Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 41/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 26. janúar 2005

í máli nr. 41/2004:

Securitas hf.

gegn

Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar

Með bréfi dagsettu 22. október 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Securitas hf., útboð nr. 10365, auðkennt sem „Öryggisgæsla."

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

  1. Að lagt verði fyrir kærða að auglýsa útboðið á nýjan leik.
  2. Í öllum tilvikum er gerð krafa um kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda.

Kærandi gerði upphaflega kröfu um að kærunefnd léti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða vegna útboðsins. Með bréfi 18. nóvember 2004 var fallið frá þeirri kröfu.

I.

Í júlí 2004 óskaði Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar f.h. stofnana Reykjavíkurborgar eftir tilboðum í öryggisgæslu fyrir stofnanir Reykjavíkurborgar. Útboðsformið var opið (almennt) útboð og tilboðsfrestur var til 30. ágúst 2004. Kærandi skilaði inn tilboði og var með hærra tilboð af tveimur bjóðendum.

Vegna meintra annmarka á útboðsgögnum skilaði kærandi inn kæru til nefndarinnar með bréfi, dags. 22. október sl.

Með ákvörðun 4. nóvember stöðvaði kærunefnd útboðsmála samningsgerð þar til efnislega yrði leyst úr kærunni.

II.

Kærandi byggir kröfur sína á því að verulegir annmarkar hafi verið á formlegri framkvæmd útboðsins. Þannig telji kærandi að brotið hafi verið gegn innkaupalögum og almennum reglum útboðsréttarins um að setja fram eðlileg tilboð. Kærandi byggir á því að samkvæmt grein 4.4 útboðslýsingar hafi heildartími farandgæslu átt að vera mældur í klukkustundum. Í tilboðsskrá hafi heildartími farangæslu hins vegar verið reiknaður í mínútum. Heildarfjöldi áætlaðra mínúta hafi verið ranglega reiknaður í tilboðsskrá. Gleymst hafi að margfalda uppgefnar mínútur með dagafjölda sem hafi gert það að verkum að uppgefnar magntölur hafi verið 9600 en með réttu átt að vera nærri 300.000.

III.

Kærði hafnar kröfum kæranda. Byggir kærði á því að kæranda hafi mátt vera kunnugt um þau mistök sem urðu í útboðslýsingu. Kærði hafi sent svar til bjóðenda 24. ágúst 2004 þar sem tekið var skýrt fram að um ferðir á sólarhring væri að ræða. Þá hafi mistökin átt að vekja spurningar hjá bjóðendum. Ljóst sé að annar bjóðandi hafi haft með höndum gæslu sömu mannvirkja að hluta til um árabil og ætla verði bjóðendum að vita hvað felist í farandgæslu.

IV.

Fallast verður á þá skýringu kæranda að kærði hafi gert mistök í tilboðsskrá vegna farandgæslu og ekki gert ráð fyrir réttum mínútufjölda, sem heildarverð skyldi taka mið af. Verður raunar ekki annað ráðið af gögnum málsins en að mistökin séu viðurkennd af kærða. Verður að telja mjög líklegt að þessi mistök hafi raskað grundvelli útboðsins í verulegum mæli þar sem forsendur tilboða, m.a. kæranda, hafi verið brostnar þegar mistökin komu í ljós. Skýrleiki útboðsgagna var því ófullnægjandi að mati kærunefndar útboðsmála, sbr. V. kafli laga um opinber innkaup, einkum 23. gr. laganna. Verður því að líta svo á að útboðsgögnin, eins og þau voru lögð fram fyrir bjóðendur, hafi verið í ólögmætu horfi.

Kærandi gerir þá kröfu að útboðið verði auglýst á nýjan leik. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 getur kærunefnd útboðsmála m.a. lagt fyrir kaupanda að auglýsa útboð á nýjan leik. Með vísan til þeirrar niðurstöðu, sem rakin er hér að framan, er það niðurstaða nefndarinnar að leggja fyrir kærða að auglýsa hið kærða útboð á nýjan leik.

Með vísan til niðurstöðu málsins og 3. mgr. 81. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 ákveðst að kærði greiði kæranda kr. 100.000,- í kostnað við að hafa kæruna uppi. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir kærða, Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar fyrir hönd og vegna stofnana Reykjavíkurborgar, að auglýsa á ný útboð nr. 10365, auðkennt sem „Öryggisgæsla".

Kærði greiði kæranda kr. 100.000,-, að meðtöldum virðisaukaskatti, í kostnað við að hafa kæruna uppi.

Reykjavík, 26. janúar 2005.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 26. janúar 2005

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn