Hoppa yfir valmynd
16. desember 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 45/2004. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. desember 2004

í máli nr. 45/2004:

Héðinn hf.

gegn

Hitaveitu Suðurnesja

Með bréfi dagsettu 10. desember 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Héðinn hf., útboð Hitaveitu Suðurnesja, auðkennt sem „Reykjanesvirkjun Vélbúnaður Samningsútboð nr. F 0215-4."

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

Aðallega:

  1. Að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir.
  2. Að kærunefnd útboðsmála úrskurði að semja skuli við kæranda.

Til vara:

1. Að kærunefnd útboðsmála úrskurði að framgangur kærða, eftir að tilboð voru opnuð, sé ólögmætur.

2. Að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða.

Í öllum tilvikum er krafist kostnaðar úr hendi kærða.

Kærði krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda.

I.

Kærði óskaði eftir tilboðum í uppsetningu raf- og vélbúnaðar í 2 x 50 MW raforkuveri á Reykjanesi. Verkið var boðið út sem samningsútboð í samræmi við lög um opinber innkaup og reglur EES. Að undangengnu forvali var fjórum tilgreindum aðilum boðin þátttaka útboðinu, þ.á m. kæranda. Kærandi tók þátt í útboðinu en varð ekki fyrir valinu sem verktaki heldur Véla- og skipaþjónustan Framtak ehf., sbr. bréf kærða til félagsins, dags. 10. desember 2004. Kærandi kærði framgöngu útboðsins með bréfi 10. desember 2004 og óskaði m.a. stöðvunar samningsgerðar meðan leyst væri úr efnishlið málsins.

II.

Kærandi byggir á því að í tilboðsferlinu hafi komið fram fyrirspurn frá einum bjóðanda sem hafi hljóðað svo: „Er hægt að fá þá hluti sem verkkaupi leggur til afhenta erlendis?". Svarið hafi verið að undangengnum skýringum: „Grundvallið megintilboð á heimasmíði en gefið frávikstilboð í smíði erlendis". Kærandi hafi viðhaft tilboð í samræmi við svör kærða, þ.e. lagt inn megintilboð miðað við smíði á svokölluðum skiljum innanlands og einnig frávikstilboð fyrir smíði erlendis eins og fyrir hafi verið lagt. Á fundi með kærða 7. desember 2004 hafi verið staðfest að Framtak ehf. myndi smíða skiljur erlendis ef við þá yrði samið um verkið. Kærandi hafi gert þá athugasemd, að þar sem honum væri kunnugt um að Framtak ehf. hefði ekki skilað frávikstilboði, heldur einungis megintilboði, þá væri honum ekki ljóst hvernig það gæti staðist samkvæmt skýringum kærða.

III.

Kærði hafnar kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Byggir kærði á því að þann 10. desember 2004 hafi verið tilkynnt til Véla- og skipaþjónustunnar Framtaks ehf. að ákveðið hefði verið að taka tilboði félagsins í hinu kærða útboði. Þegar af þeirri ástæðu hafi verði kominn á gildur og bindandi verksamningur og því beri að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

IV.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Í 1. mgr. 54. gr. laganna kemur fram að tilboð skuli samþykkja skriflega innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þó skal gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins þegar við á eða annar aðili óskar þess. Í 1. mgr. 83. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 kemur fram að eftir að samningur hefur verið gerður verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í 3. mgr. sömu greinar segir að um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögunum, fari að öðru leyti eftir almennum reglum.

Í máli þessu hefur komið fram að kærði tilkynnti Véla- og skipaþjónustunni Framtaki ehf. með bréfi, dags. 10. desember 2004, að ákveðið hefði verði að taka tilboði félagsins. Á því tímamarki verður að líta svo á að kominn hafi verið á bindandi samningur milli kærða og þess aðila. Brestur kærunefnd útboðsmála því heimild til að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar á grundvelli hins kærða útboðs.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Héðins hf, um stöðvun samningsgerðar vegna útboðs kærða, Hitaveitu Suðurnesja, auðkennt „Reykjanesvirkjun Vélbúnaður Samningsútboð nr. F 0215-4", er hafnað.

Reykjavík, 16. desember 2004.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 16. desember 2004.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum