Hoppa yfir valmynd
21. desember 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 47/2004. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 21. desember 2004

í máli nr. 47/2004:

Birnir ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 13. desember 2004 kærir Birnir ehf. verkefni Ríkiskaupa nr. 13705, vegna rannsóknaskipsins Drafnar RE-35. Með bréfi, dags. 15. desember 2004, óskaði nefndin eftir því að kærandi bætti úr kærunni þar sem að hún teldist ekki fullnægjandi. Með símbréfi hinn 20. desember 2004 bárust frekari gögn frá kæranda.

Kærandi gerir kröfu um „að samningar um sölu Drafnar RE-35 verði stöðvaðir og úrskurðað um hvort taka eigi hæsta tilboði í skipið og um sérútboð á þjónustusamningi við Hafrannsókn".

Kærða var gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda. Sama á við um Sigurbjörgu Jónsdóttur ehf. Eins og málið liggur fyrir telur nefndin rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun þegar í stað. Frekari gagnaöflun og úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

Í 80. gr. laga nr. 94/2001 er nefndinni veitt heimild til stöðvunar samningsgerðar þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Í ákvæðinu sjálfu, sbr. og athugasemdir við ákvæðið í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 94/2001, er skýrlega tekið fram að skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar sé að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar, sem nefndin hefur farið ítarlega yfir, verður ekki talið að svo verulegar líkur liggi fyrir um brot gegn útboðslögum eða útboðsreglum að skilyrði séu til að taka kröfu kæranda um stöðvun til greina. Það athugast í því sambandi að umtalsverður vafi er á því að málið heyri undir nefndina. Með vísan til framangreinds verður því að hafna umræddri kröfu kæranda.

 

 Ákvörðunarorð :

Kröfu kæranda, Birnis ehf., um stöðvun samningsgerðar í verkefni Ríkiskaupa nr. 13705, vegna rannsóknaskipsins Drafnar RE-35, er hafnað.

Reykjavík, 21. desember 2004.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

21.12.04

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum