú fjárhæð að rúmast innan matsverðs eignarinnar og brunabótamats skv. 30. gr. og fara ekki yfir 90% af markaðsvirði eignarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum