Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 49/2004. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 12. janúar 2005

í máli nr. 49/2004:

Gámaþjónustan hf.

gegn

Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar

Með bréfum 16. desember 2004 og 21. desember 2004 kærir Gámaþjónustan hf. niðurstöðu útboðs nr. ISR 10309, auðkennt ,,Sorphirða hjá fyrirtækjum og stofnunum Reykjavíkurborgar".

Í bréfi kæranda, dags. 16. desember 2004, er þess krafist að samningsgerð vegna hins kærða útboðs verði stöðvuð. Með bréfi, dags. 21. desember 2004, eru kröfur kæranda nánar tilgreindar. Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða um að hafna tilboði kæranda verði ógilt. Jafnframt er þess krafist að samningsgerð kærða við Íslenska gámafélagið ehf. verði stöðvuð og að gengið verði til samninga við kæranda eða Gámakó hf. Til vara er þess krafist að lagt verði fyrir kærða að láta fara fram mat á tilboðum að nýju. Að lokum er þess krafist að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við gerð kærunnar og kostnað hans við gerð tilboðs og þátttöku í útboðinu verði ekki fallist á kröfu kæranda um að stöðva samningsgerð.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

I.

Í nóvember 2004 óskaði kærði eftir tilboðum í útboð nr. ISR 10309, auðkennt ,,Sorphirða hjá fyrirtækjum og stofnunum Reykjavíkurborgar". Útboðið var opið og á EES svæðinu. Tilboð voru opnuð þann 22. nóvember 2004 og skiluðu fimm aðilar inn tilboði. Við yfirferð tilboða kom í ljós að bjóðendur gáfu sér mismunandi forsendur í tilboðum sínum. Í b-lið tilboðsskrár útboðsgagna, Leiga sorpíláta, voru forsendur bjóðenda allt frá dagsleigu á sorpílátum til ársleigu. Tilboðin voru umreiknuð út frá mánaðarleigu á sorpílátum til að gera þau samanburðarhæf. Innkauparáð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum þann 14. desember 2004 að ganga til samninga við Íslenska gámafélagið ehf. á grundvelli frávikstilboðs A. Með símbréfi 15. desember 2004 var þátttakendum útboðsins tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka tilboði Íslenska gámafélagsins ehf. Með bréfum 16. og 21. desember 2004 var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útboðsmála.

II.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Sú krafa er rökstudd með því að verulegir annmarkar hafi verið á mati á tilboðum í hinu kærða útboði og að í veigamiklum atriðum hafi verið brotið gegn lögum um opinber innkaup. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um opinber innkaup skal samþykkja tilboð skriflega innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þó skal gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins þegar við á eða annar aðili óskar þess. Í 1. mgr. 83. gr. laganna kemur fram að eftir að samningur hefur verið gerður verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í 3. mgr. 83. gr. segir að um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögunum, fari að öðru leyti eftir almennum reglum.

Í máli þessu liggur fyrir að kærði tilkynnti þátttakendum hins kærða útboðs þann 15. desember 2004 að ákveðið hefði verið að ganga að tilboði Íslenska gámafélagsins ehf. Á því tímamarki verður að líta svo á að kominn hafi verið á bindandi samningur milli kærða og félagsins. Brestur kærunefnd útboðsmála því heimild til þess að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar á grundvelli hins kærða útboðs.

Með vísan til framangreinds verður að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar í útboði nr. ISR 10309, auðkennt ,,Sorphirða hjá fyrirtækjum og stofnunum Reykjavíkurborgar".

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar í útboði nr. ISR 10309, auðkennt ,,Sorphirða hjá fyrirtækjum og stofnunum Reykjavíkurborgar".

Reykjavík, 12. janúar 2005.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 12. janúar 2005.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn