Hoppa yfir valmynd
10. desember 2004 Innviðaráðuneytið

Samgönguráðuneytið óskar eftir umsögnum almennings og þeirra sem telja sig málið varða við breytingartillögum á lögum um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi

Samgönguráðuneytið hefur unnið að endurskoðun á lögum nr. 73/2001 um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi. Ástæða þeirrar endurskoðunar eru athugasemdir sem komið hafa fram við framkvæmd laganna.

Er breytingartillögunum ætlað að taka tillit til þeirra athugasemda og skapa skýrara lagaumhverfi á þeim vettvangi sem lögin fjalla um. Jafnframt var sérstaklega skoðað hvort ástæða væri til að afnema skyldu til að hafa rekstrarleyfi til að stunda vöru- og efnisflutninga á landi. Niðurstaða þeirrar athugunar var að ekki væri ástæða til að afnema leyfisskylduna enda almennt sátt um þann lagaramma sem lögin setja akstursgreinunum og þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda.

Helstu breytingar sem lagt er til að gerðar verði eru eftirfarandi:

  • Ekki verði lengur greint á milli vöruflutninga og efnisflutninga en í staðinn tekið upp heitið farmflutningar.
  • Allir farmflutningar í atvinnuskyni, gegn endurgjaldi verði leyfisskyldir og er hér áherslan lögð á það hvort flutningsþjónustan er seld sérstaklega.
  • Ekki verður lengur gert að skilyrði fyrir flutningi fyrirtækja í eigin þágu að flutningurinn sé lítill hluti af starfsemi viðkomandi heldur eru allir flutningar í eigin þágu leyfislausir.
  • Sú skylda er lögð á þá sem stunda leyfislausan akstur að sækja um vottorð þess efnis til leyfisveitanda.
  • Auk þess er í tillögum skerpt á eftirliti Vegagerðarinnar og heimild til að stöðva bifreiðar og kyrrsetja ef flutningur er stundaður án tilskilins leyfis.

Hér má nálgast tillögur að breytingum og skýringar við þær (WORD - 70KB).

Ráðuneytið óskar eftir umsögnum almennings og þeirra sem telja sig málið varða við breytingartillögum og er þess óskað að umsagnir verði sendar fyrir 23. desember 2004 á netfangið [email protected].



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum