Hoppa yfir valmynd
8. desember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum

Ágætu fundargestir.

Það er mér ánægjuefni að hafa verið boðið á þennan fund þar sem markmiðið er meðal annars að kynna efni nýrrar reglugerðar um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Reglugerð þessi var samin á vettvangi Vinnueftirlits ríkisins og komu þar að fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins eins og venja er við samningu reglugerða á sviði vinnuverndar. Tel ég mjög mikilvægt að aðilar hafi komið sér saman um efni reglugerðarinnar, sér í lagi um skilgreiningu á hugtakinu einelti sem gera má ráð fyrir að hafi verið vandasamt verk.

Það er skoðun mín að hér séum við að marka ákveðið framfaraspor að því er varðar félagslegan aðbúnað á vinnustöðum. Markmið reglugerðarinnar er að innan vinnustaða verði stuðlað að forvörnum og aðgerðum gegn einelti. Í því sambandi má segja að hlutverk atvinnurekanda sé í raun þrenns konar.

Í fyrsta lagi hlýtur það að vera hlutverk atvinnurekanda að kanna og þekkja vel aðstæður á vinnustað. Að því er þetta atriði varðar er mikilvægt að vinnuveitandi geri áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað í samræmi við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Felur þetta meðal annars í sér að gert sé áhættumat þar sem aðstæður í vinnuumhverfi, sem geta leitt til eineltis, eru metnar.

Í öðru lagi er þýðingarmikið að stuðlað sé að forvörnum á vinnustað í því skyni að koma í veg fyrir að aðstæður skapist í vinnuumhverfinu sem geti leitt til eineltis. Vænlegast til árangurs er að gripið sé til aðgerða sem eru í samræmi við niðurstöður áhættumatsins en markmið þeirra er ávallt að draga úr eða koma í veg fyrir að einelti komi upp á vinnustaðnum. Þarna getur því skipt töluverðu máli að vinnuveitandi skipuleggi vinnuna með hliðsjón af þeim áhættuþáttum sem fyrirfinnast innan vinnustaðarins.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að atvinnurekendur séu reiðubúnir að bregðast skjótt við þegar grunur vaknar um að starfsmaður eða starfsmenn innan vinnustaðar verði fyrir einelti af hálfu samstarfsmanna eða annarra. Mál af þessu tagi eru yfirleitt viðkvæm og þarf því að leysa þau af mikilli varfærni. Á þar eflaust hvað best við að aðgát skuli ávallt höfð í nærveru sálar.

Þá er ekki síður mikilvægt að starfsmenn axli ábyrgð í þessu tilliti enda á enginn að leyfa sér að sýna öðrum lítilsvirðingu eða aðra ótilhlýðilega háttsemi sem er til þess fallin að móðga eða særa aðra. Þar skiptir miklu að náið samráð sé haft við starfsfólk á vinnustöðum um aðgerðir gegn einelti. Allir verða að upplifa sig sem virka þátttakendur í því að komið sé í veg fyrir að slík háttsemi endurtaki sig og jafnvel festi rætur, – verði ef til vill hluti af einhvers konar vinnustaðarmenningu. Er þetta í samræmi við það markmið vinnuverndarlaganna að vinnuveitendur og starfsfólk stuðli í sameiningu að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum.

Orsakir eineltis geta verið margs konar. Streita, mikið álag og óskýr verkaskipting milli samstarfsmanna geta verið meðal orsaka. Enn fremur eru dæmi þess að starfsmenn verði fyrir einelti af hálfu viðskiptavina eða annarra sem þjónusta þeirra beinist að. Benda rannsóknir til dæmis til þess að einelti sé algengast í þjónustustörfum og sölustörfum. Verður að viðurkennast að auglýsingar Verslunarmannafélags Reykjavíkur sem birtast okkur landsmönnum á sjónvarpsskjánum þessa daga vekja mann óneitanlega til umhugsunar. Rennur eflaust í gegnum huga margra okkar tilvik þar sem við hefðum mátt vera kurteisari við afgreiðslu- eða þjónustufólk.

Tilgangur reglugerðar þeirrar sem hér er til umræðu er tvímælalaust að stuðla að því að starfsmenn njóti velsæmdar og virðingar í starfi. Rannsóknir á einelti hafa sýnt að langvarandi einelti getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar í för með sér fyrir þolendur. Streita er ekki eingöngu einn af orsakavöldunum heldur einnig afleiðing en rannsóknir benda til þess að þolendur finni fyrir aukinni streitu sem getur komið fram í þunglyndi, einbeitingarleysi og fleiri kvillum.

Niðurstöður úr rannsókn sem gerð var á vegum Vinnueftirlits ríkisins á líðan starfsfólks er starfar við umönnunarstörf á árinu 2001 sýna að 12% starfsfólks hafði orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða hótunum í vinnunni. Rannsókn á meðal starfsfólks í útibúum banka og sparisjóða sem gerð var á árinu 2002 sýndi að 15% starfsmanna hafði orðið fyrir áreitni af ýmsum toga. Niðurstöður þessara rannsókna benda jafnframt til að eineltið hafi haft margvísleg neikvæð áhrif á líðan starfsfólksins, auk þess sem það upplifði meiri streitu, minni stuðning og meiri óánægju í starfi en þeir sem ekki höfðu orðið fyrir einelti. Verður fróðlegt að heyra af niðurstöðum nýrrar rannsóknar um einelti á vinnustöðum og tengsl við vinnuskipulag og líðan starfsmanna sem kynntar verða hér á eftir.

Ágætu fundargestir.

Ég held að það velkist enginn í vafa um að einelti er raunverulegt vandamál inni á vinnustöðum. Á þessu þurfum við að taka enda ekki síður mikilvægt að félagslegur aðbúnaður sé góður á vinnustað á sama hátt og lengi hefur verið viðurkennt að því er varðar líkamlegan aðbúnað. Standa vonir til þess að reglugerð þessi sem og kynningarstarf Vinnueftirlitsins sem mun sigla í kjölfarið megi leiða til almennrar umræðu innan vinnustaða sem og annars staðar.

Það er álit mitt að þýðingarmest sé að allir líti á sig sem ábyrga í þessu tilliti, hvar sem er og hvenær sem er. Ekkert okkar vill verða fyrir einelti eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað af hálfu annarra, hvort sem það eru samstarfsmenn eða viðskiptavinir. Þess vegna ætlum við heldur ekki að sýna öðrum þá óvirðingu að beita þá einelti í leik eða starfi.

Ég ætla að hafa þetta lokaorð mín hér í dag og vona að þessi morgunverðarfundur eigi eftir að verða ykkur gagnlegur um hvernig leita megi leiða að því að bæta félagslegan aðbúnað á vinnustöðum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum